25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í D-deild Alþingistíðinda. (4402)

179. mál, Vestfjarðaáætlun

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vestf. erum báðir flm. að þessari till. og þetta er ekki tilefni til þess, að við séum hér sérstaklega í deilum um þetta mál. Ég vék að sögu þessa máls að gefnu tilefni. Hv. þm. segir, að ég sé viðkvæmur fyrir þessum málum. Hann getur haft sína skoðun á því, en harla viðkvæmur sýnist mér nú hv. þm. gerast, þegar hann hefur ítrekað haldið því fram, að till. um fjárveitingu til Vestfjarða og Austfjarða árið 1958 hafi verið upphaf Vestfjarðaáætlunar. En ég skal ekki fara frekar út í þá sálma.

Hv. þm. spurði: Hvers vegna var farið út í að taka lán til Vestfjarðaáætlunarinnar? Ég held, — ég segi þetta sem mína skoðun, — að það hafi verið raunhæfasta leiðin til þess að geta komið því fram að gera sérstakt átak fyrir Vestfirði. Ef það hefði átt að gera sérstakt átak fyrir Vestfirði með hinum almennu fjárveitingum, þá tel ég, að það hefði ekki náð fram að ganga, vegna þess að það hefðu komið önnur kjördæmi, aðrir landshlutar og krafizt slíks hins sama. En með því að útvega lán sérstaklega í þessum tilgangi, mátti segja, að ekkert væri af öðrum tekið. Og það var eðlilegt að taka þetta lán einmitt í Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem hefur það hlutverk að aðstoða aðildarríkin, aðildarríki sjóðsins, til þess að efla vissa landshluta og byggðarlög, sem eiga í vök að verjast og búa við fólksflótta. Mér fannst sjálfsagt, að Ísland nyti góðs af starfsemi þessa sjóðs. Og til gamans má geta þess, að það voru mjög hörð, ja, ég skal ekki segja mjög hörð átök, en það var mjög tvísýnt, að þessi sjóður yrði nokkurn tíma stofnaður á vegum Evrópuráðsins. Það var hörð andstaða í vissum aðildarríkjum og það var ekki hægt að stofna hann nema tiltekinn fjöldi aðildarríkja vildi vera með. Og þegar í óefni var komið í þessum efnum, þá var það Ísland, sem tók af skarið og það var mjög viturleg og skynsamleg ráðstöfun og hún var gerð undir forustu dr. Kristins Guðmundssonar, sem þá var utanrrh. Og það má segja það hér, að síðan þetta skeði, nýtur Ísland töluverðs velvilja, jafnvel fram yfir ýmsa aðra innan þessara samtaka. Ég tel að það hafi verið eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að taka þetta lán.

Hv. þm. spurði: Hvar er Vestfjarðaáætlunin? Hvar hefur verið gerð grein fyrir þessu? Hvar er áætlunin? Maður hefur nú heyrt þessar spurningar. Ég vil ráðleggja hv. þm. að fara í utanrrn., fá að sjá afrit af bréfum og grg. og áætlunum, sem utanrrn. sendi með umsókn um lán úr Viðreisnarsjóðnum á sínum tíma. Þar liggur málið allt augljóst fyrir. Því miður er ég ekki með hér í höndum handhæg gögn, sem ég gæti afhent hv. þm. þegar í stað, svo sem fréttabréf Viðreisnarsjóðsins, þar sem skýrt er frá þessu öllu í opinberum plöggum. Ég held, að ég þurfi ekki að svara þessari spurningu frekar.

Þegar lánið var tekið á sínum tíma, þá var það skilyrði sett af Viðreisnarsjóðnum, að það yrði ekki einungis um framkvæmdaáætlun að ræða á sviði samgöngumála. Það yrði um alhliða uppbyggingu að ræða. Sjóðurinn vildi lána til þeirrar alhliða uppbyggingar og það var í samræmi við hans starfshætti. Ég tel mjög miður farið, að þessu var ekki fylgt eftir í tíð fyrrv. ríkisstj. og ég er sammála hv. 1. þm. Vestf., að það varð of mikill dráttur á því að hefja undirbúning að öðrum þáttum Vestfjarðaáætlunarinnar. Ég er sammála um það. En úr því sem komið er, ríður mest á, að við leggjum okkur nú allir fram um að hraða málinu. Og þó að það megi með réttu finna að sumu í liðinni tíð, þá þarf núv. ríkisstj. að láta hendur standa fram úr ermum, ef hún ætlar að fylgja nú fram þessum málum, eins og til var stofnað í upphafi. En við skulum vænta, að svo verði og ég veit, að við báðir, hv. 1. þm. Vestf. og ég, munum gera allt okkar til þess, að svo geti orðið.