02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í D-deild Alþingistíðinda. (4613)

262. mál, raforkumál

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru vissulega mörg atriði, sem freistandi væri að ræða í sambandi við þessa þáltill., enda gefur lengd hennar ein út af fyrir sig tilefni til þess, ef gera má ráð fyrir, að innihald hennar sé í samræmi við lengdina, að ræða hana allítarlega. Ég skal þó reyna að forðast það, en aðeins nefna nokkur atriði, sem upp í hugann komu, þegar ég hlýddi á hæstv. ráðh. tala fyrir þessari till. og reyndar áður í sambandi við lestur og athugun till. Hæstv. ráðh. gat um, að ýmsir ágætir menn hefðu undirbúið þetta mái. og það eru vissulega allt mætir og góðir menn. Ég leyfi mér nú hins vegar að spyrjast fyrir um það, sem ekki kom glöggt fram hjá hæstv. ráðh., hvort líta bæri á þessa till. sem till. þessara manna eða hvort hér væri ekki um það að ræða, að hann hefði falið þessum embættismönnum á grundvelli einhverrar ákveðinnar meginstefnu, sem hann hefði sjálfur markað, að setja á blað það, sem hér liggur fyrir framan okkur. Það finnst mér trúlegra, og það væri a.m.k. æskilegt að fá að vita, hvort þetta er embættismannatillaga eða hvort hann hefur ekki beinlínis lagt fyrir þá að leysa þetta vandamál eða marka stefnu, sem mér finnst ákaflega eðlilegt, að hann gerði, og þetta hafi í rauninni verið vinnunefnd, sem þarna hafi starfað að því að forma till. Og satt að segja verð ég nú að segja það, af því að mér eru kunnir margir þeir mætu menn, sem þarna hafa verið að verki, að mér finnst till. í mörgum greinum ótrúlega óljós og einkennilega orðuð, ef hún er komin frá þessum mönnum að öllu leyti eða a.m.k. ef marka má mikla sannfæringu þeirra. En látum það vera.

Það er annað, sem líka kemur upp í hugann, þegar maður skoðar svona þáltill., sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþ. í því skyni að fá markaða stefnu. Og það er sú spurning, hvort ekki sé heilsteypt stefna hjá hæstv. ríkisstj. í þessu máli, þannig að till. sé komin til vegna þess, að þar sé ágreiningur um málið eða a.m.k. ekki ákveðin, fastmótuð stefna allra hæstv. ráðh., þannig að þeir að vísu hafi gefið hæstv. iðnrh. leyfi til þess að flytja þessa till., en það sé fyrst og fremst stefnumörkun, sem hann sé hér að leita stuðnings við, vegna þess að það sé ekki fullkomlega fastmótuð sannfæring allra meðráðherra hans, að svona beri á málum að halda, en þeir eftir atvikum vilji fella sig við það, ef hann fær fyrir henni meirihlutafylgi hér á meðal þm. Ég spyr að þessu vegna þess, að að öðrum kosti er málið ákaflega einkennilega til komið, og það kannske gefur mér nokkurn rétt að spyrja með þessum hætti, að ég hef sjálfur átt hlut að því að leggja þáltill. fyrir Alþ. um staðgreiðslukerfi skatta, sem sumum fannst einkennilegt líka, að ég legði fyrir þingið, en það átti sín tildrög í því m.a., að ég sjálfur var ekki fullkomlega sannfærður um, að rétt væri að innleiða staðgreiðslukerfið, en benti hins vegar bæði á kosti þess og galla. Málið hafði verið rætt það mikið hér á þingi og gerðar um það ályktanir, að ég taldi rétt, að Alþ. fengi að segja um það skoðun sína, og meðráðherrar mínir voru ekki heldur fyrir fram sannfærðir um, að rétt væri að taka þetta kerfi upp. Engu að síður var leitað álits Alþ. um málið.

