14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í D-deild Alþingistíðinda. (4656)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Meginefni þessarar till., eins og fram hefur komið, er það að Nd. Alþingis lýsi yfir þeim vilja sínum, að Tækniskóli Íslands verði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar. Það er e.t.v. óþarfi fyrir mig persónulega að lýsa yfir sérstökum stuðningi við þessa stefnu, því að ég hef áður á hv. Alþ. látið orð falla í þessa átt og lýst þeirri skoðun minni, að full ástæða sé til þess að gripa nú það tækifæri, sem fyrir hendi er, að flytja höfuðstöðvar Tækniskólans til Akureyrar. En þegar ég tala um sérstakt tækifæri nú til þess að flytja Tækniskólann, þá á ég auðvitað við það, að skólinn er enn eins og barn í reifum. Hann hefur ekki enn tekið út þroska, hann á við ónógan aðbúnað að stríða, nánast lélegt atlæti, sem stendur vexti hans fyrir þrifum. Það er mikið vafamál, hvort Tækniskólinn hefur fest svo djúpar rætur í Reykjavík, þótt hann hafi verið staðsettur þar frá upphafi, að það þurfi að standa í vegi fyrir flutningi hans. Ég sé ekki, að það sé verið að rifa upp neitt með rótum og er því fullkomlega sammála hv. flm., sem hér var að ljúka máli sínu.

Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt við umr. fyrr á þessu þingi, að nú er tækifæri til þess að vinna að flutningi skólans til Akureyrar. Íslendingum er nauðsyn að eiga a.m.k. einn fullkominn tækniskóla. Það var ætlunin með stofnun Tækniskóla Íslands, að hann yrði sem fullkomnastur og bezt búinn. Nú eru liðin u.þ.b. níu ár síðan Tækniskólinn tók til starfa, en því fer fjarri, að vel sé að honum búið, og fátt eitt virðist á döfinni, sem bendir til þess, að úrbætur séu í nánd. Það er því óneitanlega tækifæri til þess að ræða framtið Tækniskólans og þ. á m., hvar hann skuli vera staðsettur.

Ég vil benda sérstaklega á það, að enda þótt skólinn hafi frá upphafi starfað í Reykjavík, þá hafa ekki verið gerðar neinar slíkar ráðstafanir hvað snertir t.d. byggingar skólans, að þær geri það óhjákvæmilegt, að skólinn verði um aldur og ævi í Reykjavík. Þvert á móti vil ég fullyrða, að engar framtíðarráðstafanir hafi verið gerðar, þannig að skólinn sé svo rótfastur í Reykjavík, að honum verði ekki hróflað þaðan. Skólinn hefur ætíð verið á hrakhólum með húsnæði, og svo er enn. Skólinn er því ekki bundinn við Reykjavík vegna bygginga sinna eða vegna landareigna. Sannleikurinn er sá, að Tækniskólinn hefur að öllu leyti lélega aðstöðu og ræður yfir litlum eignum í Reykjavík. Honum hefur ekki verið búin nein framtíðaraðstaða hér, svo að það er einskis í misst út af fyrir sig, þótt skólinn yrði fluttur frá Reykjavík.

