21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

1. mál, fjárlög 1972

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Fjárlög ríkisins eru afgreidd með nokkuð óvenjulegum hætti að þessu sinni. Ný ríkisstj. hefur tekið við undirbúningi fjárlaga úr höndum fráfarandi stjórnar á síðari helmingi ársins. Má því segja með nokkrum sanni, að hér sé á ferðinni afkvæmi, sem getið sé af fráfarandi stjórn, en fætt og fóstrað undir handarjaðri núv. stjórnar. Engir vita betur en Íslendingar, að ættfræðin skiptir máli, og þessu ættfræðilega atriði má sízt af öllu gleyma, þegar Alþ. tekur nú til meðhöndlunar þetta hið fyrsta af mörgum væntanlegum börnum núv. stjórnar.

Lítum fyrst á tekjuhlið frv. Að sjálfsögðu mótast tekjurnar fyrst og fremst af þeim skattalögum, sem í gildi eru og nýja stjórnin er bundin við meðan breyting hefur ekki verið gerð. Endurskoðun skattalaga er nú hafin, en þar er um gífurlegt verk að ræða og enn ekki ljóst, hvenær því verður lokið. Hin nýja ríkisstj. hefur engu lofað um, að skattar verði lækkaðir. En því hefur fyrst og fremst verið heitið að skipta byrðinni með réttlátari hætti.

Um útgjöld ríkisins gegnir svipuðu máli og um tekjurnar. Gjöldin mótast af gefnum loforðum, gerðum samningum og settum lögum. Fáum getur dulizt, að nýja ríkisstj. tekur við stórfelldum vandamálum, sem hrúgazt hafa upp á seinustu misserum og fráfarandi stjórn hefur skilið eftir sig án þess að gera nokkra tilraun til þess að leysa. Lítum nánar á víðskilnað fráfarandi stjórnar. Á 12 ára valdaskeiði hennar var verðbólga hér á landi meiri en áður hafði þekkzt. Efnahagslífið fór nýja og nýja kollsteypu svo til á hverju ári og tvísvar sínnum tvívegis var gengi krónunnar fellt. Verðstöðvunin, sem á var sett 7 mánuðum fyrir kosningar, stöðvaði ekki nema á yzta borði þá verðbólguskriðu, sem ætt hafði áfram jöfnum hraða allan seinasta áratug. Stórfelldar hækkanir, sem leyfðar voru skömmu fyrir verðstöðvun, hafa aftur kallað á nýjar hækkanir. Verðlagningarvandamálin hafa hrúgazt upp. Afleiðingar hrikalegra gengisfellinga 1967 og 1968 eru enn að koma fram með ýmsum hætti. Verðstöðvun með fáeinum pennastrikum nokkrum mánuðum fyrir seinustu kosningar, án nokkurra frekari mótaðgerða gegn verðbólgunni, hefur því verið lítið annað en gálgafrestur, biðtími meðan menn neituðu að horfast í augu við vandann. Þegar nýja ríkisstj. tekur við, er enga verðbólgu að sjá. Dýrtíðarflauminum hefur öllum verið safnað saman í stóra stíflu, sem stöðugt hækkar í. Þetta er eitt af hinum risavöxnu vandamálum, sem nýja stjórnin tók í arf frá hinni gömlu og olli miklum hrolli þegar í fyrravetur meðal hreinskilnustu stuðningsmanna fráfarandi stjórnar.

Jafnhliða þessu fær svo nýja stjórnin upp í fangið þann mikla vanda, sem fylgir niðurgreiðslukerfi fráfarandi stjórnar. Samkv. því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru 1 600 millj. kr. ætlaðar í niðurgreiðslur. Langmestur hluti af þessum niðurgreiðslum var ákveðinn í tíð fráfarandi stjórnar, en nýja stjórnin hefur orðið að bæta því við, sem fylgdi í kjölfar óhjákvæmilegra leiðréttinga á kaupgjaldsmálum launþega. Hér er um gífurleg vandamál að ræða, sem enn hafa ekki verið leyst. En þessi mikla upphæð er til marks um, hvílík nauðsyn er, að allt kerfið verði nú tekið til endurskoðunar. Auk alls þessa hefur svo nýja ríkisstj. þurft að taka á sig ýmiss konar meiri háttar útgjöld umfram þau, sem fyrir voru, vegna margs konar samninga frá fyrri tíð. Þannig er t.d. búið að ákveða hækkanir til opinberra starfsmanna fyrir löngu, og nema launahækkanir samtals í ýmsu formi um 900 millj. kr. Mjög háar fjárhæðir hefur einnig þurft til að uppfylla gefin fyrirheit bæði í tryggingamálum, heilbrigðismálum og ýmsum framkvæmdamálum.

