28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í D-deild Alþingistíðinda. (4541)

224. mál, umgengnis- og heilbrigðisvandamál á áningarstöðum

Flm. (Sigurður Blöndal):

Herra forseti. Ég flyt hérna á þskj. 471 ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v. till. til þál. um athugun á umgengnis— og heilbrigðisvandamálum á áningarstöðum ferðamanna og útivistarsvæðum. Till. okkar er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka, hversu unnt sé að leysa þau umgengnis— og heilbrigðisvandamál, sem nú eru komin upp og fara sívaxandi á hinum ýmsu útivistar— og áningarstöðum ferðamanna víðs vegar um landið og gera jafnframt ráðstafanir til, að þau verði leyst hið allra fyrsta.“

Mig langar til að fara um málið örfáum orðum. Ísland er land mjög aukinna ferðalaga og útivistar. Ferðamannastraumur yfir sumarmánuðina hefur vaxið gífurlega og mun enn vaxa ófyrirsjáanlega á næstu árum, ekki sízt straumur erlendra ferðamanna, sem meir og meir munu leita til Íslands, vegna þess að hér finna þeir náttúrufar og veðráttu, sem ekki verður fundin slík annars staðar. Leit ferðalangsins um næstu framtíð mun í vaxandi mæli verða leit að hinu sérstæða og ósnortna í stað hins venjulega, sem hingað til hefur verið bundið við byggðir og borgir. Þetta kemur af þeirri stórfelldu breytingu á verðmætamati, sem nú fer fram um heim allan. Hér á Íslandi veldur þessi breyting í ferðaháttum því, að æ fleiri fara um með viðlegubúnað og slá sér niður á áningarstaði þá, sem íslenzk náttúra býður bezta. Er þegar svo komið, að ýmsir þessir staðir eru orðnir þröngt setnir á sumrin. Þessi aukna sókn fólks á vissa staði kallar á aðstöðu, sem ekki var þörf fyrir þar áður. Ég nefni nokkur helztu atriði: Vatnslagnir, hreinlætistæki, sorptunnur, eftirlit og sums staðar skipulögð bílastæði. Sérstaklega er skortur á hreinu vatni og salernum alvarlegt mál á mörgum áningarstöðum og brýtur í bága við kröfur, sem nútímamenn gera til hreinlætis. Sorphreinsun er mjög víða alls engin eða ófullnægjandi, enda háttar víða þannig til, að enginn telur sig ábyrgan fyrir umgengni á þessum stöðum.

Mér er sérstaklega kunnugt um þessi vandamál í skóglendum í eigu Skógræktar ríkisins, enda er þar að finna ýmsa eftirsóttustu áningarstaði og útivistarsvæði í lágsveitum Íslands. Starfsmenn þessarar ríkisstofnunar reyna víða að leysa vandann eftir því sem þeir bezt geta, en fá þó lítt við ráðið, því að þeir ráða ekki yfir fé, sem til þyrfti. Sem dæmi um það, hve fjölmennt getur verið á sumum þessum áningarstöðum, vil ég nefna, að á litlu svæði í Þjórsárdal voru árið 1971 reist 932 tjöld á mánaðartíma frá miðjum júlí til miðs ágústs. Hinn 31. júli s.l. voru þar samtímis 205 tjöld á mjög takmörkuðu svæði. Með fjórum í tjaldi, sem er sennileg áætlun, hafa jafnmargir dvalizt á þessu litla svæði á þessum degi og allir íbúar í miðlungskauptúni, enda þótt engin skemmtisamkoma væri þarna. Á öðrum skógarsvæðum, eins og Vöglum í Fnjóskadal og Hallormsstað, geta verið yfir 100 tjöld í einu yfir ferðamannatímann. Á eftirsóttum stað eins og í Ásbyrgi er ferskt og hreint vatn eitt stærsta vandamálið. Tjörnin í byrgisbotninum er alls ófullnægjandi vatnsból, enda baða sig margir í henni. Ég vona, að þessi fáu dæmi sýni ljóslega, svo að ekki verður um villzt, að hér er á fáum árum risið vandamál, sem snúast verður við af myndarskap, ef við viljum teljast menningarþjóð.

Hér er þó alveg ótalinn sá þáttur vandans, sem veit að óbyggðum Íslands. Hann er kannske dálítið annars eðlis, af því að þar vantar beinlínis áningarstaði með hreinlætisaðstöðu. Er það sérstaklega snúið mál, þegar hópar ferðast um og þá einkum útlendingar. Ég nefni dæmi af þeirri leið, sem ég þekki bezt, frá Reykjahlíð til Egilsstaða. Þar er enginn áningarstaður með hreinlætisaðstöðu. Svo er vafalaust á mörgum fleiri alfaraleiðum, þótt ég þekki það ekki. Mér er kunnugt um það, að opinberir aðilar eins og samgrn. og ferðamálaráð hafa opin augu fyrir þeim vanda, sem ég hef bent á, en þeir hafa ekki fengið að gert, vegna þess að fé skortir til aðgerða.

Hið háa Alþingi, sem með margvíslegu móti stuðlar að auknum ferðamannastraumi um landið, m.a. með stórbættum samgöngum og kynningu landsins á erlendum vettvangi, má ekki víkjast undan að leysa vanda eins og þennan, sem af hinni auknu umferð leiðir. Setja verður þá aðila, sem bezt til þekkja, í að gera hið bráðasta úttekt á ástandinu og gera síðan á grundvelli hennar áætlun um aðgerðir. Skipulegt átak verður að hefjast ekki seinna en á næsta ári, ef vandinn á ekki að stækka enn meir frá því, sem nú er.

Ég hef þá þessi orð ekki fleiri, en vildi beina því til hv. þd., að málið yrði lagt fyrir allshn.