Ég nefni þetta sem dæmi fyrir hæstv. iðnrh., ef hann vill vitna í eitthvað hliðstætt, og spyr, hvort það sé ekki hugsanlegt, að þessi till. hans nú sé fyrst og fremst skoðanakönnun, sem meðráðherrar hans hafi látið gott heita, að hann leitaði eftir, án þess að hér sé verið að slá fram fastmarkaðri stefnu ríkisstj. um það, að svona skuli þetta vera og á engan hátt annan. Þetta er mjög æskilegt að vita, vegna þess að ef hér er verið að leita eftir samstöðu við Alþ., alla flokka, þá er auðvitað sjálfsagt að skoða málið í því ljósi, og sé það ætlunin, þá verð ég þó að láta í ljós mikla undrun mína, ef hæstv. ráðh. ætlar að knýja þetta mál fram nú, vegna þess að það er komið að þinglokum. Við höfum að vísu fengið að sjá þetta fyrir ekki löngu síðan, og hér er vissulega um mikið mál að ræða, nýja stefnu, segir hæstv. ráðh., og ef hann ætlast til þess, eins og hann segir hér í dag, að hann vonist til, að það geti orðið um það samstaða á milli allra flokka, eins og hefur verið í orkumálum að undanförnu, eins og hann orðaði það, þá finnst mér hann ekki leggja lið sitt til þess, ef hann ætlar að knýja þingið til þess að gera ályktun í jafnumfangsmiklu máli eins og þessu án þess að fá svigrúm til þess að kanna það betur en er nokkur möguleiki að gera á þeim dögum, sem eru nú til þingloka. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er alls ekki reiðubúinn til þess að taka afstöðu til þessa máls m.a. vegna þess, að ég tel, að það sé ekki nema sjálfsagður hlutur og í rauninni í samræmi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, og ég býst við, að það sé svo í huga margra annarra hv. þm., að þeir vilji gjarnan hafa samráð við sína heimamenn.

Það eru rafmagnsveitur í mörgum héruðum og flestum kjördæmum þessa lands. Það eru sjálfstæðar virkjanir, það eru samvirkjanir sveitarfélaga og ríkis, og það eru algerar ríkisvirkjanir. Öll þessi skipan mála eða allar þessar tegundir af skipan mála eru til í sambandi við virkjanirnar sjálfar. Um þetta hafa farið fram miklar umr. Það hafa farið fram miklar umr. um t.d. jöfnun raforkuverðs. Það er búið að vera til umr. hér í þingi langalengi, og sýnist sitt hverjum um það. Að vísu telja allir, að að því verði stefnt, og mín skoðun er, að svo hljóti þetta að fara að lokum. En í ljósi þessarar staðreyndar og í ljósi þess mikilvægis, sem það vissulega er, og ég tek undir það með hæstv. ráðh., að reyna að fá sameiginlega stefnu í jafnstóru máli og hér er um að ræða, sem er mál ekki aðeins þessara næstu ára, heldur næstu áratuga, þó að við horfum nú ekki lengra fram í tímann, þá skiptir það miklu máli, að það sé ekki verið að breyta þar um grundvallarstefnu eftir því hvaða stjórn situr hverju sinni. Í því er ég honum sammála. En þegar hann talar um það, sem rétt er einnig, að þó að þessi till. verði samþ. nú á þessu þingi, þá muni það taka langan tíma að koma þessu í framkvæmd, þá sé ég ekki, hvernig hann getur ætlazt til þess og telur í rauninni nokkra þörf á því að knýja Alþ. til þess að taka ákvörðun í málinu núna, sem gæti leitt til óheppilegrar niðurstöðu, vegna þess að ég held, að við getum sameinað skoðanir okkar í þessu máli. Ég er hæstv. ráðh. sammála um það, þó að þar beri vissulega á milli sem höfuðatriði það miðstjórnarvald, sem hér er stefnt að með þessari till. Hins vegar held ég, að það geti ekki orðið neinn ágreiningur um það, að mynduð verði sérveitukerfi eða héraðsveitur. Það er í rauninni sameiginleg skoðun flestra í þessu efni, en þar er um flókið vandamál að ræða. Það eru til í þessum héruðum sumum hreinar ríkisvirkjanir. Það eru til, eins og ég segi, samvirkjanir ríkis og sveitarfélaga, og það eru til algerar einkavirkjanir þessara héraða, þannig að allt þetta þarf að skoðast mjög vandlega, hvernig hægt er að koma þessu á. Þróunin hefur öll gengið í átt til aukins samruna, og það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það hlýtur að líða að því, að öll orkuver landsins verði tengd saman. En það er hægt að gera þetta með mismunandi hætti. Hafa þegar verið mörkuð ýmis mikilvæg stefnuatriði í þessu, eins og t.d. með lögunum um Landsvirkjun og ákvæðunum um það, að Laxárvirkjun geti gerzt aðili að Landsvirkjun, ef hún óski eftir því. Þá er gert ráð fyrir því að tengja saman samveitukerfi Norðurlands og Suðurlands, ef það þykir henta. Austurlandið verður vafalaust þar með, og önnur héruð landsins koma, þegar tímar líða. En það þarf margt að skoða í þessu efni.

