13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í D-deild Alþingistíðinda. (4497)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Það lætur að líkum, að eitt megin verkefni hins háa Alþingis er að betrumbæta það þjóðfélag, sem við lifum í. Alla jafna hafa úrbæturnar nokkurn kostnað í för með sér, enda er það ljóst af störfum Alþ., að það fjallar mestmegnis um efnahagsmál eða a.m.k. eyðir mestum tíma í þau. Hins vegar virðist mér nokkuð á skorta, að Alþ. sinni þeirri skyldu sinni að hafa aðhald með ýmsum hlutum í þjóðfélaginu, sem því ber tvímælalaust skylda til.

Alþ. veitir mikið fé í ýmsar áttir, en virðist oft og tíðum láta sig ekki allt of miklu varða um nýtingu þess fjár. A.m.k. mætti ætla það. Eftirlitsstarf ætti að vera eitt verkefna hins háa Alþingis, með vinnubrögðum og framkvæmdum, með opinberum stofnunum. með rn. og því, sem hér um ræðir, bankakerfinu. Hins vegar er það ljóst, að Alþ. verður aldrei betra en þeir flokkar, sem sitja það.

Á þskj. 400 er lögð fram till. til þál. um endurskoðun bankakerfisins og hljóðar hún svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefjast þegar handa um endurskoðun bankakerfisins í því skyni m.a. að vinna að sameiningu banka og fjárfestingarsjóða og koma á vinnuhagræðingu og sparnaði í bankarekstrinum.“

Grg. með till. hefst á nokkrum spurningum og mér þykir ekki úrskeiðis að telja þær upp.

„Hvers vegna sitja stjórnvöld með hendur í skauti, á meðan bankakerfið blæs út? Hvers vegna fjölgar bönkum stöðugt og bankaútibúum? Hvers vegna rísa stórhýsi banka, á meðan ríkisstofnanir kúldrast í leiguhúsnæði? Hvers vegna eru bankaráðin óvirk? Hvers vegna hafa stjórnmálaflokkarnir skipt bankastjórastöðum við ríkisbanka á milli sín? Hvers vegna ráða í raun og veru miðstjórnir flokkanna í bankastjórastöður? Hvers vegna þiggja bankastjórar 13 mánaða laun? Hvers vegna hefur Seðlabanki Íslands stuðlað að því að sprengja upp lóðaverð í Reykjavík? Hvers vegna hefur Seðlabankinn seilzt inn á svið, sem honum voru ekki ætluð? Hvers vegna slagar starfsmannafjöldi Seðlabankans upp í starfsmannafjölda allra rn.? Hvers vegna hafa bankar, einkabankar jafnt og ríkisbankar, greitt lítil sem engin opinber gjöld?“

Hér eru margar og stórar fullyrðingar. En efast nokkur hv. þm. um það, að eitthvað sé til í þessum staðhæfingum? Flm. eru í raun og veru þeirrar skoðunar, að það sé óþarft að rökstyðja þessar fullyrðingar. Hins vegar krefst hefðin, að þessari þáltill. sé fylgt úr hlaði með nokkrum orðum.

Nú eru starfandi í landinu seðlabanki, sjö viðskiptabankar, þar af þrír í ríkiseign, 50—60 sparisjóðir og um 60 innlánsdeildir samvinnufélaga. Engin sameiginleg löggjöf er til um viðskiptabankana, heldur einungis sérlög, sem fela í sér að sjálfsögðu sjálfstæði bankanna, þótt þessi sérlög hafi að vísu verið að nokkru samræmd. Enginn efast um, að bankar og sparisjóðir eru nauðsynlegar stofnanir í hverju þjóðfélagi til að greiða fyrir verzlun og viðskiptum og efla atvinnulífið. Hins vegar þarf að sjálfsögðu að hafa trausta stjórn á bönkum eins og öðrum stofnunum og í raun og veru er óvenjumikið í húfi, þar sem bankarnir eru fjármagns—- og fésýslustofnanir, sem hafa áhrif á flesta þætti þjóðlífsins með lánastarfsemi sinni. En bankakerfið hefur þanizt út eins og fýsibelgur. Á síðasta áratug hefur útibúum fjölgað úr 21 í 54 og eru um 20 útibú í Reykjavík. Í þessum tölum birtist samkeppni bankanna. Þeim banka, sem ekki hefur lagt kapp á að stofna útibú, vegnar miður í útþenslu kapphlaupinu. Stofnun útibúa getur því verið hagkvæm frá sjónarmiði einstakra banka, en ekki heildarinnar. Þarf ekki annað en að arka niður Laugaveg frá Hlemmtorgi og niður í Austurstræti til að sannfærast um algert stjórnleysi í þessum málum og skal ég ekki fara að leiða þingheim niður Laugaveg. Þar eru sums staðar ekki nema 200—300 metrar á milli útibúa og þannig er það víðar í bænum. Sé lítið til bankaútibúa úti á landi, blasir sama stjórnleysið við. Tveir bankar á Ísafirði, þrír ef ekki fjórir í Keflavík, ef maður telur Landsbankann þar með, auk eins sparisjóðs.

