14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í D-deild Alþingistíðinda. (4360)

171. mál, rafknúin samgöngutæki

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum hv. þm. að flytja till. til þál. þess efnis, að athugun fari fram á hagkvæmni rafknúinna samgöngutækja hér á landi. Ég geri ráð fyrir, að það muni öllum hv. þm. kunnugt, að slík tæki hafa verið í notkun víða um heim um langt árabil og þegar við höfum í huga, að fram undan eru frekari virkjanir hér á landi, — m.a. hefur komið fram, að slíkar virkjanir mundu byggjast á því, að hagkvæm orkusala gæti farið fram til notkunar hér á landi og þar hefur fyrst og fremst verið getið um rafhitun til húsa, — þá finnst okkur flm. tímabært að óska eftir því, að slík athugun fari fram.

Það er enginn vafi á því, að eftir því sem tekst að selja meiri orku, þá verður hagkvæmni viðkomandi orkuvera betur tryggð. Það er ekki aðeins sú hugsunin, sem liggur að baki flutningi þessarar þáltill., heldur og sú hugsun, að máske megi með þessu ná fram samgöngubót í þéttbýli og þá hafandi í huga hinar miklu umræður og staðreyndir um mengun andrúmslofts af völdum þeirra samgöngutækja, sem fyrir eru, sem eru benzín— og olíudrifin tæki, en einmitt nú fyrir stuttu komu fréttir af erlendum vettvangi um það, að fram undan væri bylting í bifreiðaiðnaðinum á þann veg, að öll líkindi væru á því, að á næstu árum tækist að framleiða slík samgöngutæki til fjölskyldunotkunar, þannig að þau mundu verða samkeppnisfær og væri þá ef til vill stærsta markmiðinu náð í sambandi við baráttu þeirra aðila, sem við þetta mengunarvandamál berjast í stórborgunum. Þau okkar, sem hafa komið út fyrir landsteinana, þekkja rafmagnsjárnbrautir í þéttbýli og nágrenni þeirra og er ekki óhugsandi, að slík tæki gætu orðið ekki aðeins til framdráttar okkar samgöngum hér á landi heldur og til sparnaðar í þeim, um leið og slík tæki mundu aðstoða við að tryggja fjárhagslegan grundvöll orkuveranna. Við höfum einnig haft í huga þá staðreynd, að í nokkrum löndum heims hefur verið komið upp einspora rafmagnsbrautum, sem hafa tryggt samgöngur á erfiðu landi, þar sem bæði snjóar og frost og önnur slík óáran herjar, eins og hér hjá okkur og sú spurning hlýtur að vakna, þegar rætt er um þetta mál hvort einmitt slík samgöngutæki gætu ekki hjálpað okkur að halda samgöngum í því horfi sem æskilegt er við ákveðna landshluta hér á landi.

Mér sýnist, herra forseti, að í grg. komi fram flestar þær röksemdir, sem við höfum talið okkur þurfa að leggja fram með þessari þáltill. um athugun á þessu máli og ég treysti því, að hæstv. orkumálaráðherra taki þessari till. vel og í trausti þess leyfi ég mér að leggja til, að, að lokinni þessari umr. verði henni vísað til hv. allshn.