16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í D-deild Alþingistíðinda. (4632)

266. mál, starfshættir skóla og aðstaða til líkamsræktar

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 614 um starfshætti skóla og aðstöðu til líkamsræktar. Till. er þannig orðuð:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka:

1) aðstöðu til líkamsræktar í skólum landsins,

2) vinnuálagið í skólum.

Rannsókninni skal hraðað svo sem tök eru á, og gera skal Alþingi grein fyrir árangri, þegar það kemur saman í haust.“

Það er öllum hv. þm. vitanlegt, að skólamálin yfir höfuð að tala eru nú mjög í deiglunni. Hér hafa verið til meðferðar á Alþ. á undanförnum vetrum ýmis frv. um skólamál. Sum þeirra hafa verið útrædd og afgreidd, önnur sýnd og síðan tekin aftur til nýrrar meðferðar hjá stjórnarvöldum. Svo er t.d. um grunnskólafrv., sem flutt var hér á þingi í fyrra, en ekki afgreitt þá og væntanlega er í athugun hjá skólayfirvöldum. Nefndir hafa setið að störfum og sitja enn á ýmsum sviðum skólamálanna, og það eru í gangi svokallaðar skólarannsóknir ár frá ári.

Það er engin furða, þótt þannig séu mörg járn í eldi varðandi þessi umfangsmiklu mál, fræðslumálin, því að hér er vissulega mikið í húfi.

Útgjöld hins opinbera vegna skólahalds almennt í landinu eru afar mikil, þannig að samtalan úr þeim dálki fjárlaga, sem heyrir undir menntmrn., er 3 milljarðar kr. á árinu 1972. Það er að vísu ekki allt vegna skólakostnaðar, enda er sá kostnaður, sem ríkið greiðir, ekki nema hluti af þeim heildarkostnaði, sem fer til þess að halda skólakerfinu gangandi. Og ef með er talin sú vinna, sem skólanemendur sjálfir leggja fram á sínum skólaárum, er áreiðanlega óhætt að tvöfalda þessa tölu, án þess að nokkrar ýkjur séu í frammi hafðar.

Skólarnir eru tvímælalaust langstærsta starfssviðið í þessu þjóðfélagi, langstærsta starfssviðið, næst á eftir heimilunum sjálfum. Nýlega hefur verið sagt frá því í fréttum útvarpsins, að í skólum séu nú í vetur 63 þús. manns. Þegar við íhugum það enn fremur, að þarna er ungt fólk, sem er í mótun, og í húfi er bæði andlegur og líkamlegur þroski þess, svo og ræðst það á skólaárum, hvert viðhorf þess verður til þjóðfélagsins, þá má öllum það ljóst vera, hvað hér er mikið í húfi.

Heimilin voru áður fyrr svo til einráð um uppeldismálin. Þetta hefur breytzt. Enn þá eru það heimilin, sem fyrstu árin móta hinn uppvaxandi borgara, en síðan taka skólarnir við jafnframt. Og þegar þess er gætt, hversu langur skólatíminn er orðinn og hversu kerfisbundið skólarnir vinna, þá eru e.t.v. áhöld um það, hvorir hafi meiri áhrif á unga fólkið, heimilin eða skólarnir. En mér er nær að halda vegna þessa, sem ég nefndi, að þá séu skólarnir kannske, þegar allt kemur til alls, sterkastir, a.m.k. varðandi það fólk, sem lengri skólagöngu stundar. Ég held þess vegna, að óhætt sé að segja, að það varði alþjóð meira en flest annað, sem fram fer innan veggja skólanna, og það er þess vegna ekki óeðlilegt, þótt oft sé rætt um þessi mál hér á Alþ. og lagðar hér fram ýmsar till. og frv. flutt um þessi efni.

