21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

1. mál, fjárlög 1972

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forsetl. Góðir áheyrendur. Ég vil hyrja mál mitt með því að vitna til orða núv. fjmrh., sem hefur nú flutt sína jómfrúrræðu sem ráðh. og gert í löngu máli grein fyrir fyrsta fjárlagafrv. sínu. Við umr. í fyrra, 20. okt. 1970, sagði Halldór E. Sigurðsson orðrétt, með leyfi forseta:

„Fjárlög eru spegilmynd af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstj., sem að þeim stendur. Fjárlagafrv. fyrir árið 1971 er góð sönnun á gildi þessarar reglu. Einkenni þess, sem fyrrí fjárlaga ríkisstj., er verðbólga og útþensla ríkiskerfisins.“

Svo mörg voru þau orð. Hæstv. núv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, er ekki með öllu ókunnur gerð fjárlaga. Hann hefur mörg undanfarin ár setið í fjvn. og einnig verið endurskoðandi ríkisreikninga og gert í hvert sinn, er þessi mál eru til meðferðar, margvíslegar aths. og lagt á það áherzlu, að breytinga væri þörf. Það vantaði ekki stóru orðin í málgögnum þeirra framsóknarmanna í vor fyrir kosningarnar um verðbólgustefnu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. Ekkert var til sparað í púðrinu, svo að skotin geiguðu ekki. Þeir höfðu líka árangur sem erfiði. Nú eru þeir komnir í ríkisstj. og veita henni meira að segja forstöðu. Að óreyndu mætti halda, að við lestur þessa fjárlagafrv. kæmi eitthvað athyglisvert í ljós hjá þeim, svo miklir kappar og snjallráðir sem þeir sögðust vera, og svo miklir aular og eyðsluseggir sem hinir áttu að vera. En hvað skeður? Ekkert sérstakt nýtt kemur fram, sem athygli vekur, nema ef vera skyldi vanáætluð útgjöld og óraunhæft mat á ríkjandi aðstæðum í þjóðfélaginu og launamálunum sem heild. Sem afsökun á þessu eru eftirfarandi orð í aths. við frv., á bls. 141:

„Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar kom til valda um miðjan júlí s.l., höfðu flest rn. skilað fjárlaga- og hagsýslustofnuninni tillögum sínum vegna fjárlagagerðar fyrir árið 1972. Af eðlilegum ástæðum óskuðu hinir nýju ráðh. eftir því að kynna sér tillögur rn. sinna og breyta þar um, eftir því sem nauðsyn bar til og mögulegt var að þeirra dómi. Af þessum ástæðum var tími til að vinna að gerð fjárlagafrv. skemmri heldur en áður mun hafa verið og æskilegt er.“

