02.03.1972
Sameinað þing: 4. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í D-deild Alþingistíðinda. (4385)

177. mál, virkjunaraðstæður við Hraunsfjarðarvatn

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 341 um rannsókn á virkjunaraðstöðu við Hraunsfjarðarvatn á Snæfellsnesi. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta rannsaka til hlítar aðstæður til virkjunar við Hraunsfjarðarvatn á Snæfellsnesi.“

Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að rafvæða byggðir landsins. Hefur því mikla verki miðað áfram jafnt og þétt. Segja má, að nú vanti aðeins herzlu muninn á, að takmarkinu verði náð. Jafnframt orkudreifingunni hefur orkuþörf vaxið mjög ört víða um land. Verður því að hafa vakandi auga á, hvernig hagkvæmast er að mæta þeirri þörf. Stefnt er að því að leysa dísilstöðvar af hólmi með vatnsaflsstöðvum, þar sem því verður við komið og flétta raforkunet um landið allt eftir þörfum með tíð og tíma.

Orkunotkun á Vesturlandi hefur farið mjög vaxandi síðustu árin. Sé litið á Snæfellsnes út af fyrir sig, kemur í ljós, að dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins nær um alla hreppa á nesinu nema Skógarströnd. Á þessu svæði er aðeins ein lítil vatnsaflsstöð, Rjúkandavirkjun í Fossá við Ólafsvík, um 840 kw, en dísilstöðvar eru bæði í Ólafsvík og Stykkishólmi. Á árinu 1970 er talið, að um 35% af heildarorkuframleiðslunni hafi komið frá dísilstöðvum á þessu svæði.

Við athugun á nýjum vatnsaflsvirkjunum á þessum slóðum hefur athygli manna sérstaklega beinzt að Hraunsfjarðarvatni. Það er á fjallgarðinum vestur af Kerlingarskarði í um 200 metra hæð yfir sjó. Frá því er allmikið fall í suður, en þó mun meira norður af til Hraunsfjarðar. Ef af virkjun yrði á þessum stað, er gert ráð fyrir, að göng yrðu sprengd inn í vatnið á allmiklu dýpi. Um það efni mætti leita ráða hjá Norðmönnum frændum okkar, sem hafa mikla reynslu af virkjunum við svipaðar aðstæður.

Þróunin hefur reyndar orðið sú í seinni tíð, að öll athygli eða mest athygli manna hefur beinzt að stórvirkjunum. Nú er horfið frá því að virkja bæjarlækinn eða fossinn í hlíðinni, ef hann hefur ekki upp á því meira afl að bjóða. Í stórum samtengdum kerfum mun þó vera næsta nauðsynlegt að hafa á nokkrum stöðum aflmiklar stöðvar, sem geta fullnægt raforkuþörfinni, þó að einhverjar tengilínur slitni eða bilanir verði. Hraunsfjarðarvatnsvirkjun yrði mjög vel staðsett að þessu leyti, einnig sem topp- og varastöð, þegar Snæfellsnesveita verður tengd nágrannahéruðum.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa látið fara fram frum athugun á virkjunaraðstæðum við Hraunsfjarðarvatn. Virðast þær vera ákjósanlegar. Margt er þó eftir að athuga og rannsaka. Hvaða áhrif hefði slík virkjun á hagsmuni veiðiréttareigenda á þessu vatnasvæði? Um það atriði yrði að fjalla alveg sérstaklega í góðri samvinnu við heimamenn. Ef viðunandi samkomulag kynni að nást í þeim efnum, væri bezt að fá sem fyrst úr því skorið og hafa allt á hreinu, en athuga að því frágengnu aðrar hugmyndir, sem uppi eru um aukna raforku á Vesturlandi, því að vissulega eiga sjónarmið veiðiréttareigenda og náttúruunnenda fullan rétt á sér.

Nefna má hugmyndina um virkjun sjávarfalla eða strauma í mynni Hvammsfjarðar, sem kann að virðast fjarstæðukennd, en hefur þó verið varpað fram, rædd af framsýnum mönnum í þessu efni og reynd af Brokeyjarbændum. En þar, í Brokey á Breiðafirði, mun fyrsta tilraunin hafa verið gerð til virkjunar sjávarfalla hér á landi fyrir mörgum áratugum síðan. Hvað sem öðru líður er þarna um óhemjuorku að ræða í straumunum, sem framtíðin getur glímt við að beizla og nýta.

Þá hefur verið rætt um virkjun Kláffoss í Hvítá í Borgarfirði og tengingu við Andakílsárvirkjun, sem haft hefur ómetanlega þýðingu fyrir allar byggðir Borgarfjarðar. Og svo sannarlega er full og rík ástæða til þess að skoða og rannsaka raforkuþörf alls Vesturlands í heild og leita að hinni beztu og hagkvæmustu lausn þeirra mála.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til, að málinu verði vísað til hv. allshn.