11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (4426)

189. mál, menntun heilbrigðisstarfsfólks

Heilbrrh:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Í þessari till. er skorað á ríkisstj. eða henni er falið réttara sagt að gera ráðstafanir til þess, að unnt verði að mennta hérlendis ýmsa starfshópa heilbrigðisþjónustunnar, sem nú verða að sækja nám sitt til útlanda. Það eru svo nefndir heilbrigðistæknar svo og sjúkra— og iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og sálfræðingar og enn fremur er ríkisstj. falið að auka og bæta aðstöðu til kennslu hjúkrunarfólks. Í tilefni af þessari till. þykir mér rétt að gera dálitla grein fyrir því, hvernig þessum málum er nú háttað hér á landi, ekki sízt vegna þess, að hv. flm. virtist ekki vera fullkomlega ljóst, hvernig þessum málum er nú háttað. Þetta heyrir eðli sínu samkvæmt bæði undir menntmrn. og heilbrmrn., en ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvernig þessum málum er háttað í heild án tillits til þess, undir hvort rn. það heyrir.

Eins og hv. flm. tók fram, þá er mikill skortur hér á hjúkrunarfólki. Samt hefur verið starfandi hér Hjúkrunarskóli Íslands um 40 ára skeið og hefur hann alls brautskráð næstum því 1.000 hjúkrunarkonur. Hann tekur a móti nemendum tvisvar á ári og þar hafa verið 33—45 nemendur hverju sinni. Aðsókn að skólanum er mikil og fer stöðugt vaxandi. Námstími er þarna þrjú ár, en inntökuskilyrði er gagnfræðapróf eða landspróf miðskóla.

Í reglugerð um framhaldsdeildir gagnfræðaskóla er gert ráð fyrir hjúkrunarkjörsviði og hafa nokkrir skólar haft það svið undanfarin ár. Nemendur með próf frá hjúkrunarkjörsviði hafa forgangsrétt til inngöngu í Hjúkrunarskóla Íslands umfram umsækjendur með annað jafnlangt undirbúningsnám.

En þessi skóli annar engan veginn að útskrifa það hjúkrunarlið, sem við þurfum á að halda og þess vegna hefur, eins og hv. flm. gat um, verið um það rætt að undanförnu, hvort ekki væri tímabært, að stofnaður yrði annar skóli við Borgarspítalann. Að því máli hefur að undanförnu unnið fimm manna nefnd, tveir frá menntmrn., tveir frá Reykjavíkurborg og einn frá heilbrmrn. og ég vil lýsa því hér sem minni skoðun, að ég tel það bæði sjálfsagt og óhjákvæmilegt, að slíkur skóli verði stofnaður og af hálfu heilbrmrn. hefur verið lögð á það mikil áherzla, að þetta mál næði fram að ganga og við teljum okkur meira að segja hafa gengið úr skugga um, að þar væri unnt að fá mjög hæfa forstöðukonu.

Einnig hefur verið unnið að því á vegum heilbrmrn. að skipuleggja framhaldsmenntun ljósmæðra, þannig að þær gætu bætt við þekkingu sína og náð fullum réttindum sem hjúkrunarkonur. Að því máli hefur einnig verið unnið ötullega að undanförnu og er raunar verið að ganga frá því þessa dagana. Ég geri mér vonir um, að þetta starf geti hafizt nú á þessu hausti og á fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu í þessu skyni, þannig að þarna á að geta orðið allveruleg viðbót.

Hv. flm. minntist einnig á framhaldsmenntun hjúkrunarkvenna. Það var skipuð nefnd af menntmrn. í byrjun nóv. 1970 til að kanna möguleika á hjúkrunarnámi á háskólastigi og sú nefnd skilaði áliti sínu á s.l. hausti. Hún hvatti eindregið til þess, að skipulagt yrði háskólanám í hjúkrun og að sérstakri starfsnefnd yrði falinn undirbúningur þess máls og ég tel, að á þessu sé mjög mikil nauðsyn.