Vel má vera, að fyrir suma hafi tíminn verið knappur, en á hitt má henda, að langur tími fór í það að gera svo nefnda úttekt á þjóðarbúinu. Var það verk gert, og hefði úttektin átt að sýna núv. ráðh. glögglega, hvað allt var hagstætt. Hins vegar var og er það trú sumra þeirra enn þá, að ekki sé allt með felldu. Samt sem áður er það staðreynd, að engin ríkisstj. hefur nokkru sinni tekið við eins góðum fjárhag þjóðarbúsins og stöðu ríkissjóðs og núv. ríkisstj. Hrollvekjan margumtalaða í kosningabaráttunni hvarf sem dögg fyrir sólu. Þegar ríkisstj. hafði gert sér grein fyrir hinum góða hag ríkissjóðs, hófust ráðh. strax handa um að dreifa arðinum út á meðal almennings, og má þakka fyrir þann rausnarskap. Athyglisvert er, hvernig þeir sögðu frá nýju tryggingaumbótunum, sem lögfestar voru af fráfarandi ríkisstj. og voru þá margnefndar í umr. smánarbætur einar, bæði hér á hv. Alþ. og einnig mjög á kosningafundum úti um allt land. Okkur Alþfl.-mönnum var margvelt upp úr aumingjaskapnum vegna þessara smánarbóta. En viti menn. Nú, þegar til útborgunar kemur í sumar, eru þessar smánarbætur, sem nefndar voru svo í vor, allt í einu kallaðar miklar tryggingabætur í þeirra eigin blöðum. Hvað hafði gerzt á meðan? Einfaldlega ekkert annað en það, að gildistöku laganna hafði verið flýtt. Þegar frv. um auknar tryggingabætur voru til meðferðar í vor á Alþ., kom þáv. stjórnarandstaða en núv. stjórnarflokkar með brtt. upp á mörg hundruð millj., án þess að gera nokkrar tillögur um tekjuauka, og höfðu um það mörg orð, hversu illa við í Alþfl. stæðum í ístaðinu fyrir hönd tryggingaþeganna. En hvar eru þessar brtt. í dag? Þið megið lengi leita, hlustendur góðir, því að ekki örlar á þeim í þessu frv., og það, sem enn merkilegra er, nú er í fyrsta sinn um lægra hlutfall að ræða til trygginga en verið hefur um margra ára skeið. Já, það er sitt hvað orð og efndir hjá sumum mönnum. En nú er langt í kosningar, og þess vegna telja þeir sig hafa efni á því að birta þjóðinni svona vinnubrögð. Á það vil ég benda og vekja á því alveg sérstaka athygli hlustenda, að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna marglýstu því yfir við kosningarnar í vor, að þeir væru allir tilbúnir að leggja tryggingunum mikið lið og stórefla bæturnar. Það eru engin rök hjá stjórnarsinnum að segja, að lögin séu í endurskoðun í dag. Ef hugur fylgdi máli til aukningar á bótunum, þá væri auðvitað eðlilegt að reikna með einhverri ákveðinni upphæð í þessu skyni, en svo er alls ekki gert.

Eins og allir vita, hafa launþegasamtökin sett fram kröfur um verulega kauphækkun. Enginn dregur í efa, að kaup muni hækka talsvert, þó að ekki sé unnt að nefna vissa tölu í því sambandi. Þrátt fyrir þetta er ekki gert ráð fyrir þessum hækkunum í frv., og mun því síðar koma til hækkana á frv., er nema sennilega nokkrum hundruðum millj. kr. Nú er nettógreiðsluafgangur frv. aðeins tæpar 50 millj. og sjá allir, að þetta er raunar sett alveg út í hött. Ríkisstj. lofar því að hækka ekki skattana, en hins vegar eru skattalögin í endurskoðun og mun endurskoðunin eiga að ganga svo fljótt fyrir sig, að ný skattalög geti tekið gildi um næstu áramót. Þetta getur verið gott og blessað. En hér er óvarlega siglt, það nær alls ekki nokkurri átt að afgreiða fjárlög með sama og engum greiðsluafgangi við núverandi aðstæður í launa- og verðlagsmálum þjóðarinnar. Slíkt mundi aðeins enn herða á þeirri spennu, sem ríkir hér og er undirrót verðbólgunnar í ríkisbúskap þjóðarinnar. Miklu fremur er réttlætanlegt og jafnvel nauðsynlegt að skapa nú verulegan greiðsluafgang til þess að mæta verri tíma seinna. Við Íslendingar höfum góða reynslu af slíkum sveiflum í hagkerfinu.

Afurðaverð er nú í heild mjög hagstætt hjá okkur, og sala á sjávarafurðum gengur mjög fljótt og vel. Eftirspurn eftir vöru og margvíslegri þjónustu er í algeru hámarki. Innflutningur er í metstöðu, og mun ríkissjóður fá geysilega auknar tekjur þess vegna. Það er grunur minn, að hæstv. ríkisstj. setji nú vel á þennan vonarpening. Hæstv. fjmrh., sem er gamall bóndi og efni í landbrh., ætti þó að vita, að meira öryggi er í því að setja á stabbann hjá sjálfum sér en treysta um of á góða afkomu náungans.