Það er margt, sem mælir með því, að sú stefna verði mörkuð, að Tækniskólinn verði staðsettur á Akureyri. Fyrir utan það, sem ég hef nú nefnt um það, að skólinn sé enn ómótaður og laus á rót sinni í Reykjavík, þá koma til aðrar ástæður, sem að mínum dómi vega þungt á metunum. Að mínum dómi er þetta tækniskólamál ekkert einangrað fyrirbæri. Staðsetning Tækniskólans er að sjálfsögðu aðeins hluti af stærra máli. Þess vegna vil ég vara við því að líta á staðsetningu Tækniskólans frá allt of þröngum sjónarhóli. Og sérstaklega vil ég andmæla þeirri skoðun, sem ég hef orðið nokkuð var við upp á siðkastið, að hér sé um að ræða ýmist sérvizkulega þráhyggju vissra þm. eða forustumanna sveitarfélaga eða eigingjarna heimtufrekju Akureyringa, sem vilji gína yfir öllu lausu og föstu í landinu og telji sig eiga rétt fram yfir flesta aðra landsmenn. Ekkert af þessu er rétt. Akureyringar eða Norðlendingar aðrir hafa enga löngun til þess að ganga á annarra rétt, hvorki í þessu efni né öðrum. Hitt má vel vera, að Akureyringar og Norðlendingar yfirleitt hafi haft nokkra forustu fyrir þeirri hreyfingu, sem nú er uppi um skynsamlegar aðgerðir í dreifingu ríkisstofnana og opinberrar þjónustustarfsemi. Þessi hreyfing hefur að markmiði að stuðla að jafnvægi í byggð landsins eftir því, sem frekast er kostur. Akureyringar gera sér að sjálfsögðu ljósa grein fyrir möguleikum Akureyrar til stóraukins vaxtar og eflingar, og við gerum okkar ákveðnu kröfur til samfélagsins í því sambandi. Það er ekkert launungarmál, að við teljum það bæði rétt og skynsamlegt út frá almennu, þjóðfélagslegu sjónarmiði, að Akureyri verði efld mikið frá því, sem nú er, ekki til þess að soga til sín merginn úr nágrannabyggðum eða annarri landsbyggð, heldur til þess að treysta landsbyggðina í heild, koma á skynsamlegu jafnvægi eða a.m.k. nokkru mótvægi gegn einhliða vexti höfuðborgarsvæðisins. Þetta þýðir ekki, að Akureyri eigi að verða önnur Reykjavík, sem keppir að því að soga til sin fólkið, fjármagnið og þjónustuna á ranglátan hátt og á annarra kostnað. Vöxtur Akureyrar þarf að verða mikill, en má aldrei verða svo ör og svo mikill, að það komi niður á öðrum. Það er ekki keppikefli Akureyrar og ekki neins manns markmið að krefjast alls handa Akureyri og einskis handa öðrum. En um það verður ekki efazt, að Akureyri er ákjósanlegri staður en ýmsir aðrir staðir utan höfuðborgarinnar til þess að vera miðstöð margs konar starfsemi. Og þegar svo stendur á, á Akureyri að fá að njóta þess. Það er engin ágirnd og enginn gleypigangur, heldur eðlilegt stefnumál.

Ég er sannfærður um það, að á einu sviði er mögulegt og einnig rétt að efla Akureyri öðrum stöðum fremur. En það er á sviði skólamála. Ég hef sannfæringu fyrir því, að hægt sé að koma þar upp raunverulegum skólabæ eða skólamiðstöð, þar sem væri aðsetur margs konar framhaldsskóla og sérgreinaskóla. Þessari skoðun minni hef ég svo oft lýst áður hér á hv. Alþ., að ég þarf ekki að fara um hana mörgum orðum nú. Það er þegar fyrir hendi verulegur vísir að skólamiðstöð á Akureyri, en enn vantar mikið á, að skólastarfið þar sé svo fjölbreytt og umfangsmikið sem það gæti orðið. Það væri ómetanlegt fyrir þróun Akureyrarbæjar að fá Tækniskóla Íslands fluttan til Akureyrar. En ég vil enn minna á, að fleiri skóla mætti hugsa sér staðsetta á Akureyri. Sérstaklega nefni ég verzlunarskóla, enda getur það ekki dregizt öllu lengur, að tekin verði ákvörðun um stofnun almenns verzlunarskóla í landinu, sem rekinn sé á vegum ríkisins. Núverandi ástand í þessum efnum er óviðunandi. Einnig nefni ég enn einu sinni stofnun garðyrkjuskóla, sem verið hefur áhugamál margra um árabil. Og ég vil einnig minna á eflingu vélfræðikennslunnar, sem nú þegar fer fram á Akureyri, og fleira mætti nefna, og hef ég raunar minnzt á þessi mál áður.

