16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í D-deild Alþingistíðinda. (4624)

263. mál, upplýsinga- og rannsóknastofnun verslunarinnar

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 599 höfum við hv. 12. þm. Reykv. og hv. 9. landsk. þm. leyft okkur að flytja till. til þál. um fjárhagslegan stuðning við upplýsinga- og rannsóknarstofnun verzlunarinnar. Við lifum á nýrri upplýsingaröld í þeim skilningi, að meiri möguleikar hafa skapazt til söfnunar upplýsinga og gagnavinnslu en áður með tilkomu nýrra tækja og nýjum geymsluaðferðum. Jafnframt hefur þjóðlífið orðið flóknara og kröfur aukizt um, að ákvarðanir séu teknar á grundvelli haldgóðra upplýsinga. Einnig má bæta því við, að hinn almenni borgari gerir meiri kröfur til þess en áður, að leyndardómshulu sé svipt af starfsemi einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Verður þetta að teljast eðlileg ósk í lýðræðisþjóðfélagi og forsenda þess, að einstaklingar geti myndað sér skoðun sjálfir á grundvelli þeirra gagna, sem staðið hefur verið að með hlutlægum hætti. Samtök allra atvinnuvega á Íslandi hafa skynjað bæði þörfina á því að safna upplýsingum og miðla fróðleik til félaga sinna og almennings. Sömuleiðis hefur og að sjálfsögðu verið unnið að margs konar upplýsingasöfnun og útgáfustarfsemi á vegum opinberra aðila, og má þar nefna Hagstofu Íslands og Efnahagsstofnunina, ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og fleiri aðila. Þegar talað er um höfuðatvinnuvegi Íslendinga, er einatt notuð fjórskiptingin í sjávarútveg, landbúnað, iðnað og verzlun. Á vegum bæði sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar eru rekin samtök eða stofnanir styrktar í þágu þeirra, sem stunda margs konar upplýsinga- og rannsóknarstarfsemi. Þessir aðilar njóta stuðnings af hálfu hins opinbera í einu eða öðru formi. Það heitir að vísu ekki jafnan, að stuðningurinn sé beint til rannsóknarstarfsemi, en hún er kostuð af rekstrarfénu. Þetta á við um Búnaðarfélag Íslands í landbúnaði, Fiskifélag Íslands í sjávarútvegi, Iðnþróunarstofnun Íslands og útflutningsmiðstöð í iðnaði. Auk þess eru reknar rannsóknarstofnanir í þágu þessara atvinnuvega, sbr. Rannsóknastofnun landbúnaðarins, fiskiðnaðarins, byggingariðnaðarins og iðnaðarins, að ógleymdri Hafrannsóknastofnuninni, Rannsóknaráði ríkisins o.fl.

Hér skulu ekki tilfærðar tölur um fjárveitingar til þessara stofnana, en greinilegt er, að verzlunin í landinu er mjög afskipt í þessum efnum. Þetta er þó ekki vegna þess, að ekki séu næg verk að vinna eða að ekki sé mikilvægt að efla upplýsingasöfnun og rannsóknir á íslenzkri verzlun. Bæði samtök verzlunarinnar og opinberir aðilar hafa hvað eftir annað bent á tilfinnanlegan skort á upplýsingum um verzlunina og talið brýnna úrbóta þörf. Þá þáltill., sem hér er flutt, ber að skoða í ljósi þessa. Það er ekki óeðlilegt, að ríkisvaldið styðji verzlunina í því að safna frumupplýsingum um ýmsa þætti verzlunarinnar, sem opinberir aðilar hefðu ekki komizt yfir að vinna í náinni framtíð, auk þess sem mikill akkur væri í að koma á staðlaðri upplýsingasöfnun á breiðum grundvelli innan verzlunarinnar sjálfrar í því skyni að geta fengið ferskar og sambærilegar upplýsingar um stöðu verzlunarinnar og þróun, þegar taka á mikilvægar ákvarðanir í verzlunarmálum. Auk þess eru ýmis atriði, sem varða almennan fróðleik, eins og um skipulagsuppbyggingu verzlunarinnar, vörudreifingu um landið og fleira.

