02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í D-deild Alþingistíðinda. (4615)

262. mál, raforkumál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera örfáar aths. við mál hæstv. ráðh., einkum að því er varðar túlkun hans á samþykkt stjórnar Laxárvirkjunar. Ég gerði aths. um það í fyrri ræðu minni og las þá hér þessa samþykkt, sem ótvírætt er aðeins um einn þátt þeirrar stefnu, sem fram kemur í þessari þáltill., og ég vil endurtaka og lesa upp aftur þessa samþykkt:

„Stjórn Laxárvirkjunar lýsir yfir jákvæðri afstöðu til þeirra hugmynda iðnrh. um orkuvinnslufyrirtæki fyrir Norðurland, sem fram komu í ræðu hans á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna. Stjórn Laxárvirkjunar telur eðlilegt, að skipuð verði nefnd til könnunar á málinu og telur sig reiðubúna til þess að tilnefna mann í þá nefnd.“

Hér er sem sagt lýst þeim vilja, að ákveðin hugmynd um einn þátt þessarar stefnu verði könnuð. Mér þykir það skjóta mjög skökku við, ef hæstv. ráðh. getur sagt það hér, að öll þessi stefna sé auðvitað í samhengi og þess vegna beri að túlka þetta sem jáyrði við allri stefnu þeirri, sem fram kemur í þessari þáltill. Það er lögjöfnun, sem ég tel, að sé ákaflega furðuleg og skil ekki, hvernig hægt er að koma heim og saman.

Enda þótt stefnt sé að landshlutafyrirtækjum um orkuvinnslu, bæði á Norðurlandi og annars staðar, þá er vitanlega hægt að haga öðrum þáttum skipulags raforkumálanna á allt annan hátt en gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Ég benti á í minni ræðu, að það kæmi mjög til álita, hvort ekki væri rétt að fela sveitarfélögunum í einstökum landshlutum í sameign þeirra eða í samstarfi þeirra að reka dreifiveitur t.d. Það er ekkert, sem kemur í veg fyrir það, þó að um sé að ræða, að stofnuð séu orkuvinnslufyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna í hinum ýmsu landshlutum. Þar er um að ræða allt aðra stefnu samt sem áður en kemur fram í þessari þáltill., því að það er skýrt tekið fram í henni, að ríkið skuli eiga a.m.k. 50% í dreifiveitum landshlutanna. Og ég spyr: Ef ríkið á 50% í dreifiveitum landshlutanna og það á líka 50% í þeim fyrirtækjum, sem eiga að vera eins konar yfirstjórn þessara fyrirtækja, hvað er þá vald heimamanna orðið mikið í þessum málum? Ég benti einnig á, að það kynni að vera erfitt fyrir sveitarstjórnir að finna fjármagn, því að það er skýrt tekið fram í þessari þáltill., að sveitarstjórnir þurfi að finna fjármagn til þess að leggja fram á móti ríkinu til þess að taka eðlilegan þátt í þessum dreifiveitum, landshlutafyrirtækjum, sem annast bæði dreifingu og orkuvinnslu. Ég verð því að segja, að það er í algeru ósamræmi við rök almennrar skynsemi að tala um það, að stjórn Laxárvirkjunar leggi blessun sína yfir þessa þáltill. í heild.

Við erum alltaf að tala um, að við þurfum að fá sveitarstjórnunum meiri verkefni. Það sé eðlilegt frá lýðræðislegu sjónarmiði, vegna þess að fólkið heima fyrir viti betur, hvar skórinn kreppir á hinum ýmsu sviðum. Raforkumálin eru einn sá þáttur, sem fólk hefur einna mestan áhuga á að hafa sem beinust áhrif á, og þess vegna finnst mér, — og ég er ekki einn um þá skoðun, — að það hljóti að koma mjög til álita að fela samtökum sveitarfélaga dreifingu raforku. Og ég benti á það í minni ræðu áðan, þannig að ég verð að segja það, að þær aths. hæstv. ráðh., að ekki hefðu komið fram neinar hugmyndir um aðra stefnu frá öðrum ræðumönnum hér, eru svona meira en lítið hæpnar.

