13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í D-deild Alþingistíðinda. (4476)

201. mál, bygging varðskips til landhelgisgæslu

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Á þskj. 385 er till. frá mér og hv. 2. þm. Reykv. um byggingu nýs varðskips til landhelgisgæzlu og áætlunargerð um eflingu Landhelgisgæzlunnar. Það er gerð grein fyrir því í stuttri grg., að okkur hefur sýnzt vera nokkurt tómlæti um eflingu Landhelgisgæzlunnar, alveg sér í lagi með hliðsjón af þeim auknu verkefnum og viðfangsefnum, sem Landhelgisgæzlunni eru búin við útfærslu landhelginnar.

Við getum sagt, að eins og nú standa sakir, eigum við tvö úthafsskip fær til gæzlu 50 mílna landhelgi. Annað er Ægir, sem er nýtt skip og lokið var byggingu á 1968 og er ágætt skip í alla staði og hitt er Óðinn, sem er hins vegar farið að eldast, en kom hingað nýtt 1959. Bæði þessi skip eru góð sjóskip, sterklega byggð og vel fær til þess að sinna landhelgisgæzlunni á úthafinu, sem ég kalla svo, eða þegar komið er út fyrir 50 mílna landhelgi. Svo er þriðja skipið, Þór, sem er gott sjóskip og ekkert nema gott um að segja annað en það, að vélar skipsins hafa frá öndverðu ekki verið eins og þær skyldu verið hafa. Nú er hins vegar ráðið, að nýjar aflvélar verði settar í skipið ásamt nokkrum endurbótum, sem gerðar verða á því og þeim verður væntanlega lokið í haust í Danmörku og ætti þá Þór að geta orðið þriðja skipið, sem fært væri til slíkrar gæzlu, enda þótt það sé nú orðið gamalt skip, byggt 1951. Tæplega er hægt að tala um hin skipin, Albert og Árvakur, til slíkra hluta. Albert er lítið skip, en ágætt sjóskip engu að síður, en það er aðeins 201 rúmlest og Árvakur byggður til allt annarra hluta og því mjög lélegt sjóskip, eftir því sem mér er tjáð og hefur ýmsum öðrum störfum að gegna. Mundu bæði þessi skip væntanlega annast gæzlu á miðunum hér nær landi, en gætu það ekki með nokkrum árangri á hinni stóru eða vúikkuðu landhelgi, allt að 50 sjómílum.

Nú er ekki hugsunin hjá okkur, að við getum byggt neinn herskipaflota, þó að við færum út landhelgina í 50 sjómílur, en við þurfum að gá að okkur og halda við því, sem við höfum og bæta við, eftir því sem verða má. Óðinn, sem er, eins og ég sagði, mjög gott skip, er þó byggður 1959. Þess vegna er þetta skip orðið 12—13 ára gamalt og það fer að eldast, enda tekur sjálfsagt nokkurn tíma að koma sér niður á eða slá því föstu, hvers konar skip skuli byggt næst með hliðsjón af breyttum viðhorfum. Byggingartíminn er einnig ætíð nokkuð langur. Þó að horfið væri að þessu ráði nú, þá verður að gera ráð fyrir því, að nokkur ár líði, þar til nýtt varðskip yrði komið í hópinn til þess að aðstoða þau, sem fyrir eru. Enn fremur er svo þess að gæta, að till. gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. láti jafnframt gera áætlun um alhliða eflingu Landhelgisgæzlunnar á næstu árum og í því felst það, að Landhelgisgæzlan sé byggð upp alhliða eftir fyrirframgerðri áætlun. Og þá kemur náttúrlega fyrst og fremst til greina flugið og þær ráðagerðir, sem eru í því sambandi.

Það er enginn vafi á því, að við gæzlu hinnar stóru landhelgi geta þar til hæfar flugvélar mjög aðstoðað skipin, enda þótt þau séu fá við gæzluna. Því miður stendur nú þannig á, að við erum vanbúnir að flugvélum, en það hefur verið upplýst hér á þinginu og alkunnugt, að verið er að athuga möguleika á að kaupa Fokker—friendship vél fyrir Landhelgisgæzluna og tel ég, að það mundi vera mjög góð vél til þess að hafa með höndum gæzlu á hinni stóru landhelgi og geta gegnt svipuðu hlutverki og Sif Skymastervélin, á sínum tíma gerði, sem Landhelgisgæzlan hafði til sinna afnota með mjög góðum árangri. Síðan er kunnugt um, að búið er að festa kaup á stærri þyrlu og eftir upplýsingum hæstv. forsrh. eru til athugunar kaup á tveimur smærri þyrlum eða litlum þyrlum, eins og Eir var.