Önnur mikilvæg stétt heilbrigðisstarfsfólks eru sjúkraliðar. Hinn 29. des. s.l. undirritaði ég nýja reglugerð um nám og störf sjúkraliða, en slík reglugerð hafði ekki verið til fram að þeim tíma. Samt hafði nám sjúkraliða farið fram frá árinu 1966, en þá brautskráðust fyrstu sjúkraliðarnir frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Síðan hafa sex sjúkrahús fengið leyfi til að halda námskeið í sjúkrahjálp. Þau hafa flest haldið námskeið einu sinni á ári og hafa brautskráð 359 sjúkraliða alls. Með hinni nýju reglugerð, sem ég minntist á áðan, er nám sjúkraliða lengt úr átta mánaða námskeiði í eins árs skóla og bóknámið er bætt allverulega.

Annar mikilvægur hópur heilbrigðisstarfsfólks eru þroskaþjálfar. Frá haustinu 1958 hefur verið rekinn skóli fyrir gæzlusystur við fávitahælið í Kópavogi og hefur sá skóli brautskráð 52 gæzlusystur. Hinn 28. okt. í fyrra undirritaði ég reglugerð fyrir þennan skóla, en þar var kveðið á um stjórn hans, námstíma, námsefni, prófkröfur og aðra starfsemi. Samkv. ósk félags gæzlusystra var breytt um starfsheiti þeirra og valið starfsheitíð þroskaþjálfi. Námstími skólans er samkv. hinni nýju reglugerð 21/2 ár, en var áður tvö ár og alls skulu kenndar 910 stundir. Bóknám fer nú fram í námskeiðum og er bætt allverulega. Verknám fer fram á aðalfávitahæli ríkisins og öðrum skyldum stofnunum og eftir því, sem um verður samið af skólastjóra. Kostnaður við rekstur þessa skóla er greiddur úr ríkissjóði annar en laun nemenda í verknámi, þau greiðir viðkomandi stofnun.

Þá er hafin hér á Íslandi kennsla fyrir meinatækna. Fyrstu meinatæknarnir brautskráðust frá Tækniskóla Íslands árið 1968, alls I5 að tölu. Síðan hefur skólinn brautskráð 11—16 nemendur á ári, en þar eru nú 37 nemendur, þar af 24 innritaðir á s.l. hausti. Námstíminn er tvö ár. Bóknám fer fram í Tækniskólanum, en verknám í rannsóknastofum Landsspítalans, Borgarspítalans og Rannsóknastofu Háskólans. Inntökuskilyrði til þessa náms er stúdentspróf. Mestur hluti af kostnaði við skólann er greiddur af sérstakri fjárveitingu til Tækniskólans og ríkisspítalarnir og Reykjavíkurborg hafa lagt fram nokkurt fé árlega til reksturs skólans. Nemendur taka ekki laun fyrra árið, en síðara árið, þegar þeir eru einkum við verknám, fá þeir 60% af launum meinatækna. Um þetta nám hefur enn ekki verið gengið frá reglugerð, en að henni er nú unnið á vegum heilbrmrn.

