11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í D-deild Alþingistíðinda. (4510)

220. mál, endurskoðun á tryggingakerfinu

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um endurskoðun á tryggingakerfinu á þskj. 446. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða tryggingakerfið í heild í þeim tilgangi að gera það einfaldara, ódýrara og réttlátara. Eftirfarandi atriða sé einkum gætt:

1. Afnumið sé hið tvöfalda lögboðna örorku— og lífeyrissjóðakerfi, þannig að einn sameiginlegur lífeyrissjóður sé fyrir alla landsmenn. Miðað skal við, að upphæð fullra örorku— og lífeyrisbóta eftir 67 ára aldur geti numið allt að 2/3 af venjulegum starfslaunum, hafi bótaþegi engar aðrar tekjur, en lífeyrir sé nokkru lægri, ef um aðrar tekjur er að ræða.

2. Tryggingakerfið sé fjármagnað annað tveggja af ríkissjóði að öllu leyti eða af ríkissjóði og iðgjöldum einstaklinga. Verði síðari kosturinn valinn, skulu atvinnurekendur greiða ákveðna prósentu af nettótekjum, en launþegar og vinnuveitendur sameiginlega tiltekna prósentu af vinnulaunum og sé miðað við dagvinnu og kauptryggingu sjómanna.

3. Þá lífeyrissjóði, sem til eru, sé heimilt að hafa í vörzlu þeirra aðila eða stéttarsamtaka, sem sjá um þá nú og skal ávaxta þá og nýta á hagkvæman hátt fyrir viðkomandi aðila. Ríkisvaldið skal hafa eftirlit með starfrækslu þeirra og verðtryggja, ef unnt er.

4. Takist eigi samkomulag um afnám iðgjalda til lögboðinna lífeyrissjóða stéttarfélaga, vegna þess að þeir séu álitnir nauðsynlegir til öflunar lánsfjár, þá verði frekar horfið að þeirri leið að afla lánsfjár með því að skylda einstaklinga á aldrinum 37—62 ára til að kaupa sparimerki, hliðstætt því, sem ungt fólk gerir nú. Miðað sé við 10% af venjulegum vinnulaunum. Sparimerkin skal verðtryggja og endurgreiða eftir ákveðnum reglum eigendum þeirra, eftir að þeir hafa náð 67 ára aldri. Sé eigandi sparimerkja látinn, áður en þau eru að fullu greidd, skal innistæða hans ganga til erfingja eftir sömu reglum og aðrar eignir.“

Árið 1968 voru samþykkt lög um lífeyrissjóði fyrir aldraða félaga í stéttarfélögum. Litlar deilur urðu um þá löggjöf, því að samið hafði verið um þá lausn í sambandi við vinnudeilur. Þm. munu hafa litið á það sem samningsrof, væri frv. eigi samþykkt.

Í árslok 1970 var samþykkt lagafrv. á Alþ. um lífeyrissjóð bænda. Umr. miklar urðu um það frv., sem enduðu með því, að ákvæði var sett í lögin, að þau skyldu endurskoðuð innan tveggja ára. Ég minnist þess eigi, að svo stuttur reynslutími hafi verið ákveðinn áður í lögum. Það bendir til þess, að þm. hafi álitið lögin gölluð. Hannibal Valdimarsson taldi frv. hafa alla þá ókosti, sem lögin um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum höfðu, en komið hafði í ljós, að á þeirri löggjöf sneru iljar upp, þannig að þeir fengu flestar krónur, sem minnsta höfðu þörfina. Hannibal sagði enn fremur, að fulltrúar launþega hefðu samið um lífeyrissjóði, af því að vinnuveitendur voru fáanlegir að fara þá leið, en eigi að greiða hærra kaup. Iðgjöld launþega til lífeyrissjóða þýða, að í framtíðinni eru tekin 10% af dagkaupi allra launþega og lögð í óverðtryggða sjóði. Það skiptir eigi máli fyrir vinnuveitendur, hvort þeir greiða 6% af kaupi til launþega eða lífeyrissjóða. Vegna þessa ákvæðis jukust útgjöld vinnuveitenda um 6%, en tekjur launþega lækkuðu um 4%. Ljóst er því, að fyrrv. ríkisstj. hefur hér átt hlut að máli. Það var gildur þáttur í stefnu hennar og störfum að skattleggja atvinnuvegi og einstaklinga um framlög til sjóða. Endurteknar gengislækkanir hafa upprætt sparnaðarviðleitni fólks, en aukið þörf fyrir fleiri krónur til útlána. Hvert tækifæri var því notað til að stofna sjóði og einstaklingar og atvinnuvegir skattlagðir í þeim tilgangi. Sjóðir þessir eru svo notaðir öðrum þræði til útlána og einstaklingar og atvinnurekendur þannig látnir greiða vexti af eigin fé. Margþætt útgjöld valda því, að atvinnurekstur ber sig verr og stuðla þannig óbeint að minni getu til að greiða eðlileg vinnulaun. Ég álít, að vinnuveitendur hafi verið tregir um of að semja um launahækkanir, einkum eftir gengisbreytingar, en þægir um of að greiða óbeinar álögur. Til skýringar læt ég hér fylgja lista yfir laun og launatengdan kostnað málmsveina eftir þriggja ára starf.