Margar greinar hafa séð dagsins ljós í málgögnum þeirra framsóknarmanna um skattvísitöluna og hvernig fráfarandi ríkisstj. hagnýtti sér ranga skattvísitölu, eins og það var orðað hjá þeim, til aukinnar tekjuöflunar. En hvað ætla þeir sér að gera nú sjálfir? Á bls. 143 í fjárlagafrv. nú er greint frá því, að skattvísitalan sé 106.5 stig og við það verði miðað. Hefði nú fyrrv. fjmrh. viljað hafa þennan hátt á, dreg ég ekki í efa, að hann hefði fengið margt óþvegið orð frá fyrri skrifendum um skattvísitöluna og misnotkun hennar til þess að skattpína hinn almenna skattgreiðanda. Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð, að vitanlega mun kaup hækka miklum mun meira en nemur þessum 6.5 stigum, og verður því skattvísitalan of lág, ef hún verður ekki hækkuð til sama hlutfalls og vaxandi tekjur koma til með að verða. Það er undirstrikað, að hæstv. ríkisstj. hefur líka aldrei lofað lækkun á heildarskatttekjunum, aðeins innbyrðis breytingu milli skattgreiðenda.

Það er ýkjulaust, að á engan mann hefur verið meira ráðist á undanförnum árum en á dr. Gylfa Þ. Gíslason, fyrrv. menntmrh. og formann Alþfl. Hann átti að vera þversum í skólamálunum og koma þar litlu í framkvæmd, og allt kerfið átti að vera meira og minna úr sér gengið á valdatímabili hans, en hann var menntmrh. í 15 ár samfleytt. Það var því forvitnilegt að kynna sér tillögur núv. menntmrh. og ríkisstj. í heild, og eins hversu fjmrh. væri örlátur á fé í menntamálin. En í ræðu sinni í fyrra með fjárlagafrv. gagnrýndi Halldór E. Sigurðsson harðlega, hve lítið fjármagn færi í nýbyggingar barna- og unglingaskóla, og eins það, að aðeins 10 millj. væru veittar til þess að jafna aðstöðu nemenda úr strjálbýli til framhaldsnáms. 10 millj. voru á fjárlagafrv., en síðar urðu það 15 millj. í lögunum. Um þessar fjárveitingar á s.l. ári fórust núv. fjmrh. orð þannig, með leyfi forseta:

„Hér er um hróplegt ranglæti að ræða, sem ekki verður þolað. Öllum var ljóst, að þessi fjárveiting var aðeins viðurkenning á nauðsyn málsins, eins og áður er fram tekið, og mundi ekki nægja til að jafna aðstöðumuninn. Það vakti því undrun, þegar ljóst var, að fjárhæðin á fjárlagafrv. árið 1971 hækkaði ekki einu sinni sem nemur hækkun námskostnaðar, hvað þá ef lítið væri á þörfina eða nemendafjölgunina. AS þannig sé tekið á máli, er skiptir sköpum fyrir æsku landsins, með fjárlagafrv., er hækkar yfir 2 000 millj. kr., munu hv. þm. ekki láta bjóða sér.“

Svo mörg voru þau orð. En hvað gerist nú í þessu frv., sem hér er til umr.? Á bls. 145 er greint frá því, að framlag til þess að jafna umræddan aðstöðumun fyrir unga fólkið úr strjálbýlinu hækki nú einmitt um 10 millj. kr. Ég spyr því: Hver er hinn seki? Er það hinn nýbakaði þm. og menntmrh. Magnús Torfi Ólafsson? Þó hækka fjárlög fyrir árið 1972 ekki um liðlega 2 000 millj., heldur hvorki meira né minna en um nærri 3 000 millj. Mér hefur ekki tekizt að gera góðan samanburð á fjárveitingum til hinna ýmsu skóla, en ekki er þar heldur um umtalsverðar breytingar að ræða fram á við. Aukning á fjárveitingu til Háskóla Íslands er nokkur, en hlutfallsleg minnkun er í fjárfestingu. Hins vegar hækkar eðlilega heildarfjármagnið í menntamálum vegna hærri launa og svo aukins mannafla, eins og hefur komið fram í fyrri ræðum hér í kvöld, og aukins kennslukrafts víða um landið. Þeir þurfa því ekki að kvíða samanburði ráðh., Gylfi Þ. Gíslason og Magnús Jónsson, sem höfðu þessi mál í tíð fyrrv. ríkisstj., mennta- og fjármálin.

