18.04.1972
Sameinað þing: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í D-deild Alþingistíðinda. (4567)

243. mál, fjárstyrkur vegna þátttöku íslenskra íþróttamanna á Olympíuleikum

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Áður en ég vík að þessari till. til þál., sem ég hef leyft mér að bera hér fram ásamt hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, þá get ég ekki orða bundizt yfir þeirri mætingu, sem þm. leyfa sér að viðhafa hér í deild. Ég hef áður eða fyrir nokkrum dögum gert aths. út af áberandi fjarveru hæstv. ráðh. við mál, sem beinlínis heyra undir þá og væri eðlilegt, að þeir tækju þátt í þeim umr., en það virðist vera svo, að þessar aths. og kvartanir mínar eigi engu síður við um hv. þm. Ég hef sem nýr þm. staðið í þeirri trú, að menn væru kjörnir hingað inn á þingið til þess að sækja þingið og fylgjast með þingstörfum og taka þátt í þeim og ég spyr: Hvar eru þessir ágætu samþm. mínir, þegar hér situr næstum innan við einn tugur manna í þingsal hálfan eða heilan daginn? Ég geri ekki ráð fyrir því, að verið sé að sýna þeim málum lítilsvirðingu, sem hér eru til umr. í augnablikinu, heldur hefur þetta liðizt og ég vil eindregið hvetja til þess, að mætingar þm. séu teknar fastari tökum og það sé tekið til athugunar einmitt nú, þegar þingsköp eru til umr. seinna á þessu þingi.

Menn hljóta að spyrja sjálfa sig: Til hvers er unnið að standa hér uppi í ræðustól og flytja stutt eða langt mál yfir tómum þingbekkjum? Ef ekki væru til fréttamenn, sem af miskunnsemi segja kannske frá þessu í stuttu máli, hvað hér er fjallað um í ræðupúlti, þá erum við að tala hér nánast yfir segulböndunum einum. Og ég vil vænta þess, að fréttamenn séu viðlátnir, þegar ég við hef þessi orð, svo að það fari ekki á milli mála, hvert mitt álit er á þessum mætingum og þessari framkomu.

Till. sú, sem ég ásamt hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen hef leyft mér að flytja, er um fjárstyrk vegna þátttöku íslenzkra íþróttamanna í Ólympíuleikum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að veita fé úr ríkissjóði til að standa undir óhjákvæmilegum og nauðsynlegum kostnaði við undirbúning og þátttöku íslenzkra íþróttamanna í Ólympíuleikunum í München í sumar. Fjárveiting skal ákveðin að fengnum tillögum Ólympíunefndar Íslands og Íþróttasambands Íslands.“

Sá leiðinlegi atburður skeði nú á s.l. vetri, þegar vetrarólympíuleikar fóru fram í Japan, að Ísland sá sér ekki fært að senda íslenzka íþróttamenn til þátttöku í þeim leikum. Mér hefur verið tjáð, að það stafi fyrst og fremst af því, að íþróttahreyfingin hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess að senda fulltrúa til leikanna. Þess var sérstaklega getið í setningarræðu á þeim leikum, að þátttakendur væru færri vegna fjarveru einnar þjóðar eða fulltrúa frá einni þjóðinni og var þar átt við Ísland og verður það að teljast leiðinlegt afspurnar, að Ísland sá sér ekki fært að senda menn til þessarar keppni og ekki góð kynning fyrir okkar íþróttastarfsemi. Mín skoðun er eindregið sú, að árangur íþróttamanna á slíkum alþjóðlegum mótum skipti ekki mestu máli, heldur þátttaka okkar og við ættum hverju sinni að leggja metnað okkar í að senda okkar íþróttafólk til slíkra hátíða eins og Ólympíuleikarnir eru og ekki sízt til þeirra.

Nú fara sumarleikar fram í München í VesturÞýzkalandi og vegna þess hversu stutt, tiltölulega stutt er fyrir okkur Íslendinga að sækja þessa leika, þar sem þeir eru haldnir hér í Evrópu að þessu sinni, þá ættu að vera meiri möguleikar fyrir okkur að senda nú stæltan og gjörvulegan hóp íþróttamanna til þessara leika. Sá háttur hefur verið tekinn upp í ríkari mæli og ekki sízt hér hjá okkur Íslendingum að setja lágmarksskilyrði fyrir því, að menn séu sendir, þ.e. að íþróttafólkið þarf að ná vissum árangri til þess að öðlast réttindi, til þess að hafa möguleika til að verða sent og auk þess þurfa í flokkaíþróttum viðkomandi keppnislið að bera sigurorð af öðrum í riðlum eða þar til uppsettum keppnum.

