17.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í D-deild Alþingistíðinda. (4649)

69. mál, niðurfelling fasteignaskatts af íbúðum aldraðra

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr. Ég vil taka fram, að ég álít þær mjög fróðlegar og uppbyggilegar og þær hugmyndir, sem hér hafa fram komið hjá fyrri ræðumönnum, gefa öðrum frekari innsýn inn í þetta mál og gætu eða ættu að geta leitt til skynsamlegri og réttari niðurstöðu. En tilefni þess, að ég bið hér um orðið, er framlag hv. 3. landsk. þm. til þessara umræðna og þau ummæli hans, að það veki undrun, að slík till. skuli koma úr röðum sjálfstæðismanna. Hann segir: Sjálfstfl. hefur stutt einstaklingsfrelsi. (Gripið fram í.) Það var talað um einstaklingsfrelsi áðan, þá kenningu að duga eða drepast, og hefur hann að því er virðist talið sjálfum sér trú um það, að það væri innihald þeirrar stefnu, sem Sjálfstfl. fylgir, einfaldlega að duga eða drepast og að ekki komi neitt annað til greina. Ekki veit ég, hvort þetta stafar af því, að hann sjálfur er búinn að reka svona mikinn áróður fyrir þessum kenningum, að hann er sjálfur farinn að trúa því eða þá að til kemur hrein fáfræði. Alla vega tel ég ástæðu til þess, ef slíkar kenningar eru hér uppi á hinu háa Alþingi, að uppfræða hv. 3. landsk. þm. og kannske ýmsa aðra um það, hver stefna Sjálfstfl. er. Ég mun ekki gera það í þessum umr., en fæ kannske tilefni til þess seinna, tel alla vega fulla ástæðu til þess. Ég vil þó segja frá því, ef hv. 3. landsk. þm. kann ekki á því deili, að allt frá því að Sjálfstfl. var stofnaður hefur það verið eitt af hans stefnuskráratriðum að stuðla að félagslegri samhjálp í þessu þjóðfélagi.

Það var sett fram í stefnuskrá Sjálfstfl. strax við stofnun hans, að auk þess sem einstaklingurinn ætti að fá að njóta sin, ætti að stuðla að því að bjarga og hjálpa þeim til sjálfsbjargar, sem undir verða í lífsbaráttunni að einu eða öðru leyti. Hins vegar hefur það aldrei verið stefna Sjálfstfl., að menn ættu að vera háðir því opinbera, ættu að vera þannig í sveit settir, að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af sínu lífi, sínum tekjum. Þeir þyrftu að sjálfsögðu að treysta á sjálfa sig fyrst og fremst, en fá aðstoð til sjálfsbjargar, ef þeir yrðu undir. Þetta er megininntak stefnu Sjálfstfl. á þessu sviði, á sviði félagslegrar samhjálpar. Í reynd hefur Sjálfstfl. mjög stefnt að þessum málum, svo sem saga hans sýnir, og skal ég ekki vitna til annars en t.d. þátttöku Sjálfstfl. í almannatryggingunum. Án þess að ég sé að karpa um það, hver eigi stærsta þáttinn í því, höfum við vissulega staðið að umbótum á því sviði. Eins vil ég minna á mjög myndarlegar framkvæmdir og framfarir, sem átt hafa sér stað á þessu sviði, félagsmálasviðinu, hér í Reykjavíkurborg, þar sem Sjálfstfl. hefur haft veg og vanda af því að stuðla að mjög aukinni félagslegri aðstoð til handa þeim, sem undir verða í lífsbaráttunni.

Hins vegar vil ég að gefnu tilefni taka fram, að ég styð þá hugmynd, sem hann setur fram hér og gerir aths. við, þ.e. að tryggingakerfið eigi að byggja þannig upp og vera í framkvæmd á þann hátt, að það hjálpi einmitt þessu fólki, sem þarf á hjálp að halda. Það á ekki að byggja þetta kerfi upp þannig, að það komi jafnframt til góða fyrir þá, sem ekki þurfa á slíkri hjálp að halda, sem eru svo efnalega vel settir, að þeir geta bjargað sjálfum sér. Þetta er einmitt sú hugmynd, sem ég hef sett fram í kosningabaráttunni og vil þá ítreka hérna, ef þetta er ekki kosningafundur að mati hv. 3. landsk. þm., og ég tel sjálfur og hef sett fram þá skoðun, að tryggingakerfið að þessu leyti sé orðið úrelt. Ég hef nefnt t.d. fjölskyldubæturnar máli mínu til sönnunar. Þar er verið að greiða fé til fólks algerlega án tillits til þess, hvort það þurfi á því að halda, og siðan er þetta fé tekið aftur úr einum vasanum og sett í hinn. Ég vænti þess, að við hv. 3. landsk. þm. getum sameinazt í því að standa hér að tillögum á hv. Alþ., sem stuðla að breytingu á tryggingakerfinu að þessu leyti. Og um leið og ég áskil mér allan rétt til þess að fræða hann á seinni fundum hér á Alþ. um stefnu Sjálfstfl. á þessu sviði, vil ég fá leyfi til að snúa mér til hans, þegar þar að kemur, einmitt með þessar hugmyndir og vænti þá þess, að hann styðji mig í þeirri tillögugerð.