11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í D-deild Alþingistíðinda. (4438)

192. mál, vegabætur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., er á þskj. 368, 192. mál. Þessa till. flutti með mér Magnús H. Gíslason, sem átti hér sæti á Alþ. sem 1. þm. Norðurl. v. Tillgr. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hið allra fyrsta gera áætlun um kostnað við að leggja akfæra vegi um þau byggðarlög, sem verst eru stödd í þeim efnum. Skal við það miðað, að vegurinn sé fær venjulegum ökutækjum árið um kring við eðlilegar aðstæður. Á grundvelli þeirrar áætlunar verði síðan hafizt handa um vegagerðina. Samráð skal haft við Vegagerð ríkisins og sýslunefndir héraðanna um áætlunargerðina.“

Á undanförnum árum hafa verið gerðar áætlanir, sérstaklega í sambandi við landshlutana, eins og hv. þm. þekkja. Það var gerð áætlun, að vísu samgönguáætlun, um Vestfirði, vegáætlun, Austfjarðaáætlun og nú er verið að vinna að áætlun um samgöngumál Norðurlands. Það hafa enn fremur verið gerðar áætlanir um hraðbrautaframkvæmdir, en enn sem komið er, er ekki til nein áætlun um vegina í hinum afskekktari byggðarlögum, hvernig skuli háttað framkvæmdum við þá. En eins og háttað er nú í þjóðfélaginu, þá er öllum byggðum nauðsynlegt að hafa vegi, vegi sem hægt er að komast um svo að segja alla daga ársins. Og það er mjög hætt við því, ef ekki kemst nein hreyfing á þessi mál, að þá verði þeir, sem verst eru settir, mjög vonlitlir um umbætur á næstu árum. Þess vegna er þessi þáltill. hér fram borin. Ég tel það mikilsvert, að menn geri sér grein fyrir því, hvort á að viðhalda þeirri byggð, sem er í landinu nú og ef á að gera það, verður að huga að þessu verkefni og eftir því sem það er gert fyrr, þá er líklegra, að komið verði í veg fyrir, að byggðir fari í eyði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.