02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í D-deild Alþingistíðinda. (4442)

195. mál, rannsókn á safnamálum

Flm. (Inga Birna Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd samkv. tilnefningu eftirtalinna aðila: Safnvarðafélags Íslands, Félags háskólakennara, Félags kennaraskólakennara, Arkitektafélags Íslands og Menningar— og fræðslusambands alþýðu. Auk þess skipi menntmrh. formann nefndarinnar. Skal þessi nefnd rannsaka ástand safnamála á Íslandi og gera tillögur um úrbætur í þeim málum.“

Einu sinni höfðu Íslendingar ekki efni á því að varðveita skinnbækur sínar. Þær voru fluttar úr landi og vistaðar í erlendum borgum, enda eins gott, því að annars hefðu þær trúlega glatazt. Það var áður, en þeir áttu safn, þegar þeirra aðaláhyggja var sú að eiga ekki snæri, eins og frægt er orðið. Þeir tímar eru sem betur fer liðnir. Handritin koma heim og við höfum þegar reist veglegt stórhýsi yfir þau, sem heitir Árnagarður.

Árið 1928 komu heim handrit og skjöl. sem geymd eru í Þjóðskjalasafninu við Hverfisgötu. Í dag, tæpri hálfri öld seinna, eru þau enn í sömu pökkum og þau komu í. Utan um þau er snæri, sem með tímanum sker þau í sundur. Svo illa hefur verið búið að þessari stofnun, að hvorki hefur fengizt starfslið né húsrými til þess að varðveita sómasamlega, hvað þá að vinna úr þeim efnivið, sem þar liggur. Á þessum uppgangs— og velgengnistímum, þegar við heimtum heim handrit í stað þess að vista þau í erlendum borgum. liggja þau undir skemmdum. Heyrzt hefur, að safnahúsið við Hverfisgölu verði lagt undir Þjóðskjalasafn. Um það hafa heyrzt margar óánægjuraddir, m.a. vegna þess, að Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn séu svo nátengdar stofnanir, að þær séu bezt komnar í nágrenni hvor við aðra.

Á 1.100 ára afmæli Íslandsbyggðar ætlum við að reisa veglegan minnisvarða, Þjóðarbókhlöðu. Fimm manna nefnd hefur unnið að undirbúningi þeirrar byggingar, sérstök byggingarnefnd, sem nýlega hefur skilað áliti til menntmrn. Fyrir skömmu hlustaði ég á umræður um þetta mál á fundi hjá Arkitektafélagi Íslands, þar sem í ljós kom, að ekki hefur verið leitað álits starfsmanna Háskólans, sem á þó að eiga sitt safn í bókhlöðunni. Ekki hafði verið leitað álits safnvarðanna við Hverfisgötu, sem eiga þó að starfa í bókhlöðunni og ekki hafði verið lagt fyrir arkitekta almennt að hugsa út svona stórt og dýrt hús, sem verður að nýtast eins fullkomlega og frekast er unnt og það um ókomna áratugi, en ekki næstu 10 ár eða svo.

Við undirbúning þessa byggingarnefndarálits hafa verið höfð vinnubrögð hins litla samfélags, sem á ekki nema einn gáfaðan mann á hverju sviði og felur honum allt sitt traust og vit. Þess vegna er beðið um athugun á undirbúningi að byggingu þjóðarbókhlöðu að okkur þykja þetta úrelt vinnubrögð og alls óviðunandi. Mér skilst, að nefndarálit byggingarnefndarinnar sé trúnaðarmál af þeirra hálfu eða m.ö.o. leyndarmál. Það sögðu a.m.k. Háskólans menn á arkitektafundinum. og fundargerðin liggur frammi. Hvernig má slíkt vera?

Afkoma þjóðar er háð atvinnuvegum hennar og þá ekki sízt því, hvort þeir eru samkv. kröfum tímans eða hvort þeir úreldast. Hin ýmsu félög atvinnuveganna, svo sem Fiskifélagið, Búnaðarfélagið og Iðnþróunarsjóður, svo að eitthvað sé nefnt, verða að fylgjast með gangi tímans til þess að vera ályktunarhæf í uppbyggingu atvinnuveganna. Til þess að svo megi vera, hljóta slíkar stofnanir að verða að fylgjast með því, sem gerist víðs vegar um heim í atvinnumálum. Tímarit og bækur, sem upplýsa um atvinnuvegi og hagfræði þeirra, eru á víð og dreif í hinum ýmsu stofnunum. þar sem unnið er að uppbyggingu atvinnuveganna. Einn doktor í hagfræði hefur upplýst mig um. að öll slík söfn væru betur komin á einum stað.

Í raungreinum. t.d. í verkfræði, er einnig mjög mikilvægt, að nýjustu upplýsingar séu ávallt fyrir hendi. Það er hins vegar spurning, hvort slíkt safn á heima með atvinnubókasafni eða því hinu akademíska, sem verður í bókhlöðunni.

