02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í D-deild Alþingistíðinda. (4616)

262. mál, raforkumál

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., en í framhaldi af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér réttilega áðan um röksemdir hæstv. iðnrh. um orkuverð og stóriðju, sem ég verð nú satt að segja að segja líka, að ég hlustaði á með mikilli forundrun og hef oft gert, þá var enn eitt atriði, sem hæstv. ráðh. gat um, sem hann sagði, að engum manni mundi detta í hug hér eftir að gera, og það væri að semja við erlendan aðila um það, að viðkomandi aðili keypti á þann hátt, sem hefur verið gert í sambandi við álbræðsluna, hinn erlendi aðili ætti algerlega fyrirtækið, iðnfyrirtækið, og gerði aðeins orkusölusamning eða orkukaupasamning við íslenzka ríkið eða þann aðila, sem orkuna á hér á landi. Ég held, að það, sem gerzt hefur að undanförnu, hafi sannfært menn um, að þetta er tvímælalaust rétt að gera í ýmsum tilfellum, og við höfum alveg fyrir okkur sláandi dæmi. Hvar hefðum við verið staddir í sambandi við það, ef við hefðum átt álbræðsluna í Straumsvík, hefðum verið búnir að slá fyrir henni lán erlendis, sem ég skal ekkert segja nema við hefðum getað, þegar verður stórfelldur samdráttur á álsölu í heiminum og við ráðum ekki við markaðinn? Og það er staðreynd, að Swiss Aluminium lét keyra þessa verksmiðju stanzlaust, en ekki draga úr framleiðslunni, eingöngu vegna þess að þeir voru bundnir af orkusölusamningi við okkur og urðu að nýta þessa orku. Ég held, að við höfum þarna alveg sláandi dæmi um það, hversu gálaust það hefði í rauninni verið, ef við hefðum sjálfir ætlað að fara að taka á okkur þá áhættu að reisa álbræðslu í stað þess að gera þá samninga, sem gerðir voru í sambandi við álbræðsluna. Ég held því, að einmitt þessi reynsla okkar nú, hvað hefur gerzt, muni verða þess valdandi, að jafnvel hæstv. iðnrh., sem ég veit, að er gáfaður og íhugull maður, muni fullkomlega íhuga það, hvort ekki sé rétt að gera einhverja svipaða samninga, þegar að því kemur, að hann semur við einhvern erlendan aðila, sem mér skilst, að hann hafi marga á fingrum sér. Ég veit ekki, hvort það er á hverjum fingri, en það séu margir möguleikar og margir hafi áhuga og hann vilji gjarnan við marga tala, en það má mikið vera, ef hann hugsar sig ekki um tvisvar, áður en hann fer að taka allt of mikla áhættu af stóráhættusömum rekstri, sem kostar mikið fjármagn í fjárfestingu, eins og á sér stað með álbræðsluna, ef hægt er að gera það á annan hátt, eins og hér hefur gerzt með okkar samningum við Swiss Aluminium.

En aðalástæðan til þess, að ég stóð hér á fætur, var sú, að ég harma það mjög, að hæstv. ráðh. skyldi taka þá afstöðu, sem hann hefur gert í þessu máli. Það getur verið, að það séu 3–4 vikur síðan hann afhenti okkur til athugunar þessa löngu grg., sem er ekki um neitt smámál, og því fer víðs fjarri, að það hafi verið eining um þetta mál hér d Alþ., einstök veigamikil atriði þess eins og bæði jöfnunarverð á raforku, eignarrétt á orkuverum og annað þess konar. Hann getur ekki ætlazt til þess, að allir þm. séu reiðubúnir að taka afstöðu til þessarar stefnumörkunar hans, jafnvel þó að dr. Jóhannes Nordal, sem ég virði mikils og ég vona, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. taki eins mikið mark á í öllum öðrum efnum og hann virðist hafa gert í þessu efni, þó að hann sé höfundur að þessu plaggi. En ég a.m.k. get ekki tekið þá afstöðu, og það liggur þá alveg ljóst fyrir eftir þessa afstöðu hæstv. ráðh., að það er á hans ábyrgð, en ekki okkar þm., náist ekki eining og verði andstaða við lausn þessa máls og það komi þannig fram, að það virðist vera klofningur um heildarstefnuna í orkumálum Íslands. Ég vil sem þm. fá að ræða þessi mál, sem eru þýðingarmestu mál fyrir flest eða öll kjördæmi. Ég vil fá að ræða þau við ábyrga aðila heima í mínu kjördæmi, og ég vænti þess, að aðrir þm. hugsi eins og láti sér ekki nægja það eitt, að hæstv. ráðh. með ráðunautum sínum hafi hugsað þetta mál. Það er góðra gjalda vert. En við viljum fá að skoða það, og ég álít það ekki sýna neinn aumingjaskap hjá hv. þm., þó að þeir vilji ekki taka afstöðu til þessa veigamikla máls, sem hefur jafnmargar hliðar, án þess að ræða við ábyrga aðila heima í sínum kjördæmum. Og ef hæstv. ráðh. ætlar því að knýja þetta mál fram núna, þá er það algerlega á hans ábyrgð, að það verður ekki eining hér á Alþ. um afgreiðslu málsins.