14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

1. mál, fjárlög 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hv. fjvn. fyrir störf hennar. Á það þakklæti mitt jafnt við meiri og minni hl., því að mér er það ljóst af störfum mínum í fjvn., að þar er ekki hægt að ljúka störfum á svo skömmum tíma, sem n. hefur til umráða, nema samstarfið í n. sé gott. Enda er mér kunnugt um það, að báðir aðilar hafa, nú sem fyrr, lagt á sig óvenjumikla vinnu til þess að leysa þetta verkefni af höndum, svo að 2. umr. um fjárlagafrv. gæti farið fram í dag, og það er svo, að þó að nokkrar deilur og skiptar skoðanir kunni að verða í sambandi við þá stefnu, sem ríkir um afgreiðslu fjárlaga hverju sinni, sem ekki er nema eðlilegt um menn, sem eru úr mörgum stjórnmálaflokkum, þá er það einnig jafnvíst, að í n. starfa menn saman í eindrægni að því að leysa málin og reyna að koma þeirri afgreiðslu fyrir á sem heppilegastan hátt.

Ég tek undir það, sem kom fram í ræðu hv. form. n., — ég vil sérstaklega þakka hans störf og hans forustu í n., — að það verður að breyta um vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, því eins og þetta er nú og þessi mál, sem afgreiða á, eru orðin umfangsmikil, er í raun og veru alveg vonlaust að afgreiða framkvæmdaliðina á einni eða tveimur vikum, eins og jafnan hefur orðið að gera, þar sem skýrslur frá rn. hafa ekki borizt fyrr en svo, að sá tími einn hefur verið til stefnu. Það er því alveg nauðsynlegt að finna betri vinnubrögð í þessu skyni og koma þessum málum fyrir á heppilegri hátt.

Í sambandi við það, sem fram kom hér í forleik að þessum fundi og kom einnig fram í gær í ræðu hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, sem kemur nú endurhæfður til okkar á nýjan leik, þá datt mér í hug, að eitt sinn, þegar ég ræddi við Jón heitinn Eyþórsson veðurfræðing og spurði hann um veður langt aftur í tímann og þessar sagnir manna um það, að elztu menn myndu ekki þetta og hitt, þá varð honum að orði, að sín reynsla væri sú, að elztu menn myndu oft harla skammt, og mér fannst þess kenna greinilega í ræðum þeim, sem fluttar voru hér í upphafi þessa fundar, og því, sem hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sagði í gær, að menn myndu harla skammt aftur í tímann. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga hef ég látið athuga nokkurt áraskeið, hvernig þeim hefur verið fyrirkomið og hvað seint menn hafa verið á ferðinni með 2. umr. fjárlaga og hvað hafi þá verið eftir. Ég hef í því sambandi tekið tímann allt aftur til 1960, en það ár fór 2. umr. fjárlaga fram 7. des., og þá voru eftir eftirlaun á 18. gr. af þeim málaflokkum, sem taldir voru fyrirferðarmiklir. 1961, þegar afgreiðsla fjárlaga fyrir 1962 var til meðferðar, fór 2. umr. fjárlagafrv. fram 12. des., þá voru einnig eftir eftirlaunin, en annað ekki. 1962 fór 2. umr. fram 13. des., þá voru eftir millibyggðavegir, brúagerðir og eftirlaun. 1963 fór 2. umr. fram 16. des., þá voru nýjar framkvæmdir eftir, þ.e. nýbyggingar skóla og aðrir slíkir liðir, sem ekki höfðu verið á frv. áður, og eftirlaunin. 1964 fór umr. fram 14. des., þá voru eftir nýbyggingar barna- og gagnfræðaskóla, fyrirhleðslur og eftirlaun. 1965 fór umr. fram 2. des., þá voru skólabyggingar allar eftir, fyrirhleðslur og eftirlaun. 1966 var umr. einnig 2. des., þá voru skólabyggingar og eftirlaun eftir. 1967 fór hún fram 11. des., þá voru skólabyggingar, hafnir, almannatryggingar og eftirlaun eftir. 1968 fór hún fram 13. des., þá voru skólabyggingar, hafnir og eftirlaun eftir, tekjuáætlunin, sjóvarnargarðar, fyrirhleðslur, landþurrkun, dagheimili o.fl. 1969 fór hún fram 9. des., þá voru byggingar iðnskóla, fyrirhleðslur, eftirlaun, almannatryggingar og landþurrkun eftir. Og 1970 fór hún fram 9. des., þá voru nýbyggingar barna- og gagnfræðaskóla eftir, eftirlaun og dagheimili.

