02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í D-deild Alþingistíðinda. (4607)

262. mál, raforkumál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun aðallega ræða um 2. lið þeirrar till., sem hér liggur fyrir, þ.e. þann kafla, sem fjallar um dreifingu raforkunnar. Hæstv. iðnrh. minntist áðan á till. okkar níu sjálfstæðismanna, sem flutt var hér fyrr á þinginu varðandi dreifingu raforkunnar, en mér sýnist satt að segja, að það sé ákaflega frjálsleg túlkun, ef ráðh. heldur, að það sé verið að mæta þeim óskum, sem settar voru fram í þeirri þáltill., sem hér um ræðir. Ég vil leyfa mér að lesa fyrri hluta þessarar till., með leyfi hæstv. forseta, en hún hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar endurskoða orkulög nr. 58 29. apríl 1967, með það fyrir augum, að komið verði á sérstökum orkuveitum landshluta, er taki við verkefnum Rafmagnsveitna ríkisins.“

Á þessu er geysilegur munur, á því, sem lagt er til í till. þeirri, sem hér er um að ræða, og till. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir til umr., enda þarf ekki annað en líta á upphaf grg. með till., þar sem gerð er grein fyrir, hverjir hafi staðið að samningu till. Þar kemur alveg greinilega fram, að þar er alveg sett til hliðar sjónarmið sveitarfélaga og sjónarmið Sambands ísl. rafveitna. Þetta eru að sjálfsögðu ágætir menn, sem hafa staðið að þessari till. Það eru tæknimenn og menn, sem hafa sérþekkingu á fjármálasviðinu, en það hefur ekki verið haft svo mikið við sveitarfélögin í landinu eða Samband ísl. rafveitna að gefa þeim nokkurn kost á því að eiga fulltrúa við samningu þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, og segir það út af fyrir sig sína sögu um þá stefnumörkun, sem hæstv. ráðh. var hér að lýsa í raforkumálunum.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að það á að láta raforkumálin, dreifinguna einnig, þróast inn á þá braut, að það verði ríkisvaldið sjálft eða stofnun, sem heyrir beint undir ríkisvaldið, sem kemur til með að hafa yfirstjórn þessara mála. Þetta er að sjálfsögðu ekkert nýtt á þessu þingi, því að við höfum séð, hvert stefnir í fleiri atriðum. Má þar benda á Framkvæmdastofnun og fleiri aðila, sem nú eiga að fá mjög aukið vald, sem áður hefur verið í höndum bæði einstaklinga og sveitarfélaga. Og þetta var, að ég taldi, mjög rækilega undirstrikað af hæstv. ráðh. hér áðan. Hann lýsti því, að yfirstjórn þessara mála ætti að vera á svipuðum grundvellí og hjá Landssímanum. Í því felst, að stofnun hér í Reykjavík — hvort sem það yrðu nú Rafmagnsveitur ríkisins eða aðrir — ætti að setja gjaldskrárnar og síðan ætti maður að heyra tilkynningu um það í útvarpinu, að nú væri þessi og þessi gjaldskrárbreyting gerð og eftir því bæri að fara. Þetta er sannarlega ekki það, sem sveitarfélögin óska eftir og hafa stefnt að. Sveitarfélögin telja, að eins og málum er komið í sambandi við dreifinguna, þá sé að því leyti lokið hlutverki Rafmagnsveitna ríkisins og samtök sveitarfélaganna, landshlutasamtök, eins og að er stefnt, séu þess vel umkomin að taka að sér að annast það hlutverk, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa fram að þessu haft varðandi þessa hlið raforkumálanna. Við, sem erum nú kunnugir þessum málum úti á landsbyggðinni, fáum ekki séð, hvers vegna í ósköpunum þarf þarna millilið, sem leggur 20% á raforkuna frá heildsalanum til sveitarfélagsrafveitnanna. Ég tel þetta vitanlega gersamlega óþarft og það sé bara verið að auka kostnaðinn við raforkudreifinguna og hækka verðið á raforkunni til almennings. Það liggur alveg ljóst fyrir, að þessi milliliður leggur um 20% á, og í sambandi við það má benda á, að í lögum um Landsvirkjun er beint gert ráð fyrir því, að Landsvirkjun selji beint til rafveitna sveitarfélaga, þannig að það er ekkert, sem hindrar það, að sveitarfélögin sjálf, eins og ráðh. sagði réttilega, með því ef til vill að færa saman fleiri veitur í eina landshlutaveitu, verði þess umkomin að sjá fyrir sínum málum sjálf og annast tæknilegu hliðar málanna að því er varðar neytendur. Ég tel því, að þáltill., eins og hún liggur fyrir að þessu leyti varðandi dreifinguna, stefni í þveröfuga átt við það, sem við níu þm. Sjálfstfl. lögðum til í okkar till., sem hér var rædd fyrr á þinginu.