Ég ætla ekki í þessari framsögu, sem ég vona, að ég geti haft ekki allt of langa, vegna þess hve takmarkaður tími er orðinn hér á Alþ., að ræða skólamálin almennt. Það er alveg utan við efni þessarar till. og þar að auki á engan hátt á mínu færi að gera þeim málum nokkur skil. En það er sjálfsagt enginn vafi á því, að upp úr því, sem nú et verið að gera í skólamálum, má vænta mikilla breytinga á starfi skólanna. Menn eru þeirrar skoðunar, að námið eins og það nú er sé ekki nógu hnitmiðað, og menn vilja leggja jöfnum höndum áherzlu á andlegan og líkamlegan þroska. Það er talað um, að stytta þurfi t.d. stúdentsnámið. Það þurfi að gerbreyta tilhögun náms á mörgum skólastigum, jafnvel neðan frá og allt upp úr, að manni skilst, og þá fyrst og fremst með það fyrir augum að taka upp hagnýtara nám, sem þjóni betur því starfi, sem nemandinn tekur sér fyrir hendur að námi loknu og sem geri honum mögulegt að nýta sem bezt tímann, sem hann ver til skólastarfsins, meðan hann er í skóla.

En þrátt fyrir það, að hiklaust megi vænta árangurs af þeirri vinnu, sem nú er í það lögð að endurskoða skólamálin í heild, þá er það hins vegar víst, að þetta tekur allt saman sinn tíma og hlýtur að taka langan tíma, jafnvel þótt unnið sé að því með myndarskap. En þessi till., sem ég hef leyft mér að flytja hér, er nánast um það, að fram verði látin fara skyndiathugun á tveimur afmörkuðum sviðum.

Ég skal með fáum orðum gera grein fyrir ástæðunum til þess, að ég flyt þessa till. Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um þann þáttinn, sem fjallar um vinnuálagið. En það er almennt álit, held ég mér sé óhætt að segja, að það sé mjög handahófskennt, hversu mikið vinnuálag er í hinum ýmsu skólum og á hinum ýmsu skólastigum.

Það mun hafa verið á síðasta þingi, sem nokkrar umr. urðu um þetta efni. Það var við 1. umr. um frv. til l. um skólakerfi, sem þá var lagt hér fram, og mun umr. hafa farið fram í janúar. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, flutti þá ræðu, sem síðar var birt í blöðum í úrdrætti og vakti töluverða athygli. Hann ræddi þar um vinnuskilyrði skólafólksins, einkum varðandi heimavinnuna. Sýndi hann fram á, hvernig hún oft og einatt og á ýmsum skólastigum er í engu samræmi við almennan vinnutíma fullorðins fólks. Eftir skólatíma á daginn er unglingunum gert að vinna heima fleiri klukkustundir og oft við allsendis óhæfileg vinnuskilyrði, eins og að líkum lætur, miðað við þann húsakost, sem fyrir hendi er hjá fjölskyldum. Jafnvel stóru, nýju húsin eru ekki sérlega heppileg til þess að gefa tækifæri eða veita næði til slíkra starfa.

Ég man, að hann benti sérstaklega á það, hversu niðurdrepandi það hlyti að vera, andlega séð, að hafa fyrir framan sig, kannske árum saman á hverjum einasta degi yfir skólatímann, næstum óyfirstíganleg eða kannske alveg óviðráðanleg viðfangsefni og finna það alltaf á sér, að þeim yrði ekki lokið á fullnægjandi hátt. Og hann varaði við því, að verkefnin, sem nemendum væri ætluð heima, væru miðuð við harðsæknustu nemendurna, afburðafólkið. Þau þyrftu að sjálfsögðu að miðast við getu hins almenna nemanda. Hann sagði á þessa leið: „Það verður að finna nýjar leiðir í verkstjórn í skólunum, svo að námið verði eins og eðlileg vinna, unnin á eðlilegum tíma.“ Og í lok þessarar ræðu sinnar komst Eysteinn Jónsson m.a. þannig að orði, og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til þeirra ummæla. Hann sagði:

„Það verður að ryðja nýjar brautir með hjálp þeirrar reynslu, sem aðrar þjóðir hafa. Ég þekki fólk, sem á heima á Norðurlöndum og á unglinga í skólum, sem eru þannig settir, að þeir fara á morgnana um kl. 8 að heiman og koma svo heim aftur um kl. 4. Hafa þá lokið dagsverki oftast nær. Þetta er eins og annað líf. Þetta er eðlilegt líf.