Samband íslenzkra námsmanna erlendis hefur sent frá sér aths. við tillögur í fjárlagafrv. um fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Hæstv. fjmrh. kom inn á það hér áðan. að tillögurnar hefðu ekki verið fullmótaðar, og kunna því að liggja rök að því, að þær séu eins lágar og frv. ber vitni um. En í frv. er gert ráð fyrir 104 millj. kr. fjárveitingu til sjóðsins. Að áliti sjóðsstjórnarinnar er gert ráð fyrir, að fjármagnsþörfin sé allt að 250 millj. kr. Gert er rað fyrir því, að sjóðurinn taki bankalán að upphæð 60 millj. kr. Ríkissjóður þyrfti því að leggja fram allt að 190 millj. kr. til þess að geta svarað þörfinni. Hins vegar er framlag samkv. frv. aðeins, eins og áður sagði. 104 millj„ og vantar því allt að 86 millj. kr. til þess að leysa úr þörfum sjóðsins fyrir íslenzka námsmenn erlendis. Þannig er ljóst, að þetta þýðir í raun mikla lækkun á ráðstöfunarfé sjóðsins beint, og þegar tekið er tillit til verulegrar aukningar námsmanna, má öllum ljóst vera, að tillögurnar í frv. eru með öllu óraunhæfar. Þeir sömu menn hafa áður lofað heitu sumri, kannske vorar vel í þeim efnum aftur.

Fræðslumálin í heild taka til sín 16.5% af heildarútgjöldum ríkisins og er aðeins einn flokkur annar hlutfallslega hærri, en það eru tryggingamálin með 28.7%, eins og fjárlagafrv. liggur fyrir nú. Fræðslumálin fá þannig þrátt fyrir allt 2 309 millj. til sín. Auk þessa fá söfnin, listir og önnur menningarstarfsemi 222 millj. kr. Vissulega eru þetta miklir peningar, og e.t.v. kann sumum að þykja nóg um.

Ekki eru tök á því að fjalla mikið um hvert einstakt rn., hvernig það fær sitt fjármagn. Er það raunar óþarfi, því að það hefur verið gerður rækilegur samanburður á því, hæði af hæstv. ráðh. og fyrrv. ráðh., Magnúsi Jónssyni. Þó get ég ekki stillt mig um að minnast á viss rn. og fjármagnið, sem til þeirra fer. Ég vil byrja á utanrrn. Mörgum hefur stundum fundizt of miklu eytt í utanríkisþjónustuna, og man ég eftir harðri gagnrýni í því efni í málgögnum framsóknarmanna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að of litlu fjármagni hafi verið ráðstafað þangað og hér þurfi að verða breyting á. Þjóð, sem á eins mikið undir góðum viðskiptakjörum og við Íslendingar, verður að að leggja nokkuð af mörkum til utanríkisþjónustu og annarrar slíkrar starfsemi til þess að kynna sig og það, sem hún hefur fram að færa. Í sendiráðin fara um 75 millj. kr. og getur það ekki verið minna. Aukin kynning er hafin á vegum rn. vegna landhelgismálsins, og hafa verið gefin út fjölrituð gögn í þessu skyni. Þessi þáttur er alls ekki nægilega góður. Aðeins er þetta til á ensku, — hvers vegna ekki einnig á einhverju Norðurlandamálinu eða á þýzku? Hvers vegna ekki vel prentaður bæklingur með myndum af fiskveiðum og vinnslu aflans og atvinnulífi frá hinum dreifðu byggðum landsins? Hér þarf að semja miklu meira og vanda þessi landkynningarrit mjög mikið. Enginn mun telja þá peninga eftir, sem varið er í kynningu á mesta hagsmunamáli okkar, landhelgismálinu.