Viðskilnaður fráfarandi stjórnar er heldur ljótur og ber því skýran vott, að lífað hefur verið fyrir líðandi stund og allt látið draslast fram yfir kosningar meira eða minna stefnulaust. Hitt er svo allt annað mái. að ytri aðstæður fyrir þjóðarbúið hafa verið einstaklega góðar núna á seinustu misserum, og það hefur vissulega bjargað miklu. Árferði til lands og sjávar hefur verið hagstætt, heyskapur mikill og aflafengur heldur góður. Aflinn á vetrarvertíð náði að vísu ekki því hámarki, sem hann náði í fyrra, en sumar- og haustaflinn hefur verið ágætur. Úrslitum hefur þó ráðið frábærlega gott verð á erlendum mörkuðum, sem á mestan þátt í því, að talið er, að heildartekjur þjóðarinnar muni vaxa á þessu ári um 11%, en sjálf framleiðslan er talin munu aukast um 5–6% á sléttu verði. Varla þarf þó að taka fram, að gott árferði og hagstætt markaðsverð verður hvorki þakkað fráfarandi né núv. ríkisstj. En vegna þessara óvenjulegu ytri aðstæðna hafa tekjur ríkisins aukizt meira en nokkurn grunaði. Innflutningur hefur verið miklu meiri en áður og þar með öll umsetning, sem aftur hefur haft í för með sér stórauknar tekjur af tollum og söluskatti. Það er eins ótvírætt og verða má fyrir hvern, sem vill kynna sér staðreyndir, að ástandið í peningamálum ríkis og þjóðar hefði verið harla ískyggilegt nú í vetrarbyrjun, að ekki sé meira sagt, ef ekki hefði komið til hið hagstæða árferði og háa afurðaverð á erlendum mörkuðum. Þúsundir milljóna hefði á vantað til að endar næðu saman, og þetta var einmitt það, sem við blasti, þegar hrollurinn margumræddi fór um hagfræðiprófessorinn Ólaf Björnsson.

Ég hef rætt hér nokkuð um viðskilnað fráfarandi ríkisstj. Enn er þó ótalinn sá þátturinn í viðskilnaði fyrri stjórnar, sem sízt af öllu má gleymast, en það er viðskilnaðurinn við þá ýmsu hópa þjóðfélagsins, sem minnstar tekjurnar hafa. Þannig stóð á, þegar stjórnin fór frá, að þrátt fyrir stórauknar þjóðartekjur og mikla tekjuaukningu hjá ýmsum þjóðfélagshópum, áttu flestar láglaunastéttir þjóðfélagsins eftir að fá leiðréttingu sinna mála. Fyrst er eðlilegt að minna á gamla fólkið og öryrkjana, sem allra minnst hafa, en áttu þó ekki að fá neina leiðréttingu á kjörum sínum fyrr en á árinu 1972. Það var eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. að láta 20% hækkun örorkubóta og ellilauna koma þegar til framkvæmda, og áfram verður haldið á þeirri braut. Sjómenn á fiskiskipum hafa lengi verið frámunalega illa launaðir, þótt starf þeirra sé allt í senn eitt hið hættulegasta og erfiðasta, sem hugsazt getur, og um leið eitt allra mikilvægasta frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Þegar í fyrravetur var farið að bera á því, að skortur væri á dugandi sjómönnum til starfa, enda fullkomlega eðlilegt, að þeir leiti til rólegri starfa í landi, þegar þar er nóg að gera og öllum ráðum er beitt til að rýra sjómannshlutinn. Þessu breytti sjútvrh. þegar á fyrstu starfsdögum sínum og hækkaði kjör sjómanna á fiskiskipum og togurum um 18%. Það varð heldur en ekki gauragangur í blöðum fráfarandi stjórnar, þegar þetta tvennt var gert, að auka tryggingarnar og bæta kjör sjómanna. „Furðulegar ráðstafanir“, sagði Morgunblaðið 21. júlí s.l. um hækkunina til sjómanna. Og sama blað sagði, með leyfi forseta:

„Það er augljós stefna ríkisstj. að slá upp veizlu í þjóðarbúinu og útdeila öllum tiltækum föngum þegar í stað.“