Hjá okkur líkist þetta engu eðlilegu lífi. Það er nánast eins og martröð. Við erum náttúrlega samdauna þessu, og það þarf sjálfsagt mikið átak til þess bara að sjá þetta, gera sér grein fyrir þessu. Því að það liggur hér í landi að ætla unglingum miklu meira verk en fullorðnu fólki, og niðurstaðan er líka eftir því oft á tíðum“, sagði þessi hv. þm. í niðurlagi ræðu sinnar um þetta efni í fyrra.

Síðan þessar umr. fóru fram og raunar áður, hef ég oft hugleitt þessi mál, þennan þátt sérstaklega, og ég hef rætt við ýmsa foreldra, sem eiga börn í skóla á ýmsum skólastigum. Sumir, og þeir eru fleiri, segja svipaða sögu. Þeir segja það álit sitt, að heimavinnan sé óeðlilega mikil og aðstaðan til að leysa hana af hendi engan veginn viðunandi. Sumir segja, að sín börn sitji jafnan yfir bókum og verkefnum lon og don, þegar heim er komið. Það verði lítið um tíma til að lesa bækur um almennt efni, til að hlusta á útvarp eða að horfa á sjónvarp eða stunda félagslíf. Lítið um tíma til þess að sinna slíkum hlutum, sem almennt eru þó taldir tilheyra nútímalífi. Hinu leyni ég alls ekki, að einstaka, en þeir eru færri, segja aðra sögu. Þeirra reynsla er sú, að það sé ekki óeðlilegt álag á þeirra börnum. Ég hygg, að báðir hafi rétt fyrir sér. Nú er það svo sem auðvitað, að nemendur í skólum, svo sem annað fólk, eru ákaflega ólíkir. Sumir eru röskir til verka, aðrir seinfærir. Fyrir utan það, að menn eru mismunandi kappsfullir og áhugasamir. En þrátt fyrir þá staðreynd, sem auðvitað öllum er ljós, hef ég þó dregið þær ályktanir af því, sem ég hef komizt á snoðir um almennt um þessi mál, að það sé hvergi nærri nógu gott skipulag á í þessum efnum né nægilegt samræmi á milli hinna einstöku skóla og skólastiga að því er þetta varðar.

Hér við bætist svo það, að í vetur hef ég orðið persónulega vitni að einu afbrigði vinnuálags í skólum þessa lands. Og það, sem ég hef þar orðið vitni að, hefur vakið furðu mína og beinlínis óhug. Þetta er í handavinnudeild Kennaraháskóla Íslands. Ég hef fylgzt allnáið með nokkrum nemendum í skólanum. Eftir því sem mér skilst, eru þarna mjög dugandi kennarar. Ég þekki þá ekki persónulega, en allt, sem þessir nemendur, sem ég þekki aftur á móti allnáið, hafa af þeim að segja, er yfirleitt mjög gott. Þeir eru góðir í umgengni og hjálpsamir við nemendur og allt eðlilegt á þann hátt, og ég hygg, að nemendur nái þarna mjög mikilli leikni, að kennslan sé fjölbreytt, a.m.k. hjá stúlkum, og allt gott um hana að segja út af fyrir sig.

En þá er það heimavinnan. Það er tvennt, sem hefur vakið sérstaka athygli mína í sambandi við heimavinnu nemenda við þessa skólastofnun, handavinnudeild Kennaraháskóla Íslands. Annars vegar er það, að þar virðist skipta algjörlega í tvö horn að því er varðar pilta og stúlkur. Eftir því sem ég bezt veit, njóta bæði kynin sömu réttinda að námi loknu í þessum skóla og eiga að taka sömu laun fyrir kennslu í handavinnu, ef þau stunda hana í sömu skólum. En mismunurinn á heimavinnu virðist mér vera afskaplegur. Piltar vinna að sjálfsögðu með ýmis verkfæri. Þarna eru notaðir, eins og að líkum lætur, hefilbekkir og margs konar smíðavélar o.s.frv. Slík verkfæri verða að sjálfsögðu ekki flutt heim í íbúðir fólks. Þar af leiðir, að þeirra heimaverkefni eru mjög lítil. Og ég hef það fyrir satt, að þeir, sem dugmiklir eru, geti notað seinni hluta dags til þess að vinna aðra vinnu.

