21.03.1972
Sameinað þing: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í D-deild Alþingistíðinda. (4531)

223. mál, félagsmálafræðsla í skólum

Flm. (Hafsteinn Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég ætla að mæla hér fyrir till. minni á þskj. 460 um félagsmálafræðslu í skólum. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að framkvæmd verði ákvæði námsskrár og skyldunámsstigsins um fræðslu og þjálfun í félagsmálum fyrir nemendur á barna— og unglingaskólastigi. Einnig verði athugað, hvort ekki sé hægt sem fyrst að taka félagsmálanám sem kjörgrein á námsskrá gagnfræðadeilda og framhaldsdeilda gagnfræðaskólanna. Jafnframt verði tryggt, að þeir skólar, sem útskrifa kennara, sjái nemendum sínum fyrir nægilegri menntun til að veita börnum og unglingum tilsögn á sviði menningarstarfsemi og hagnýtra félagsstarfa.“

Í lýðræðisþjóðfélagi er það félagsleg skylda einstaklingsins að takast á hendur ýmiss konar félagsstörf í opinberri þjónustu eða í frjálsu félagsstarfi. Á undanförnum árum hefur oft verið vakið máls á því í ræðu og riti, að erfitt væri að fá ungt fólk til félagsstarfa á hinum margvíslegustu sviðum þjóðlífsins, svo sem í sveitarstjórnarmálum, stéttarfélögum. í ungmennafélögum og íþróttahreyfingunni. Ýmsar félagshreyfingar, t.d. verkalýðshreyfingin, samvinnuhreyfingin og ungmennafélagshreyfingin, hafa brugðizt við þessum vanda með ötulli og árangursríkri félagsmálafræðslu, en sú virðingarverða starfsemi nær aldrei til nægilega margra miðað við þarfir félagsstarfseminnar í landinu og þjóðfélagsins í heild.

Ég tel augljóst, að hér sé um brýnt þjóðfélagslegt hagsmunamál að ræða og að mínum dómi hefur ríkisvaldið sjálft ráð á því tæki, sem ætti að duga til stórra afreka á þessu sviði, en það er skólakerfið í landinu.

Námsskrá skyldunámsstigsins gerir ráð fyrir fræðslu í félags— og menningarmálum og vissulega er viðleitni til þess að framkvæma þau ákvæði námsskrárinnar í sumum barnaskólum, en því miður óvíða og allt of lítið. Ein veigamesta ástæðan fyrir þessari vanrækslu er sú alvarlega staðreynd, að þeir skólar, sem útskrifa kennara, hafa ekki búið kennaraefnin undir leiðbeinendastörf á sviði félagsmála. Á síðustu árum hafa gagnfræðaskólar leitazt við að koma á kjörgreinakerfi og hefur sú viðleitni aukizt verulega við stofnun framhaldsdeilda fyrir gagnfræðinga. Hafa þannig verið opnuð nokkur kjörsvið, svo sem verzlunarkjörsvið, tæknikjörsvið, hjúkrunarkjörsvið og sums staðar nokkur fleiri, en mjög er þetta misjafnt í hinum ýmsu skólum og takmarkast að sjálfsögðu af kostnaði þeim, sem því fylgir.

Ef menntun kennara kemst í það horf, sem lagt er til í þáltill. minni, ætti án verulegs tilkostnaðar að vera hægt að setja á stofn félagsmálakjörsvið í gagnfræðaskólum. Í nokkrum framhaldsskólum hefur verið sýnd virðingarverð viðleitni í félagsmálafræðslu, svo sem fundarstjórn og ræðumennsku, sums staðar hefur líka verið komið á námskeiðum í framsögn og leiklist og er sjálfsagt að koma slíkri fræðslu inn í þessa kjörgrein. Þá er og vel þess vert að geta þeirrar viðleitni, sem Reykholtsskóli í Borgarfirði hefur haft í frammi með sinni leiðbeinendadeild.