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að sala raforku er að okkar dómi einn þátturinn í því, sem sveitarstjórnir eiga að annast, alveg eins og vatnsveitur og annað slíkt, sem talið er sjálfsagt, að undir þær heyri, og þess vegna þurfi ekki að hafa þarna neinn millilið, sem nú á að verða yfirstjórn, eins og þáltill. gerir ráð fyrir, að Rafmagnsveitur ríkisins verði. Það er mjög misjafnt í hverju sveitarfélagi, hvernig ráðamenn raforkumála þar vilja haga töxtum rafveitnanna. Það hentar betur á einum stað en öðrum að hafa þennan taxta eitthvað lægri, en annan taxta þá eitthvað hærri. Er það bæði í sambandi við iðnað og í sambandi við hitun húsa og annað slíkt. Ég efast um, að einhver yfirstjórn hérna í Reykjavík geti haft nokkurn skilning á því, hvað hentar á hverjum stað.. Að vísu er þá gert ráð fyrir því í till., að það skuli verða einhvers konar yfirstjórn þessara landshlutaveitna, en gjaldskráin á t.d. alls ekki að heyra undir þá yfirstjórn, sem er heima í héraði. Ég tel þetta aðeins sýndarmennsku, að það sé verið að tala um einhvers konar yfirstjórn, þegar þannig er frá mátunum gengið, að hún hefur raunverulega ekkert með fjármál landshlutaveitnanna að gera. Það kemur allt frá þeirri miðstjórn, sem á að koma á laggirnar hér í Reykjavík í sambandi við dreifikerfið. Og hvers vegna í ósköpunum þarf það að vera svo, að nú eigi að fara að hluta Rafmagnsveitur ríkisins niður í marga parta, senda þá út í dreifbýlið og láta Rafmagnsveiturnar verða eiganda að hálfu leyti á móti sveitarfélögunum eða a.m.k. að hálfu leyti? Ég sé ekki, að á þessu sé nokkur þörf, eins og ég hef sagt áður. Þetta er ekki flóknara mál en svo, að landshlutaveitur, sem væru undir stjórn þeirra manna, sem fara með þessi mál úti í dreifbýlinu, þeirra sveitarstjórnarmanna, sem annast þau þar, þær geti alveg séð fyrir þessum málum, þannig að vel fari, og þurfi ekki að hafa þar nokkurn millilið til þess að hafa yfirstjórnina á hendi. Það er þetta atriði i sambandi við till., sem ég rak strax augun í. Það er mjög andstætt því, sem fram kemur i till. okkar sjálfstæðismanna. Það er þessi stefna að hafa eitt miðstjórnarvald hér í Reykjavík, sem er höfuðið á öllu saman og sem raunverulega hlýtur í framkvæmdinni að verða sá aðili, sem stjórnar þessu. Rafmagnsveitur ríkisins hafa vissulega í gegnum árin og áratugina unnið gott og þarft verk fyrir þjóðina. Þær hafa staðið að uppbyggingu margra rafveitna og annazt á byrjunarstigi dreifingu, þar sem sveitarfélögin gátu ekki komið því við, töldu sig ekki þess umkomin, en þetta viðhorf er gjörbreytt. Hér liggur það fyrir, að komnar eru fram upplýsingar um það, að stjórnin ætli sér á næstu þremur árum að ljúka rafvæðingu sveitanna. Ég sé ekki, þegar því hlutverki er lokið, hvaða hlutverk Rafmagnsveitur ríkisins eigi þá að hafa með höndum, því að þá er ekki um annað að ræða en dreifikerfið, og eins og við höfum haldið fram og höldum alveg hiklaust fram, þá eru þær alveg óþarfur milliliður, sem kostar þetta álag á rafmagnið, eins og ég hef sagt. Það munu vera um 20%, sem notendur i dag þurfa að greiða þessu fyrirtæki sem millilið auk raforkuskattsins, sem rennur til Rafmagnsveitna ríkisins einnig.