En svo að ég víki aftur að Tækniskóla Íslands og flutningi hans til Akureyrar, þá get ég endurtekið það, sem ég sagði áðan, að slíkt yrði ómetanlegt fyrir bæinn. Tækniskólinn kemur til með að verða svo fjölmenn og fyrirferðarmikil stofnun, að hann mun hafa ótrúlega sterk áhrif á umhverfi sitt, bæði beint og óbeint. Menningarlegu áhrifin eru augljós, efnahagslegu áhrifin ættu einnig að liggja í augum uppi. Búsetu- og fólksfjöldaáhrifin hljóta að verða mikil af svo umfangsmikilli stofnun, og þeirra mundi vissulega gæta meira í fámennum bæ en fjölmennum. Ekki er neitt vafamál, að á Akureyri mundi Tækniskólinn bera höfuð og herðar yfir flestar aðrar stofnanir. Hann yrði sannkallað óskabarn bæjarbúa og stolt bæjarins. Menn mundu láta sér verulega annt um hag skólans, eins og bæjarstjórinn á Akureyri benti á í grg. þeirri, sem hv. flm. las hér áðan. Það er engin hætta á því, að skólinn lenti í einangrun eða útlegð á Akureyri.

Akureyri er að vísu engin stórborg, en þær munu ekki margar smáborgir í heiminum, að ekki sé minnzt á bæi með 11–12 þús. íbúa, sem búa yfir fjölbreyttara bæjarlífi en Akureyri. Samgöngur við landsbyggðina og við umheiminn eru mjög góðar. Verzlun er umfangsmikil, atvinnulíf fjölbreytt. Akureyri er umfram allt iðnaðarbær, sem stendur Reykjavík í flestu á sporði og í sumum greinum líklega langtum framar. Það er því langt frá því, að Tækniskólinn lenti í útlegð, þótt hann yrði staðsettur á Akureyri. Hitt mun kannske sönnu nær, að þar yrði hann nær sjálfri kviku þjóðlífsins: Þar yrðu nemendur í enn nánari snertingu við atvinnulífið og þau framtíðarstörf, sem þeir koma til með að vinna, en nokkurn tíma í Reykjavík. En ekki getur neitt af þessu gerzt af sjálfu sér. Mér er ljóst, að ýmsir örðugleikar eru á því yfirleitt að koma upp fullkomnum tækniskóla hér á landi, og reynsla siðasta áratugar sannar það. En ég held, að það sé á misskilningi byggt, að það sé miklu örðugra að koma skólanum upp á Akureyri en í Reykjavík. Ég held, að þar geti ekki, eins og nú er komið, ákaflega miklu munað. Beinn fjárhagslegur munur getur varla komið til greina. Það yrði ekki dýrara að reisa byggingar yfir skólann á Akureyri, og það er ekki erfiðara að búa skólann kennsluaðstöðu að öðru leyti. Ósannað mál er, að erfiðara verði að fá fasta kennara til Akureyrar, ef rétt er á haldið, en í Reykjavík, og útvegun stundakennara og annars starfsliðs ætti ekki að vera óyfirstíganlegt vandamál. Auðvitað verður að játa það, að Akureyrarbær er tæpast við því búinn að taka á móti Tækniskólanum með nokkurra vikna eða nokkurra mánaða fyrirvara. Slíkt er auðvitað ofætlun. Það er hvorki vit né sanngirni í því að setja dæmið þannig upp. En ef sú stefna verður tekin og samræmdar aðgerðir ríkis og bæjarfélags fá að njóta sín, þá efast ég ekki um, að hægt yrði á nokkrum árum að vinna að flutningi Tækniskólans til Akureyrar. Ég aðhyllist þá lausn. Ég álít, að úr því sem komið er eigi ekki að gera neitt frekar, sem yrði til þess að rótfesta skólann í Reykjavík.

Ég tel, að nú beri að taka málefni Tækniskólans til endurskoðunar með það fyrir augum, að starfsemi hans verði flutt til Akureyrar og það innan ekki allt of margra ára. Óhjákvæmilegt er, að skólinn starfi um sinn í Reykjavík, eins og verið hefur, og sjálfsagt að gera eðlilegar ráðstafanir í því sambandi, en af þessu leiðir m.a., að ekki ber að fara út í neinar dýrar byggingarframkvæmdir á vegum skólans hér í Reykjavík.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, herra forseti, enda má gera ráð fyrir, að síðar gefist tækifæri til þess að ræða málefni Tækniskólans, ef frv. það, sem liggur fyrir hv. Ed., verður tekið hér til umr. Raunar er það mín skoðun, að það frv. ætti ekki að fara lengra en það er nú komið. En fari svo, að því verði vísað til hv. Nd., þá mun ég beita mér gegn framgangi þess, að svo miklu leyti sem það er á mínu valdi.