14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í D-deild Alþingistíðinda. (4659)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það verður nú tæplega sagt, að hv. 7. þm. Reykv. hafi tekið lítið upp í sig í ræðu sinni hér áðan. Hann var ærið stórorður um þessa till. og hélt því fram, að það væri bókstaflega ekki hægt að flytja Tækniskólann norður, og ekki aðeins það, heldur líka yrði það skólanum til stórtjóns, ef hann yrði fluttur norður í land. Og auk þess kom sú ágæta fullyrðing hv. þm., að þessi skóli, Tækniskólinn, sem nú er í Reykjavík, hefði verið í örri uppbyggingu undanfarin ár. Ég held nú, að hv. þm. hefði getað sagt eitthvað minna. Að vísu er þessum hv. þm. málið skylt að því leyti, að hann er búinn að vera yfirmaður skólans, yfirvald skólans, þau níu ár, sem hann hefur starfað, og það má vera, að hann sé svo ánægður með yfirstjórn sína, að honum finnist, að þessi stofnun hafi verið í örri uppbyggingu þessi ár. En ég held þó, að flestir viti annað, að skólinn hefur ekki verið í örri uppbyggingu, heldur hefur hann verið í hinni örgustu niðurlægingu þennan nærfellt áratug, sem hann hefur starfað.

Þeirri fullyrðingu hv. 7. þm. Reykv., að það sé ekki hægt að flytja skólann norður og það yrði skólanum til stórtjóns, ef svo yrði gert, vil ég ekki einasta mótmæla, heldur vil ég vísa til þess, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, þar sem ég flutti, að ég held á mjög hógværan hátt, rök fyrir því, að skólinn yrði ekki illa í sveit settur á Akureyri, og það er ekki verið að senda hann í neina útlegð, því fer fjarri. Það er auðvitað hægt að benda á það, að Akureyri sé ekki með háa fólkstölu miðað við það, sem gerist í stórborgum eða borgum erlendis, þó að smáborgir séu taldar. En ég vil minna á það enn, sem ég gerði áðan, að þótt svo sé, hefur Akureyri á margan hátt sérstöðu meðal smábæja vegna þeirrar fjölbreytni menningarlífs og atvinnulífs og þjóðlífs yfirleitt, sem þar er fyrir.

Í ræðu hv. 8. þm. Reykv. var eitt atriði, sem ég sé ástæðu til að ræða. Það var sú fullyrðing hans, að flutningurinn mundi tefja uppbyggingu skólans. Ég held, að við þurfum að athuga þetta nokkru nánar. Það má vel vera, að sumum kunni að finnast sem þarna sé farið með rétt mál. En ég er ekki þeirrar skoðunar, að þótt sú stefna yrði nú tekin að vinna að flutningi skólans til Akureyrar og hugsa fyrir framtíðaruppbyggingu skólans þar, þá sé ég ekki, að það þyrfti að tefja uppbyggingu Tækniskóla Íslands á nokkurn hátt. Það sé ég ekki, því að augljóst er, að ef á að vinna að uppbyggingu skólans, þá verður að gera það með byggingarframkvæmdum, og það tekur ekki lengri tíma að koma þeim upp á Akureyri, ef sú stefna yrði tekin að koma þeim þar upp. Ég held líka, að ef þar er önnur aðstaða, sem ég veit með vissu, að forráðamenn Akureyrarbæjar gera sér fulla grein fyrir, að verður að vera fyrir hendi, en það er sú aðstaða að taka við auknum fólksfjölda, sem leiða mundi af staðsetningu skólans á Akureyri, þá er vel hægt að flytja skólann norður. Vitanlega yrði að vinna að því líka að koma upp auknu húsnæði, sem þyrfti vegna nemenda og kennara og annarra, sem flyttust norður í sambandi við skólann. Þetta er hægt að framkvæma og gera áætlanir um, án þess að það verði á nokkurn hátt til þess að tefja framtíðaruppbyggingu Tækniskóla Íslands. Þess vegna vil ég andmæla þessari fullyrðingu hv. 8. þm. Reykv., vegna þess að ég hef ástæðu til að halda, að ýmsir verði til að trúa henni. En ef rétt er á haldið, þá er ég sannfærður um, að þessi fullyrðing er röng og engin ástæða til þess að óttast, að svo þurfi að fara sem í henni felst. Það er engin ástæða til að ætla, að það þyrfti að verða til þess að tefja framtíðaruppbyggingu Tækniskóla Íslands, þó að hann yrði fluttur til Akureyrar, en hitt er ljóst, að það yrði e.t.v. að standa að einhverju leyti á annan veg að framkvæmdunum en ella væri.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð nú, en ég vona, að hv. Nd. beri gæfu til þess að lýsa yfir þeim vilja, sem fram kemur í þessari þáltill.