Þessi skýrsla sýnir það, að fyrr hafa breyskir menn komið að fjármálum ríkisins og verið seint á ferðinni með afgreiðslu þeirra. (Gripið fram í.) Má ég halda áfram? (Gripið fram í.) Það voru líka tekjuáætlun, almannatryggingar, skólabyggingar, hafnir o.fl., sem voru eftir. Ég vil líka benda á það í sambandi við það, að nú eru þessir stóru málaflokkar eftir, en ég held áfram og minni á það, að þegar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1971, sem við búum við núna, þá var, áður en gengið var frá afgreiðslu, verið að semja við ríkisstarfsmenn. Þessir samningar mundu kosta mikið fé, að talið var, og menn töluðu um, að þeir mundu kosta um 600 millj. kr. Þá var talið, að 270 millj. kr. afgangur á fjárlögum mundi nægja til þess að mæta þessum auknu útgjöldum. Það hefði verið hægt að koma með þá kröfu af hendi okkar, stjórnarandstöðunnar þá, að fjárlög væru ekki afgreidd fyrr en séð væri, hvaða áhrif þessi samningur hefði, og það hefði sannarlega verið hyggilegra fyrir mig, fyrst það átti fyrir mér að liggja að tala fyrir fjárlögum nú, að það hefði verið gert, því nú koma þessir fyrrv. stjórnarsinnar, m.a. vinur minn Jón Árnason, fyrrv. formaður fjvn., sem stóð fyrir afgreiðslu á þessum fjárlögum ásamt þáv. fjmrh., og gleyma því, að þessir samningar hafa verið gerðir og þessum 270 millj. kr., þeim hafi einu sinni verið ætlað það að vera þar til útgjalda. Nú er bara talað um, að það sé 3 000 millj. kr. hækkun á fjárlagafrv., þó það hafi verið 430 millj. kr., sem kjarasamningur við ríkisstarfsmenn kostaði minnst á árinu 1971 og um 900 millj. kr. á árinu 1972, þegar tekið er frá árinu 1971, eins og það var gagnrýnt. Nú tala þessir hv. þm. um það, að fjárlögin hjá ríkisstj. hækki um 3000 millj., og gleyma því, að þeir voru sjálfir búnir að afgreiða 900 millj. af því. En það er fleira, sem þessir hv. þm. gleyma. T.d. tók ég eftir því í blaðagrein hjá hv. 1. þm. Sunnl. í haust, þeim ágæta manni, fyrrv. samgmrh., að hann gleymdi því, að hann, ég og fleiri samþykktu að hækka skatta á umferðinni, bensíngjald, þungaskatt og gúmmígjald um 230 millj. kr. Það fór líka útgjaldamegin og það er innifalið í þessum 3 000 millj., — og því eru menn með svona leikaraskap? Og nú koma menn og eru alveg undrandi á því, að við skulum ekki vera búnir að ganga frá þessu öllu, svo sem vera ber, og sannarlega væri það ánægjulegt, — en muna ekki hv. þm., sem voru hér á Alþ., þegar EFTA-samningurinn var gerður? Þá voru fjárlög afgreidd þannig, að það var gert eftír að komið var saman á nýjan leik. Þá var gerð tollabreyting, sem boðað var að mundi þýða svona 250 millj. kr. lækkun, og það var gerð breyting á söluskattinum, sem þýddi 2–300 millj. kr. hækkun. Fjárlögin voru afgreidd einnig af okkur í stjórnarandstöðunni. Við settum ekki fótinn fyrir dyrnar, fyrir hurðina, gegn því að afgreiða fjárlög og afgreiða tollalög og afgreiða söluskattinn á eftir. Þetta voru einir stærstu liðirnir í tekjuáætlun fjárlaga. Svo fyllast menn vandlætingu hér yfir því að hafa þetta nú ekki allt saman pottþétt, þegar núv. ríkisstj. er búin að hafa 4–5 mánuði til þess að reyna að breyta viðreisnarkerfinu, þegar þeir, sem voru búnir að sitja í 5–10 ár, urðu að hafa þessi vinnubrögð. Nei, það er ekki nóg að endurhæfa sig og búa í húsi Jóns Sigurðssonar, eins og hv. 7. þm. Reykv. gerir, menn verða líka að muna eitthvað aftur í tímann og átta sig á því, hvernig þeir stóðu að málum, þegar þeir fóru með þau. Ég var að segja við vini mína úr Alþfl. hér áðan, að mér dytti í hug, að ef formaðurinn héldi svona áfram, þá yrði það með hann eins og séra Árni sagði um góðan frænda sinn, að hann yrði nú ekki lengi að afkristna heil sólkerfi með slíkum vinnubrögðum, hann yrði ekki lengi að afkristna þá Alþfl: menn, ef hann héldi svona áfram. Þetta er nú það. Nú vil ég geta þess, að