14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í D-deild Alþingistíðinda. (4660)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa orðið um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, um flutning Tækniskóla Íslands til Akureyrar, vildi ég aðeins vekja athygli hv. d. á því, að fyrir hv. Alþ. liggur nú frv. um Tækniskóla Íslands. Það liggur fyrir í Ed., eins og hér hefur raunar komið fram í umr., en við það frv. er komin fram brtt. frá hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni, um það, að í því frv. verði kveðið á um, að Tækniskóli Íslands skuli rísa á Akureyri. Það er því engin ástæða til þess að gera því skóna, að afgreiðsla þess frv. þurfi að dragast af þeim ástæðum, að verið sé að fjalla um það hér á hv. Alþ. að flytja skólann til Akureyrar. Það liggur fyrir, að ákvörðun um þetta er hægt að taka nú þegar. Húsnæðismál skólans eru í því ástandi, að hann getur ekki við unað hér í Reykjavík. Hér þyrfti að byggja yfir skólann, nákvæmlega það sama þyrfti að gera á Akureyri, og það eru engin rök til þess, að ekki sé hægt að byggja hliðstætt húsnæði á Akureyri fyrir Tækniskóla Íslands eins og í Reykjavík. Ég held, að hv. þm. geti orðið alveg sammála um það.

Um það atriði, að ekki fáist kennaralið til Akureyrar, hafa verið settar fram hér ýmsar fullyrðingar. Það er gott og blessað að setja fram fullyrðingar um slík efni, en það hefði verið skemmtilegra, að undir þær fullyrðingar væri reynt að renna einhverjum rökstuðningi, einhverjum stoðum. Ég fæ ekki séð, að þær fullyrðingar fái staðizt miðað við það, að á Akureyri er þegar um að ræða harðsnúið lið háskólamanna, sem geta kennt við slíka stofnun, auk þess sem þar eru öll skilyrði fyrir hvaða fólk sem er að búa þar, þannig að ég held, að kennaralið við Tækniskóla Íslands á Akureyri geti ekki orðið rökstuðningur gegn því að flytja skólann þangað, að það fáist ekki.

Ég vil ekki fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, en ég get ekki stillt mig um að minnast hér á eina röksemd, sem kom fram hjá einum hv. þm., að 60–65% nemenda Tækniskóla Íslands búi í Reykjavík. Þetta er atriði, sem ég tel, að séu fremur haldlítil rök, ef litið er á það, að hundruð og jafnvel þúsundir nemenda utan af landsbyggðinni búa í Reykjavík og hafa enga sérstaka fyrirgreiðslu hér af hálfu hins opinbera. Þeir búa í venjulegu húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu og hafa útvegað sér það sjálfir og eins allan sinn aðbúnað, þannig að ég fæ ekki betur séð en nemendur héðan úr Reykjavík gætu á svipaðan hátt komizt af á Akureyri. Eða hvaða rök eru til þess, að nemendur utan af landi þurfi einmitt að standa í því að útvega sér aðstöðu, ef þeir vilja sækja skólann? Ég held, að það sé ekki um að ræða rök, sem séu þess eðlis, að þau þurfi að vera gegn staðsetningu skólans á Akureyri.

Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni, að ég held, að það væri réttara fyrir Alþ. að fjalla um staðarval ríkisstofnana á annan hátt en gert hefur verið undanfarið, enda hef ég flutt um það þáltill. Ég held, að það séu miklu heppilegri vinnubrögð að fjalla um þessi mál í samhengi, þannig að reynt sé að finna heildarlausn á þessum vanda, og ég vil minna á, að það eigi einmitt að vera í höndum Alþ. að gera þetta. Þess vegna hef ég gert till. um það, að Alþ. kjósi nefnd manna til þess að leggja till. um þetta atriði fyrir næsta þing. Með þessu er ég þó ekki að segja, að það sé ekki hægt að taka afstöðu til einstakra mála eins og þess, sem hér liggur fyrir, og ég fæ ekki séð, að nein rök, sem eru þess eðlis, að það sé útilokað að taka ákvörðun um, að Tækniskóli Íslands flytjist til Akureyrar, hafi komið fram í þessum umr.