Nú er verzlunin mjög margþætt grein, bæði með tilliti til mismunandi verzlunarstiga, verzlunarforma og tegunda af vöru og þjónustu. Æskilegt væri, að allir aðilar verzlunarinnar gætu sameinazt um rekstur upplýsinga- og rannsóknarmiðstöðvar viðskiptalífsins og að þetta verði sérstök stofnun, sem yrði fjármögnuð með fé frá samtökum verzlunarinnar og frá hinu opinbera. Sterklega kemur einnig til greina, að þessi starfsemi yrði tengd viðskiptadeild Háskólans með einum eða öðrum hætti, t.d. gæti viðskiptadeild átt aðild að stjórn stofnunarinnar eða tekið að sér að vinna tiltekin verkefni á hennar vegum. Mér er kunnugt um, að a.m.k. bæði í Noregi og Danmörku hefur hið opinbera veitt fjárframlög til verzlunarinnar til upplýsingasöfnunar og rannsóknarstarfsemi.

Hér er ekki unnt að greina í smáatriðum frá því, í hverju starfsemi rannsóknarmiðstöðvar viðskiptalífsins yrði fólgin en til frekari glöggvunar um, hvað fyrir flm. þáltill. vakir, má nefna eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi að gera sams konar yfirlit yfir rekstur verzlunarinnar, helzt á ýmsum þáttum hennar aðgreindum, og Efnahagsstofnunin og væntanlega nú Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gert fyrir sjávarútveg og iðnað og að nokkru leyti landbúnað.

Í öðru lagi að gera yfirlit yfir fjölda heildverzlana og smásöluverzlana eftir veltu, fjölda starfsmanna, launagreiðslum, sköttum og gjöldum af ýmsu tagi, vöruflokkum, birgðamagni, starfsþáttum og þess háttar, auk þess sem kannaðar skulu breytingar milli ára á framangreindum liðum með tilliti til mismunandi verzlunarstarfsemi.

Í þriðja lagi má nefna að flokka fyrirtækin eftir rekstrarformi og eignaraðild, svo og að kanna stofnun fyrirtækja og fyrirtækjaslit.

Í fjórða lagi að kanna skiptingu verzlunar í heildsölu og smásölu milli ríkisfyrirtækja, samtaka framleiðenda, Sambands ísl. samvinnufélaga og einkaaðila, eftir því sem við á. Að kanna vörudreifingu um landið og hvernig henni verði bezt hagað með tilliti til heilbrigðrar byggðaþróunar. Að gera könnun á mismunandi dreifileiðum, bæði með tilliti til innfluttrar vöru og vöru framleiddrar innanlands. Einnig skal gert yfirlit yfir, hvernig fjármögnun á mismunandi starfsþáttum fer fram og hvaða greiðsluskilmálar eru á mismunandi stigum í keðjunni frá framleiðanda til hins endanlega neytanda. Að gera samanburð við hliðstæða starfsemi erlendis, eftir því sem kostur er á. Að gera till. um skynsamlega flokkun á verzluninni með tilliti til framtíðarkannana, sömuleiðis að vinna eftir þessari flokkun og að gera till. um staðlaða gerð framtalseyðuhlaða og könnunargagna með tilliti til þess, að handhægar upplýsingar fáist og úrvinnsla þeirra verði sem greiðust, m.a. með því að miða hana við notkun rafreikna.

Eðlilegt er, að hér sé höfð náin samvinna við Hagstofu Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, Seðlabanka Íslands og ríkisskattstjóra, svo að helztu aðilar séu nefndir. Þá má að lokum geta um, að út verði gefnar upplýsingar reglulega um verzlunina í landinu.

Með samþykkt þeirrar till., sem hér er flutt, væri gefið vilyrði fyrir fjárhagslegum stuðningi hins opinbera, sem flm. till. eru sannfærðir um, að nægja mundi til, að úr framkvæmd yrði, enda verður að telja, að verzlunin eigi siðferðilegan rétt á slíkum stuðningi til jafns við aðra aðalatvinnuvegi þjóðarinnar.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að till. þessari verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.