Aftur á móti hjá stúlkunum eru heimaverkefnin ákaflega mikil. Og að mínum dómi er þessi munur algjörlega óeðlilegur. Hann er miklu meiri en eðlilegt er og hægt er í raun og veru að forsvara, miðað við það, að bæði kynin stefna að sama prófi og hljóta sömu réttindi að námi loknu. Þetta er annað.

Hitt er svo varðandi sjálft vinnuálagið hjá stúlkunum. Ég þekki mjög vel til þess arna vegna persónulegra kynna minna af nokkrum nemendum í þessum skóla í vetur. Ég hef orðið vitni þess, að það hefur verið föst venja að fara á fætur á milli kl. 7 og 71/2, þó nær 7 framan af vetri. Síðan er farið í skólann um kl. 8. Tímum lýkur þar mismunandi snemma dags, eins og venja er, en yfirleitt samt unnið í skólanum daglangt eða mjög oft eftir að hinum fasta skólatíma lýkur, því að þar þykir vinnuaðstaða betri. Síðan er komið heim, oft svona nálægt kvöldmat. Það er gleyptur í sig maturinn, og síðan er sezt að vinnu. Og það hefur verið unnið til kl. 1 og 2 á hverri nóttu sex daga í viku þori ég að fullyrða, frá því á haustnóttum og fram á þennan dag. Það hefur heldur dregið úr þessu nú upp á síðkastið, og mér skilst eingöngu af því, að nemendur hafa ekki haft úthald til að þola þennan stutta svefntíma mánuðum saman. En eigi að síður er stefnt að því að vera mættur í skólann kl. 8, og ég hygg, að það hafi sjaldan verið farið að sofa fyrir kl. 1. Í grg. með till. er því slegið föstu, að dæmi séu til þess, að vinnutími skólafólks hafi farið yfir 80 klst. á viku. Ég vildi ekki hafa neinar ýkjur í frammi í grg. með till., en sannleikurinn er sá, að þessi tala er í rauninni allt of lág, því að vinnutíminn hefur verið miklu lengri en þetta.

Við þetta bætist svo það, að vinnan þarna er ákaflega einhliða. Þetta er handavinna við saum, hekl og prjón og ýmislegt annað af því, sem kallað er kvenlegar hannyrðir. Það eru mjög fáir bóklegir tímar á viku eftir að kemur í þessa verknámsdeild. Og í vetur var alls engin leikfimikennsla um hönd höfð né líkamsrækt af nokkru tagi. Hvernig halda menn svo, að ástand þessara nemenda heilsufarslega séð sé orðið eftir sjö mánaða törn á þennan hátt, sem ég hef nú lýst?

Ég ætla ekki að ræða um það neitt nánar, hvernig hópurinn er á sig kominn í dag, en ég get þó getið þess, að mjög algeng einkenni eru nú þreyta og þyngsli í höfði og vöðvabólga á hálsi og herðum. Nú eru byrjuð próf í skólunum, og það eru erfiðir dagar í þessum skóla, alveg eins og í öðrum skólum landsins. Og nemendur herða nú náttúrlega vökurnar, eftir því sem hægt er, ofan á allt, sem á undan er gengið í vetur og ég hef áður lýst. Þetta minnir á gömlu sögurnar um tóvinnuna á vetrum. En þá voru bara engin vökulög sjómanna, og þá var ekki búið að finna upp 40 stunda vinnuviku. Þá notuðu menn vökustauta, þegar leið að lokum, — ég ætla, að allir hv. þm. viti, hvað það var. Nú er það apparat óþekkt meðal ungs fólks. En er ekki full ástæða til þess að óttast það, að aðrir og verri vökustaurar séu notaðir nú, þegar í óefni er komið? Það má spyrja, hverju þjóni svona vinnubrögð. Hvort ekki sé hægt að haga þessu með einhverjum öðrum hætti án þess að tapa verulega í. Og það má spyrja, er verið með þessum vinnubrögðum að búa fólk undir frjótt og hamingjusamt lífsstarf, eða er það eitthvað annað, sem gerist með þessum hætti?

