17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í D-deild Alþingistíðinda. (4367)

176. mál, rannsóknardeild vegna sölu og neyslu fíkniefna

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 340, sem hér um ræðir, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að setja nú þegar á fót sérstaka rannsóknardeild til eflingar tollgæzlu, löggæzlu og annars eftirlits með innflutningi, dreifingu og neyzlu fíkniefna. Deildinni verði m.a. gert kleift að afla þeirra áhalda og tækja, sem nauðsynleg eru til skjótrar greiningar efnanna, og að þjálfa til nefndra rannsóknarstarfa sérhæft starfslið.“

Neyzla fíkni—, ávana— og eiturefna er vaxandi vandamál víða um lönd. Segja má, að þessi ósiður fari eins og faraldur yfir löndin. Þetta er aldagamalt vandamál og má þar minna á alkóhólið og tóbakið, sem þjóðirnar hafa nú að verulegu leyti gefizt upp við að hamla gegn. Við höfum hér á hinu háa Alþingi nýlega hlustað á þarfa hugvekju um alkóhólið og mun ég því leiða hjá mér að ræða frekar um það. En mörg fleiri stórskaðleg ávana— og fíkni—og eiturefni hafa verið í notkun víða um heim um aldaraðir. Þar má nefna kannabis og ópíum—sambönd í Asíu og Afríku og kókaín—samböndin í Mið— og Suður—Ameríku og margt fleira. Enn fremur hafa nú á síðustu áratugum komið fram í dagsljósið ný efni, eins og ofskynjunarefni og enn fremur ýmis róandi og örvandi lyf, sem ýmist eru notuð sem nytsöm læknislyf eða varasöm ávanalyf.

Vafalaust eru ýmsar ástæður fyrir því alvarlega eiturlyfjaflóði, sem nú flæðir yfir Evrópu og Norður–Ameríku. Þar á sinn þátt upplausn og öryggisleysi eftirstríðsáranna, stórbættar samgöngur, fjölbreyttari efnaiðnaður og enn fremur nú síðustu árin aukin fjárráð einstaklinga. Þá hafa fjársterkir hringar gerzt stórtækir nú síðustu árin í smygli þessara efna landa í milli og beita þeir hinum ótrúlegustu brögðum, bæði til þess að koma efnunum í áfangastað og einnig til þess að afla neytenda. Það er nokkuð sannað, að skipulögð starfsemi fer fram til þess að koma 12—16 ára skólaæsku á bragðið og tryggja þannig framtíðarneytendur.

Þessarar starfsemi er nú að verða vart hér á landi. Fíknilyfjum er nú smyglað inn í landið og neyzlan fer ört vaxandi. Rannsóknir sýna, að fjöldi ungmenna, e.t.v. .2000 manns eða fleiri, hafa þegar komizt á bragðið, en ég tek þó skýrt fram, að í þessu efni eru tölur allar óábyggilegar og lítið upp úr þeim leggjandi En búast má við vaxandi örðugleikum, sé ekki allrar árvekni gætt.

Hvað er ávani og fíkni? Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skilgreinir ávana sem ástand, er skapast af endurtekinni notkun lyfs og aðaleinkennin eru:

1. Löngun til þess að halda áfram töku lyfs og framlengja þannig þá tilfinningu fyrir aukinni vellíðan, sem lyfið orsakar.

2. Lítil eða engin tilhneiging til þess að auka skammtinn.

3. Sá, er lyfið tekur, verður sálarlega háður því að vissu marki, en ekki líkamlega, enda kemur ekki til alvarlegra einkenna, þegar töku þess er hætt.

4. Þegar skaðleg áhrif koma í ljós, þá snerta þau fyrst og fremst einstaklinginn sjálfan.

Um fíkni segir hins vegar: Það er reglubundið eða stöðugt eitrunarástand, sem orsakast af endurtekinni töku lyfs og meðal einkennanna eru:

1. Óstöðvandi löngun eða raunveruleg þörf á því að taka efnið áfram og komast yfir það, hvað sem það kostar.

