13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (4353)

170. mál, vistheimili fyrir vangefna

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð umliðið síðan þessi till. var hér til umr., en ég mun hafa óskað eftir að taka til máls fyrst og fremst til þess að lýsa fyllsta stuðningi mínum við till. til þál. um vistheimili fyrir vangefna. Þessi mál hafa auðvitað oft komið til umr., bæði hér á hv. Alþ. og víðar, en mér finnst málið vera af þeim toga spunnið, að það þurfi virkilega að taka vel og myndarlega á. Mér finnst það vera hörmulegt, ef það er rétt, að fjöldi vangefins fólks er hingað og þangað úti um landið, sem þyrfti og ætti að vera á vistheimilum, á sama tíma sem það er góðæri í landinu. Það ætti ekki að vera ofverk þjóðarinnar að koma þessu fólki til aðstoðar.

Nú er auðvitað mikið og margt gert í þessum efnum. En ég býst við, að það eina, sem raunverulega dugar, sé að afla með einhverjum hætti fjár til þess að laga þessi mál. Og svo er enginn vafi á því, að sérstaklega menntað fólk þarf að vera til og er kannske vafi á, að það sé til nú. En ég vil sem sé styðja þessa till. mjög eindregið og treysti því, að hæstv. ríkisstj. muni taka á þessum málum af myndarskap.