Þeir hinir sömu, sem samþykkt höfðu stórfelldar hækkanir til hæst launuðu embættismanna ríkisins, leyfðu sér nú að býsnast yfir hruðli vinstri stjórnarinnar og kölluðu það veizluhöld, þegar gamla fólkið fékk 6 þús. kr. til að lifa af á mánuði. Þessi furðulegu viðbrögð stjórnarandstæðinga sýna svo glöggt sem verða má, hvers mátt hefði vænta, ef þeir hefðu farið áfram með völd í landinu. Sjómenn hefðu leitað í land í vaxandi mæli, sjósókn hefði minnkað, afli dregizt saman, undirstaðan, sem allt annað hvílir á, hefði veikzt í stað þess að vaxa og stækka eins og nú er. Og hvers hefði mátt vænta nú í haust, ef fráfarandi stjórn hefði ráðið ferðinni? Enginn þarf að efast um, að komið hefði til stórfelldra verkfalla og vinnustöðvana, sem kostað hefðu þjóðarbúið hundruð ef ekki þúsundir millj. kr., eins og oft hefur gerzt á nýliðnum áratug. Vinnuveitendur hefðu talið sig hafa sterka aðstöðu til að hafna launahækkunum og styttingu vinnutímans. Nú er taflinu snúið við. Verkalýðshreyfingin hefur loksins fengið ríkisvaldið að bakhjarli. Stytting vinnuvikunnar, lenging orlofs og 20% hækkun launa í áföngum er beinlínis á stefnuskrá stjórnarvalda og þess vegna eru nú auknar líkur á því, að takast megi að leysa úr deilu verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda á friðsamlegan hátt.

Og enn má lengi rekja hinn langa slóða óleystra vandamála, sem fráfarandi ríkisstj. hefur skilið eftir sig. Á miðju sumri kom í ljós, að stærsta skipasmíðastöð landsins var algerlega komin í þrot og leitaði á náðir ríkisvaldsins um fyrirgreiðslu, sem talin er nema mörgum tugum millj. Ein af stærstu niðursuðuverksmiðjum landsins, Norðurstjarnan í Hafnarfirði, sem reyndist einnig komin í mikla þröng, bað um leyfi að mega selja vélarnar til útlanda og hætta þar með öllum rekstri. Almennt má segja, að undir kraftlausri forustu fráfarandi ríkisstj. hafi íslenzkt atvinnulíf oltið áfram stefnulaust og stjórnlaust. Áætlanir á sviði einstakra atvinnugreina hafa engar verið til. Ef sæmilegan hagnað hefur mátt fá á ákveðnu sviði, hafa tugir manna rokið til og fjárfest hundruð millj. í vélum og tækjum. Meginhluti fjárins hefur verið fenginn að láni af almannafé, úr opinberum sjóðum og lánastofnunum, sem lánað hafa hver um sig meira eða minna blindandi án nokkurrar yfirsýnar yfir þróun viðkomandi atvinnugreinar. Afleiðingin hefur oft orðið sú, að allt of margir aðilar hafa lent í sams konar framleiðslu eða tekið upp svipaða þjónustu, sem aftur hefur leitt til þess, að fyrirtækin hafa verið allt of lítil og óarðbær og álagning að sama skapi há. Það er einhuga ásetningur stjórnarflokkanna þriggja, að á verði komið markvissari vinnubrögðum í atvinnumálum þjóðarinnar og virkari stjórn á fjárfestingarmálum. Með væntanlegu frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins verður stefnt að því að sameina í einni sterkri stofnun tvo þýðingarmestu þætti atvinnumála, víðtæka áætlunargerð og stjórn fjárfestingarmála.

