02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í D-deild Alþingistíðinda. (4612)

262. mál, raforkumál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi leiðrétta hér eitt eða tvö atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. iðnrh., þar sem hann í fyrsta lagi sagði, að við hefðum enga stefnu í raforkumálum. Ég vil í sambandi við dreifingu raforkunnar, sem ég ræddi um, benda á þá þáltill., sem hér var til umr. fyrr í vetur. Þar er mörkuð alveg skýr og ákveðin stefna, þar sem við leggjum til, að landshlutasamtök sveitarfélaga taki við því hlutverki, sem Raforkumálaskrifstofan hefur annazt í mjög stórum mæli fram að þessu. Þetta er stefnubreyting frá því, sem verið hefur, og ég tel, að þetta sé miklu ákveðnari stefna en fram kemur í þeirri þáltill., sem hér er til umr. nú, þar sem ákaflega erfitt er að sjá eða skilja tilgang till. og samræma hann því, sem hæstv. ráðh. vill túlka hann nú.

Þá vil ég í öðru lagi mótmæla því, að ég hafi verið með nokkurn ómaklegan áróður á Rafmagnsveitur ríkisins eða þeirra starf. Ég held, að ég hafi haft mjög svipuð orð um þær og hæstv. ráðh., að þær hafi á undanförnum áratugum unnið mjög gott og mikið starf í sambandi við raforkumálin, bæði í sambandi við orkuframleiðslu og dreifingu, meðan ekki var aðstaða til að aðrir aðilar gætu annazt þetta. Okkur greinir á um það, að ég held því fram, að raforkumálin hafi nú þróazt á það stig, að samtök sveitarfélaga, landshlutasamtök þeirra, séu þess megnug að yfirtaka það af starfi Rafmagnsveitna ríkisins, sem þær hafa annazt í sambandi við dreifinguna. Ég tel, að málin hafi þróazt þannig, að Rafmagnsveiturnar séu ekki lengur orðnar nauðsynlegur milliliður og sveitarfélögin eigi að taka þessi mál í sínar hendur sem einn þáttinn í því starfi, sem er eðlilegt að mínum dómi, að sveitarfélögin hafi með að gera. Okkur greinir á um þetta. Hæstv. ráðh. hefur sagt það hér, og það kemur fram í þáltill., að Rafmagnsveitur ríkisins eigi enn þá að vera a.m.k. að hálfu leyti eigandi að dreifikerfunum. Ég tel hins vegar, að sveitarfélagið geti mjög vel annazt þetta, eins og nú er komið málum.

Þá ítrekaði hæstv. ráðh. það aftur hér í sinni síðari ræðu, að hann vildi hafa gott samband við sveitarstjórnir í sambandi við raforkumálin. Það, sem hlýtur að vekja tortryggni um það, að þetta sé af einlægni mælt, er þá, hvernig sú nefnd, sem hann skipaði á sínum tíma til að útbúa þessa þáltill., var skipuð. Hefði hæstv. ráðh. viljað hafa gott samstarf við sveitarfélögin og Samband ísl. rafveitna, sem vissulega eru orðin stórir aðilar í sambandi við raforkumálin, þá hefði hann átt að sýna það í verki og skipa fulltrúa frá þessum aðilum í nefndina, sem nú átti að marka hina nýju stefnu, sem hefur verið lögð fram og hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir. Ég tel, að með því að ganga fram hjá þessum aðilum hafi hann síður en svo sýnt, að hann vilji í verki hafa nána samvinnu við þessa aðila, Samband ísl. sveitarfélaga eða Samband ísl. rafveitna, sem vissulega hljóta eðli málsins samkv. að hafa mikinn áhuga fyrir því, og þetta hlýtur að snerta þessa aðila báða mjög mikið, hvernig stefnan verður mótuð í framtíðinni í sambandi við raforkumálin, aðallega þó í sambandi við dreifingu raforkunnar.