Vikukostnaður

Á klst.

1

Laun

6 246.00

156.15

2.

Orlof

520.29

13.01

3.

Helgidagar

270.64

6.77

4.

Veikindi og slys

270.64

6 77

5.

Verkfæragjald

254.00

6.35

6.

Sjúkrasjóður

75.62

1.89

7.

Orlofsheimilasjóður

18.91

0.47

8.

Lífeyrissjóður

340.29

8.51

9.

Launaskattur

189.05

4.73

10.

Atvinnuleysistrygging

40.61

1.02

11.

Lífeyristrygging

91.80

2.30

12.

Slysatrygging

31.70

0.79

13.

Ábyrgðartrygging

113.43

2.84

14.

Iðnaðargjald

15.12

0.38

I5.

Vinnuveitendagjald

75.62

1.89

16.

Vinnuföt

80.00

2.00

17.

Iðnlánasjóðsgjald

34.54

0.86

18.

Aðstöðugjald

86.34

2.16

Það kostar samanlagt

8 754.60

218.89

Kaupið hjá þessum málmsveinum er rúmar 156 kr. á tímann, en það eru 18 aukaskattar, sem fylgja fyrir utan útsvar og skatta til ríkisins. Aukaskattarnir 18 nema 62 kr., þannig að heildarútgjöldin á klukkutíma verða 218 kr. Svo þurfa fyrirtækin að greiða útsvar og alla ríkisskatta þar fyrir utan. Það eru ofurlítið hærri útgjaldaliðir á iðnaðinum heldur en á sjávarútveginum. Það eru um 30 heildarskattar á sjávarútveginum, en þar eru skattar til ríkis og sveitarfélaga reiknaðir með. Þeim hefur verið að fjölga alveg fram á síðasta ár. Þetta er meira en fjárútlátin, því að þessu fylgir geysileg vinna að reikna þetta út og nær ótæmandi leiðindi fyrir atvinnurekendur. Því að alltaf er verið að krefja þá um einhver viðbótargjöld. Og sannleikurinn er sá, að það, sem hefur bjargað atvinnurekendum nú, er verðhækkun á sjávarafurðum í tvö ár, sem hefur verið alveg óvenjuleg og eru ekki dæmi til þess á friðartímum. Verðmæti sjávarafurða hefur allt að því tvöfaldazt. En auk þessara óteljandi skatta eða nær óteljandi, þá eru erfiðleikarnir að fá lán í bönkunum, því að vegna endurtekinna gengislækkana hefur verðgildi sparifjárins minnkað og ef einhver einstaklingur þarf að fá smálán, þó að það sé ekki nema 50 þús. kr., þá er það eins og það sé verið að gera góðverk hjá bönkunum að veita þessum mönnum úrlausn.

Árskaup starfsmanns í dagvinnu er því um 325 þús. kr. Aðrar greiðslur vegna starfsmanns yfir árið eru því um 130 þús. Útsvör og skattar til ríkissjóðs eru eigi talin með, og útgjöld til lífeyrissjóðs eiga eftir að hækka.

Ég hef kynnt mér nokkuð tryggingamál í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þar er tryggingakerfið einfalt, en eigi tvöfalt og þrefalt eins og hér. Um það er talað í þessum löndum, að heildarlífeyrir eigi að verða 2/3 af venjulegum vinnutekjum. En lífeyrir er eigi greiddur í Noregi og Danmörku fyrr en eftir 69 ára aldur.

Ellilífeyrir var hér árið 1970 50 þús. kr. fyrir einhleypan mann, en 90 þús. kr. fyrir hjón. Miðað við erlendan gjaldeyri lækkaði lífeyrir hér verulega við gengislækkanirnar 1967 og 1968. Nú er lífeyrir hér 120 þús. kr. fyrir einhleypan mann, en 216 þús. fyrir hjón. Hafi lífeyrisþegi aðrar tekjur, getur lífeyrir lækkað í 84 þús. fyrir einhleypan mann og hlutfallslega fyrir hjón. Þeir, sem dvelja á elliheimilum og sjúkrahúsum, geta fengið mun meira.