Það kemur nú á daginn, að einn af ágætum hv. þm. Norðurl. e. og hæstv. ráðh. greinir á um það, hvernig beri að skilja ályktun Laxárvirkjunarstjórnar um skoðanir hæstv. ráðh. Hann vill túlka hana sem algert jáyrði Laxárvirkjunarstjórnar við þeirri hugmynd, sem hér er sett fram. Ég leyfi mér að taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér, að ég held, að hæstv. ráðh. leggi of ríkan skilning í það, sem hér er um að ræða. Þar hefur komið fram velvilji, sem ég hygg, að sé hvarvetna fyrir hendi, ef skynsamlega er á málum haldið. Ég er hæstv. ráðh. sammála um, að það hafi verið rétt, að hann túlkaði þetta mál á fundi Sambands ísl. rafveitna, en það á ekki að þvinga þm. til þess að taka afstöðu í svona máli á 2–3 vikum, um grundvallarstefnumörkun til framtíðarinnar, án þess að þeir geti farið heim í sín kjördæmi og rætt þessa nýju hugmynd — hann segir sjálfur, hæstv. ráðh., að hér sé um nýja stefnu að ræða, — við þá aðila, sem með orkumálin fara. Ég vil nú biðja hæstv. ráðh. bara í fullri vinsemd að taka það til íhugunar, hvort mín skoðun í þessu efni sé ekki rétt. Ég er sannarlega ekki að mæla þar af neinum fjandskap við þær hugmyndir, sem hæstv. ráðh. er með, en ég tel, að það væri hreinn flumbruskapur að fara að heimta það af þinginu — það getur verið, að hann geti knúið sitt lið til þess, hann knýr varla aðra til þess — að samþykkja þessa þál. hér, og niðurstaðan yrði þá sú, að við kæmum klofnir fram í máli, sem við kannske alls ekki erum klofnir í.

Þessu vildi ég leyfa mér að skjóta fram sem grundvallaratriði í þessu máli, án þess að fara að ræða einstök atriði þess. En við sjáum nú strax, hvað þetta er flókið, til viðbótar því, sem ég gat um, hinar mörgu tegundir orkuvera, hvernig eignaraðild þeirra er háttað. Landsvirkjun er sameign ríkis og Reykjavíkurborgar. En hver er skoðun Reykjavíkurborgar á því, að talað er um, að ríkið eigi áfram að eiga, eins og það er orðað, a.m.k. 50% í þessari nýju Landsvirkjun Íslands, þá væntanlega þessari Landsvirkjun hér? Hún verður stofninn að Landsvirkjuninni. Á þá smám saman að rýra hlut Reykjavíkurborgar og eignaraðild að þessari virkjun? Og með hvaða hætti á það að gerast, og hvað segir Reykjavíkurborg um það? Lýstu þeir blessun sinni yfir þessu á fundi Sambands ísl. rafveitna? Ég spyr. Borgarstjóri Reykjavíkur á hér sæti á Alþ., og hefði verið æskilegt, að hann hefði getað fengið tækifæri til þess að lýsa skoðun sinni í því máli. Vonandi getur hann það, áður en til loka málsins kemur, en hér er vissulega ekki um lítið atriði að ræða.