Öllum má vera ljóst, að stofnun útibúa og dreifing þeirra um landið á ekki að ráðast af samkeppni einstakra banka, heldur heildarþörf þjóðfélagsins. Augljóst er, að hér þarf skipulagningu. Það vantar augljóslega samræmda heildarstjórn á fjármagninu. Það vantar samræmda heildarstjórn á sparifé landsmanna. En óhófleg og stjórnlítil fjölgun útibúa er aðeins einn þáttur þessa máls. Þessu fylgir að sjálfsögðu gífurleg fjárfesting í húsnæði, vélakosti og bindingu vinnuafls. Lauslega áætlað eru um 1.200 manns starfandi í bönkum í Reykjavík og fer vaxandi ár frá ári. Það virðist vera furðu auðsótt mál að fjölga starfsfólki í bönkum, á meðan ýmsar aðrar opinberar stofnanir þurfa jafnvel ár eftir ár að knékrjúpa til þess að fá einn starfsmann í viðbót. Þar sem peningarnir eru, þar er getan. Bankahallirnar rísa nú óðum frá grunni og setja æ meiri svip á bæinn og nú á næstunni á að koma hátimbrað „mónument“ krónu og aura, hús Seðlabankans á Arnarhóli. Annars eru byggingarraunir Seðlabankans kunnar hv. þm. og skulu þær ekki raktar hér, en hitt má þó nefna í leiðinni að sú saga hefur átt þátt í því að sprengja upp lóðaverð hérna í miðborginni.

Á meðan þessu fer fram, eykur hið opinbera stöðugt við sig leiguhúsnæði og sannar það enn, að þar sem bankarnir eru, þar eru peningarnir, þar er valdið og þar er getan. Leiguhúsnæði hins opinbera skal ég ekki fara nánar út í að sinni, en mun gera það lítillega í sambandi við þáltill., sem ég hef staðið að ásamt öðrum þm., um úttekt á embættismannakerfinu og stofnunum þess.

Með stofnun Iðnaðarbankans 1951, þar sem ríkissjóður á innan við helming hlutafjár, var farið inn á þá braut að veita honum mörg sömu réttindi og ríkisbönkum, m.a. skattfrelsi. Þessu var haldið óbreyttu, þegar Verzlunarbankinn og Samvinnubankinn og Alþýðubankinn komu til sögunnar. Gjaldeyrisbankar munu greiða fé til ríkissjóðs af gjaldeyristekjum sínum, sem mun láta nærri að vera, þ.e. greiðslan mun vera um 70 millj. á ári. Samkv. hinum nýju lögum um tekjustofna sveitarfélaga greiða bankar vægast sagt harla ómerkilegan skatt eða landsútsvar, sem mun vera áætlað í heild um 5 millj. kr. Það segir sig sjálft, að það er fráleitt, að bankar skuli vera skattfrjálsir, en út yfir tekur, þegar um einkabanka er að ræða. Mér er ekki kunnugt um neina hliðstæðu í þessu efni á Vesturlöndum, en ég skal ekki segja, hvernig það er í Nígeríu.

Stjórnleysið í bönkunum opinberast einnig í sambandi við launagreiðslur. Þar á sér sú skemmtilega staðreynd stað, að þar eru greidd 13 mánaða laun og væri vert af því að spyrja fjmrh. eða bankamálarh — en það virðist nú ekki hægt, því að þeir eru fjarstaddir, — hvað þeir kalli í raun og veru 13. mánuðinn í almanakinu. En það mun vera byggt á þeirri forsendu, að hér sé um eftirvinnu að ræða. Hér er greidd sem sagt ómæld eftirvinna á sama hátt og fyrrv. fjmrh. gerði fyrir 1—2 árum handa nokkrum forstöðumönnum ríkisstofnana og valdi þá úr eftir sjálfsmati.

Ég ætla mér ekki þá dul að halda því fram, að bankastarfsmenn séu oflaunaðir, síður en svo. En að greiða sumum starfsmönnum banka fyrir vinnu, sem þeir vinna aldrei eða lítið, er ekki verjandi. Og það er raunar ósanngjarnt fyrir það starfsfólk bankanna, sem raunverulega vinnur þessa eftirvinnu. En er ekki líka eitthvað bogið við það að greiða 13 mánaða laun einmitt í þeim stofnunum, þar sem vinnuvikan mun líklega einna stytzt og nær að öllum jafnaði ekki 40 stundum? Síðan hefur þessi ósvinna fært sig um allan bankann og líka til bankastjóra, sem að auki fá greidd laun fyrir þá fundi, sem þeir sitja með bankaráði. Þá er ekki um eftirvinnu að ræða, sem félli undir 13 mánaða kaupið. Það virðist vera að nálgast 14. mánuðinn. Og loks fá bankaráðsmenn þóknun fyrir 13 mánuði.

