13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í D-deild Alþingistíðinda. (4500)

207. mál, endurskoðun bankakerfisins

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir stuðningi mínum við það, að bankakerfið sé endurskoðað. Í öðru lagi og fyrst og fremst kom ég hér upp til þess í og með að taka upp hanzkann fyrir bankastarfsmenn, sem mér fannst ekki alveg fráleitt, að frsm. fyrir till. sneiddi örlítið að og þó held ég, að hafi ekki verið ætlun hans nema að litlu leyti. Ég vil upplýsa það, er hann var að tala um, að starfstími eða dagleg vinna bankastarfsmanna væri það stytzta, sem þekktist, en ég veit ekki annað, en að það sé svipaður vinnutími í bönkum og yfirleitt hjá opinberum starfsmönnum. þ.e. að vinna hefst kl. 9 á morgnana og stendur til 5 síðdegis með venjulegum matmáls— og kaffihléum.

Hins vegar er það svo, a.m.k. .í mörgum deildum aðalbankanna og ugglaust í öllum útibúum bankanna, að það er engan veginn hægt að ljúka daglegri vinnu á þessum tíma og í staðinn fyrir að greiða þetta eftir einhverri sérstaklegri, nákvæmri reglu, yfirvinnuna, hefur sá háttur lengi tíðkazt í bönkunum að greiða þessa yfirvinnu með svokölluðum 13. mánuði. Þetta finnst ýmsum broslegt og ég skal ekkert segja um það, hve skynsamlegt þetta er, en þetta er gömul regla, sem lengi hefur gilt og þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð. Hitt er rétt hjá frsm., að sumir starfsmenn munu ekki vinna ýkja mikla yfirvinnu, vegna þess að þannig háttar þeirra starfi, en ég fullyrði, að mjög margir bankastarfsmenn verða að leggja á sig mikla yfirvinnu, sem þeir fá ekki greidda nema á þennan hátt, þ.á.m. held ég, að séu einmitt bankastjórarnir margir og útibússtjórarnir. Þeir verði að leggja á sig verulega yfirvinnu, sem aldrei er reiknuð á annan hátt en þennan.

Ég sagði áðan, að ég vildi lýsa stuðningi mínum við það, að bankalöggjöfin væri endurskoðuð og til gamans og fróðleiks fyrir þá, sem vilja kynnast mínum skoðunum um þetta, vil ég upplýsa, að fyrir tveim árum hafði ég einmitt sett saman þáltill. um þetta mál og ég ætla að leyfa mér að lesa hana hér og grg. En ég tek það fram. að þetta eru hugleiðingar mínar sem einstaklings og ef einhver vildi fóta sig á þeim til að skjóta á minn flokk, þá er það ástæðulaust og tilefnislaust, en þannig var till.:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún feli fimm sérfróðum mönnum að endurskoða og endursemja bankalöggjöf landsins og skuli því verki vera lokið fyrir næsta reglulegt Alþ. Endurskoðunin og endursamning bankalöggjafarinnar hafi að höfuðmarki að gera bankastarfsemina einfaldari og ódýrari í rekstri, bankar séu þjónar, en ekki herrar þjóðarinnar og ríkisvaldsins. Í þriðja lagi að móta útlánastarfsemi ákveðnar starfsreglur. Í fjórða lagi að tryggja og auka hagsmuni sparifjáreigenda gagnvart verðrýrnun peninga. Í fimmta lagi að stemma stigu við óhófi og eyðslu bankanna, hvað húsnæði þeirra og starfsaðstöðu snertir og í sjötta lagi að afnema bankahlutafélög, þ.e. að aðeins ríkisbankar séu leyfðir og þeim ekki fjölgað frá því, sem nú er, eða jafnvel fækkað.“

Þetta er öllu róttækara en hv. frsm. var með, en það er skoðun mín, að það hafi verið hið mesta glappaskot, hvaða flokkar sem að því hafa staðið, þegar bönkunum var fjölgað.

Og síðan er grg. á þessa lund og ég les hana vegna þess, að hún skýrir enn fremur hugsanir mínar og skoðanir á þessum málum. Hún var þannig:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að starfsemi banka hérlendis hefur hlotið allmikla gagnrýni. Sérstaklega hafa útlán þeirra legið undir gagnrýni og íburður þeirra um eigið húsnæði, þegar fjárþröng hefur þó þjakað þjóðarbúið. Þá blandast fáum hugur um, að bankakerfið er orðið óhóflega víða mikið í ekki stærra þjóðfélagi og enn finnst mörgum, að bankarnir séu orðnir ríki í ríkinu, sérstaklega Seðlabankinn. Nú vita allir, að hvorugt er gott, að bankastofnanir séu of ráðríkar né of vanmáttugar innan þjóðfélagsins. Þar þarf að vera hið gullna en vandfundna meðalhóf á. Ofurvald Seðlabankans og valdaleysi viðskiptabankanna eða skortur á fastri samræmdri stjórn þeirra undanfarin ár, gefur tilefni til athugunar og endurskoðunar á valdaaðstöðu bankakerfisins. Fáum mun blandast hugur um að það hafi ekki gefið góða raun að fjölga bönkum, svo sem gert hefur verið með tilkomu Verzlunar—, Iðnaðar— og Samvinnubankans.“

Þetta er samið, þegar Alþýðubankinn var ekki tilkominn, en persónulega bæti ég honum hér við. „Óheppileg og ábyrgðarlítil samkeppni hefur skapazt um sparifé landsmanna, en sú samkeppni leitt til aukinnar útlánastarfsemi úr skynsamlegum farvegi. Stjórn á úttánastarfsemi má tvímælalaust gera ábyrgðarmeiri og hlutdrægnis minni í fáum bönkum en mörgum, með því einu að fjölga þeim í hverjum banka, sem með útlánavaldið fara. Loks er svo að hugleiða þann vanda og þá skyldu, sem þjóðfélaginu ber að leysa og bera, að tryggja sparifjáreigendum raungildi innlánsfjár síns, svo að þeir geti óhræddir falið bönkunum sparnað sinn, en slíkt er undirstaða heilbrigðrar og áhrifaríkrar bankastarfsemi, að sparifé landsmanna streymi í gegnum þá, en ekki utan þeirra. Að landsmenn finni það á eigin fjárhag, að það borgar sig, að eignast innstæðu í banka.“

Við þessar hugleiðingar vil ég svo bæta því, að þetta hefur enn farið úrskeiðis, það sem ég legg hér síðast áherzlu á, að fjármagnið streymi í gegnum bankana, en ekki fram hjá þeim. Ríkissjóður hefur í æ auknum mæli farið inn á þá braut að gefa út svokölluð spari innlánsskírteimi og þannig dregið út úr bönkunum sparifé og hindrað það, að viðskiptabankarnir gætu rekið skynsamlega útlánapólitík. Við þetta hefur svo bætzt það, sem nýverið hefur gerzt, þ.e. happdrættislánið til hringvegarins, sem ég skal alls ekki lasta sem framkvæmd, en fjármagnsaðferðina tel ég ekki hafa verið skynsamlega. Og svo það, sem kannske kórónar þetta þó, eru þau tíðindi, sem verið er að boða okkur alveg nýverið, þessir ágætu ríkissjóðsvíxlar, sem á að fara að gefa út.

Fleira ætla ég ekki að segja á þessu stigi málsins, en ég endurtek það, að ég tel ágætt, að það sé komin fram í Alþ. till. um, að bankakerfið verði allt endurskoðað.