Hinn 28. okt. í fyrra undirritaði ég nýja reglugerð fyrir röntgentæknaskóla, en þar er einnig um mikilvægan hóp að ræða og í þessari nýju reglugerð er m.a. kveðið á um, að sjúkrahús með sérstakar röntgen greiningardeildir og a.m.k. 15.000 rannsóknir á ári megi starfrækja röntgentæknaskóla. Sjúkrahúsum þessum er heimilt að starfrækja sameiginlegan skóla. Borgarspítalinn og Landsspítalinn komu sér saman um að reka sameiginlegan röntgentæknaskóla og tók hann til starfa 15. febr. s.l. Nemendur eru 12 og er það að sjálfsögðu allt of lítið , en inntökuskilyrði þarna er gagnfræðapróf eða landspróf miðskóla og námstími er 21/2 ár. Námið er bæði bóklegt og verklegt og fer verknámið fram á röntgendeildum fyrrnefndra sjúkrahúsa. Kostnaður við þetta nám er þannig, að laun kennara og kostnaður vegna prófa greiðist úr ríkissjóði, en námslaun nemenda og kennsluefni greiða viðkomandi sjúkrahús. Nemendur taka ekki laun fyrstu 6 mánuðina, en fá síðan 50% næstu 12 mánuði og síðustu 12 mánuðina fá þeir 75% af launum röntgentækna. Örfáir röntgentæknar eru starfandi í landinu og þurfa að vera miklu fleiri, en hjúkrunarkonur hafa tekið röntgentækni sem sérnám og þó nokkrar röntgenhjúkrunarkonur eru í starfi.

Hv. flm. gat þess í máli sínu hér áðan, að ekki væri hægt að læra sálfræði á Íslandi. Þetta er ekki rétt. Kennsla í sálfræði til B.A.—prófs hófst við heimspekideild Háskólans haustið 1971. Þar er mest stefnt að þriggja ára námi, þ.e. þremur B.A.–stigum. Jafnframt taki stúdent þrjú stig í einni eða tveimur öðrum greinum innan eða utan heimspekideildar og ljúki þannig B.A.—prófi eða sex stigum á þremur árum. Þetta nám telst fyrri hluti sálfræðináms þeirra, sem ætla að teljast fagsálfræðingar. Er gert ráð fyrir, að stúdentar ljúki sálfræðinámi erlendis á 2—3 árum og hefur verið haft samband við nokkra háskóla í nærliggjandi löndum m.a. til þess að haga B.A.–kröfum hér á þann veg, að erlendir skólar taki við stúdentum héðan til framhaldsnáms. Í þessu sambandi má geta þess, að það er gert ráð fyrir því, að stúdentar í félagsfræði geti sótt þá kennslu, sem þeir þurfa á að halda í sálarfræði til B.A.–námsins, í heimspekideild. Það hefur verið rætt um það og undirbúið, að félagsráðgjafanám verði tekið upp við Háskóla Íslands og þá muni nemendur í þeirri grein sömuleiðis geta sótt sálfræðikennslu til heimspekideildar.

Eins og hv. flm. tók fram. þá er ekki enn hægt að nema sjúkraþjálfun hérlendis og hefur þar því miður verið allt of lítið frumkvæði á undanförnum árum. Hér er ákaflega mikil þörf fyrir sjúkraþjálfa m.a. á þeim stofnunum, sem hv. flm. er tengdur. Þetta nám er víða erlendis þrjú ár. Á s.l. sumri leitaði landlæknir til Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar varðandi nám sjúkraþjálfa og er von á fulltrúa frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni hingað til lands í maí í vor til þess að ráðleggja, hvernig hægt er að taka upp þess háttar nám hér á Íslandi.

Þetta er í meginatriðum frásögn af því, hvernig háttað er menntun heilbrigðisstarfsfólks hér á landi. Ég er engan veginn að beiðast undan því, að Alþ. hvetji ríkisstj. til aukinnar athafnasemi á þessu sviði, síður en svo. Mér er fullkomlega ljóst, að þarna þarf að auka framkvæmdir til mikilla muna, en á hitt vil ég einnig leggja áherzlu, að þarna hefur sannarlega ekki verið um neina stöðnun að ræða að undanförnu, heldur hefur verið unnið mjög kappsamlega að þessum málum á vegum heilbr.— og trmrn. og það verður haldið áfram að gera það og stefna að því marki, að hér á landi verði hægt að mennta sem allra stærstan hóp heilbrigðisstarfsfólks, þannig að hjúkrunarstofnanir hér geti haft nægu starfsliði á að skipa.