Ég vil í þessu sambandi ítreka það, sem ég sagði hér fyrr í vetur og benti hæstv. iðnrh. þá á, að þessum mátum er á allt annan veg fyrir komið í okkar nágrannalöndum. Það liggur alveg ljóst fyrir, að hvorki í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð er það ríkið, sem skiptir sér nokkuð af dreifingu rafmagnsins, að því einu undanskildu, að í Svíþjóð annast ríkið 6% af dreifingunni. Í Danmörku er þetta að rúml. hálfu leyti, 52%, í höndum sveitarfélaga, en 48% í höndum einstaklingsfélaga, þ. e. hlutafélaga eða svokallaðs handelssetskab. Í Noregi er þetta að tæpl. hálfu leyti, 47%, í höndum sveitarfélaga, en 53% í höndum annarra aðila. Í Svíþjóð eru 62% í höndum sveitarfélaga og 32% í höndum annarra aðila. Þetta er eina undantekningin á Norðurlöndum, þar sem ríkið blandar sér inn í dreifingu raforkunnar. Það er hluti af raforkuframleiðslunni bæði í Noregi og Svíþjóð, nokkuð stór hluti, en ekki af dreifikerfinu. Það er það, sem skilur á milli, og ég tel, að þessi till. stefni að því leyti í mjög öfuga átt, ef enn á að halda við þessu stóra apparati, sem heitir Raforkumálaskrifstofa ríkisins, og ekki einasta, að hún eigi nú að vera miðstöð hérna í Reykjavík, heldur eigi hún að verða eignaraðili a.m.k. að hálfu leyti á móti sveitarfélagsrafveitum úti í dreifbýlinu. Það er ekki það, að verið sé að stefna að því, eins og okkar tilt. gerir ráð fyrir, að leggja Raforkumálaskrifstofuna niður, heldur á að fara að auka valdsvið hennar mjög og gefa henni miklu sterkari ítök í sambandi við dreifinguna en hún hefur þó haft til þessa, því að þótt talað sé í till. um það, að þær rafmagnsveitur, sem óska þess, geti haldið áfram eins og verið hefur, þá hygg ég nú, að þeim rafveitum, sem kannske kynnu að óska þess, yrði gert það ákaflega erfitt af ríkisvaldinu að vera sjálfstæðar áfram. Það er hægt að gera það á margan hátt. Þegar beinlínis er stefnt að því að koma þessu öllu undir ríkið; þá hafa stjórnvöld ákaflega hæg tök á því að knésetja þá einstaklinga, sem kannske vildu vera eitthvað frjálsir í þessum efnum, og það er það, sem ég óttast, að mjög yrði gengið á lagið með, ef raforkulög yrðu samþ. eitthvað í þeim anda, sem þessi till. gerir ráð fyrir.

Það var hér uppi á sínum tíma mjög sterk tilhneiging í þessa átt hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Það segir að vísu í grg., að sótt hafi verið á þær af einstökum sveitarfélögum að yfirtaka þeirra veitur. Ég hef um þetta allt aðrar upplýsingar, að Rafmagnsveitur ríkisins hafi sótzt mjög eftir því að fá að yfirtaka ýmsar rafveitur. En reyndin varð sú, að Rafmagnsveitur ríkisins yfirtóku nokkrar rafmagnsveitur hér á landi. Ég man ekki, hvaða ár þetta skeði, en að því var stefnt þá að koma dreifingunni einnig að fullu undir Rafmagnsveitur ríkisins. Það voru nokkrar rafmagnsveitur á landinu, sem urðu til þess að afhenda sínar eignir til Rafmagnsveitna ríkisins. Ég hygg, að hver einasta þeirra mundi i dag mjög óska eftir, að hún hefði ekki gert það, enda hefur þetta fyrirtæki, þessi hliðin hjá Raforkumátaskrifstofunni verið rekin með mjög miklum halla undanfarin ár. Þetta sýna fjárlög, og þetta vita allir, sem hafa kynnt sér málið, að á þessari hlið hjá Raforkumálaskrifstofunni hefur verið um mjög mikinn rekstrarhalla að ræða. Þegar kom að hinum stærri veitum í sambandi við þetta, þá var einnig mjög sótt á þær að afhenda Raforkumálaskrifstofu ríkisins sínar eignir og láta þær yfirtaka dreifinguna úti á landsbyggðinni. En ég segi, að sem betur fer urðu allar stærri rafveiturnar til þess að synja um samning um það. Ég þekki það persónulega, að lofað var gulli og grænum skógum, ef við vildum gangast inn á þetta. Það var gert í sambandi við Rafveitu Vestmannaeyja. Okkur var lofað alveg ótrúlega góðum kjörum, ef við vildum á þetta fallast. En auðvitað var þar engu að treysta. Þeir menn, sem þá sömdu, gátu kannske staðið við þetta í stuttan tíma. Alþ. gat alltaf breytt þessu með nýjum tögum, og stjórnvöld hefðu kannske ekki fengið við það ráðið, þótt þau hefðu viljað, þannig að ég er sannfærður um, að við værum í miklu verri aðstöðu, sveitarfélögin, í sambandi við dreifingu orkunnar, hefðum við farið inn á þetta með hinar stærri veitur, þegar mjög var á þær sótt. Þær sóttu ekki á í þessu, rafmagnsveiturnar, það er mishermi í grg., heldur var af Rafmagnsveitum ríkisins mjög sótt á rafveiturnar að fá að yfirtaka rekstur þeirra og eignir til þess að geta komið því á, sem nú er stefnt að, að það yrði aðeins einn aðili, þ.e. ríkið, sem raunverulega réði öllu í þessum mátum, eins og hæstv. ráðh. réttilega sagði, að Landssiminn gerði i dag. Það á sem sagt að koma á alveg sama formi, en raforkumálin eru bara allt annars eðlis en Landssíminn af þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan, að það er svo margbreytilegt, hvernig einstakar rafveitur telja sér og íbúum byggðarlagsins hagkvæmast að haga gjaldskrám sínum. Það er ákaflega stórt atriði í þessu, og ég hef enga trú á því, að óskir í þá átt til einhverrar yfirstjórnar hérna í Reykjavík, eins og við þekkjum hana í dag, yrðu nokkuð teknar til greina.