Í Danmörku fékk einhleypur maður árið 1970 116 þús. í ellilífeyri, en hjón 185 þús. í ísl. kr., ef um engar aðrar tekjur var að ræða. Hefði bótaþegi aðrar tekjur, gat lífeyrir lækkað í kr. 144 þús. fyrir hjón, en 95 þús. fyrir einhleypan mann. Ellilífeyrir er álíka mikill í Noregi, en nokkru hærri í Svíþjóð. Þar mun verðlag vera hærra. Ljóst er því, að ellilífeyrir er jafnhár á Íslandi nú og hjá nágrannaþjóðum okkar.

Í Noregi greiða atvinnurekendur, þar á meðal bændur, 7.8% af nettótekjum sínum í tryggingagjöld, launþegar 4% af launum. en atvinnurekendur 8.8% á móti. Ríki og sveitarfélög greiða lítið . Í Svíþjóð er svipað kerfi, en í Danmörku greiðir ríkið mun meira eða mest allan lífeyrinn. En iðgjöld einstaklinga eru lægri. Þessar tryggingar svara til almannatrygginga hér og aðrar lögboðnar lífeyristryggingar eru eigi í þessum löndum, hvorki fyrir launþega né bændur. Þær hafa því einfalt tryggingakerfi. Finnar einir hafa sérstakan lífeyrissjóð fyrir bændur. Þar greiðir ríkið 50% iðgjalda, en 50% greiðir bóndinn beint og er miðað við matsverð jarða. Það er viturlegri, heiðarlegri og einfaldari innheimtuaðferð, en nota á hér.

Ríkið greiðir nú allan lífeyri hér og mikinn hluta sjúkrakostnaðar. Til tryggingamála er varið á þessu ári nær 1/3 af ríkisútgjöldum. Þar sem 4/5 hluta ríkistekna er aflað með óbeinum sköttum, er ljóst, að allir þurfa að greiða til tryggingamála verulegar fjárhæðir. Auk þessa þurfa félagar stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands að greiða 10% af dagvinnukaupi í lífeyrissjóði, en bændur 11%. Þeir bændur, sem hafa meira en meðalbú, eiga að greiða 50% til viðbótar. Formaður Stéttarsambands bænda heldur því fram, að neytendur eigi að greiða 3/5 af lífeyrissjóðsgjaldinu, en ríkið af þeim vörum, sem út eru fluttar eða notaðar til iðnaðar innanlands. Engin lagaskylda hvílir á ríkinu að gera slíkt. Landbúnaðarvörur hafa verið seldar innanlands fyrir eins hátt verð og gerlegt hefur verið, þegar undan er skilið s.l. kosningaár. Ég hygg, að svo muni verða framvegis. Sé verð á landbúnaðarvörum óeðlilega hátt miðað við önnur matvæli, dregur úr sölu. Það eru því takmörk fyrir því, hvað borgar sig að hækka verðið. Eigi hefur skort rök fyrir því, að bændur þyrftu að fá hærra verð til að hafa sömu laun og viðmiðunarstéttirnar. Þeir hafa t.d. aldrei fengið fulla vexti af bústofni, jörð og vélum við verðútreikning. Það er því blekking ein, að neytendur muni greiða 3/5 hluta af iðgjöldum til lífeyrissjóðs. Bændur gætu selt afurðir sínar fyrir jafnhátt verð, þó að engir lífeyrissjóðir væru til.

Félagar í stéttarfélögum og bændur munu því greiða, þegar lífeyriskerfið er fullþroskað eftir 1—2 ár, yfir 20% af dagvinnukaupi sínu til lífeyrissjóðstrygginga, sé tillit tekið til þess, sem greitt er í gegnum ríkiskerfið. Auk þess eru greiðslur til slysa—, atvinnuleysis— og sjúkratrygginga. Þetta er a.m.k. tvöfalt meira en nágrannaþjóðir okkar greiða og ætti að nægja til að hægt væri að greiða lífeyrisþegum 30—60% hærri lífeyri eftir 67 ára aldur en venjuleg vinnulaun eru, ef eigi væri um óvenjulega verðlækkun peninga að ræða. Þessu til viðbótar er kerfið allt tvöfalt eða þrefalt og fáránlegt í framkvæmd. Trúnaðarmenn verkalýðsfélaga hlaupa um og innheimta iðgjöld hjá vinnuveitendum, greiða gamalmennum nokkrar krónur ársfjórðungslega, sem væntanlega lækka bætur almannatrygginga hliðstætt, þannig að þessar aukatekjur eru einskis virði fyrir aldraða fólkið nú. Kaupfélagsstjórar taka ákveðnar prósentur af innleggi hvers bónda auk ákveðinnar prósentu af heildarinnleggi. Mun hér vera um heimsmet að ræða hvað innheimtuaðferðir snertir, að vaða þannig í eigur manna án leyfis.