Það er í fersku minni flestra, að íslenzkir handknattleiksmenn tryggðu sér þátttöku í Ólympíuleikunum með glæsilegri frammistöðu í undankeppni á Spáni nú á dögunum og frjálsíþróttafólk, sundfólk, lyftingamenn og ýmsir fleiri íþróttamenn hafa nú þegar náð eða eru í þann mund að ná þeim lágmarksárangri, sem krafizt er í viðkomandi íþróttagreinum, svo að þegar er ljóst, að Íslendingar gætu og ættu að senda all fjölmennan hóp til München. Þátttaka íslenzka handknattleiksliðsins felur það í sér, að a.m.k. 20 kappleiksmenn þurfa að fara, eða hópurinn þarf samtals a.m.k. að vera um 20 manns og ef maður gerir ráð fyrir því, að a.m.k. 10—15 manns úr öðrum íþróttagreinum nái viðkomandi lágmarksárangri, þá sjáum við strax, að þetta gæti orðið 40–50 manna hópur, sem til München yrði sendur. Ef þetta ágæta íþróttafólk hefur náð þessum lágmarksárangri, sem settur er, þá kemur að sjálfsögðu ekki annað til greina, en að þátttaka þeirra sé tryggð. Íslenzkt íþróttafólk hefur nú undanfarin ár stundað æfingar og þjálfun með einmitt það markmið í huga að ná þessum lágmarksárangri, og Ólympíuleikarnir og þátttaka í þeim er fjölmörgu íþróttafólki hvatning til frekari íþróttaafreka og iðkana í viðkomandi íþróttagrein.

Nú þegar leikarnir nálgast og ljóst er, að allstór hópur getur farið héðan til þessara leika, þá hefur vaknað sú spurning, hvort íþróttahreyfingin hafi til þess fjárhagslegt bolmagn og mál þetta hefur verið tekið upp í blöðum m.a. Það er mín skoðun, að ekki komi til greina, að tekið sé af almennu rekstrarfé íþróttahreyfingarinnar til þessarar þátttöku, heldur þurfi að verja sérstöku fjármagni til þess að standa straum af þeim kostnaði, sem hlýzt af þátttöku okkar í leikunum. Á fjárlögum fyrir árið 1972 er gert ráð fyrir 250 þús. kr. fjárveitingu vegna Ólympíuþátttöku, en það er ljóst af því, sem ég hef sagt hér fyrr, að það dugar hvergi til að standa undir allra nauðsynlegasta kostnaði vegna beinnar þátttöku. Nú er það hins vegar svo, að, að mínu viti þarf að koma til meira fé en bara það, sem lýtur að ferðakostnaðinum sjálfum og uppihaldi á staðnum.

Ég held, að það sé sómi okkar, að þeir fulltrúar, sem leikana sækja, séu vel undir það búnir og geti lagt að sér og hafi til þess tíma og aðstöðu að undirbúa sig sem bezt hvað þjálfun snertir og því lýsi ég því eindregið yfir, að auk beinnar þátttöku í ferðakostnaðinum sjálfum og uppihaldinu þurfi enn fremur til að koma fjárveitingar vegna þessa undirbúnings. Til gamans má geta þess, að nú í þeirri undankeppni handknattleiksmanna á Spáni fyrr í vetur, sem ég gat um hér áðan, átti íslenzka handknattleiksliðið kappi við norska handknattleiksliðið, og sá leikur varð jafn, en allra manna mál var, að norskir handknattleiksmenn hefðu staðið sig mjög vel í þessari keppni og þeir hlutu reyndar annað sætð. En þá er þess vert að geta, að norska handknattleikssambandið hafði undirbúið þessa þátttöku mjög vel af mikilli kostgæfni og ekkert til sparað og hafði fengið til þess háar fjárfúlgur, að þeirra íþróttamenn væru sem bezt undirbúnir.

Það vekur ávallt áhuga Íslendinga og reyndar þjóðarathygli, þegar íslenzkir íþróttamenn standa sig vel á alþjóðlegum keppnismótum. og vissulega er góð frammistaða góð landkynning, en á sama tíma gerir íslenzkur almenningur sér ekki kannske alltaf grein fyrir því, hversu mikill aðstöðumunur er hjá íslenzkum íþróttamönnum annars vegar og erlendum hins vegar. Það má segja, að Ísland sé eitt af fáum ríkjum, ef ekki eina ríkið í hópi þeirra þjóða, sem við keppum við í íþróttum, við séum eina þjóðin, sem enn þá stundar íþróttir af áhuga einum saman. Atvinnumennska í íþróttum færist stöðugt í vöxt og enda þótt íþróttamenn frá hinum ýmsu löndum taki þátt í Ólympíuleikunum sem áhugamenn, þá er það dulbúin áhugamennska og flestir hverjir stunda íþróttir sínar nánast eingöngu. Af þessum ástæðum er enn frekari þörf á því, að okkar menn séu sem bezt undirbúnir, þannig að þeir geti skilað sómasamlegum árangri. Eins og fyrr sagði, þá skiptir í sjálfu sér frammistaðan sem slík ekki mestu máli, heldur það, að okkar menn geti komið fram með sóma og skilað sínu hlutverki þannig, að þar falli ekkert á.

Ég vil ekki geta neins til um það, hversu fjárveitingin þarf að vera mikil. Ég held hins vegar, að það sé nauðsynlegt að hafa samráð við Ólympíunefnd Íslands og Íþróttasamband Íslands og því er það sett í till., að samráð skuli haft við þessa tvo aðila til þess að átta sig á, hversu mikils fjármagns er nauðsyn og ég treysti því, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að íþróttahreyfingin fái þarna fjárveitingar, sem standi undir óhjákvæmilegum og nauðsynlegum kostnaði við undirbúning og þátttöku íslenzkra íþróttamanna á þann veg, sem ég hef hér lýst.

Svo leyfi ég mér að mæla með því, að þessari till. verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umr.