Nú er það alveg augljóst mál, að litlar þyrlur eins og Eir geta með engu móti sinnt nokkrum gæzlu störfum 50 sjómílur út í haf. Það er útilokað. Hins vegar sýndi reynslan af Eir mjög mikla hæfni þessara litlu véla til ýmiss konar gæzlu meðfram ströndum landsins og þær voru einnig við ýmis störf í þágu Vitamálaskrifstofunnar og við gæzlu vitanna, sem þessar litlu þyrlur sýndu sig mjög góðar til að gæta.

Það hefur einnig komið fram hér, að menn hafa verið að tala um að fá þyrlur staðsettar á Vestfjörðum, ekki sízt vegna erfiðleika á læknisþjónustu þar og af ýmsum öðrum ástæðum. En þetta er mjög miklum vandkvæðum bundið, því að það að staðsetja þyrlu á Vestfjörðum t.d. og Austfjörðum þýðir, að hafa verður þar aðsetur fyrir slíkar litlar þyrlur og flugmenn og annað slíkt. Hins vegar er Ægir þannig búinn, að hann er með þyrluskýli og ef slíku þyrluskýli væri líka hægt að koma fyrir á Óðni, sem ég veit nú ekki um, en bæði hafa þau þyrluþilfar, þar sem þyrla getur lent á, bæði þessi skip, má ætla, að í reyndinni verði mjög mikið um það, að tvö skip verði staðsett fyrir austan og vestan land. Ef við ættum tvær litlar þyrlur, sem væru á varðskipunum, þá tel ég það mjög mikilsvert, að þær gætu þá einmitt gegnt þessu hlutverki fyrir austan og vestan, að sinna þörfum fólksins í landi, því að einn þáttur landhelgisgæzlunnar er nú björgunarstörf og margs konar þjónusta hefur í reyndinni verið innt af höndum af þeirra hálfu fyrir íbúana í hinum dreifðari byggðum landsins og þar sem samgöngur eru erfiðar. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt og fagna því, að keyptar verða tvær litlar þyrlur, sem mundu þá sennilega í ríkum mæli fylgja þessum skipum, stóru skipunum, eða vera staðsettar á þeim og hafa þannig aðstöðu til þess að sinna meira þörfunum úti á landi, fyrir vestan og austan, en þyrla, sem staðsett er hér í Reykjavik, hefur getað gert. En að sjálfsögðu tel ég þær ekki koma til álita sérstaklega í sambandi við gæzluna á stórri landhelgi. Ég veit ekki um hæfileika hinna stærri þyrla til þess. Ég efast um, að þær séu til þess fallnar að stunda landhelgisgæzlu allt að 50 sjómílur út í haf. Engu skal ég samt slá föstu um þetta, því að það er einmitt í okkar till. gert ráð fyrir því, að um þessi mál sé gerð fyrir fram áætlun að beztu manna yfirsýn og þeirra, sem um það eru sérfróðir og Landhelgisgæzlan byggð upp á grundvelli slíkrar áætlunargerðar fyrir fram.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessa till. Ég vil mega vænta þess, að hún geti fengið afgreiðslu og það sé samkomulag um afgreiðslu hennar. Hæstv. forsrh. hefur oftar en einu sinni tekið fram hér á þinginu nú að gefnu tilefni, að það ætti að vera óþarfi að gera ráð fyrir nokkrum ágreiningi milli þm. um styrkingu og eflingu Landhelgisgæzlunnar og út frá því sjónarmiði vænti ég þess, að þessi till. geti fengið afgreiðslu.

Ég skal ekki blanda inn í þessar umr. því máli, sem við höfum áður rætt hér um, hversu aðbúnaður Landhelgisgæzlunnar í landi er því miður lélegur. En ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, þó ítreka það í allri vinsemd, að mjög teldi ég það mikilsvert, ef hæstv. ríkisstj. vildi endurskoða þær ráðagerðir, sem uppi hafa verið um það að svipta Landhelgisgæzluna því húsnæði, sem henni var ætlað og hefur verið ætlað um langan tíma í lögreglustöðinni og í tengslum þar bæði við löggæzlu og almannavarnir. Og ég vil leyfa mér að vona, að önnur lausn geti fengizt á húsnæðisvandræðum utanrrn. en sú, að það setjist að í því plássi, sem Landhelgisgæzlunni var ætlað um langan tíma.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessari till. verði vísað til fjvn.