auðvitað væri það engum meiri ánægja en okkur í ríkisstj., að við hefðum getað afgreitt mál eins og skattamálin fyrr en við afgreiðslu fjárlaga, en það er alveg vonlaust, að slíkt geti gerzt, og við treystum því, að núv. stjórnarandstaða verði nú ekki verri en við, þegar við létum afgreiða fjárlögin og eftir var að breyta bæði tollalögum og söluskattslögum, eins og gert var, og án þess að líta á, hvað kostaði að hækka við ríkisstarfsmennina, eins og gert var í fyrra. Hins vegar er það svo, að til þess að við getum komið fram þeirri stefnubreytingu, sem við ætlum okkur og stefnum að, þá verðum við að sjálfsögðu að koma fram þeim grundvallaratriðum í breytingunni, sem skattamálin, tekjustofnalögin og tryggingakerfið er. Þetta er allt í samhengi, og ég skal fúslega verða við því, sem hv. 5. þm. Reykn. talaði hér um áðan, að gefa hv. þingheimi eins góðar útskýringar á þessu skattafrv. og hugsanlegum tekjum þar um, eins og ég hef möguleika til, þegar ég tala fyrir því frv., sem ég vona að geti orðið fyrr en seinna, og skal þar ekkert undan draga.

Þá kem ég næst að því, sem uppi hefur verið um mína fjármálastjórn á þeim tíma, sem ég hef þar verið, og til þess er vitnað, að staðan hjá Seðlabankanum sé nú æðimiklu verri en hún var um sama leyti í fyrra. Nú er það svo með mig, að ég tel mig nú ekki það kláran eða öllum öðrum mönnum fremri, að það taki mig ekki einhvern tíma að átta mig á því, sem hinir hafa verið að fást við lengi og líka getað missézt. En ef við lítum nú á þessa stöðu í Seðlabankanum, sem ég er fús að ræða hér og vil í sambandi við það, sem kemur fram í nál. hjá hv. 5. þm. Reykn., þar sem hann talar um ónógar upplýsingar, segja það, að mér er alveg ókunnugt um, að nokkrum hafi verið neitað um upplýsingar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, upplýsingar, sem þeir hafa óskað eftir, og ég vona, að svo sé ekki, og þess vegna sé nú aðeins um það að ræða, að hv. þm. hafi ekki óskað upplýsinga. Ég hlýt að vekja athygli á því í sambandi við fjárlög eða fjármál ríkisins á árinu 1971, að það skorti náttúrlega afar mikið á það, að fjárlögin sýni rétta mynd af ríkisútgjöldunum það ár. Ef menn, eins og ég gat um áðan, gleyma alveg þessum 270 millj., þá er útgjaldahækkun vegna launalagabreytinganna minnst 430 millj. kr. Ég hygg þó, að niðurstaðan verði sú, að hún reynist meiri. Ég vil líka minna á það, að skömmu eftir fjárlagaafgreiðslu, í byrjun febrúarmánaðar var tekin ákvörðun um að hækka daggjöld á ríkisspítulunum og að greiða halla á ríkisspítulunum frá fyrri árum. Hér er um að ræða útgjöld, sem munu nema yfir 200 millj. kr. Í þriðja lagi vil ég svo minna á það, að við afgreiðslu fjárlaga í fyrra voru áætlaðar tölur vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum lækkaðar um 100 millj. kr. Þetta var talið byggt á því, að útflutningurinn mundi verða minni á árinu 1971 en á árinu áður, vegna aukinna niðurgreiðslna. Nú ætla ég ekki að fara að halda því fram, að þetta hafi ekki verið gert í góðri trú, en reynslan er sú, að útflutningsbæturnar eru orðnar meira en 100 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir, og í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan, vil ég segja honum það, að ástæðan fyrir breytingunni á fjárlagafrv. nú er einmitt sú áætlun, sem framleiðsluráðið hefur látið í té um það, sem því sýnist, að útflutningsuppbæturnar geti kostað, en eins og hann veit, mega þær samkv. lögum vera allt að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarafurðanna og leiðrétting er byggð á þeim upplýsingum, sem framleiðsluráðið gaf landbrn. og talið var sjálfsagt að setja þarna inn, til þess að þarna væri ekki um að ræða greiðslu, sem ekki væri getið á fjárlögum. Rökin, sem þeir hafa fært fyrir því, hef ég ekki ástæðu til að rengja, — þar fara þeir með, sem betur kunna.