Örorkubætur og sennilega mat á örorku á að vera í tvennu lagi, sjúkrabætur í sumum tilfellum í þrennu lagi, því að ýmis stéttarfélög hafa sérstaka sjúkrasjóði, sem atvinnurekendur verða að borga í. Hér er því um tvöfalt og þrefalt innheimtukerfi að ræða og tvöfalt eða jafnvel þrefalt greiðslukerfi. Öllu þessu fylgir mikil skriffinnska og kostnaður.

Starfandi eru nú hér á landi a.m.k. 70 lífeyrissjóðir. Við hvern sjóð er starfandi stjórn, sennilega svona fimm manna stjórnir yfirleitt, þannig að í stjórnum þessara lífeyrissjóða eru sennilega um 400 manns.

Önnur hlið tryggingamálanna eru lífeyrisbætur. Opinherir starfsmenn hafa verðtryggð eftirlaun, þannig að lífeyrissjóður þeirra greiðir ákveðna prósentu launa miðað við það ár, sem þeir hættu störfum. Eftir 30—35 ára starfsaldur getur sú upphæð orðið 2/3 launa. Verði verðbreytingar eða launahækkanir, greiðir ríkissjóður mismuninn. Hefur sú fjárhæð farið vaxandi og nemur sennilega um 100 millj. nú. Auk þessa hafa opinberir starfsmenn lífeyri frá almannatryggingum, þannig að þeir eru á fullum launum, eftir að þeir hætta störfum. Þeir eru því á vissan hátt betur settir, en á fyrri starfsárum sínum, þegar þeir þurftu að stofna heimili, ala upp börn og greiða námsskuldir.

Ráðherrar og þingmenn hafa nokkra sérstöðu. Hafi þeir gegnt þeim störfum um árabil, fá þeir í fyrsta lagi eftirlaun sem ráðherrar eða þingmenn. Sé um embættismann eða bankastjóra að ræða, hafa þeir eftirlaun sem slíkir. Sé um bændur eða félaga í stéttarfélögum að ræða, fá þeir væntanlega eftirlaun þannig, þegar þeir sjóðir taka til starfa til fulls að 13 árum liðnum. Eiga þær bætur að nema 2/3 hlutum vinnulauna. Í þriðja lagi eiga þeir að fá bætur frá almannatryggingum. Samanlagt nema þessar bætur sennilega hærri fjárhæð, en tekjur viðkomandi aðila voru, meðan þeir voru í starfi.

Félagar í stéttarfélögum og bændur eiga að fá tvöfaldan lífeyri, þ.e. frá almannatryggingum og hinum lögboðnu lífeyrissjóðum, þegar þeir taka til starfa. Sé gert ráð fyrir, að bætur almannatrygginga nemi 2/3 af venjulegum vinnulaunum, eins og stefnt virðist að nú og bætur sérsjóða nemi 2/3 hluta vinnulauna, ættu aldraðir lífeyrisþegar að hafa 20—30% meiri tekjur en þeir höfðu af vinnu sinni, meðan þeir voru ungir. Auk þess hafa margir aldraðir menn tekjur af eignum og ýmsir geta haft einhver störf með höndum. Er það meira virði fyrir gamalt fólk, en háar bætur. Ég tel það rétta stefnu, sem tekin var á þessu þingi, að hafa bætur lægri fyrir þá, sem hafa vinnutekjur.

Rétt er að gera sér ljóst, að ýmsir standa enn utan við þessa margþættu tryggingalöggjöf og eiga eigi von annarra ellibóta en frá almannatryggingum. Ég lít svo á, að tryggingakerfi okkar sé orðið frumskógarkennt og ástæða sé til að gera það ódýrara og einfaldara í framkvæmd. Einhverjir verða að borga til allra þessara sjóða og greiða kostnaðinn við hið margþætta og að nokkru leyti rangláta tryggingakerfi. Eigi þeir, sem hættir eru störfum að meira eða minna leyti, eru búnir að ala upp börn sín og eiga í mörgum tilfellum verulegar eignir, að hafa hærri árstekjur, en ung hjón, sem þurfa að stofna heimili og ala upp nýja borgara, þá tel ég, að stefnt sé í öfuga átt. Það er hliðstætt og farið sé að bera á túnin, þegar grösin eru að fella fræ.

