02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í D-deild Alþingistíðinda. (4608)

262. mál, raforkumál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði hér m.a. í ræðu sinni áðan, að stjórn Laxárvirkjunar hefði lýst stuðningi sínum við þá stefnu, sem fram kemur í þessari þáltill., sem hér er til umr. Það vill svo til, að ég hef samþykkt stjórnar Laxárvirkjunar hér í höndum og vil lýsa því yfir, að það er víðs fjarri því, að hæstv. ráðh. fari með rétt mál, þegar hann segir þetta. Í samþykkt Laxárvirkjunarstjórnar er einungis vikið að einu atriði í þessari þáltill., en hæstv. ráðh. gerði hana að umtalsefni, eins og hann gat um, á fundi Sambands ísl. rafveitna, sem var haldinn fyrir skömmu. Eftir þann fund samþykkti stjórn Laxárvirkjunar svofellda ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Laxárvirkjunar lýsir yfir jákvæðri afstöðu til þeirra hugmynda iðnrh. um orkuvinnslufyrirtæki fyrir Norðurland, sem fram komu í ræðu hans á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna“, ég endurtek: „um orkuvinnslufyrirtæki fyrir Norðurland.“ Það er einungis ályktað um það atriði, og svo segir áfram: „Stjórn Laxárvirkjunar telur eðlilegt, að skipuð verði nefnd til könnunar á mátinu og tetur sig reiðubúna til þess að tilnefna mann í nefndina.“

Hér er einungis ályktað um einn afmarkaðan þátt þeirrar stefnu, sem hæstv. ráðh. lýsti á þessum fundi, einn afmarkaðan þátt, og meira að segja þess getið mjög ákveðið, að ástæða sé til að kanna hann nánar. Því er það víðs fjarri, að stjórn Laxárvirkjunar hafi með þessari samþykkt lýst stuðningi sínum við þá stefnu í heild, sem hæstv. ráðh. boðaði hér að fælist í og felst í þeirri þáttill., sem hér er til umr.

Ég verð að segja það, að mér finnst þessi till., sem hér liggur fyrir um raforkumál, mjög einkennileg að samsetningu. Í 1. mgr. segir umbúðalaust, að hverju er stefnt. Það er stefnt að því, að meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur verði í höndum eins aðila. Svo segir og líka alveg umbúðalaust: „Að þessum markmiðum skal unnið í áföngum sem hér segir:“ Og þá fyrst er farið að tala um landshlutafyrirtæki, þegar farið er að minnast á, hvernig að málinu skuli unnið. Samkv. orðanna hljóðan er því alveg skýrt, að ætlunin er sú að vinna að því að koma meginraforkuvinnslu og raforkuflutningi undir miðstjórnarvald ríkisins í áföngum, en flagga með því um leið á óljósan og heldur loðinn hátt, að mynda eigi svo nefnd landshlutafyrirtæki, sem framleiði og dreifi raforku. Það virðist sem sagt eiga að vera áfangi á leiðinni að allsherjarmiðstýringu raforkumálanna að koma á fót landshlutafyrirtækjum, sem samkv. þessu ættu ekki að verða mjög langlíf.

Annað atriði — það er komið inn á þetta í grg. með till. — undirstrikar þetta sjónarmið mjög rækilega. Þar er sagt:

„Markmið það, sem stefnt er að varðandi vinnslu og meginflutning raforku, er það, að um þá starfsemi verði í framtíðinni samstarf milli allra hluta landsins,“ svo kemur: „þannig að framkvæmd hennar verði í höndum eins sameiginlegs aðila.“

Samstarf allra hluta landsins, þannig að framkvæmdin verði í höndum eins aðila. Hvernig má koma þessu heim og saman? Ég vil strax lýsa því sem minni skoðun, að till. um landshlutafyrirtæki, bæði á sviði orkuvinnslu og dreifingar, eru mjög athyglisverðar, og ég mundi vitja taka undir það, að þær þyrfti að kanna nánar, eins og stjórn Laxárvirkjunar segir. En það er auðvitað með því fororði, að ákvörðunarvald fólksins úti um hinar dreifðu byggðir landsins sé raunverulegt, af því að það ráði einhverju um framkvæmdina.

Ég vil aðeins víkja svolítið nánar að þessu. Hæstv. ráðh. sagði svo um landshlutaveitur í þessari ræðu, sem hann flutti á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna: „Þessar landshlutaveitur þurfa að hafa stjórn í héraði og vera algerlega sjálfstæðar rekstrareiningar.“ En ráðh. bætir við, því að Adam var ekki lengi í Paradís, eins og menn muna: „Rafmagnsveitur ríkisins eiga hins vegar að hafa á hendi yfirstjórn þessara landshlutaveitna, gera t.d. samninga fyrir þær um kaup á raforku, annast fjármögnun til nýrra framkvæmda og hafa ákvörðunarvald um meiri háttar framkvæmdir.“