Eitt stærsta spurningarmerkið, sem ég veit um í safnamálum, er fræðslumyndasafnið. Nafnið sjálft á auðvitað að fela í sér svarið við því, til hvers það eigi að vera. Fræðslumyndir hljóta að eiga að notast í skólakerfinu. Í lögum um Fræðslumyndasafn ríkisins, sem mig langar til að vitna í, með leyfi hæstv. forseta, stendur:

„Hlutverk Fræðslumyndasafns ríkisins er, eftir því sem við verður komið:

e) Að lána skólum og öðrum fræðslustofnunum myndir og tæki til notkunar við kennslu. Enn fremur að lána eða leigja þessum aðilum svo og félögum, er hafa menningarmál á stefnuskrá sinni og standa öllum opin án tillits til stjórnmálaskoðana, myndir og tæki til afnota í sambandi við félags— og skemmtanalíf.

e) Að verja hluta af tekjum safnsins til útvegunar á hljómplötum og tónböndum til notkunar við fræðslu og félagslíf í skólum. Skal um þetta höfð samvinna við Ríkisútvarpið.“

Raunveikleikinn er hins vegar sá, að kennslumyndir í safninu eru fáar, gamlar og fæstar í samræmi við námsefni í íslenzkum skólum. Mjög fátítt er, að um fleira en eitt eintak af hverri mynd sé að ræða, en viss fjöldi eintaka er nauðsynlegur, til þess að um eðlilega dreifingu geti verið að ræða. Strax þarf að gera ráðstafanir til að fá sérfræðinga til að gera áætlun um uppbyggingu safnsins með tilliti til eðlilegra þarfa skólanna fyrir myndkennsluefni. Eðlilegt væri að sameina safnið almennu kennslutækja— og skólabókasafni, sem á hefði að skipa sérfræðingum í kennslutækni og safnfræði, sem gæti komið rekstrinum í æskilegt horf. T.d. er mikil þörf fyrir slíkt fræðslumyndasafn við Kennaraháskóla Íslands ásamt vinnuaðstöðu við framleiðslu á kennsluefni. Það liggur í hlutarins eðli, að Kennaraháskóli Íslands verði aðalmiðstöð hvers kyns kennslugagna. Eins og er, er Fræðslumyndasafn ríkisins í eins litlum tengslum við skólakerfið og hugsazt getur og maður spyr: Til hvers er þetta safn eiginlega?

Listasafn ríkisins liggur undir skemmdum rétt eins og skinnblöðin forðum, sem vistuð voru í erlendum borgum. Ef ekkert verður að hafzt hið bráðasta, borgar sig betur fyrir okkur að senda myndir meistaranna úr landi, en geyma þær hér. Ekki höfum við fátæktina sem afsökun nú.

Héraðsbókasöfn eru sum góð, sum léleg. Heyrt hef ég um eitt slíkt safn, sem er geymt í appelsínukössum í innsta afdal á afskekktum bæ. Bókasafnsnefndin kemur aldrei saman, það þykir ekki þurfa, því að sá, sem safnið varðveitir, sér ávallt um að panta þær skáldsögur, sem efstar eru á vinsældalistanum fyrir hver jól.

Ég er hrædd um, að bændamenningin megi fara að vara sig. Varðveizla menningar verðmæta hefur ekki alltaf verið sterkasta hlið þjóðarinnar. En nú finnst mér við enga afsökun hafa fyrir því að láta við svo búið standa. Fyrsta skrefið er að athuga þessi mál á eins víðum og opnum grundvelli og unnt er, svo að einhver yfirsýn fáist. Ef við á annað borð byggjum þjóðarbókhlöðu, má hún ekki verða eitthvert rándýrt minnismerki, heldur á hún að hafa það mesta notagildi, sem hugsazt getur. Hún á að soga að sér hugmyndir, nemendur, handrit og spýta út bókum og lærðum mönnum, sem láta bókvitið í aska annarra. Það, hvort bókhlaðan rís ári fyrr eða seinna vegna slíkrar athugunar, gerir minna til en það, að undirbúningur hennar sé ekki nógu yfirgripsmikill.

Við höfum farið fram á það, að Safnvarðafélag Íslands tilnefni einn mann í þessa athugun. Þeir vita auðvitað, hvernig safn á að vera. Félag háskólakennara er beðið að tilnefna einn mann. Það er af því, að háskólamenn eiga að hafa sitt safn í Þjóðarbókhlöðunni og hafa ýmislegt fram að færa í þeim efnum. Félag kennaraskólakennara á ýmsa meðlimi, sem þekkja kennslutækni og notkun fræðslumynda betur en þorri manna. Arkitektafélag Íslands hefur sýnt þjóðarbókhlöðumálinu mikinn áhuga og kann að geta leyst vandann hvað Listasafn ríkisins áhrærir. Menningar og fræðslusamband alþýðu er fulltrúi alþýðumenningarinnar í landinu. Ástæða væri til að útnefna enn fleiri félög og stofnanir, sem gætu lagt þessu máli lið. Er það ósk flytjenda, að samband verði haft við sem flesta ábyrga aðila við undirbúning álits— og tillögugerðar.

Ég bind miklar vonir við, að vinnubrögð sem þessi verði til þess að opna sýn inn í störf þeirra manna, sem fjalla um opinber mál. Það hefur oft og tíðum verið hulið móðu, hvernig unnið er að undirbúningi stórframkvæmda og loks þegar allt er klappað og klárt, er of seint að segja nokkuð eða gera nokkuð. Hafi þetta gamla kansellíkerfi einhvern tíma þótt brúklegt og gott á sinn hátt, þá er það fyrir löngu gengið sér til húðar. Í stað þess að grípa einhvers staðar inn í, þar sem öngþveitið er mest og finna bráðabirgðalausnir hér og hvar, er nauðsynlegt að skoða vandlega, hvernig ástandið er og gera svo till. til úrbóta. Þá fyrst er hægt að bæta úr og breyta, svo að gagn sé að og því er þessi till. lögð hér fram.

Ég legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og allshn.