Gunnar Guðbjartsson taldi, að 2/5 hlutar af ársiðgjaldi bónda, sem hefði vísitölubú, miðað við verðlag ársins 1970, væru 13.200 kr. Þetta er sama upphæð og ég talaði um við umr. um lífeyrissjóð bænda. Árlega þarf því vísitölubúið að greiða 33 þús. kr., er þá miðað við verðlag 1970. Þeir, sem hafa eitt og hálft vísitölubú, þurfa að greiða 50% meira eða 49.500 kr. á ári, en 2/5 hlutar af þeirri upphæð eru 19.800 kr. Rétt er, að launþegar og bændur geri sér ljóst, hve hagkvæm hin nýja lífeyrissjóðslöggjöf er. Ég fékk því banka og tryggingafræðing til að reikna út, hve miklar fjárhæðir hver einstaklingur þyrfti að greiða. Tekin eru tímabilin 30 ár og 40 ár og reiknað með 10% vöxtum og vaxtavöxtum. en það eru þeir viðskiptavextir, sem nær allir verða að greiða að einhverju leyti, því að flestir skulda eitthvað. Iðgjöld eru reiknuð í tvennu lagi, þ.e.2/5 hlutar og heildariðgjöld:

13 þús. kr. lagt inn árlega í 30 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

2.352.264

13 þús. kr. lagt inn árlega í 40 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

6.329.073

33 þús. kr. lagt inn árlega í 30 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

5.971.133

33 þús. kr. lagt inn árlega í 40 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

16.066.109

19 500 kr. lagt inn árlega í 30 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

3.528.396

19 500 kr. lagt inn árlega í 40 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

9.493.6l0

48 þús. kr. lagt inn árlega í 30 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

8.685.284

48 þús. kr. lagt inn árlega í 40 ár

verður með 10% vöxtum og

vaxtavöxtum

23.368.886

Það er þessi smáupphæð, sem við, sem erum sæmilega bjargálna bændur, yrðum að greiða beint eða óbeint á þessu 40 ára tímabili.

Ljóst er af þessari töflu, hve miklu skiptir fyrir ungt fólk að eignast eigið fé. Það er frumskilyrði þess, að það verði efnalega sjálfstæðir borgarar. Hagsýnn bóndi getur haft miklu meira en 10% vexti af því fé, sem hann leggur í bústofn. Eigi er því hagkvæmt fyrir bændur að greiða stórar fjárhæðir í sjóði, sem þeir eiga að fá endurgreiðslur úr að einhverju leyti eftir 40—50 ár, ef þeir eru þá eigi dauðir. Öllum má ljóst vera af þessari töflu og þessa töflu geta þeir, sem vilja, fengið — það eiga raunar fáir logarithma, sem tekur þetta, — en Seðlabankinn hefur það og tryggingafræðingarnir hafa það og ef þið rengið þessar tölur hjá mér, þá getið þið fengið þá til að reikna það út. (Gripið fram í: Þetta er nú mjög orðum aukið.) Þetta er rétt reiknað enda hefur þú aldrei reiknað þetta og veizt ekkert um það. Og ég get sagt ykkur sem dæmi, að einn ráðunauturinn í Búnaðarfélaginu sagði, að þetta væri ekki rétt hjá mér, og við fórum að reikna. Hann hafði góðar vélar. Og þegar hann var kominn milli 10 og 20 ár, þá sá maðurinn, að ég sagði satt. Hann sá, hve fljótt það margfaldaðist. (Gripið fram í: Það verður að mata vélarnar rétt.) Já, en það er gert, þar sem ég á í hlut.

Öllum má ljóst vera af þessari töflu, að það eru eigi litlar fjárhæðir, sem félagar í stéttarfélögum eiga að leggja á borð með sér til elliáranna og ánægjulegt fyrir . Gunnar Guðbjartsson og Hannibal Valdimarsson að geta gert sér ljóst, hvaða pinklar það eru, sem þeir hafa laumað á bak skjólstæðingum sínum. Vísitölubúið hefur greitt eftir 40 ár rúmar 16 millj. með 10 % vöxtum og vaxtavöxtum. Svipaðar upphæðir verða launþegar, sem eru félagar í stéttarfélögum, að greiða, ef þeir hafa hliðstæðar tekjur, sem ég ætla, að þeir hafi. Í Alþýðusambandinu eru ca. 36 þús. félagar og bændur eru nálægt 5 þús. Þegar lífeyrissjóðsgjöldin eru innheimt til fulls eftir 1—2 ár, er líklegt, að þau nemi árlega með óbreyttu verðlagi allt að 2 þús. millj. árlega. Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að hefja greiðslu fyrr en eftir 13—14 ár. Í þessum sjóðum verður þá allhá upphæð með vöxtum og vaxtavöxtum, sé reiknað með fullum vöxtum. Mun sú fjárhæð nema yfir 40 milljörðum. Þá upphæð hafa hinir lægst launuðu í landinu greitt beint eða óbeint, auk allra annarra skatta. Ég álít, að hér sé farið öfugt að. Almennan sparnað á að efla með því að treysta verðgildi peninga og gera það m.a. með því að stilla í hóf útgjöldum og eyðslu.