Nú vildi ég síðastur manna verða til þess að mæla með iðjuleysi ungmenna, síðastur manna. En ég held þó, að hóf sé bezt að hafa í öllum máta. Ég held, að menn ættu a.m.k. að geta orðið sammála um það, af því að skólanám er auðvitað vinna eins og annað, sem menn leggja fyrir sig á ýmsum æviskeiðum, að gera svona álíka kröfur um vinnutíma og afköst til fólks á skólaaldri eins og gert er til fullorðins fólks almennt. Ég held, að það hljóti flestir að geta orðið sammála um það.

Ég skal alveg játa það, að kynni mín af því, sem ég nú hef verið að lýsa og af nemendum þessa skóla í vetur leið, þau hafa ýtt undir mig með það að flytja þessa þáltill., sem hér liggur fyrir. Eins og ég sagði áðan, er mér vitanlega ljóst, eins og allir líka vita, að nemendur eins og annað fólk eru mjög misjafnir og sumir seinir og aðrir röskir og sumir eru vanir að vinna og aðrir óvanir því. Og má vera, að þeir nemendur, sem ég hafði kynni af, séu í hópi hinna seinvirku. En í sambandi við þetta fólk, sem þarna er að starfi, er ástæða til að hafa það í huga, að þetta fólk hefur allt lokið landsprófi eða gagnfræðaprófi. Og það fólk, sem ég þekki persónulega, er þaulvant að vinna á öðrum sviðum. Það hefur verið í síldarsöltun á sínum tíma með öllum þeim vökum, sem því starfi fylgdu, og hörku. Það hefur unnið í frystihúsum, unnið við landbúnaðarstörf einnig, það er m.ö.o. vant bæði skólavinnu og líkamlegri áreynslu í töluvert ríkum mæli.

Ég vil aftur minna á það, sem ég sagði áðan í öðru sambandi, að álag á nemendur í skólum þarf að miða við eitthvert meðallag.

Ástæðan til þess, að ég hef skýrt frá þessum dæmum, er sú, að ég nauðaþekki þau, og eins og ég sagði, þau eru líka beinlínis hvati að þessum tillöguflutningi. En með vísun til þeirra atriða, sem ég drap á úr ræðu hv. 1. þm. Austf. í fyrra, og vísun til viðtala minna við fólk, sem á börn í öðrum skólum og á allt öðrum skólastigum, þá tek ég skýrt fram, að það er ekki vegna þess, að ég álíti, að það, sem þarna hefur gerzt, sé neitt einsdæmi, að ég nefni það sérstaklega, heldur geri ég það til þess að skýra myndina. Ég álít, að það sé þörf aðgæzlu miklu víðar en þarna, bæði um sjálft vinnuálagið og um mismuninn á milli kynja, sem einnig kemur fram í þessu tiltekna dæmi og ég vék að fyrr. Ég vil og taka það fram, að ég er sannfærður um það, að þar sem svona mistök hafa orðið, — því að ég kalla þetta mistök, ég leyfi mér það, — þar eru þau ekki af því sprottin, að það fólk, sem þar vinnur, sé að yfirlögðu ráði eða neitt í þá áttina að leggja óhóflega vinnu á sína nemendur. Því fer víðs fjarri. En sannleikurinn er sá, og það þekkjum við viða úr öllu mannlegu lífi, vil ég segja, að menn eru tiltölulega fljótir að venjast hlutunum, vaninn er ákaflega sterkur og það sterkur, að við gerum okkur oft ekki grein fyrir því, hvað honum fylgir og hvað í venjunum felst. Þess vegna er það, að við höfum öll meiri og minni þörf fyrir, að bent sé á það, sem miður fer á þessum sviðum og öðrum, með það í huga, að reynt sé að spyrna við fótum og bæta um.