2. Tilhneiging til þess að auka skammtinn.

3. Neytandinn verður sálarlega og líkamlega háður efninu.

4. Afleiðingarnar eru skaðvænlegar, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið.

Hvers vegna neyta einstaklingar ávana— og fíkniefna? Alþjóða heilbrigðismálastofnunin getur níu orsaka til slíkrar neyzlu. Fyrst og fremst telja þeir vera um ýmsa geðræna erfiðleika eða sjúkdóma að ræða, vanmáttarkennd, líkamlega og andlega þreytu og streitu, hungur, erfiðar félagslegar aðstæður, lífsleiða og námsleiða. Þá má vafalítið nefna forvitni ungs fólks, áhuga fyrir að prófa það, sem umdeilt er og dularfullt, missætti og fjölskylduerjur samfara almennri óánægju með ríkjandi venjur innan þjóðfélagsins. Þá ræður vafalítið miklu hér um áróður vissra hópa, oft útsendara söluhringanna, er einskis svífast, vegsama áhrifin, en andmæla skaðseminni. Vitað er, að áróður hefur í ýmsum löndum árum saman verið lævís og útbreiddur fyrir neyzlu fíkniefna og árangur orðið nokkur.

Tvö af þeim ávana— og fíkniefnum, sem hæst ber hér, eru hass og LSD. Hass hefur lengst af verið álitíð hættulítið ávanaefni, enda ekki farið fram víðtækar rannsóknir á áhrifum þess á mannslíkamann fyrr en nú á allra síðustu tímum. Eitt af þekktustu og áreiðanlegustu læknatímaritum heims, Lancet, birti svo nýlega niðurstöður læknanna Campbells, Evans og fleiri af rannsókn á l0 ungmennum um tvítugsaldur, er höfðu reykt hass árum saman. Við rannsókn þeirra kom í ljós, að öll ungmennin höfðu varanlegar heilaskemmdir, þ.e. heilarýrnun, sem væntanlega mun há þeim ævilangt. Heilarýrnun er sjúkdómur ellinnar, afleiðing æðakölkunar mjög sjaldgæf hjá ungu fólki nema þá sem afleiðing höfuðslyss. Þetta er einnig sjúkdómur hnefa leikamannanna og ein aðalorsök þess, að hnefaleikar voru bannaðir hér á landi fyrir nokkrum árum.

Rannsóknir í Danmörku og Bandaríkjunum gefa einnig til kynna skaðleg áhrif hass á líkamann, þótt einnig finnist þeir rannsóknaraðilar, sem neita hættunni. Meðan það er talið líklegt, að langvarandi hass neyzla valdi heilarýrnun hjá ungmennum, þá verður að telja hass neyzlu lævísa hættu, sem vinna beri gegn svo sem unnt er.

LSD og því skyld efni eru alþekkt ofskynjunarefni, sem fáir mæla nú bót. Sá, er þess neytir, er sjálfum sér og öðrum hættulegur. Það sýnir e.t.v. betur en annað, hve varlega má treysta umsögnum um fíkniefni, að frægir rithöfundar hafa skrifað bækur um ágæti LSD og læknar dásamað áhrif þess. Síðar komu svo hörmungarnar í ljós.

Eins og áður er sagt, þá eigum við hér við vaxandi fíkniefnavandamál að etja. Menn greinir á um það, hve almenn neyzlan sé, en það er þó ekki meginatriðið. Við þekkjum ástandið í nágrannalöndunum og megum því vænta versnandi ástands, ef ekkert er að gert. Og þess vegna megum við engan tíma missa. Það sem ég álít að gera þurfi er m.a. eftirfarandi:

1. Að verjast smyglinu svo sem unnt er og það er ekki sízt í þeim tilgangi, sem þessi till. er flutt. Þar má ekkert til spara og afla verður þeirra tækja og áhalda, sem nauðsynleg eru, ásamt bættu skipulagi og stjórnun.

2. Að hefja skipulega, óhlutdræga, skynsamlega fræðslu um þau efni, sem hér er um að ræða, áhrif þeirra og skaðsemi. Þessi fræðsla þarf að fara fram í skólum, í fjölmiðlum, en hún er ákaflega vandmeðfarin og verður að fara fram á vegum sérmenntaðra kennara.

3. Við verðum að leita eftir samstarfi við unglingahópa, fá þá til liðsinnis í baráttunni með það fyrir augum að skapa andúð og viðbjóð á vímu.

4. Að leitazt verði við að útrýma þeim félagslegu aðstæðum í okkar þjóðfélagi, er gætu verkað hvetjandi á fíkniefna neyzlu, beina áhuga ungmenna að heilbrigðri afþreyingu og fjölbreyttari verkefnum.