Hér á landi munu starfandi um 70 lífeyrissjóðir og eignir þeirra nema 3–4 milljörðum. Skráning krónunnar hefur breytzt s.l. 12 ár úr 16 kr. dollarinn í 88 kr. Í lífeyrissjóðum væri mikið fé, ef gengið hefði verið óbreytt. Tryggingafræðingar hafa réttilega á það bent, að óverðtryggðir lífeyrissjóðir séu nær óstarfhæfir vegna endurtekinna gengislækkana, sem hér hafa verið.

Starfsaldur þeirra, sem stunda langt nám, er mun skemmri en bænda og venjulegra launþega. Þetta atriði hafa þeir athugað, sem sömdu tryggingalög sjómanna, þótt illa sé raunar með sjómenn farið. Þar er hámark iðgjaldatímabilsins 30 ár. Launþegar og bændur eru hins vegar að greiða iðgjöld frá 16—20 ára aldri. Ljóst er af töflunni, að iðgjaldaupphæðin nær þrefaldast á fjórða áratugnum. hvað þá hinum fimmta. Sá, sem greiðir iðgjald í 40 ár, greiðir því nærri þrisvar sinnum meira iðgjald, séu vextir og vaxtavextir reiknaðir með, en sá, sem greiðir iðgjöld í 30 ár. Þetta er stóra vitleysan í tryggingarlöggjöf bænda og stéttarfélaga. Það væri til mikilla bóta, ef tryggingatíabilið væri aðeins 30 ár og iðgjaldagreiðslur hæfust eigi fyrr en eftir 35 ára aldur, þannig að viðkomandi aðilar gætu verið búnir að stofna heimili og koma sér dálitíð fyrir. Iðgjaldagreiðslur bænda og félaga í stéttarfélögum eru allt of háar, nema reiknað sé með miklum gengislækkunum. Vera má, að rétt sé að reikna með slíku, en í því tilfelli er viturlegast að reikna dæmið til enda. Niðurstaðan mundi þá verða sú, að hagkvæmast væri fyrir bændur og jafnvel fleiri að ráða sjálfir yfir krónum sínum, þeir gætu oftast verndað verðgildi þeirra. Bændur eru atvinnurekendur og þurfa á fé sínu að halda, meðan þeir reka búskap. Þessum atriðum hafa þeir gleymt, sem sömdu lögin um lífeyrissjóð bænda og félaga í stéttarfélögum. Heimilt er að draga iðgjöld frá tekjum. Það skiptir máli fyrir þá launþega, sem hafa miklar tekjur, en fyrir flesta, sem eru í stéttarfélögum og bændur skiptir þetta litlu, því að fæstir þeirra greiða mikinn tekjuskatt.

Ljóst er af ummælum Gunnars Guðbjartssonar og samþykktum Stéttarsambands bænda, að megin forsendan fyrir stofnun lífeyrissjóðs bænda er stofnun lífeyrissjóðs félaga í stéttarfélögum og tillagið til stofnlánadeildarinnar. Það framlag er hliðstætt og tillag það, sem útgerðarmenn og iðnrekendur greiða til sinna sjóða. Vextir af stofnlánum hækkuðu 1960 úr 41/2 í 61/2%. Sé tekið tillit til framlags atvinnurekenda til stofnsjóðanna, svarar það til þess, að vextir hafi hækkað í 10%, en það eru venjulegir viðskiptavextir nú. Á hitt ber einnig að líta, að bændur hafa fengið ógengistryggð lán hjá stofnlánadeildinni, en það er mikils virði fyrir þá. Ég hef lítið á tillagið til stofnlánadeildarinnar sem endurgreiðslu fyrir hagkvæm lánskjör og eigi talið, að hún skuldaði mér neitt, frekar hið gagnstæða.