En stjórnleysið ríður ekki við einteyming. Nú er verið að færa þessa vitleysu yfir í aðrar stofnanir í þjóðfélaginu. Efnahagsstofnunin sáluga hafði 13 mánaða laun á ári. Og nú er komið að Framkvæmdastofnun ríkisins, sem virðist eiga að telja 13 mánuði í árinu. Það er m.ö.o. að myndast tvöfalt launakerfi á vegum hins opinbera.

Og nú vaknar spurningin: Er ráðamönnum þjóðarinnar í raun og veru hulið stjórnleysið í bankakerfinu? Auðvitað ekki. En af hverju er ekki reynt að hafa frekari stjórn á því? Svarið er einfalt. Stjórnmálaflokkarnir hafa skipt bankakerfinu á milli sín, eftir óskráðum úthlutunarreglum skipta þeir bankastjórastöðum á milli sín. Og á meðan flokkarnir fá sinn hlut og tryggja sér aðstöðu í bankakerfinu, eru þeir ánægðir og allt er talið með felldu. Þess vegna vilja þeir óbreytt ástand. Bankakerfið er orðið eins konar tryggingakerfi gömlu, pólitísku flokkanna, þar sem iðgjaldið er aðgerðaleysið í ósvinnunni. Bankaráðin eru óvirk, að mestu sýndarráð, að vísu drekka þau kaffi öðru hverju, enda ráða þau ekki bankastjóra í reynd né hafa eftirlit með daglegri sýslu bankanna. En þetta er afleiðing af þeirri stjórnvizku að hafa tvöfaldan pólitískan topp í bönkunum, bankaráðin og bankastjórana. Áhugi hjá flokkunum á bankamálum birtist einkum, þegar ráða á í bankastjórastöðu og reyna þannig að tryggja sér aðgang að fyrirgreiðslu og lánum. Lengra nær áhuginn naumast.

Með þessu er ekki sagt, að einstakir bankastjórar misbeiti valdi sínu í þágu flokkanna. En það liggur í hlutarins eðli, að aðild flokkanna að skipun þeirra er þeim fjötur um fót og hætt er við því, að flokkarnir vilji hafa eitthvað fyrir snúð sinn. Hvaða vit og jöfnuður er í því, að óflokksbundnir menn séu nánast útilokaðir frá bankastjórastöðum? Hvernig stendur á því, að menn, sem bindast ekki pólítískum flokkum, eru útilokaðir frá því að komast í vissar stöður í þjóðfélaginu? Auðvitað á að auglýsa stöðurnar og láta ekki miðstjórnir einstakra flokka pukra með þessar stöður.

Í þessu sambandi vil ég bæta því við, að ég hef engan skilning á því, hvers vegna flokkar, pólitískir flokkar, eru að troða mönnum með sínum eyrnamörkum inn í alls konar ráð, eins og útvarpsráð, þjóðleikhúsráð, stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar o.s.frv. Ég skal ekki fara frekar út í þá sálma. En allt ber að sama brunni. Hinir pólitísku flokkar kunna sér ekki hóf og reyna stöðugt að tryggja aðstöðu sína með hóf lítilli bitlingapólitík og um leið dæma þeir marga ágæta menn utan flokka frá ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu.

En hvað um það, bankakerfið er í ólestri, því verður ekki neitað. Það þarf aðhald og stjórn, sem Alþ. þarf að láta í té og það er skylda Alþ. að grípa í taumana. Það þarf að sameina banka og koma á vinnuhagræðingu og sparnaði í bankarekstrinum. Þá banka, sem þyrfti að sameina, skal ég ekki fjalla um, en það hafa verið hafðar uppi tillögur um að sameina t.d. Búnaðarbankann og Útvegsbankann, Verzlunarbankann og Iðnaðarbankann o.s.frv. En þetta þarf athugunar við. Ég vil benda á, að í stjórnarsamningnum segir, að það eigi að endurskoða allt bankakerfið, þ.á.m. löggjöf varðandi Seðlabankann og hlutverk hans og vinna að sameiningu banka og fjárfestingarsjóða. Til þess að þetta verði ekki dauður bókstafur í málefnasamningnum, hef ég talið rétt að knýja á, til þess að eitthvað verði úr orðum. Enginn vafi er á því, að mesti vandi núv. ríkisstj. er efnahagsmálin. Það er hin ofsalega verðbólga og þensla, sem á sér stað í þjóðfélaginu. Ég hygg, að sparnaður og endurskoðun á bankakerfinu væri athöfn, sem mundi vera mikilvægur þáttur í því að hamla gegn verðbólgunni. Og annað. Það gæfi þó almenningi traust á því, að stjórnin vildi gera eitthvað.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, en ég vænti þess, að hv. alþm. veiti þessu máli stuðning. Ég legg til, að þessum umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.