Formaður Sjálfstfl., hv. þm. Jóhann Hafstein, fjallaði nokkuð um málefnasamning ríkisstj. í langri ræðu s.l. mánudag. Fátt, sem þar kom fram, getur talizt svaravert, enda hefur þm. tekið upp þess háttar ræðustíl síðan hann hvarf úr ráðherrastói. sem helzt virðist ætlaður til skemmtunar fyrir baráttuglaða Heimdallarstráka. Í fáeinum háðsglósum; sem hann varpaði fram um væntanlega Framkvæmdastofnun ríkisins, reyndi hann að telja mönnum trú um, að verið væri að stofnsetja nýtt leyfakerfi, eins og hann orðaði það, með leyfi forseta, „úthlutunarkerfi til þess að úthluta gæðum lífsins til einstaklinganna af opinberum pólitíkusum“. Það þarf tæpast að taka fram, að þetta er innantómur áróður. Það hefur enginn lagt til og enn síður ákveðið, að upp verði tekin úthlutun fjárfestingarleyfa eins og Sjálfstfl. stóð fyrir á sínum tíma. Hins vegar er óhjákvæmilegt og sjálfsagt að reyna að tryggja, að fjármagn úr opinberum sjóðum og lánastofnunum renni ekki í hvaða vitleysu sem vera skal, heldur til framkvæmda, sem þurfa að hafa forgang af þjóðhagslegum ástæðum. Meðan lánsfjármagn er ekki ótakmarkað, verður það alltaf svo, að sumar framkvæmdir njóta lánsfyrirgreiðslu og aðrar ekki. Spurningin er aðeins sú, hvort tiltæku lánsfjármagni sé ráðstafað í blindni með happa- og glappaaðferðinni eða hvort reynt sé að tengja útlánin, eftir því sem unnt er, við fyrir fram gerðar áætlanir um skynsamlegasta uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega.

Það var eitt megineinkennið á fjármálakerfi fráfarandi stjórnar, að hundruð millj. kr. voru veitt flokksgæðingum, sem m.a. kepptust um að byggja sem glæsilegastar verzlunar- og skrifstofuhallir. Á sama tíma var sáralítið fé afgangs til ýmiss konar atvinnugreina, sem afla gjaldeyris og hljóta að vera undirstöðugreinar í atvinnulífi þjóðarinnar. Tökum sem dæmi niðursuðu- og niðurlagningariðnað landsmanna. Meðan nálægar fiskveiðiþjóðir hafa byggt upp slíkan iðnað hröðum skrefum, hefur allt hjakkað hér í sama farinu árum saman. Ekkert átak hefur verið gert af opinberri hálfu til að afla markaða. Fyrir nokkrum árum voru fimm niðursuðuverksmiðjur búnar að útvega sér mikla fjárhæð að láni frá erlendri lánastofnun, sem hafði sannfærzt um möguleika þessarar íslenzku iðngreinar og vildi fjármagna sókn þeirra inn á erlenda markaði. En innlend bankafyrirgreiðsla, sem sett var að skilyrði, fékkst aldrei. Markaðsmálin hafa stöðugt verið í algerum molum, en innlendar lánastofnanir hafa neitað að veita óhjákvæmileg hráefnis- og afurðalán, nema samningar um sölu til erlendra aðila lægju fyrir. Málefni þessa iðnaðar hafa því verið í algerum vítahring. Þessu þarf að breyta, og það verður gert á grundvelli áætlunarbúskapar og í samræmi við augljósa hagsmuni þjóðarinnar.

Munurinn á stefnu núv. og fráfarandi ríkisstj. í atvinnumálum kemur einnig afar skýrt í ljós í tengslum við raforkumál landsins. Fráfarandi stjórn var búin að bíta í sig þá kreddu, að ekki væri mögulegt að ráðast í stórar virkjanir, nema áður væri búið að semja um raforkusölu til útlendinga. Ítrekaðar yfirlýsingar hv. þm. Jóhanns Hafstein, hæstv. fráfarandi iðnrh., benda ótvírætt til þess, að ekkert frekar hefði verið aðhafzt í virkjunarmálum, ef illa hefði gengið að finna erlenda kaupendur. Eini atvinnureksturinn, sem notið hefur frábærrar fyrirgreiðslu íslenzkra stjórnvalda á liðnum árum, eina svið atvinnumála, þar sem ríkisvaldið hefur haft raunverulega forustu og frumkvæði og beitt áætlanagerð og skipulagningu, er einmitt stóriðjurekstur erlendra auðfélaga í landinu. Það var opinber trúarjátning frávarandi stjórnar, að í iðnaðarþróun næstu ára yrði vaxtarbroddinn að finna í atvinnurekstri útlendinga. Í þessum áformum var Íslendingum ætlað það hlutverk eitt að útvega ódýrt vinnuafl og rafmagn á kostnaðarverði. Erlendir menn áttu að eiga fyrirtækin og flytja svo arðinn af rekstrinum út úr landinu. Á þessu sviði tákna stjórnarskiptin í sumar grundvallarstefnubreytingu, sem líklega er þyngri á metunum fyrir íslenzkt efnahagslíf en flest annað. Þótt skammt sé liðið frá myndun hinnar nýju ríkisstj., hafa þegar verið teknar ákvarðanir um 150 megawatta stórvirkjun við Sigöldu og samtengingu orkuveitusvæðanna fyrir norðan og sunnan. Gerð verður áætlun um uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar í eigu landsmanna sjálfra og áherzla lögð á hvort tveggja, léttan smáiðnað víðs vegar um land og orkufrekan þungaiðnað jafnframt því, sem stefnt verður að húsahitun í stórum stíl með raforku, þar sem hún er hagkvæmari en varmaorkan. Stjórnarskiptin og myndun nýrrar ríkisstj. hafa borið með sér ferskan gust, sem hvarvetna má nú kenna í þjóðlífinu. Aukin bjartsýni er nú ríkjandi og trú á möguleikum Íslendinga til að standa sjálfstæðir á eigin fótum án pólitískrar eða efnahagslegrar yfirdrottnunar erlendra manna.