Bændasamtökin sögðu ríkisstj. vel til vegar með því að leggja 1% gjald á afurðir bænda til eigin samtaka og Bændahallar. Ókosturinn við nýjar álögur er, að nær ógjörlegt er að losna við þær aftur. Þannig hefur þetta reynzt með 2% gjaldið á afurðir bænda, en það svarar til 5% af kaupi þeirra. Stéttarsambandið tók til sín þrisvar sinnum meira, en það þurfti. Afganginn lagði það í Bændahöllina. Framvegis ætti Stéttarsambandið að komast af með þær tekjur, sem það á að fá í sinn hlut af rekstri Bændahallarinnar. Tillögur hafa þó eigi komið fram um að afnema framlag bænda til Stéttarsambandsins, en minnzt hefur verið á að stækka hótelið. Stéttarsambandið hefur sýnt lofsverðan áhuga á því að afnema 1% gjaldið til stofnlánadeildarinnar. Lífeyrissjóðsgjaldið má að nokkru rekja til þess áhuga. Þetta hefur tekizt á þann veg, að samkvæmt þeim lögum., sem nú gilda, eiga bændur að greiða næstu 20 árin í framlag í lífeyrissjóð og til stofnlánadeildarinnar nær 5% af andvirði afurða sinna. Ég met lítils lög, sem eiga að koma til framkvæmda eftir nokkur ár, því að óvíst er, að þau verði þá óbreytt. Hitt er staðreynd, að samkv. þeim lögum, sem í gildi eru, á að taka 5—6% af afurðaverði bænda á árabilinu 1973—1976, en það þýðir 15—18% af kaupi þeirra. Í stað þess að losna við að greiða 1% afurðaverðs til stofnlánadeildarinnar eru líkur til, að bændur fjármagni hana að öllu leyti í framtíðinni, enda vafalaust ekki annað þarfara gert, ef safna á stórfé í lífeyrissjóð hvort sem er. Skrafið um, að neytendur eigi að greiða 3/5 af lífeyrissjóðsgjaldi bænda, er óraunhæft. Neytendur eiga nóg með að greiða 10% af kaupi sínu til eigin sjóða, þó að þeir greiði eigi iðgjöld fyrir bændur. Útsöluverð var svo hátt á landbúnaðarafurðum, áður en niðurgreiðslur voru auknar í árslok 1970, að þær seldust treglega. Hið sama mun gerast, þegar niðurgreiðslur lækka. Framleiðsluráð verður eigi sakað um, að landbúnaðarvörur hafi eigi verið verðlagðar eins hátt og söluskilyrði leyfðu.

Ég hef rætt um hinn nýstofnaða lífeyrissjóð við ýmsa bændur. Allir hafa sagt, að þeir hafi eigi verið spurðir um stofnun hans og ekki um hann beðið. Stéttarsamband bænda var stofnað til þess að gæta hagsmuna þeirra viðvíkjandi verðlagningu og sölu afurða, en eigi til að finna upp nýja skatta á bændur. Það er tæpast rétt af stéttarsambandsfundi, sem stendur í einn eða tvo daga, að taka afstöðu til flókinna lagafrv. án þess að hafa tíma eða aðstöðu til að kynna sér þau til hlítar. Þegar slík frv. eru flutt á Alþ., er því haldið fram, að viðkomandi stéttir óski eftir því, að þau séu samþykkt óbreytt, þó að slíkt sé með öllu óraunhæft. Það er því nær ógerlegt að hindra samþykkt slíkra frv., hvað gölluð sem þau eru.

Tryggingamál okkar stefna út í algerar öfgar. Bezt er að hafa kerfið sem einfaldast og sanngjarnast, að allir búi við hliðstæð kjör með eftirlaun. Það er öfug þróun að halda því fram, að atvinnurekendur þurfi aðrar eða meiri eftirlaunatryggingar en launþegar. Atvinnureksturinn krefst þess, að þeir eigi verulegar eignir, því að atvinnurekandinn þarf á meira fé að halda, en launþeginn, meðan hann er í starfi. En hann hefur í flestum tilfellum minni þörf fyrir háan lífeyri. Það gefur auga leið, að hagkvæmara er að hafa örorkubætur og ellilífeyri í einu lagi, en í tveimur lögboðnum kerfum, enda þekkist slíkt víst hvergi nema hjá okkur.

Meðalaldur karla á Íslandi er 71 ár, en konur verða lítið eitt eldri. Margir deyja áður en lífeyrisgreiðslur hefjast. Í fæstum tilfellum auka þeir útgjöld Tryggingastofnunar eða lífeyrissjóða. Ljóst er, að félagar í stéttarfélögum og bændur, sem hafa meðalbú, greiða á 40 árum með 10% vöxtum og vaxtavöxtum allt að 16 millj. kr. til lífeyrissjóða, miðað við verðlag það, sem nú er og samkv. þeim lögum, sem nú gilda. Auk þess greiða þeir til almannatrygginga gegnum skattakerfið. Ráðamenn þjóðfélagsins ætla þegnunum að leggja allvel á borð með sér eftir 67 ára aldur. Í sérflokki eru bændur, sem reka stærri bú. Þeir eiga að greiða allt að 50% meira án tillits til þess, hvort þeir hafi meiri eða minni nettótekjur. Er sú lagasetning næsta frumleg.

