11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í D-deild Alþingistíðinda. (4546)

230. mál, flutningur fólks til þéttbýlis við Faxaflóa

Eysteinn Jónsson:

Það eru fjórir hv. þm., sem flytja þessa þáltill., ég er sá fjórði í röðinni. Þrír þeirra eru ekki á Alþ. nú og fellur því í minn hlut að mæla fyrir henni. En hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj: að beita sér fyrir framkvæmd þjóðfélagslegra rannsókna á orsökum fólksflutninga frá hinum ýmsu landshlutum til þéttbýlissvæðanna við Faxaflóa“.

Um þetta vil ég fara aðeins örfáum orðum. Á undanförnum áratugum hafa hinir miklu búferlaflutningar verið eitt helzta einkenni íslenzkrar þjóðfélagsþróunar. Fólksflutningarnir til höfuðborgarsvæðisins, sem við getum kallað, hafa skapað margþætt vandamál og þau setja mjög svip á alla íslenzka þjóðfélagsgerð.

Alþingi og ríkisstj. og ýmsir aðrir aðilar hafa ýmislegt gert til að reyna að draga úr þessari öru þróun, þessum miklu breytingum og sjálfsagt hafa ýmsar framkvæmdir haft sín áhrif í þá átt, en samt sem áður hefur ekki fullur árangur náðst að flestra dómi í því að halda jafnvægi í byggð landsins.

Byggð hafa verið hafnarmannvirki, samgöngur efldar, atvinnufyrirtækjum hefur verið komið á fót, menntunaraðstaða bætt, en þrátt fyrir þetta rýrnar hlutfallslegur íbúafjöldi landsbyggðarinnar, sem við köllum, miðað við þéttbýlissvæðin hér við Faxaflóa. Fari svo fram sem horfir í þessum efnum, þá hlýtur fækkandi íbúafjöldi tiltölulega úti á landsbyggðinni að þýða, að örðugra verði um nýtingu landsgæðanna, en vera ætti og af því mun leiða aukinn vanda á sviði framleiðslu bæði til lands og sjávar.

Mörg dæmi sýna og sanna, að þótt næg og mikil atvinna sé fyrir hendi, getur íbúum byggðarlaga allt að einu fækkað. Og þessi dæmi höfum við í reynd. Auðvelt er að geta sér til um orsakir oft og tíðum í þessu sambandi, en venjulega verður þar um tilgátur einar að ræða, hvað komi til. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að í þessu sambandi séu að verki ýmsir þættir, sem við fram að þessu höfum tæpast gert okkur nægilega vel grein fyrir. Þetta finnst okkur flm. og þess vegna höfum við lagt í það að flytja þessa þáltill. Teljum við, að það sé full ástæða til að skoða með nokkuð öðrum hætti, en áður hefur verið gert, forsendurnar eða ástæðurnar fyrir þessum miklu flutningum manna í landinu.

Á undanförnum árum hefur þjóðin eignazt unga og áhugasama fræðimenn í félagsvísindum og komið hefur verið á fót námsbraut í þeirri grein við Háskóla Íslands. Finnst okkur flm. að nú sé tími til þess kominn, að fram fari vísindaleg athugun á því, hvaða öfl eru hér aðallega að verki í sambandi við þessa miklu fólksflutninga og um það fjallar þessi þáltill.

Við erum áreiðanlega öll sammála um það, að hér er um vandamál að ræða, og þyrfti að koma við skynsamlegum breytingum í þessu efni, en óneitanlega er það fyrsta skilyrði til að geta gert nægilega skynsamlegar ráðstafanir til þess að bæta úr, að mönnum séu orsakirnar fyllilega ljósar. Við höfum nú áreiðanlega mönnum á að skipa, sem geta framkvæmt athuganir af þessu tagi með betri árangri, en áður hefur verið auðið, hafa betri skilyrði til að fá um þetta upplýsingar, sem geti varpað á þetta skærara ljósi en áður hefur verið unnt, og því er till. okkar fram komin.

Ég vil leggja til. að þessari þáltill. verði vísað til hv. fjvn. að loknum þessum fyrri hl. umr. Ég geng þess ekki dulinn, að einhver kostnaður hlýtur að fylgja því, að athugun af þessu tagi fari fram og því finnst mér eðlilegt, að till. fari til hv. fjvn.