14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í D-deild Alþingistíðinda. (4657)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa algerri andstöðu minni við efni þessarar þáltill. Ég tel, að á næstu árum komi ekki til nokkurra mála, að hægt sé að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar nema því aðeins, að skólinn setji mjög verulega niður. Það er ekki hægt að halda uppi kennslu af þeirri tegund, sem nú er haldið uppi í Tækniskóla Íslands og þarf að halda þar uppi, með kennslukröftum, sem nú eru fyrir hendi á Akureyri eða fáanlegir eru þangað um fyrirsjáanlega framtíð. Flutningur skólans til Akureyrar á allra næstu árum hlyti því að verða Tækniskólanum til mjög verulegs tjóns. Samþykkt till. mundi auk þess hafa það í för með sér, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að stöðvun yrði á nauðsynlegum framkvæmdum í þágu skólans, sem nú eru bráðnauðsynlegar, enda er skólinn ungur, nýstofnaður og hefur verið í mjög örri uppbyggingu á fyrstu starfsárum sínum.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að ef slík till. sem þessi yrði samþ., þá sigldi það í kjölfar þess arna, að það frv., sem nú er til meðferðar í hv. Ed., ætti að stöðvast og bráðnauðsynlegar byggingarframkvæmdir í þágu hans ætti líka að stöðva. Það, sem fyrir flm. till. vakir, er m.ö.o. að hefta framþróun Tækniskólans hér í Reykjavík, sem mundi verða skólanum, nemendum hans og íslenzkum iðnaði og íslenzkri tækniþróun verulegur fjötur um fót. Slíkt tel ég með engu móti mega gerast.

Stofnun Tækniskólans var á sínum tíma eitt mikilvægasta sporið í framfaraátt, sem stigið var á undanförnum áratug í íslenzkum skólamálum. Það var stórkostleg þörf fyrir skólastofnun einmitt eins og þá, sem Tækniskólinn er og hefur reynzt vera. Hann hefur bætt úr mjög brýnni þörf. Það er ekki við því að búast, að skóli sem þessi verði fullskapaður á örfáum árum. Hann hefur verið í mjög örri uppbyggingu, og sú uppbygging þarf nauðsynlega að halda áfram. Samþykkt till. sem þessarar mundi stöðva þessa uppbyggingu eða a.m.k. verða mjög verulegur dragbitur á hana. Þess vegna tel ég hana vera skaðlega og tel ástæðu til þess að mótmæla henni mjög eindregið og vara við því, að þessi stefna verði mörkuð.

Í þessum orðum mínum felst engan veginn sú skoðun, að ekki sé æskilegt að flytja ýmsar ríkisstofnanir og þar á meðal skóla frá Reykjavík eða Suðvesturlandssvæðinu og út á landsbyggðina. Þá stefnu tel ég tvímælalaust vera æskilega að dreifa mikilvægum ríkisstofnunum, mikilvægum þjóðfélagsstofnunum meira um landið en átt hefur sér stað, enda er þetta ríkjandi stefna t.d. á Norðurlöndum og ýmsum öðrum löndum í Vestur-Evrópu. Að þessu tel ég tvímælalaust eiga að vinna og gera það með skipulegum hætti. En það má ekki bera niður á röngum og óheppilegum stöðum, og það tel ég einmitt, að mundi verða gert, ef tekin væri ákvörðun um það að rífa unga, bráðnauðsynlega stofnun, sem er í örri uppbyggingu, upp með rótum og flytja hana út á land. Það eru margar aðrar stofnanir hér í Reykjavík, sem miklu, miklu meiri ástæða væri til að athuga um, hvort ekki væru álíka vel eða jafnvel betur komnar utan Reykjavíkur en einmitt Tækniskólinn. Ég tel satt að segja, að vandfundin sé stofnun, sem væri hægt að gera meiri skaða með flutningi frá Reykjavík en einmitt Tækniskóla Íslands, vegna þess að það er ný stofnun, sem er í örri uppbyggingu og er þess eðlis, að hún krefst mjög sérhæfðra starfskrafta. Kennarar við Tækniskólann munu vera fleiri miðað við nemendur en í nokkrum öðrum skóla að Háskólanum þó líklega undanteknum. Og það gefur auga leið, hversu óheppilegt er að velja einmitt slíka stofnun til þess að flytja frá Reykjavik og í bæ, sem hefur þó ekki nema rúmlega 10 þús. íbúa, einmitt slíka stofnun, vegna þess að ég tel mig vera mjög kunnugan málefnum Tækniskólans, vegna þess að hann var stofnaður í þeirri tíð, er ég veitti menntmrn. forustu. Vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því, að hann sé efldur, en ekki sé dregið úr þroska hans, þá vildi ég mjög eindregið vara hv. þd. við því að marka þessa stefnu.