Fráfarandi ríkisstj. gat ekkert aðhafzt í landhelgismálinu. Hún var lömuð af fyrri gerðum sínum, bundin af brezka samningnum frá 1961, sem hún vildi ekki segja upp. Hún gat ekkert ákveðið og enga stefnu mótað, en beið þess, sem verða vildi á alþjóðlegum vettvangi. Á aðeins hálfu ári eru orðin alger umskipti. Nú heyrist ekki lengur úr herbúðum fráfarandi stjórnar, að einhliða útfærsla landhelginnar sé ævintýrapólitík eða siðlaust athæfi, eins og sagt var hér í útvarpsumr. á Alþ. fyrir rétt rúmu hálfu ári. Nú, þegar stefnan er mótuð og engum getur lengur dulizt, að þetta er vilji þjóðarinnar, er tónninn hjá talsmönnum fráfarandi stjórnar orðinn allt annar. Þessu ber að fagna, enda er ekkert jafnörlagaríkt á næstu misserum og einmitt það, að almenn og góð samstaða náist um útfærslu landhelginnar.

Samhliða hinni nýju sókn í landhelgismálinu er svo loksins að komast verulegur skriður á endurnýjun togaraflotans. Það er tvímælalaust einn ljótasti bletturinn á valdaferli fráfarandi ríkisstj., hvernig togveiðarnar hafa drabbazt niður og togaraflotinn skroppið saman ár frá ári. Árum saman fluttu þm. Alþb. tillögur á Alþ. um kaup á skuttogurum og sérstaka fyrirgreiðslu ríkisvaldsins í því sambandi, en í meira en hálfan áratug gerðist ekki neitt í þessu máli. Það var svo loks fyrir rúmu einu ári, að fyrrv. ríkisstj. féllst á að láta smíða sex togara, og bætti svo tveimur við í vor. Við stjórnarskiptin í sumar hefur verið rækilega rutt úr vegi þeirri stíflu, sem fyrir var, hvað snertir endurnýjun togaraflotans. Fyrirgreiðsla ríkisvaldsins hefur verið hætt mjög verulega. Lán til kaupa á meðalstórum skuttogurum erlendis frá hafa verið hækkuð úr 72% af kaupverði í 85%, og lán til smíði á togskipum innanlands hafa verið hækkuð úr 85 í 90% af byggingarverði. Sóknin í landhelgismálinu, hækkandi verðlag á afurðum og hin stóraukna fyrirgreiðsla hefur vakið upp meiri áhuga á togarakaupum en dæmi eru til um áratugaskeið. Stjórnarflokkarnir settu sér það markmið í málefnasamningnum að gera ráðstafanir til, að landsmenn gætu eignazt a.m.k. 15–20 skuttogara af ýmsum stærðum og gerðum svo fljótt sem verða mætti. Það er þó þegar ljóst, að hin nýja forusta í sjávarútvegsmálum og stóraukin fyrirgreiðsla mun leiða til enn stórfelldari endurnýjunar á togskipaflotanum en nokkur þorði að reikna með fyrir þremur mánuðum, þegar málefnasamningurinn var gerður.