Nátengd utanríkismálunum er starfsemi Landhelgisgæzlunnar, en á næsta ári verður meira álag á starfsliði þeirrar stofnunar en nokkru sinni fyrr. Mér virðist því gert ráð fyrir of litlum fjármunum til Landhelgisgæzlunnar, og þótt hún fái 15 millj. kr. aukafjárveitingu síðla ársins, mun það varla duga. Ef við ætlum að verja hin nýju fiskveiðitakmörk okkar af myndarskap, verðum við að leggja Landhelgisgæzlunni til nauðsynlegt fjármagn, jafnvel þótt gefið hafi verið í skyn af hæstv. sjútvrh., að ekki svo mjög miklu meiri vinna væri við gæzlu á 50 mílna mörkunum, — sú skoðun er afar hæpin.

Sjómælingarnar þurfa á stóraukinni aðstöðu að halda við sitt starf. Nauðsyn ber til þess að mæla upp allt landgrunnið með nýjustu tækni og gefa síðan út fullkomið nýtt sjókort handa fiskimönnum okkar hið bráðasta. Það er hálfgerð skömm, að sjómenn okkar verði að notast við erlend kort og þá einkum við fiskveiðar lengra frá landinu. Hér þýðir ekki að fresta málinu miklu lengur.

Undir liðnum dómgæzla og lögreglumál eru veittar samkv. frv. 568 millj. kr. Þetta er há upphæð. En þó mun svo, að t.d. gæzla á vegum og umferðarmálin munu þurfa meira fjármagn, ef vel á að vera. Slysum í umferðinni fer ískyggilega fjölgandi og við verðum að auka fræðslu og leggja í fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að koma í veg fyrir slysin. Þetta er sameiginlegt átak hjá þjóðinni og á ekki að vera smitað af pólitík neins konar. Dómsmálin hafa verið eins konar Akkillesarhæll í stjórnarráðinu, og enn er kurr meðal dómara vegna launakjara. Ég á ekki kost á því að meta að fjármagni til, hvað æskilegt er í þeim efnum, en óhjákvæmilegt er að koma þeim upp úr núverandi ófremdarástandi. Það mun kosta aukið fjármagn, ef dæma má af fréttum um málið. Ég verð að segja frá, hversu mikill munur er á fjölda löggæzlumanna hjá okkur og t.d. í jafnstórum bæjum í Danmörku. Staður er nefndur Hirtshals á Jótlandi, og hafa íslenzk síldveiðiskip selt afla sinn í stórum stíl þar undanfarin ár. Þessi staður hefur mjög svipaða íbúatölu og Kópavogur eða Akureyri, en þar eru starfandi fastir 2–3 lögregluþjónar. Hins vegar eru lög hér þannig, að sjálfkrafa aukning kemur fram við ákveðna íbúafjölgun. Er þetta ekki nokkuð vel að verið? Það er ekki að gagnrýna löggæzluna að vilja breyta hér til. Við verðum sjálfir að athuga, hvað er að hjá okkur, þegar löggæzlulið okkar hér uppi á Íslandi er að verða fimm sinnum fjölmennara en hjá Dönum og það í fiskibæjum hjá þeim.

Viðskrn. hefur með höndum niðurgreiðslur. Þær nálgast nú 1 700 millj. kr. á næsta ári eftir áætlun. Þessi upphæð hefur farið vaxandi ár frá ári og hækkar um 508 millj. kr. samkv. frv. Fjmrh. greindi frá því áðan, að allt kerfið væri nú í gagngerðri endurskoðun, og er það vel. Þegar slíkt kerfi er orðið svo umfangsmikið sem raun ber vitni, má mikið vera, ef einhverjir geta ekki matað krókinn sæmilega á allri þessari millífærslu. Hér er eitt mesta vandamál okkar á ferðinni. Lausnin á þessu er nátengd því, við hvaða verði við ætlum að framleiða hér heima ýmsar neyzluvörur okkar. Sjálfstæð þjóð verður að hafa lágmarksframleiðslu örugga við meðalárferði, en vandinn liggur í góðu skipulagi. Því miður eru menn afar ósammála í þessu efni. Vonandi skilja menn nú, að tími er kominn til þess að setjast niður í bróðerni og leggja sig fram um lausn á þessu. Við Alþfl.-menn erum fyrir löngu búnir til þess. Það er engin lausn á neinu vandamáli að brigzla ákveðnum stjórnmálaflokki um illkvittni eða annað enn verra í garð ákveðinnar stéttar, þótt lagt sé til, að visst framleiðslukerfi sé tekið til fullkominnar endurskoðunar, vegna þess að það skilar ekki hlutverki sínu í dag við ríkjandi aðstæður og mun ekki gera það um ókomin ár, nema breyting verði þar á. Þess vegna fögnum við því, að hæstv. landbrh. styður endurskoðun á framleiðslu- og niðurgreiðslukerfinu.

