11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í D-deild Alþingistíðinda. (4458)

199. mál, hafnarskilyrði í Kelduhverfi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till., sem hér liggur fyrir á þskj. 381 um rannsókn hafnarskilyrða í Kelduhverfi, er flutt af öllum þm. úr Norðurl. e. og hefur till. sama efnis raunar áður verið flutt hér á Alþingi og þá vísað til ríkisstj. Till. er þess efnis að fela ríkisstj. að láta rannsaka hafnarskilyrði í Kelduhverfi og leggja niðurstöður rannsóknarinnar fyrir Alþingi.

Það, sem hér er sérstaklega haft í huga, er Fjallahöfn, sem er við vestanverðan Axarfjörð. Hugmyndin um það að koma þarna upp höfn er ekki ný. Hún er sennilega jafngömul öldinni, en hins vegar hefur það aldrei verið rannsakað til hlítar, hvort þarna er raunverulega um þannig löguð hafnarskilyrði að ræða, að tiltækilegt sé að gera þar höfn. Slík höfn mundi vera mjög gagnleg, en um hana hefur raunar sérstaklega verið hugsað í sambandi við virkjun Dettifoss, sem einhvern tíma verður framkvæmd og ef upp kæmi iðnaður í sambandi við orkuframleiðslu við Dettifoss, þá er að sjálfsögðu á það að líta m.a. að stytzta leiðin til sjávar frá Dettifossi er að Fjallahöfn.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál, en legg til fyrir hönd okkar flm., að umr. um þetta mál verði frestað og því vísað til allshn., en í þeirri n. er annað mál, sem er nokkuð skylt þessari tillögu.