Það er mjög alvarleg staðreynd, að allur þorrinn af ungu fólki, sem kemur að loknu skólanámi til starfa á félagslegum vettvangi, — því að flestir, ef ekki allir, eru í einhverjum félögum, sumir reyndar í mörgum, — er ekki aðeins alveg þjálfunarlaus á sviði félagslegrar stjórnunar og skipulagningar, heldur vanmegnugur að tjá skoðanir sínar eða að útskýra málefni á mannfundum. Þetta leiðir ósjaldan til andlegrar einangrunar og vanmetakenndar einstaklingsins og veldur því, að góðar hugmyndir komast ekki á framfæri og góðir hæfileikar fá ekki að njóta sín. Þetta er brestur í skólakerfinu og á þessu verður að ráða bót.

Það mun flestum kunnugt, að þátttöku í almennum fundarstörfum hefur hrakað mjög hin síðari ár. Almennur menntunarskortur á þessu sviði er auðvitað ekki eina orsök þess, heldur liggja til þess veigamiklar þjóðfélagslegar orsakir. En aukin félagsmálafræðsla í skólum á að geta breytt þessari óheillaþróun og glætt félagsvitund einstaklinganna.

Fyrir þremur árum setti Ungmennafélag Íslands á stofn eigin félagsmálaskóla í því ákveðna markmiði að leggja sitt af mörkum til að efla áhuga fólks á félagsstörfum og stuðla að þjálfun þess í skoðanatjáningu, ræðumennsku og öðrum hagnýtum félagsstörfum. Ungmennafélögin á Íslandi hafa raunar allt frá árdögum hreyfingarinnar í byrjun aldarinnar verið einn helzti félagsmálaskóli þjóðarinnar, þar sem mikill fjöldi æskufólks hefur hlotið félagslegt uppeldi og hagnýta þjálfun í skoðanatjáningu og öðru félagsstarfi.

Félagsmálaskóla Ungmennafélags Íslands er ætlað að halda þessu merki á lofti með almennri félagsmálafræðslu, ekki einungis fyrir ungmennafélaga, heldur sem víðast, þar sem áhugi er fyrir hendi og áhuginn er svo sannarlega fyrir hendi. Hvaðanæva að hafa borizt óskir um námskeið og til þessa hafa verið haldin 12 námskeið, þar af 7 námskeið fyrir aðila utan UMFÍ. Nemendur skipta hundruðum og það er ánægjulegt, að sumt af því fólki, sem á þessum námskeiðum sté sín fyrstu spor í ræðustól, lætur nú skörulega að sér kveða á málþingum og í félagsmálum.

Ég vil sérstaklega geta þess, að félagsmálaskóli UMFÍ hefur lagt áherzlu á samvinnu við skóla landsins og á s.l. ári voru haldin námskeið, bæði í Kennaraskóla Íslands og Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Námskeið þessi hafa gefið mjög góða raun, en námskeiðin í Kennaraskóla Íslands eru aðeins áhugamannanámskeið á vegum nemendafélagsins og aðeins lítill hluti áhugasamra nemenda, sem tekur þátt í þeim.

Ungmennafélag Íslands hefur látið semja margs konar kennslugögn fyrir skólann, því að nær algjör skortur er á handbókum fyrir flestar greinar slíkrar fræðslu. Þess má þó geta í þessu sambandi, að nýstofnað æskulýðsráð ríkisins og framkvæmdastjóri þess vinna nú ötullega að öflun fræðsluefnis á þessum sviðum.

Rekstur félagsmálaskólans hefur verið fjárhagslega erfiður, en áhugi fyrir starfi hans hefur verið svo mikill, að lagt hefur verið kapp á að efla hann sem mest. Ég get fullyrt, að þessi stofnun er reiðubúin til aðstoðar við að bæta félagsmálafræðsluna í hinu almenna skólakerfi og jákvæð reynsla í þeim efnum er þegar fyrir hendi. Vonandi gæti slík samvinna orðið til að hraða þeirri þróun, sem till. mín gerir ráð fyrir. Markmið félagsmálafræðslu í skólum hlýtur að vera þroskun einstaklingsins og þjálfun hans í því, augnamiði að gera hann hæfan, ábyrgan og starfandi þjóðfélagsþegn. Maðurinn er félagsvera og þess vegna má ekki vanrækja eða gleyma einum veigamesta þættinum í uppeldismálum þjóðarinnar, sem er að efla og glæða félagslega vitund og félagsþroska æskunnar.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég leyfi mér að fara þess á leit við hv. d., að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.