Ég hef við engan talað, sem eigi vill, að gömlu fólki líði vel. Það bætir eigi líðan þeirra öldnu og veiku, þótt tekið sé allt að tvöfalt meira af vinnulaunum launþega og bænda. en þörf er á og því fé safnað í sjóði, sem verðfelldir eru öðru hverju. Aldrað fólk hefur takmarkaða ánægju af því að eyða fjármunum.

Tryggingakerfið þarf að endurskoða og breyta þannig, að við höfum aðeins eitt lögboðið tryggingakerfi. Hins vegar á hverjum einstaklingi að vera heimilt að tryggja sig á þann hátt, sem hann telur æskilegt. Tvær leiðir eru til og báðar vel færar. Önnur er sú, sem farin var að nokkru á þessu þingi, þegar tryggingalöggjöfinni var breytt og ríkið tók að sér að greiða ellilífeyri og örorkubætur að öllu leyti. Hin leiðin er, að einstaklingar greiði iðgjöldin að mestu, eins og gert er í Noregi. Ætti þá að vera hægt að lækka skatta til ríkisins. Það skiptir eigi öllu, hvor þessara leiða er valin. Aðalatriðið er að gera tryggingakerfið einfalt og sanngjarnt, þannig að allir búi við svipuð kjör í tryggingamálum. Því fer fjarri, að svo sé nú. Öðru máli gegnir um sjúkratryggingar. Ég hygg, að betur verði með fjármuni farið, ef stærð sjúkrasamlaga er takmörkuð og málin að verulegu leyti í höndum fólksins sjálfs.

Viðurkenna ber, að fyrrv. ríkisstj. fór kænlega að, sé miðað við áhuga hennar við að stofna sjóði, með því að láta forráðamenn í samtökum stéttarfélaga og bænda fallast á eða óska eftir stofnun lífeyrissjóða. Sú beita var notuð að láta atvinnuleysistryggingar, stofnlánadeild og ríkissjóð greiða örlitlar fjárhæðir til þeirra öldruðu fyrir 15 árin. Nema þær fjárhæðir sennilega 5—10% af iðgjöldum til lífeyrissjóða. Þetta er hliðstætt því, þegar fiskimenn láta síldarbita á öngla, þegar veiða skal ýsu, þorsk og keilu. Þessu til viðbótar voru samþykkt lög nú fyrir áramótin þess efnis, að lífeyrir lækkar hjá þeim. sem aðrar tekjur hafa.

Í lífeyrissjóði stéttarfélaga og bænda greiða yfir 40 þús. einstaklingar 10% af kaupi sínu. Á nokkrum áratugum safnast stórfé í þessa sjóði, sé löggjöfin óbreytt. Þetta fé verður lánað til einstaklinga og atvinnufyrirtækja og braskað með það á ýmsan hátt. Sjóðir þessir munu því eiga verulegan hluta af eignum landsmanna eftir nokkra áratugi, hliðstætt því, sem kaþólska kirkjan átti fyrir siðaskiptin. Hér er á ferðinni meiri sósíalisering, en áður hefur þekkzt hér á landi, því að ríkisvaldið mun vilja ráða yfir þessum sjóðum og þeirra starfsemi að meira eða minna leyti. Þetta þýðir því meira ríkisvald, en minna efnalegt sjálfstæði einstaklinga. Alþingi þarf að breyta þessari óviturlegu löggjöf, gera kerfið einfalt og afnema framlög til hinna mörgu lögbundnu lífeyrissjóða.

Viðurkenna ber, að sparifé okkar er lítið . Vera má, að eigi takist að skapa það traust á gjaldmiðlinum, að sparifé verði nægilegt til að fullnægja lánsfjárþörf atvinnufyrirtækja og einstaklinga. Ég hef því í 4. lið þáltill. bent á, að gerlegt væri að skylda fólk eldra en 35 ára til að kaupa sparimerki fyrir 10% af vinnulaunum sínum, hliðstætt því, sem ungt fólk gerir nú. Þessi sparimerki væru verðtryggð, en vextir hóflegir. Eigendur hefðu rétt til að fá endurgreiðslu eftir ákveðnum reglum, þegar þeir hefðu náð 67 ára aldri, og e.t.v. fyrr, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi. Innstæður þessar gengju til erfingja að eigendum látnum, hliðstætt og aðrar eignir. Ég held því eigi fram, að þessi leið sé æskileg, en álit hana þó sýnu betri, en að lögþvinga fólk til að greiða 10% af kaupi sínu í óverðtryggða lífeyrissjóði frá 16—20 ára aldri, þar til það er 67 ára. Verulegur hluti hinna tryggðu fær aldrei neinar endurgreiðslur, en aðrir aðeins lítinn hluta þess, sem þeir hafa greitt.