11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í D-deild Alþingistíðinda. (4552)

232. mál, vegagerð yfir Sprengisand

Flm. (Benóný Arnórsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram till. til þál. á þskj. 488, um vegagerð yfir Sprengisand, en þar segir:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á hagkvæmni vegagerðar yfir Sprengisand.“

Eins og segir í grg., hafa hugmyndir um gerð vegar yfir Sprengisand verið í umr. manna á meðal alllengi, m.a. hafa Búnaðarþing og bæjarstjórn Húsavíkur gert samþykktir í þá átt nýverið. Engin athugun mun þó hafa farið fram á kostnaði við slíka vegagerð, né tilraun verið gerð til að kanna hagkvæmni hennar. Telja má, að vegagerð yfir Sprengisand sé tiltölulega ódýr, þar sem vegarstæðið er að miklu leyti sandar og melar, snauðir af lífrænum efnum. Má benda á kostnað við lagningu 70 km vegar frá Búrfelli að Þórisósi, en vegur um Sprengisand að Mýri í Bárðardal kæmi til með að verða um 130—140 km langur og stytta akstursleiðina milli Húsavíkur og Reykjavíkur í kringum 100 km og milli Húsavíkur og Selfoss um rúma 200 km.

Í málefnasamningi ríkisstj., þar sem getið er einstakra verkefna, segir um samgöngumálin, með leyfi hæstv. forseta:

;,Að endurskoða beri samgöngukerfið með hagkvæmustu þungavöruflutninga á sjó og landi í huga.“

Enginn vafi er á því, að vegur um Sprengisand mundi auka mjög á hagkvæmni þungavöruflutninga á landi til Norðaustur— og Austurlands, því að út frá Sprengisandsleið mætti síðar leggja vegi niður í Eyjafjörð og að Brú á Jökuldal, en akstursleiðin frá Egilsstöðum til Reykjavíkur með vegi um Brú og Sprengisand mundi þá styttast um því sem næst 160 km. Auk þess mundi vegur um Sprengisand létta mjög á þeim umferðarþunga, sem nú er á veginum vestur og norður um land.

Það vörumagn hefur farið ár vaxandi, sem flutt er milli landshluta með bifreiðum. Þróunin bendir í þá átt, að slíkt muni heldur aukast en minnka. Því er það mikilsvert mál að gaumgæfa til hlítar hagkvæmustu leiðir, ekki hvað sízt þær leiðir, sem létta mundu til muna þungaumferð af núverandi leiðum, sem hljóta að verða meginleiðir í farþegaflutningum. Einnig er rétt að geta þess, að nauðsyn ber til að skipuleggja vegi um öræfin og koma þannig í veg fyrir, að þau séu sundurskorin af bílaslóðum þvers og kruss, eins og nú er, til stórlýta og skemmda. Þetta mál þyrfti að ræða sérstaklega.

Ferðamannaþjónusta er ofarlega á dagskrá um þessar mundir og ekki hvað sízt möguleikar á öræfaferðum. Góður vegur um Sprengisand eykur mjög fjölbreytni í þeim efnum. Mundi hann tengja saman alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og væntanlegan varaflugvöll á Norðurlandi. Ef ferðamannaþjónusta á að fara vel úr hendi og við ekki að drukkna í henni, þarf hún að skipuleggjast í tíma og þá einnig að taka mið af framkvæmdaáætlun í samgöngumálum. Það er viðurkennt, að Norðurland hefur vegna síns náttúrufars mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Og þennan þátt ber að nýta skynsamlega til að tryggja búsetu þar. En þótt þetta sé rétt og skylt að skoða, er hitt þó enn stærra mál að bæta samgöngurnar milli strjálbýlis og þéttbýlis. Góðar og greiðar samgöngur eru lífæð hvers byggðarlags. Það getur ráðið úrslitum um viðgang dreifbýlisins, hvernig til tekst í samgöngumálum, en að undanförnu hefur það mjög orðið afskipt um uppbyggingu vegakerfisins. Á ég þá ekki við uppsteypta hraðbrautarspotta, sem kosta hundruð milljóna króna, heldur vel uppbyggða malarvegi, er færir væru mestan hluta ársins. Það er ekki nóg með það, að vegir úti á landsbyggðinni séu ófærir svo að vikum skiptir vegna snjóalaga, heldur verða þeir þegar snjóa leysir að slíkri forarvilpu, að þar er engum fært nema fuglinum fljúgandi og mér eru þá efst í huga vegirnir í N.-Þingeyjarsýslu á s.l. vori.

Þetta ástand vega getur haldizt svo að vikum skiptir, og fer það þó nokkuð eftir tíðarfari. Það hefur komið í ljós, að vel uppbyggðir malarvegir grafast ekki í sundur í vorleysingum. Á þá getur að vísu hlaðizt snjór, en hann er að jafnaði auðvelt að hreinsa af, þar sem slíkir vegir eru hærri, en næsta umhverfi. Eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af slíkri vegagerð, blandast mér ekki hugur um, að vanþróun vegamála okkar á að leysast á þann hátt, en ekki með steyptum hraðbrautarspottum. Vera má, að slík vegagerð sé nauðsynleg hér í næsta nágrenni mesta þéttbýlis landsins og trúlega verður að ljúka þeim framkvæmdum, sem þegar er byrjað á, en viljum við halda þeirri byggð, sem er úti um landið í dag og ég tala nú ekki um, ef við ætlumst til, að hún aukist, verðum við að láta vegagerð landsbyggðarinnar sitja fyrir hraðbrautunum, ekki sízt þar sem heilbrigðisþjónusta virðist þróast í þá átt, að vegalengdir virðast ekki lengur skipta máli um staðsetningu lækna, heldur fer mikill hluti af starfstíma þeirra í bifreiðaakstur, ella verður að aka sjúklingum endalausar vegalengdir til að koma þeim undir læknishendur.

Herra forseti. Ég stytti nú mál mitt. Þegar ég ræði um uppbyggingu vegakerfisins, á ég ekki síður við styttingu akstursleiða og vegur, sem kemur til með að stytta akstursleið milli landshluta, um hundruð kílómetra, eins og Sprengisandsvegur mundi gera, hlýtur að vera þess virði, að athugaðir séu möguleikar á slíkri vegagerð.

Ég legg því til, að till. verði vísað til hv. fjvn. og umr. frestað.