Fjmrn. tekur til sín samkv. frv. 731 millj. kr. Á vegum þessa rn. er miklu fé úthlutað og er miklu meira sótt á en unnt er að láta af hendi. Toll- og skattheimtan kostar 220 millj. kr. og mun sennilega þurfa að eflast, svo að innheimtan gangi jafnt yfir. Geysileg skriffinnska er orðin við allt skatta- og tollakerfið. Erfitt mun sennilega að draga hér nokkuð úr, en það er eins og vélvæðingin heimti margt fólk. Hins vegar skila vélarnar óhemjumagni af upplýsingum frá sér, — en hversu dýru verði má kaupa þær? Hvað hjálpa þær mikið til þess að gera allan ríkisreksturinn einfaldari og traustari?

Hér er um mikið vandamál að ræða. Almennt lítur fólk hið opinbera oft hornauga og segir: Það hrifsar til sín of mikið. Á hinn bóginn eru gerðar geysilegar kröfur til þess á móti, og um leið og hallar undan fæti er komið með kröfur um hjálp eða einhvers konar aðstoð. Þetta er sjálfsagt og eðlilegt. Nútíma þjóðfélag á að veita þegnum sínum visst lágmarksöryggi frá vöggu til grafar. Það er krafa okkar Alþfl.-manna. Á hinn bóginn verðum við að gera kröfu til hins almenna borgara á móti, að hann skilji og meti af sanngirni ríkisbúskapinn og allt fjármálakerfið, sem nútíma þjóðfélag byggir tilveru sína á. Almenningur þarf að fá góðar upplýsingar um, hvernig ríkið ráðstafar þeim peningum, sem það innheimtir af þegnunum. Því miður eru þessar útvarpsumr. í núverandi formi, sem hér eru hafðar frammi í kvöld sem endranær, algerlega úreltar að mínu viti og hrein tímaeyðsla. Við eigum nú að taka vissa þætti fjárlagafrv. fyrir í sjónvarpinu, t.d. hvert rn. fyrir sig, og vanda vel til þess og sýna glögglega með skýringarmyndum ásamt tölum, hvernig fjármögnun viðkomandi rn. á sér stað og hvernig ráðstöfun peninganna fer fram. Þetta þarf að vera valinn hópur, sem skilji, hvað um er að ræða. Með þessum hætti mundi hinn almenni horgari skynja næstum því áþreifanlega, hvernig allt ríkiskerfið vinnur. Þessu þarf að breyta sem fyrst, og ég leyfi mér hér með að skora á hæstv. fjmrh. að heita sér fyrir úrbótum í þessu skyni.

Oft er kvartað yfir þunglamalegri afgreiðslu hjá ríkinu og kann svo að vera í sumum tilfellum. Þar sem ríkissjóður er langstærsti atvinnuveitandi landsins, er varla að undra, þótt einhvers staðar séu misjafnir starfsmenn hjá því. Hins vegar má hugsunarhátturinn breytast verulega, fólk vinni með því hugarfari, að það sé því og öllum öðrum fyrir beztu, að vel og samvizkusamlega sé starfað hjá því opinbera, en þar eigi ekki að slá slöku við og reyna að hafa mest út fyrir sjálfan sig.