Annar þáttur þessarar till. fjallar um aðstöðu til líkamsræktar. Nú hefur það verið lengi í lögum landsins, að öllum ungmennum skuli séð fyrir nokkurri kennslu í leikfimi og öðrum líkamlegum íþróttum. Þetta hefur verið lengi í lögum, en hvernig er ástatt í þessum efnum? Hvernig er framkvæmdin? Það skortir víða húsnæði, segja menn, til þess að hægt sé að uppfylla þær kröfur, sem lögin gera í þessum efnum. Sannleikurinn er nú sá, að það er margt hægt að gera án fullkomins húsnæðis, ef nægur vilji er fyrir hendi, og meira að segja án nokkurs húsnæðis. Við höfum t.d. séð það þm. í vetur út um gluggana í Þórshamri, að fyrri hluta dags hleypur þar stundum fram hjá hópur ungra manna. Ég tók eftir þessu nokkrum sinnum og vissi ekki, hverju þetta sætti. En mér hefur nú verið sagt, að þetta séu nemendur úr Menntaskólanum við Tjörnina, sem gera þetta eftir hvatningu leikfimikennara síns, þar sem þeir hafi lítið eða ekkert íþróttahúsnæði. Það er margt hægt að gera, ef nægur vilji er fyrir hendi. En ég álít líka, að við eigum að geta svona yfir höfuð að tala látið í té sæmilega aðstöðu til þess, að unnt sé að stunda líkamsrækt við skóla okkar með eðlilegum hætti, ef nægilegrar hagsýni er gætt.

Mér er það mjög til efs, að í skólamannvirkjagerð okkar á undanförnum árum hafi verið gætt nægilega mikillar hagsýni. Mér er það mjög til efs. Ég verð að játa það, að ég get lítið um þetta fullyrt, er enginn fagmaður og hef ekki persónulega kynnzt nema fáum dæmum, sem mér finnst bera vott um einstaka óhagsýni. Skal þó nefna eitt. Við Húsmæðraskólann á Hallormsstað stóð til að byggja kennarabústað. Beðið var um teikningu frá opinberum aðilum. Við fengum teikningu að kennarabústað. Hann var 185 m2 að flatarmáli, ætlaður einum kennara. Stofunni var þannig fyrir komið á þessari teikningu, að hún var í einni lengju og var að mig minnir 14 m á lengd! Hún hét ýmsum nöfnum, dagstofa, borðstofa o.s.frv., en lengdin var þessi. Það gerir þessa mynd enn afskræmilegri að mínu mati, að þetta er teiknað fyrir húsmæðraskóla. Það er nefnilega mjög venjulegt, að einmitt kennarar við húsmæðraskóla komi nýútskrifaðir úr Húsmæðrakennaraskólanum og kenni oft ekki nema stutta hríð, því að þá giftast þær, þessar góðu stúlkur, og eru á bak og burt. Þetta er aðeins eitt dæmi, en ég óttast það, að við höfum ekki alltaf gætt nægilegrar hagsýni, þegar við erum að byggja okkar skólamannvirki, og að vöntunin á íþróttaaðstöðunni kunni að einhverju leyti að stafa af því.

Ég get nú ekki látið vera að vekja athygli á ákaflega miklum þverstæðum, sem ég hef orðið sjónarvottur að í vetur í sambandi við skólamál annars vegar og almennan aðbúnað að fólki hins vegar. Í vetur fórum við fjvnm. í Menntaskólann í Reykjavík að líta þar á húsakynni. Þar sáum við furðulega sjón. Ég man sérstaklega eftir þremur stofum, sem við gengum um. Ein stofan var samsett úr tveimur íbúðarherbergjum í gömlu íbúðarhúsi. Til þess að koma nægilega mörgum fyrir varð svo þröngt um miðbik stofunnar, sem mjókkaði þar aðeins, að nokkrir nemendur urðu að fara fram á gang og inn hinum megin til þess að komast að töflunni. Í annarri stofu var setið svo þétt, að þegar nemendur voru setztir, hafði kennaraborðið stöðu þannig, að kennarinn sneri andlitinu út að vegg, en vanganum í nemendur, öðruvísi varð því ekki fyrir komið, nema að fækka í bekknum. Í þriðju stofunni sýndist mér þó vera þrengst, því að þar var ekkert pláss fyrir kennaraborð. Ég efast um, að þar hafi verið pláss fyrir stól kennara, ég skal þó ekki fullyrða um það, en ætli það hafi verið eftir nema fyrir sólana á skónum hans. Þetta er svo furðulegt, að yfir það ná engin orð, þegar þess er gætt, að hér í þessum bæ og víðs vegar um allt land býr sá almenni borgari í mjög góðum húsakynnum almennt og margir hverjir í slíkum höllum og svo stórum að flatarmáli, að það rétt djarfar fyrir veggjum, þegar ekki er því meiri lýsing inni. Að því hef ég orðið vottur. Það er a.m.k. ómögulegt að trúa því, að þetta þurfi að vera svona, að nemendur, sem koma úr þessum húsum, ég vil segja úr venjulegum ágætum íbúðum okkar yfir höfuð, að það þurfi að stúa þeim svona saman eins og þorski í fiskstæðu í gamla daga, á meðan menn kunnu að stúa og létu hnakkana snúa upp. Þetta er svo ömurlegt á að horfa, að það tekur engu tali. Þarna eru einhver mistök á ferðinni. Og þó að það kunni að hafa verið erfiðleikar að bæta úr þessu, þá er þetta allsendis óforsvaranlegt. Við sáum íþróttaaðstöðuna í þessum gamla skóla, sem er ein elzta og virðulegasta menntastofnun í þessu landi, og hún er einn salur, sem nú er talinn allt of litill, sturtur mjög fáar og léleg aðstaða í búningsklefum, og þó er þetta ætlað fyrir 30 nemendur til hreinlætis eftir leikfimitíma. En í þessum skóla er þó sem sagt vottur að aðstöðu til líkamsræktar. Og okkur var sagt, að allir nemendur fengju þar tvo tíma á viku í því skyni.

