22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

71. mál, innlent lán

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég fékk því miður ekki svar við spurningu minni frekar en fyrri daginn. Ég spurði hara einfaldlega eftir því, hvort hæstv. fjmrh. teldi ekki, að þessi ráðstöfun hefði verið frá efnahagslegu sjónarmiði varhugaverð, að greiða 1000 millj. kr. út í efnahagskerfið án þess að afla nýrra tekna í staðinn. Ég sagði einmitt, að þessum 1000 millj. kr. hefði verið varið til ýmissa góðra hluta. Hvenær höfum við ekki á Íslandi mál, sem við getum fundið, sem hægt er að styðja með því að greiða til fjármagn? Er búið að hækka ellilaun nóg? Höfum við framkvæmt allt, sem við þurfum að framkvæma hér á Íslandi? Vandinn í þessu efni er ekki sá að finna verkefnin, heldur að finna fjármagn til þeirra. Og það er ekki fjármagn, sem í raun og veru er greitt án þess að afla tekna frá hálfu hins opinbera. Það er það sama og að gefa út fleiri ávísanir á sömu verðmæti, gefa út fleiri seðla. Ég held, að þessu fé hafi verið varið, sem betur fer, til margra góðra hluta. En ég held, og ég held að allir hljóti að vera sammála um það, sem eitthvert vit hafa á efnahagsmálum, að þetta hafi verið varhugaverð ráðstöfun, vegna þess að ekki var aflað fjár í staðinn.

Út af því hvort þessar 200 millj. kr. mundu þá ekki draga úr verðbólgu og hvort það sé þá ekki ósamræmi í því að vera á móti því, get ég lýst yfir þeirri skoðun minni, að ég er ekki á móti því að afla þess fjár í ríkissjóð. En ég held, að það sé varhugavert að gera það nú á þessum tíma. Það hefði átt að gerast á sama ári og framkvæmdir áttu að fara fram fyrir þetta fé, álít ég, vegna þeirra áhrifa, sem það hefur á getu viðskiptabankanna til þess að sinna þeim verkefnum, sem þeim er falið í þjóðfélaginu og hefur verið hér rætt um áður.

En ég harma það, að hér er reynt að snúa út úr þessu máli mínu á þann hátt, að ég sé hér að draga úr því, að það hafi þurft að gera þá hluti, sem hæstv. ríkisstj. gerði á sínum tíma. Það hef ég ekki gert. Ég hef hins vegar gagnrýnt það, að hún skyldi ekki afla til þess fjár, vegna þess að hitt er að gefa út falskar ávísanir.