Alþfl. vill traust og ábyrgt ríkisvald eða stjórnarráð. Við gerum okkur grein fyrir því, að þegar til lengdar lætur fer bezt á því fyrir hvern og einn, að staða ríkissjóðs sé traust og hann geti fljótt brugðið við, ef einhvers staðar hallar undan fæti í atvinnulífinu eða aðrir erfiðleikar steðja að, eins og alltaf mun eiga sér stað hér á Íslandi. Hins vegar viljum við ekki neina sýndarmennsku, eyðslu og bruðl. Við viljum, að ríkisfyrirtæki séu rekin heiðarlega og með nánu samstarfi. Það er mikið verkefni að fá góða lausn á betra samstarfi í þjónustu hins opinbera, og hafa verið gerðar athuganir í þessu skyni og hæstv. ráðh. hefur lofað úrbótum í því efni. Bætt skipulag á að geta sparað ríkissjóði stórfé. Oft heyrist, að vissir hópar ríkisstarfsmanna geti komið svo fram sínum vinnutíma, að mikil yfirvinna falli til. Þetta er vissulega atriði, sem þarf að athuga alveg sérstaklega, og hvernig yfirvinna á vegum ríkisins skiptist á milli stofnana og starfsliðs þeirra. Það er ekki nýtt, að ríkisstarfsmaður þurfi að sýna mikla samvizkusemi og árvekni.

Á s.l. ári voru gerðir nýir launasamningar við ríkisstarfsmennina. Þeir höfðu í för með sér mikla kauphækkun, og voru allir hér á hv. Alþ. sammála um réttmæti þess. Eins og fram kemur í fjárlagafrv., er launahækkun vegna samninganna allt að því 1000 millj. kr. á næsta ári. Það er ekki svo lítið. Aðrar atvinnugreinar hafa kvartað yfir þessum samningum og segja þá of góða, of hagstæða fyrir ríkisstarfsmenn, atvinnugreinarnar geti ekki keppt við ríkið um gott vinnuafl lengur. Nokkuð er til í þessu, og er hér sem áður vandratað meðalhófið. Ekki getur ríkið setið eftir með lélegt vinnulið. Það væri óhugsandi til lengdar. Hins vegar er óæskilegt, að hið opinbera fari í beint kapphlaup um vinnuafl við framleiðsluatvinnuvegina og lami þá þess vegna.

Herra forseti. Núv. ríkisstj. hefur gert langan og góðan málefnasamning að þeirra dómi. Vonandi hafa þeir möguleika á því að framkvæma mikið af sínum miklu loforðum. Við í Alþfl. hér á hinu háa Alþingi munum styðja hvert það heilbrigt mál, sem fram verður borið fyrir almenning í landinu. Hins vegar munum við vissulega gagnrýna það, sem að okkar dómi fer miður og ekki er til almennra heilla. Þótt ég hafi hér nokkuð deilt á gerð fjárlaga og vitnað í því sambandi í fyrri orð núv. fjmrh., þegar hann var í stjórnarandstöðu, vil ég segja það, að varla verða nokkur fjárlög svo samin, að ekki megi benda á eitthvað, sem æskilegra væri að hafa meira fjármagn til að ráðstafa í. En það vildi ég undirstrika, að léttara er að benda á þarfirnar en að koma með úrlausnina. Og þennan möguleika notfærðu núv. stjórnarflokkar sér óspart á undanförnum árum og virðist það hafa horið nokkurn árangur.

Núv. fjmrh. er gamalreyndur í fjvn., og geri ég því auknar kröfur til úrræða hans við mótun fjárlaga en ella væri. Við, sem kosnir höfum verið í fjvn., gerum okkur ljóst, að mikið meira af erindum muni koma en unnt er að veita fulla úrlausn á. Það er hins vegar von mín, að vegna hins hagstæða útlits í afkomu þjóðarinnar megi auka vissar fjárveitingar, frá því sem nú er gert í fjárlögum, til hinna brýnustu verkefna. Það sé góðu heilli gert fyrir land og þjóð. — Góða nótt.