Ég er mjög inni á þeirri skoðun, sem hér hefur áður komið fram, bæði hjá hæstv. iðnrh. og fleirum, að það beri að stefna að því í framtíðinni i mjög vaxandi mæli að hita upp íbúðarhús með rafmagni. Þetta er þjóðfélagslega séð mjög sjálfsagt, og ég tel þetta fyrir neytendur einnig mjög sjálfsagt, því að rafmagn til hitunar hefur marga kosti umfram olíu. Þó að hún sé í mörgum tilfellum ágæt, þá hefur hitun húsa með raforku marga kosti umfram það, og ég er sannfærður um, að það má koma þessum málum þannig fyrir, að það verði ekki dýrari hitun en með olíu, eins og nú á sér stað mjög víða úti um landið. En ef taka á alla yfirstjórn rafveitna úr hendi sveitarfélaganna og láta hana í hendur einhverrar miðstjórnar hérna í Reykjavík, þá hygg ég, að erfitt yrði að koma á þar þeirri breytingu, sem mörg sveitarfélög óska, að gerð yrði einmitt í sambandi við þennan þátt raforkumálanna, að stefna að aukinni hitun húsa með rafmagni.

Þegar Rafveita Vestmannaeyja fór fram á það á s.l. ári að fá keyptan sæstrenginn milli lands og Eyja og línuna upp að Hvolsvelli, þá var það gert í þeim ákveðna tilgangi af bæjaryfirvöldum að taka upp hitun húsa með raforku í mjög auknum mæli úti í Eyjum og stefna að því, að á vissu bili yrði alveg skipt um, lögð yrði niður kynding húsa með olíu, en stefnt að því að hita þau með rafmagni. En við töldum okkur nauðsynlegt að hafa þá alveg tökin á því að geta samið beint við Landsvirkjun og síðan ráðið töxtunum sjálfir, dreift heildarkostnaðinum á þá aðila, sem við töldum eðlilegast, að bæru hann í því hlutfalli, sem kæmi bezt út fyrir byggðarlagið í heild. Það er þetta, sem ég tel, að sé mjög stór þáttur í sambandi við raforkumálin og óttast mjög, að ef farið væri inn á þá stefnu, sem hér er mörkuð, þá mundi aðstaðan til slíkra breytinga, bæði á þessum stað og víðar, verða ákaflega erfið.

Ég sé nú ekki ástæðu til við þessa umr. að fara mörgum fleiri orðum um málið, en vildi þó láta þetta koma fram og sérstaklega undirstrika það, að ég tel það mjög frjálslega túlkun hjá hæstv. iðnrh., ef hann telur sig vera að koma til móts við óskir þeirra aðila, sem fluttu hér þáttill. um þetta mál á þskj. 59 nú fyrr í vetur. Mér sýnist, eftir að ég hef tesið þáltill., sem hér liggur fyrir, að hún stefni í höfuðdráttum alveg í gagnstæða átt, en þar sé ekki verið að mæta þeim óskum, sem við höfum sett fram í sambandi við raforkumálin að því er varðar dreifinguna.