Fyrst ég er hér staðinn upp á annað borð, langar mig aðeins til að gera aths. við margítrekaðar staðhæfingar hæstv. ráðh. um sölu á raforku til stóriðju. Hann hefur oft hér á hv. Alþ. gert samanburð á því að selja raforku á 22 aura frá Búrfellsvirkjun og 35 aura frá Sigölduvirkjun. Og hann hefur meira að segja sagt hér, — ég held, að það sé rétt munað hjá mér, — að Íslendingar væru 4 þús. millj. ríkari, ef þeir hefðu selt orkuna á sínum tíma frá Búrfellsvirkjun á 35 aura. Ég fæ nú ekki séð, hvernig hægt er að gera svona samanburð og ætlast til þess, að hv. alþm. taki þetta sem góða og gilda vöru. Auðvitað kostaði Búrfellsvirkjun á sínum tíma margfalt minna en Sigölduvirkjun. Við vitum það, að rekstrarkostnaður orkuvera er fyrst og fremst fólginn í þeim mikla fjármagnskostnaði, sem þeim er samfara. Og hvert kw í Sigölduvirkjun er því miklu dýrara fyrir þjóðina en í Búrfellsvirkjun, vegna þess að þar er mikill verðmunur á, bæði vegna verðhækkana og eins líka vegna þess, að Sigölduvirkjun er ekki eins hagkvæm og Búrfellsvirkjun. Það er það, sem þarf að mæla, hvað verður eftir, en ekki brúttósöluverð. Það er það, sem þarf að mæla, þegar á að fara að bera saman hagkvæmni slíkra virkjana. Það væri alveg eins hægt fyrir okkur að segja: Hvers vegna seldum við fisk 1967? Það var miklu óhagkvæmara fyrir okkur að selja fisk 1967 en nú. (MK: Bindandi samning til 25 ára, en fiskverð eins og það var fyrir nokkrum árum.) Við seldum fisk þá, og það var hagkvæmt fyrir okkur að selja hann þá. Við hefðum ekki verið hér, ef við hefðum ekki selt fisk 1967, þannig að ég fæ ekki séð, að svona lagaður samanburður fái staðizt og undarlegt að ætlast til þess, að alþm. taki þetta sem góða og gilda vöru. Það hefur nú að vísu komið oft fram, að hæstv. ráðh. gera sér ekki allt of háar hugmyndir um greind okkar alþm. og þekkingu, en mér finnst nú skörin færast svo upp í bekkinn, að ég get ekki orða bundizt, þegar svona er borið á borð.

Eins þetta með samningsaðstöðuna við erlenda aðila, hvort það skipti höfuðmáli, hvort samið er við erlenda aðila um leið og virkjunarákvörðun er tekin eða hvort það er gert síðar. Ef við gerum samning um stórfellda orkusölu við erlenda aðila, þá erum við ekki bara að tala við einn aðila hverju sinni, en aftur á móti, ef við geymum það að gera samninga við aðila, sem kaupa orku í stórum stíl, hvort sem það eru innlendir eða erlendir aðilar, ef við geymum það að gera samninga við þá, eftir að við erum búnir að taka ákvörðun um virkjun og færum að framkvæma virkjunina, þá fæ ég ekki betur séð en það sé algerlega hægt að setja okkur stólinn fyrir dyrnar, því að við verðum að selja orkuna. En við förum út í Sigölduvirkjun núna án nokkurra orkusölusamninga, hvort sem það er við innlenda eða erlenda aðila, þannig að ef við getum ekki nýtt virkjunina til fulls fljótlega eftir að hún er byggð, þá hljótum við að gera alveg stórfellt fjármálalegt glappaskot, því að það kostar okkur alveg jafnmikið að framleiða þessa orku, hvort sem við seljum hana eða seljum hana ekki. Það skiptir auðvitað meginmáli í þessu efni, að það þarf að gera orkusölusamninga við innlenda eða erlenda aðila og tengja það ákvörðun um stórvirkjanir, og það er bitamunur en ekki fjár, hvort það er gert þannig, að tekin er ákvörðun á pappírnum um það að gera einhverja virkjun, en verða síðan að semja, það er bitamunur en ekki fjár, hvort það er sem sagt gert samtímis eða eftir á.

Ég vil spyrja í þessu sambandi, og hæstv. ráðh. getur upplýst mig um það: Er mögulegt að fara út í framkvæmd á Sigölduvirkjun án stórfelldra orkusölusamninga, og verður þess vegna ekki að tengja raunverulegar ákvarðanir um virkjunina við slíka samninga, hvort sem það er við erlenda eða innlenda aðila?