17.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í D-deild Alþingistíðinda. (4648)

69. mál, niðurfelling fasteignaskatts af íbúðum aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hef litlu við þetta að bæta og sérstaklega þó ekki við orð hv. flm. Ég vil þó aðeins skýra frá því, að mér er kunnugt um niðurstöðurnar, sem komu fram í umræddri könnun, ekki aðeins hjá þessu sveitarfélagi, heldur og hinu, sem nú hefur verið framkvæmd. En það, sem auðvitað er meginefni míns máls í þessu, er það, að þarna koma þó fram í þessu eina sveitarfélagi ákveðnir aðilar, sem sjá enga aðra lausn fyrir sjálfa sig en þá að hafa slíkt heimili. Þau eru ekki til í dag. Sjálfur veit ég um það, að aðeins á Dvalarheimili aldraðra sjómanna bíður hátt á fimmta hundrað manns eftir víst. Á elliheimilinu Grund svarar forstjórinn í dag: Það er ekki hægt að veita neinu fólki hér viðtöku a.m.k. næstu 1–2 árin. Ég hugsa, að þetta sé þó fólkið, sem kannske er langverst farið og þarf mest á aðstoð að halda. Ég tel einmitt bráðnauðsynlegt til þess að létta á þessari miklu þörf, sem þarna er, að reynt sé að gera allar aðrar ráðstafanir til þess að létta á vandamálinu, eins og ég segi.

Ég vil aðeins taka undir orð hv. flm., 12. þm. Reykv., varðandi orð fyrra ræðumanns, hv. 3. landsk. þm., einmitt þegar hún benti á fyrirhyggjuleysið. Við þekkjum það, að Tryggingastofnun ríkisins hefur heimild til þess að borga liðlega 100% ofan á ellilífeyri til þess fólks, sem ekki hefur fjárhagslega getu til þess að greiða sin gjöld, ef á slíkar stofnanir er farið. Þetta er að sjálfsögðu rétt og skylt, og engan ber að setja þar utangarðs, ef þannig stendur á um hans fjárhagsmál. Hitt er annað mál, að það kemur ærið oft upp hjá öldruðu fólki, sem hefur verið fyrirhyggjusamt og reglusamt, lagt fyrir allt sitt líf, eignazt húskofa, að ef það fer á slíka stofnun og biður um hækkun á sínum ellilífeyri, þá er svarið: nei, því miður, það er ekki hægt nema þá að ákaflega litlu leyti, fyrr en þú ert búinn með þessar eignir þínar. Þú ert eignamaður, þú ert eignakona, þú verður að ljúka við að borða út þína eign, áður en þú nýtur kannske sama réttar og sá aðilinn, sem við hlið hans stendur og kannske hefur sjálfur átt sök, — við skulum ekki segja sök, en ástæðan hafi verið sjálfgerð hjá honum í sambandi við óreglusemi eða óráðsíu. Þessu fólki þykir þetta auðvitað ákaflega harður kostur, sem skiljanlegt er. En ég held samt sem áður, að það sé ákaflega erfitt að finna þarna einhvern milliveg, þótt ég hins vegar skilji ákaflega vel sjónarmið hv. 3. landsk. þm. um það, sem ég tek mjög fastlega undir, að í fyrsta lagi á ekki að setja það fyrir sig, þótt þeir, sem við slíka erfiðleika búa, eigi hvorki eignir, lendur eða lausa aura, eins og sagt var. En þar fyrir utan tek ég líka undir orð hv. flm., 12. þm. Reykv., að það megi kannske ganga aðeins skemmra í því að refsa hinum fyrirhyggjusömu fyrir sitt líf.