16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (4526)

221. mál, aðstoð við nýlenduþjóðir Portúgals

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt um liðið síðan þetta mál var hér á dagskrá, en ég vil samt gera örlitla grein fyrir brtt., sem ég hyggst flytja við þáltill. og fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum.

Í nýlendum sínum í Afríku kúga Portúgalir enn 10 millj. manna og svífast ekki við að beita hinum hrottalegustu aðferðum til að tryggja völd sín þar, m.a. hinum fullkomnustu eyðingartækjum nútíma hernaðar, svo sem napalmsprengjum og eiturvopnum, enda hefur nýlendustríðinu í Angóla, Guineu og Mósambík oft verið líkt við Víetnam—stríðið. Eins og Bandaríkjamenn þar hafa Portugalir beitt stórfelldum eiturhernaði, ekki einungis gegn mannfólkinu, heldur gegn landinu sjálfu, gróðri þess og náttúru. Þegar styrkur þjóðfrelsisaflanna er svo mikill, að hann verður ekki unninn með vopnum, skal svelta þjóðina til hlýðni með eyðingu akra og engja. Þrátt fyrir hinn viðbjóðslega stríðsrekstur hefur Portúgal ekki tekizt að beygja alþýðu þessara Afríkuþjóða til hlýðni og andspyrna þeirra hefur stöðugt magnazt.

Hér á Alþ. er nú komin fram þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að veita hinum kúguðu nýlenduþjóðum Portúgals stuðning í formi matvæla, læknistækja og annars af því tagi. Ég fagna þessari till., en tel þó, að hún gangi allt of skammt, þótt í henni felist mikilvæg siðferðileg fordæming á framferði Portúgala, en forðazt er að taka pólitíska afstöðu með hinum stríðandi Afríkuþjóðum. Jafnframt er forðazt að minnast á tengsl Portúgals við NATO, þótt ljóst sé, að vera þess í því sé ein meginforsenda þess, að Portúgal getur enn rekið hið kostnaðarsama nýlendustríð sitt. Það er hinn siðferðilegi, pólitíski og efnahagslegi stuðningur NATO og ýmissa NATO—þjóða, sem gerir Portugal kleift að reka hina harðsvíruðu nýlendustefnu. Því frekar hlýtur þetta að snerta umræður okkar Íslendinga um þetta mál, að við erum félagar og lagsmenn Portúgals í .Atlantshafsbandalaginu og berum því enn frekar ábyrgð á fjöldamorðum þeirra og eiturhernaði í Afríku. Ragnar Arnalds þm. og 5. flm. þessarar till. hefur tjáð mér, að hann hafi farið fram á það á sínum tíma við 1. flm. hennar, Ellert B. Schram, að komið væri inn á þessi tengsl Portúgals við NATO í till., en hann, 1. flm., hefði hafnað því. Þennan ótta hv. þm. við að bendla NATO við nýlendustríð Portúgala í Afríku ber að harma, en þrátt fyrir það hef ég ákveðið að flytja hér brtt. í þessa átt í þeirri von, að meiri hl. hv. þm. vilji álykta af raunsæi í þessu máli. Ég geri mér jafnvel vonir um, að hv. 1. flm. till., Ellert B. Schram. muni skipta um skoðun og styðja hana, ekki einvörðungu vegna þess, að það er í tízku að vera róttækur, eins og hann hefur sjálfur komizt að orði í ræðustól hér á Alþ., heldur vegna þess, að öll rök hníga í þá átt.

Í grg. með þáltill. er minnzt á fulltrúa þjóðfrelsisfylkingarinnar í Angóla, Agostinho Neto og þess er réttilega getið, að hann hafi verið hér á landi nýlega í því skyni að kynna málefni þjóðfrelsishreyfingarinnar þar og leita stuðnings Íslendinga við málstað hennar og þar sem ég geng út frá því sem vísu, að tillögumenn séu mér sammála um, að þessi sendimaður þjóðfrelsisfylkingarinnar í Angóla sé góður heimildarmaður, þegar nýlendustríð Portúgala er annars vegar, ætla ég að vitna í hann til stuðnings málflutningi mínum.