5. Refsa verður sölumönnunum og þeim, er efninu smygla.

6. Skapa verður aðstöðu til lækninga og endurhæfingar fyrir þá, sem verða fíkniefnunum að bráð.

7. Það verður að samræma löggjöf okkar löggjöf þeirra landa, er við munum hafa samráð við í baráttunni við fíkniefnin.

Við megum ekki láta það hafa áhrif á starf okkar að þessum málum, þótt hjáróma raddir heyrist, raddir, er dásama fíkniefnin, telja þau skaðlaus eða ekki verri en önnur, sem fyrir eru. Ég hef bent á það, hvernig heimsfrægir menn rangtúlkuðu áhrif LSD og margra örvandi lyfja, sem fyrir nokkrum áratugum voru talin alsaklaus og hver sem var gat keypt. Það er einnig alþekkt í læknaheiminum, að skaðleg áhrif lyfja geta fyrst komið fram eftir nokkurra ára notkun.

Öll ríki vilja vera laus við fíkniefni. Þau sem vilja gefa þau vægustu frjáls nú gera það fyrst og fremst vegna þess, að þau hafa gefizt upp í baráttunni. Slíkt má ekki henda okkur. Fámenni okkar, menntun og ýmis séraðstaða ætti að gera okkur kleift að ráða við þennan faraldur, ef við viljum eitthvað af mörkum leggja og bregðum skjótt við.

Á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fékk íslenzka sendinefndin samþykkta tillögu um þessi efni. Efnisþættir ályktunartillögunnar voru eftirfarandi:

1. Allsherjarþingið hvetur öll ríki til að efla sjóð Sameinuðu þjóðanna til eftirlits með eiturlyfjum og sérstaklega til að fá æskuna til þátttöku í baráttunni gegn eiturlyfjavandamálunum.

2. Það fer fram á það við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna, sem fjalla um eiturlyfjavandamálið, að þær veiti vanþróuðum ríkjum nauðsynlega aðstoð til að ná auknum árangri í baráttunni gegn ólöglegri framleiðslu og dreifingu eiturefna.

3. Það skorar á öll ríki að setja löggjöf gegn neyzlu ávana— og eiturlyfja, þar sem þung refsing verði lögð við ólöglegri dreifingu lyfjanna.

4. Það hvetur ríkisstjórnir til þess að gera ráðstafanir til þess að uppfræða sérstaklega æskuna um hættur þær, er fylgja ofneyzlu ávana— og eiturlyfja og að koma á fót aðstöðu til lækninga og endurhæfingar eiturlyfjaneytenda, sérstaklega æskufólks.

5. Það fer þess á leit við aðalritara Sameinuðu þjóðanna, að hann láti í samvinnu við þær sérstofnanir, sem hlut eiga að máli, gera skýrslu um. hvernig efla megi starfsemi samtakanna til aukins árangurs í baráttunni gegn eiturlyfjum og þá sérstaklega með æskuna í huga. Verði skýrslan lögð fyrir 53. þing efnahags— og félagsmálaráðsins.

Þessari tillögu var mjög vel tekið á þinginu. Fulltrúar fjölda ríkja tóku til máls um hana og þeir voru sammála um, að hér væri um þarfa tillögu að ræða og sannarlega væri ástæða til þess að reyna að hamla gegn því ástandi, sem nú væri í heiminum.

Síðan þetta skeði hefur hreyfing verið hér í landi á þessum málum og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp samþykkt, sem gerð var á almennum fundi, sem haldinn var að tilhlutan Ungmennafélags Njarðvíkur í Stapa sunnudaginn 13. febr. Hún hljóðar svo:

.,Fundurinn skorar á þingmenn Reyknesinga:

1. Að bera fram sameiginlega þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að ráða nú þegar sálfræðing til að fylgjast með og gera tillögur um afgreiðslu á öllum þeim lögreglu— og heilbrigðismálum. er snerta neyzlu ávana— og fíknilyfja.

2. Að beita sér fyrir endurskoðun á gildandi löggjöf um meðferð mála, er snerta notkun og dreifingu ávana—og fíknilyfja. Leitað verði álits innlendra og erlendra sérfræðinga við samningu þessara laga.“

Enn fremur hefur Æskulýðsráð Reykjavíkur sent alþm. bréf, þar sem hvatt er til frekari aðgerða í þessum efnum. Ég get þessa hér til að sýna fram á þann mikla áhuga, sem nú er fyrir bættri aðstöðu til baráttunnar gegn eiturlyfjunum, og ég leyfi mér svo að lokum að óska eftir, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn.umr. loknum.