Ég vil undirstrika þetta mjög rækilega hér fyrir hv. Alþ., þar sem ráðh. fer fram á, að þessi þáltill. verði samþ. óbreytt, að mér virðist, að í þessum orðum hans felist, að hann vilji hafa meira ákvörðunarvald í höndum ríkisins, í höndum eins aðila en hann vildi vera láta hér í sinni framsöguræðu. Mér finnst einnig mjög athyglisvert, að hugtak, sem ég vildi kalla „ríkiskapítalisma“, einkennir mjög þessa þáltill. Það er ekki á færri en sex stöðum í þessari stuttu till. komið inn á það, að eignarhluti ríkissjóðs megi aldrei vera minni en 50%, ekki í landshlutafyrirtækjunum og ekki heldur í því, sem ráðh. nefndi hér Íslandsvirkjun, að mig minnir, þ.e. sameiginlegu fyrirtæki þessara aðila. Og það er skýrt tekið fram, að þau sveitarfélög, sem verðmæti leggja fram, geti aðeins orðið þátttakendur í þessum fyrirtækjum. Mér er spurn, hvað álítur hæstv. ráðh., að mörg sveitarfélög, eins og að þeim er búið nú með tekjustofna, hafi möguleika til þess að leggja fram fjármagn á móti ríkisvaldinu, sem getur farið í Seðlabankann og dregið þar yfir 1800 millj., ef því sýnist, eða farið ofan í vasann á skattborgurunum með fasteignasköttum eða tekjusköttum, eins og nýlega hefur verið gert? Hvaða möguleika hafa sveitarfélögin til þess að eiga í fullu tré við ríkisvaldið, ef það á að vera grundvöllur að samningum og samkomulagi milli ríkisvalds og sveitarfélaga, fjármagnið? Ég hélt, að hæstv. ráðh. hefði allt aðrar skoðanir í þessum efnum. Ég hélt, að hann hefði lýðræðisleg sjónarmið meira í heiðri en ríkiskapítalismann. Ég held því, að það þurfi mjög að endurskoða þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, ef hún á að teljast fullnægjandi að því leyti, að þessi stefna geti orðið grundvöllur að jákvæðu samkomulagi sveitarstjórna og ríkisvalds í því að halda áfram rafvæðingu landsins og virkja fallvötn eins og hefur komið hér fram hjá hv. þm., að er mikið nauðsynjamál, og auðvitað er nú, eins og hæstv. ráðh. tók fram, um veruleg þáttaskil að ræða á þessu svíði. Því er, ég vil undirstrika það, mikil nauðsyn á því nú að taka raforkumálin til heildarathugunar, ekki sízt vegna þess, að nú er t.d. innan sjónmáls að rafvæða allt landið. Við vitum það, að fyrir liggja stórkostlegir möguleikar fyrir okkur í virkjun fallvatna, og þess vegna er mikil ástæða til þess að taka þessi mál til heildarathugunar, en ekki með þessari stefnu, sem hér kemur fram, að ríkisvaldið geti farið með sveitarfélögin eins og þar er fyrir ætlazt.

Um raforkumálin eru nú í höndum sveitarfélaganna eða ríkisins, sem er eðlilegur hlutur og ég er ekki að mæla gegn, en ég álít, að það eigi að fara að þessu með allt öðrum hætti. Ég hefði haldið, að landshlutaveiturnar, rafveitur landshlutanna, væru eitt það verkefni, sem ætti að fela sveitarfélögunum. Við erum alltaf að tala um, að það verði að endurskoða verkefnaskiptingu ríkisins og sveitarfélaganna, vegna þess að fólkið í sveitarfélögunum hefur beinni og nánari tengsl við þá, sem stjórna þeim, og það getur haft beinni áhrif á sína hagsmuni með þessum hætti. Og við höfum verið að tala um, að þetta mundi auka lýðræðið í þjóðfélaginu, gera það virkara. Það er því að mínum dómi fullkomin ástæða til þess að kanna það, hvort það er ekki rétt einmitt núna, þegar rafvæðingu landsins er að ljúka, eins og ég var að segja áðan, hvort þá er ekki einmitt ástæða til þess að athuga það mjög gaumgæfilega að fela sveitarfélögunum dreifingu raforku úti um land og rekstur rafveitna, viðhald þeirra o.s.frv. Ég fæ ekki betur séð en með þeim hætti megi að verulegu leyti losna við það bákn, sem heitir Rafmagnsveitur ríkisins. Rafveitur landshlutanna úti um land gætu sem bezt keypt sér tæknilega aðstoð, og einhvern veginn finnst mér, að ríkissjóði veiti ekki af að losna við eitthvað af því, sem hann hefur á sinni könnu.

Hvernig fara ætti með orkuöflunina, það er kannske meiri spurning, en það mætti hugsa sér að gera það kannske á hliðstæðan hátt eins og hér er að vikið og stjórn Laxárvirkjunar hefur gert samþykkt um, að þar verði um að ræða sameiginleg orkuvinnslufyrirtæki ríkis og sveitarfélaga í hinum ýmsu landshlutum. Ég vil benda á, að þó að slíkar leiðir yrðu farnar í skipulagi raforkumála, þá er ekki verið að koma í veg fyrir, að hægt sé að stjórna þeim með svokallaðri heildarstjórn, eins og margir leggja mjög mikla áherzlu á, og að sjálfsögðu er hún mikilvæg. En ég vil benda á, að víða erlendis eru farnar svipaðar leiðir og ég var að nefna hér, t.d. á Norðurlöndum. Þar er sett löggjöf um samrekstur orkuvinnslufyrirtækja, og þar er sett löggjöf um samstarf rafveitna, en ekki farin sú leið að þjóðnýta þessar stofnanir til þess að ná einhverju hagkvæmnimarkmiði með heildarstjórn.

Ég sé ekki mikla ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál hér við fyrri umr., framar því, sem ég hef þegar gert, en ég vil enda með því að benda á það, að ef lýðræðislegt ákvörðunarvald fólksins í landinu verður tryggt í raforkumálunum, sem beinast lýðræðislegt ákvörðunarvald fólksins í landinu verður tryggt og ríkiskapítalistísk sjónarmið verða heldur látin liggja í láginni, þá býst ég við því, að ég gæti fylgt slíkri till., en ekki eins og hún er hér orðuð, því að ég sé ekki betur en í henni komi fram mjög ákveðin þjóðnýtingarstefna á öllum raforkumálum landsins.