Þegar þessir liðir hafa verið teknir saman og smáliðir þar fyrir utan, þá er hér um greiðslur að ræða umfram fjárlög, sem ekki verður komizt hjá að greiða og fyrrv. ríkisstj. ákvað, og eru á milli 800 og 900 millj. kr. Það þarf engan að undra, þótt þetta sjáist í dag í viðskiptum. (Gripið fram í: Hvað fóru tekjurnar langt fram úr áætlun?) Ég kem að tekjunum síðar, en þær hafa farið fram úr áætlun fyrr. Ég get náttúrlega ekki svarað þeirri fyrirspurn þessa hv. þm., hvað tekjurnar fara fram úr áætlun 1971, — til þess skortir mig mánuðinn desember, sem ég vona að reynist hinn bezti mánuður, — en ég vil minna á það, að á árinu 1970 fóru tekjurnar um 1 400 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Og ég vil líka minna á það, að á því ári var það upp tekið að breyta innheimtu á söluskatti, sem skilaði 13 mánaða söluskatti og nam verulegum fjárhæðum. Það hefði komið sér vel, að geta náð í 13. mánuðinn nú í söluskattsinnheimtu, en það tekst ekki. Þetta tókst á s.l. ári, og þessi hv. þm. þarf ekki að hlæja að því, hann getur spurt samþingmann sinn um það, hvort þetta er ekki rétt. Staðan 1. des. 1970 var 367 millj. kr. mínus við Seðlabankann. Staðan 1. des. 1971 er 644 millj. kr. mínus við Seðlabankann. Mismunur á þessu er 277 millj. kr. Þá vil ég minna á það, að þá var líka búið að fá inn söluskattsmánuðinn, sem breytt var. Ég vil líka minna á það, að rétt fyrir stjórnarskiptin í sumar var Seðlabankanum greitt af skuld, sem tekin var vegna yfirdráttar á hlaupareikningi, sem breytt var í fast lán fyrir nokkrum árum, sem voru 600 millj., ef ég man rétt, 191 millj. kr. Það var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum ársins, að þessi greiðsla færi fram, og það var heldur ekki gert ráð fyrir því í greiðsluyfirliti ríkissjóðs, sem samið var í febrúar, að þessi greiðsla færi fram. Ef þetta er dregið frá, þá er mismunurinn 86 millj. kr., þegar annars vegar stendur ábyrgðin og reynslan og þekkingin og allt það og hins vegar reynsluleysið, ábyrgðarleysið og þekkingarleysið, sem ég á að hafa til brunns að bera. Ég verð nú að segja, að það munar nú ekki öllu á þessu í Seðlabankanum, og hef ég þó ekki nema 12 söluskattsmánuði inn að heimta í ár. En við skulum svo kíkja til baka. Það eru fleiri ár til en 1970 og 1971. Það er líka til árið 1960, og þá var líka yfirlit til í Seðlabankanum um stöðu ríkissjóðs, og þá var staða ríkissjóðs þannig í fyrirhyggjunni, ráðsmennskunni og hyggindunum, að ríkissjóður skuldaði 901 millj. kr. 1. desember. Það er því ekkert nýtt að gerast, þó að ríkissjóður skuldi eitthvað við Seðlabankann, og menn þurfa ekki að fyllast vandlætingu, eins og nú sé heimurinn að farast, en áður hafi hann verið vel uppbyggður. Það er afskaplega langt frá því, að svo sé. Hitt er annað mál, að við vissum það ósköp vel, núverandi ríkisstj., þegar tekin var ákvörðun um það í sumar að greiða tryggingabæturnar frá 1. ágúst, að láta koma til framkvæmda 2 vísitölustigin og halda niðurgreiðslunum áfram eða verðlaginu í skefjum, þá gerðum við okkur alveg grein fyrir því, að þetta kostaði peninga. En við gerðum okkur líka grein fyrir