Í nýútkomnu fréttabréfi þjóðfrelsisfylkingarinnar í Angóla, sem Neto ritstýrir, segir hann á einum stað um efnahagslegan stuðning NATO og NATO—þjóða við Portúgal, með leyfi hæstv. forseta:

„Portúgal ver meira en 59% af þjóðartekjum sínum til stríðsins í Afríku. Heimsvaldasinnarnir hjálpa Portúgal með því að verzla við þá og með stórfelldum beinum lánveitingum, eins og Bandaríkin, sem ákváðu að láta Portúgal hafa 435 millj. dollara í gegnum bandaríska útflutnings— og innflutningsbankann“.

Á öðrum stað greinir hann frá eiturefnahernaði Portúgala í Angóla. Eftir að hafa talið upp ýmsar flugvélategundir, sem notaðar eru í þessu skyni og fengnar eru frá hernaðarbandalaginu NATO, segir Neto, með leyfi hæstv. forseta:

„Stór landssvæði hafa verið sýkt með gróðureyðingarefni, því sama og Bandaríkjamenn nota í Indókína. Markmið portúgölsku nýlenduherranna er hið sama, að eyðileggja uppskeruna. Það er eyðing Casawa—akranna, sem vakir fyrir þeim. Casawa eða Maniok er aðalframleiðsluvara í landi okkar og helzta fæðutegund, eins og í öðrum löndum Afríku. 2/3 hlutar af þessari aðalframleiðsluvöru okkar voru eyðilagðir á árabilinu 1970-1971.“

Svo mörg voru þau orð. Ég trúi því ekki, að það þurfi frjótt ímyndunarafl til að sjá, hve gölluð sú till. til þál. er, sem hér er til umr., þar sem hvergi er vikið að þeirri grundvallarstaðreynd, að aðild Portugals að NATO er ein meginforsenda þess, að þetta fátæka og vanþróaða einræðisríki getur enn haldið úti ofbeldisstríði í nýlendum sínum í Afríku. Sjá menn ekki tilgangsleysið og tvískinnunginn í því, að við Íslendingar, aðilar að Atlantshafsbandalaginu, bjóðum fram smávægilega aðstoð í formi matvælagjafa og læknistækja og annars slíks, en samþykkjum síðan með þögninni og aðgerðarleysinu skipulagðar eiturherferðir, herferðir Portúgala, sem beita NATO—vopnum? Ég trúi ekki, að meiri hl. hv. þm. vilji lengur leika þetta hlutverk hræsnarans, að slá og eyða með annarri hendinni, en þykjast græða með hinni. Nokkur tonn af íslenzkri skreið breyta litlu um matvælaskort hinnar stríðandi alþýðu Angóla, Guineu og Mósambík, meðan fljúgandi NATO—vélfuglar sáldra eitri, dauða og örbirgð yfir akra og engi. Íslenzk læknistæki, þótt góð séu, mega sín lítils gegn sviðandi napalmsárum. Nei, hv. þm., tökum hiklaust pólitíska afstöðu gegn portúgölsku nýlenduherrunum og undanskiljum ekki þátt Atlantshafsbandalagsins og ýmissa Atlantshafsbandalagsríkja í þessu viðbjóðslega stríði. Bezti stuðningur okkar við alþýðu þessara landa væri sá, að við segðum skilið við hernaðarbandalagið NATO, en því miður er ekki að vænta þess, að slíkur meiri hluti sé hér og nú fyrir slíkri ákvörðun. En í trausti þess, að ýmsir, sem enn trúa blekkingum um jákvæðan tilgang Atlantshafsbandalagsins, viðurkenni þá staðreynd, að aðild Portúgals að NATO stendur fyrst og fremst í vegi fyrir uppgjöf þeirra í Afríku, í trausti þess legg ég fram eftirfarandi brtt. og er hugsað, að hún komi sem viðauki við þá þáltill., sem hér liggur frammi. Till. er svo hljóðandi:

„Jafnframt skorar Alþ. á ríkisstj. að beita sér fyrir því innan Atlantshafsbandalagsins, að Portúgal verði vikið úr bandalaginu, þar sem ljóst er, að pólitískur og efnahagslegur stuðningur NATO og ýmissa NATO–ríkja við Portúgal er hin helzta forsenda þess, að þeir geta enn kúgað og arðrænt nýlendur sínar.“