Ég held, að eins og þetta mál liggur fyrir og ef á ekki að fá að skýra það betur, heldur aðeins að gleypa það hrátt, eins og það er lagt hér fyrir, þá skapist sú mikla tortryggni, sem hér hefur verið vikið að, að hér sé stefnt að algeru miðstjórnarvaldi um alla orkuvinnslu í landinu. Ég skal engu um það spá, hvort þróunin verður sú og að sett verði upp slíkt fyrirtæki, sem hæstv. ráðh. talar um. En ég held, að menn vilji hugsa sig töluvert um, áður en þeir fara að slá föstu slíku miðstjórnarvaldi yfir allri orkuvinnslu undir einum hatti. Og það er vægast sagt ákaflega hæpið að halda því fram, að af því að til séu héraðsveitur, sem eigi aðild að þessu mikla bákni, þar sem ríkið á að vera a.m.k. helmingsaðili, — ég legg áherzlu á, a.m.k. helmingsaðili, — leiði það af sér, að verið sé að auka valdsvið héraðanna. Varla a.m.k. þeirra, sem þegar eiga sín orkuver sjálf. En það kann vel að vera miðað við þá þróun, sem er í rafvæðingarmálum, og þá miklu nauðsyn, sem hæstv. ráðh. gat um og við getum allir tekið undir að sé á því að framleiða ódýra raforku, að þetta reynist að lokum skynsamlegt að gera. En ég held, að málin hafi verið að þróast í heilbrigða átt á undanförnum árum og skilningur manna sé smám saman að vaxa á því, að það þurfi jafnsjálfsagðan hlut og að tengja saman orkuver. Það muni koma. Þetta er ekki ný uppáfynding hjá hæstv. ráðh. og að því leyti ekki nein ný kenning. Þetta hafa menn vitað, að yrði þróunin, eftir því sem orkumálin mjökuðust áfram. AS vísu hafa menn gjarnan viljað hafa virkjanir sem víðast um landið, og auðvitað væri það alveg fráleitt að ætla að virkja á einum stað í landinu og dreifa svo með „hundum“ rafmagninu um allt landið. Það mundi skapa slíkt öryggisleysi, að það væri ekki tiltækilegt, enda veit ég, að það er ekki skoðun hæstv. ráðh. En það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti, og þessi orkuver þurfa ekki öll að vera undir sömu stjórn. Það má tengja þau saman, og það má vel hugsa sér nána samvinnu á milli þeirra, án þess að þau séu eign sama aðila, alveg eins og verið hefur, þannig að það er ekkert upplagt mál endilega á þessu stigi að ætla nú allt í einu að fara að rjúka í að marka ákveðna stefnu í þessu, sem í rauninni ekkert liggur á að gera.

Menn eru sammála um það, eins og hæstv. ráðh. sagði, hvað gert hefur verið. Menn eru sammála um, að ráðizt verði í nýja stórvirkjun hér. Að vísu eru menn ekki sammála um, hvort eigi að ráðast í þetta án þess að nokkur vissa sé um, hvort nokkur þurfi á rafmagninu að halda eða ekki. Þar er ég á öðru máli en hæstv. ráðh. Ég held, að það væri ekki giftusamlegt, en ég skal ekki fara út í þá sálma. En um þessa þróun hafa menn verið sammála, og því þá í ósköpunum að vera að knýja hv. þm. með offorsi nú á síðustu dögum þingsins til þess að fara að skrifa undir þennan langhund, sem þessi þáltill. óneitanlega er, og fá ekki að skoða hana ofan í kjölinn, hvað í henni raunverulega felist?

Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. segi, að ég sé með þessu enn þá einu sinni að sýna það, að Sjálfstfl. hafi enga stefnu í orkumálum og bjóði ekki upp á neina aðra stefnu. Við erum ekkert endilega að segja, að við getum ekki fallizt á margt, sem í þessari till. er, og við höfum vissulega ráðið í veigamiklum efnum um stefnuna í orkumálum undanfarin ár. Ég veit ekki betur en að undanfarin 12 ár hafi orkumálaráðh. verið úr Sjálfstfl. og hafi markað stefnuna í orkumálum, þá stefnu, sem hæstv. núv. orkumálaráðh. segir, að enginn ágreiningur sé um. Þá er naumast hægt að segja, að flokkurinn hafi enga stefnu.

Nei, ég ítreka það og legg á það áherzlu við hæstv. ráðh. og trúi ekki öðru en hann a.m.k. vilji íhuga það, ef hann hefur á annað borð áhuga á því, sem hann sagði hér, að fá um þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar samstöðu, að hann knýi ekki fram afgreiðslu þessarar till. Það hefur sína þýðingu, að hann hefur lagt hana fram, en æskilegt er, að þm. geti farið heim og rætt við þá menn, sem með orkumál fara í þeirra kjördæmum. Ég óska þess fyrir mitt leyti, og með því móti er ég ekkert að lýsa andstöðu né meðmælum, heldur vil ég skoða það nánar, hvernig menn líta á þessi mál, sem ábyrgð bera á orkumálunum í mínu kjördæmi a.m.k., þó að ég hugsi ekki lengra, og mér þykir ólíklegt annað en að sú hugsun sé ofarlega í huga margra hv. þm., ekki síður í stjórnarliðinu en í stjórnarandstöðunni.