Ég hef vikið hér nokkuð að atvinnumálum, vegna þess að á þeim hvílir fjárhagur ríkisins framar öllu öðru. Umskipti í atvinnumálum landsmanna eru algert skilyrði fyrir því, að unnt sé að róta upp í fjármálakerfi fráfarandi stjórnar. Umskiptin frá tíð hinnar gömlu stjórnar koma betur og betur í ljós með hverjum deginum. Af úrslitum kosninganna í sumar má auðveldlega ráða, að þessi umskipti voru langþráð. Í marga áratugi hefur ekki orðið önnur eins sveifla meðal kjósenda, og sjaldan hefur íslenzkri ríkisstj. verið varpað á dyr með jafn afgerandi hætti. Sjaldan hefur þjóðin verið fegnari að fá nýja stjórn í staðinn fyrir gamla, þreytta ráðh. Þessi afdráttarlausu viðbrögð kjósenda þarfnast varla skýringa. Kjósendur vísuðu á bug því efnahagskerfi, sem nýlega hefur kallað yfir þá meira atvinnuleysi og meiri fólksflótta af landi brott en dæmi eru til um áratuga skeið. Kjósendur afneituðu fjármálakerfi fráfarandi stjórnar, sem dembt hefur yfir þá meiri verðbólgu en nokkru sinni fyrr og hefur þó jafnframt átt í stöðugri styrjöld við launþegasamtökin í viðleitni sinni til að halda lífskjörum lægst launuðu stéttanna í algeru lágmarki. Jafnframt lagði meiri hluti landsmanna áherzlu á það með atkv. sínu, að ákveðin afdráttarlaus stefna yrði nú mörkuð í landhelgismálinu eftir margra ára hik. Og kjósendum hefur orðið að ósk sinni. Hin nýja ríkisstj. hefur þegar áorkað miklu, og þó er býsna margt ógert. Umskiptin á öllum sviðum verða þó aldrei framkvæmd í einu vetfangi. Fráfarandi stjórnarflokkar hafa byggt upp öflugt valdakerfi í kringum sig í meira en áratug einir og ótruflaðir, og það tekur að sjálfsögðu nokkurn tíma fyrir nýjan meiri hluta að fá völdin í sínar hendur. Það er ekki aðeins, að allar stjórnir og ráð, sem Alþ. kýs, séu enn með pólitísku meirihlutavaldi fráfarandi stjórnar. Hvarvetna annars staðar, þar sem máli skiptir, hafa íhaldsöflin tryggt aðstöðu sína. Þjóðin fékk nokkra innsýn í valdabrask fráfarandi stjórnar dagana eftir kosningar, þegar ráðh. fóru að hamast við að skipa menn í stöður og embætti svo að tugum skipti, m.a. í rn. sjálfum, eftir eð þeir voru búnir að segja af sér formlega og opinberlega. Þessi purkunarlausa ósvífni, sem hvergi á sinn líka í nokkru nálægu landi, gefur ofurlitla hugmynd um, hvílík misbeiting á pólitísku valdi hefur átt sér stað á 12 ára tímabili, þegar þannig er að farið á seinustu valdadögunum.

Í fyrrnefndri ræðu, sem Jóhann Hafstein flutti s.l. mánudag, varpaði hann fram þeim spaklegu ummælum, að Sjálfstfl. legði einn allra flokka áherzlu á gildi einstaklingsins. Þar höfum við það. En spurningin hlýtur að vera, hvort umhyggja fyrir einstaklingnum dregur ekki nokkuð skammt, ef fjöldinn er vanhirtur. Sjálfstfl. hefur alla tíð barizt mest fyrir hagsmunum þeirra einstaklinga, sem bezt hafa efnin. Svo að dæmi sé nefnt stóð flokkurinn á s.l. vetri fyrir nýjum skattareglum, sem veita stórfyrirtækjum tækifæri til að draga verulegan hluta af tekjum sínum undan skatti, bæði með beinum frádrætti og hinum furðulegustu afskrifta- og fyrningarreglum. Auðvitað þarf enginn að efast um umhyggju Sjálfstfl. fyrir gildi þeirra einstaklinga, sem þarna eiga hlut að máli. En hvað um allan fjöldann, sem af þessum sökum verður að taka á sig þyngri byrðar, verði þessum fáránlegu ákvæðum ekki fljótlega breytt? Stjórnarskiptin fela í sér breytt gildismat íslenzkra valdhafa. Hin nýja ríkisstj. er ekki til þess mynduð að vernda hagsmuni fárra einstaklinga, sem oft hafa margfaldar tekjur fyrir litla vinnu. Þetta er ríkisstj. hins vinnandi fjölda, ríkisstj. þeirra, sem vilja vinna að málum í anda jafnaðar og félagshyggju. Alþb. mun styðja þessa ríkisstj. af fremsta megni og gera sitt til að varðveita hinn ágæta samstarfsanda, sem ríkt hefur í samskiptum flokkanna þriggja frá myndun núv. ríkisstj. — Góða nótt.