14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

1. mál, fjárlög 1972

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, vil ég segja það, að það hefur verið gert ráð fyrir því af hálfu ríkisstj. og stjórnarflokkanna, að fjárlög yrðu afgreidd fyrir jólaleyfi. Hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir því, að þau frv., sem voru lögð fram hér í gær, að ég ætla, varðandi tekjuöflun ríkisins og tekjustofna sveitarfélaga yrðu afgreidd fyrir jól, þannig að hv. þm. mun gefast nægur tími til þess að athuga þau mál og kynna sér þau. Tekjuáætlun fjárlaga mun hins vegar miðuð við þau frv.

Hv. þm. sagði, að slíkt mundi aldrei hafa komið fyrir áður. Ég hygg, að hann þurfi nú að athuga þingsöguna betur. Ég hygg, að það þurfi ekki að fara mjög langt aftur í tímann til þess að finna fordæmi fyrir því, en það er sjálfsagt að rannsaka það, og ég skal ekki vera með fullyrðingar um það, en mitt minni er nú þannig, að mig minnir fastlega, að það hafi átt sér stað áður, að ekki hafi verið afgreitt frv., sem gerði ráð fyrir ákveðinni tekjuöflun til þess að brúa bil í fjárlögum, heldur aðeins sýnt. Mér skildist á hv. þm., að hann hefði ekki á móti því, að 2. umr. fjárlaga færi fram, og ég geri þá ráð fyrir því, að hún geti farið fram með þeim hætti, sem fyrirhugað hefur verið, en að sjálfsögðu mun ég ræða þessar áhendingar hans í ríkisstj. og stjórnin mun athuga þær, en ég hygg nú, að ekki sé hægt að segja annað en að stjórnarandstæðingar hafi haft tækifæri til að kynna sér fjárlagafrv. og þau útgjöld, sem þar eru fyrirhuguð. Ég veit ekki betur en frv. hafi sætt alveg venjulegri meðferð og athugun í fjvn. Ég vil ekki á þessu stigi fara nánar út í að gera grein fyrir þeim frv., sem hér hafa verið lögð fram, og hvernig þeim er ætlað að mæta því, sem á vantar í tekjuhlið fjárlaga, en ég hef gert ráð fyrir því, að slíkt mundi koma fram á milli 2. og 3. umr. og þá mundi verða gerð nánari grein fyrir því í fjvn. Þetta vildi ég aðeins segja á þessu stigi.