Það er staðreynd, að í vetur hafa 63 þús. manns verið í skólum á Íslandi. Við skulum minnast þess, að þetta fólk, unga fólkið í dag, situr í skólunum ekki nokkra mánuði, eins og við gerðum, sem nú erum orðin miðaldra og eldri, heldur 10–20 vetur, eftir því hvað skólagangan er löng. Þarna er ungt fólk í vexti og í mótun. Við þetta bætist svo það, þegar við hugleiðum málið með tilliti til líkamsræktar og þarfarinnar á því sviði, að allt þjóðlíf okkar er stöðugt að færast meira og meira í stólana, í skrifstofu- og þjónustustörf. Vélvæddur iðnaður, að ógleymdum vélvæddum heimilum, þetta er það, sem við búum við í dag. Þetta útheimtir, að lögð sé meiri alúð við líkamsrækt í skólum landsins. Ég held, að það þurfi ekki frekari rökstuðning fyrir því, að nauðsynlegt er að gaumgæfa þessa hlið málanna alveg sérstaklega.

Ég minnti á það í upphafi máls míns, að skólamálin eru með vissum hætti mjög í deiglunni. Það eru byggð skólahús í ákafa, og við þurfum að gera hvort tveggja í senn, hafa undan fjölguninni og ljúka því að byggja upp fyrir æskuna almennt, því að skólahús voru auðvitað ekki til hér fyrir nokkrum áratugum siðan fremur en aðrar byggingar. Það er stefnt að því að gera námsefnið hagnýtara, taka upp nýjar kennsluaðferðir og beita nýrri skipan í skólastarfinu í heild og á einstökum skólastigum. Því má kannske spyrja sem svo: Til hvers er þá að vera að flytja till. á borð við þessa, sem ég hef lagt hér fram, till. um sérstaka rannsókn á aðstöðu til líkamsræktar og á vinnuálagi í skólunum? Því til vil ég svara þessu: Í fyrsta lagi álít ég ástandið á þessum væng mjög alvarlegt og svo alvarlegt, að hópar ungs fólks á ýmsum skólastigum — hvað stórir get ég náttúrlega ekki gert mér grein fyrir — eigi það beinlínis á hættu að bíða varanlegt heilsutjón, bæði vegna vanabundinna og óskynsamlegra vinnubragða og meðfylgjandi streitu og svo vegna skorts á líkamsrækt, vegna hreyfingarleysis í bókstaflegum skilningi. Og í öðru lagi tel ég, að með góðum vilja sé unnt að afmarka þessi atriði, sem till. fjallar um, og mögulegt sé að gera sér grein fyrir ástandinu á þessum sviðum og hefjast handa um úrbætur á þeim fyrr en ella væri, ef beðið væri eftir niðurstöðum af þeim almennu aðgerðum, sem nú fara fram og ég hef áður vikið að, og þessi atriði þá ekki tekin fyrir afmörkuð. Ég tel, að hér sé um það alvarlegt mál að ræða og jafnframt nokkuð einangrað, að það beri að veita því þann forgang að skoða það alveg sérstaklega.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn.