18.04.1972
Sameinað þing: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í D-deild Alþingistíðinda. (4599)

258. mál, fiskihafnir

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að leggja neinn dóm á gildandi hafnalög, má vel vera, að eitthvað sé að þeim að finna, en ég verð að segja það fyrir mig, að mér finnst orðalag till. vera þannig, að a.m.k. á ég ákaflega bágt með að veita henni stuðning, eins og hún er orðuð, þar sem sagt er, að allar fiskihafnir landsins verði gerðar að landshöfnum. Mér er það vel ljóst, að margar hafnir úti í dreifbýlinu eru þannig settar, að þær hafa mjög erfiðan fjárhag og eiga erfitt með að vera byggðar upp á þann hátt, sem æskilegast væri, og mætti vel vera, að gagnvart sumum þeirra væri það eðlilegt, að þær nytu meira ríkisframlags og yrðu gerðar að landshöfnum. Aðrar hafnir eru þannig settar, að ég er sannfærður um, að sveitarstjórnarmenn á þeim stöðum óska ekki eftir því, að þeirra hafnir verði gerðar að landshöfnum. Þetta er eins og frsm. réttilega tók fram mjög snar þáttur í þeim störfum, sem sveitarstjórnarmönnum eru ætluð, þ.e. að sjá um uppbyggingu hafnanna, og ég hygg, að margir þeirra hafi þá skoðun, að þessi mál séu betur komin í þeirra höndum, heimamanna, en væri þeim stjórnað frá einni allsherjarmiðstöð, kannske í höfuðstaðnum, hvort sem það væri rn. eða aðrir aðilar, sem til þess yrðu kosnir, en þá yrðu hafnirnar að mínum dómi margar allt of háðar ríkisvaldinu, ef það á eitt að hafa þar alla umsjón.

Það var nú erindi mitt hingað í ræðustól að mælast til þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, sendi þetta til umsagnar öllum þeim sveitarstjórnum, sem hafnarmálin snerta.