því, að líkur væru á því, að við næðum endum saman, og þær líkur sýnist mér að hefðu staðizt, ef við hefðum ekki fengið upp útgjaldaliði, sem við þá vissum ekki um. Ég vissi ekki og enginn okkar vissi þá annað en að 270 millj. kr. mundu nægja til að greiða launamismuninn. Það vissi enginn okkar annað en þær mundu nægja. Það vissi enginn okkar þá um það, að útflutningsuppbæturnar mundu fara á annað hundrað millj. kr. fram úr áætlun. Það vissi heldur enginn okkar um það, að ákvörðun hafði verið tekin um daggjöld til sjúkrahúsanna, sem kostaði um 200 millj. kr. Þetta allt samanlagt mun gera meira en sá mismunur er, sem kann að verða á hjá ríkissjóði um næstu áramót. Og ég vil minna á það út af því, sem hv. þm. Lárus Jónsson fann sig knúinn til að spyrja um áðan, að á árinu 1970 hafði þáv. fjmrh. 1 403 millj. kr. umfram fjárlög og aðrar tekjuaflanir, sem höfðu verið gerðar í sambandi við sérstakar ráðstafanir, og ef 13. söluskattsmánuðurinn hefði ekki verið innheimtur, þá hefði nú afgangurinn ekki orðið stór upphæð þrátt fyrir það. En hér er nú frásögn af stöðunni, svo menn hafi það þá.

Þá vil ég víkja að því, sem hv. stjórnarandstöðumenn hafa talað um, hækkun á fjárlagafrv. nú frá gildandi fjárlögum. Mér er það afskaplega vel ljóst, að hækkunin er mikil, og ég vil segja þessum hv. þm. það, að það er ákveðin stefna, bæði mín og núv. ríkisstj., að reyna að ná inn á fjárlagafrv: þeim útgjöldum, sem til eru fallin og til munu falla, þannig að myndin, sem fjárlagafrv. sýnir, verði sem réttust. Það er afar lítið gagn að því, þó að hægt sé að sýna lægri fjárlög, ef útgjöldin fara svo langt fram úr áætlun.

Í sambandi við þessa hækkun vil ég svo greina frá því, hvernig hún skiptist. Launahækkunin á fjárlagafrv. er um 967.4 millj. kr. Af þessu eru 910 millj. kr. vegna kjarasamningsins frá 19. des. s.l. Það var ekki núv. ríkisstj., sem gerði þann kjarasamning, og við höfum heldur ekki deilt um það, að nauðsyn bæri til að breyta launum opinberra starfsmanna, en það er hinsegin, að menn gleymi því, að þessi samningur hlaut að koma útgjaldamegin á fjárlögin. Hjá því varð ekki komizt, og enginn, sem hér er inni, er svo snjall fjármálamaður, að hann hefði komizt hjá því, enda dettur mér ekki í hug að halda því fram, að þáv. fjmrh. hafi ekki gert sér það ljóst, þó það sé gleymt nú. Í sambandi við niðurgreiðslurnar, vegna þess að þeim var haldið áfram, og í fjárlagafrv. er reiknað með svipuðum niðurgreiðslum og var fyrir 1. sept. í sumar, þá er aukningin 573.4 millj. kr. Í þriðja lagi er svo hækkun á verklegum framkvæmdum, um 650 millj. kr. Ég verð nú að segja það um þennan lið, að ég er ekki búinn að sjá þann af okkur hv. þm., sem treystir sér til að draga þar verulega úr. Það hefur verið skoðun okkar margra, að gengið hafi verið of langt í því á síðari árum að halda þessum liðum niðri, það væri ekki hægt að komast af með svo litlar fjárhæðir sem ætlaðar hafa verið til þessara nauðsynlegu verkefna, sem við yrðum að leysa, og ég held, að mörg rök hnigi að því, að þessi skoðun okkar hafi verið rétt, og m.a. gerðist það á þessu sumri, að hafnar voru framkvæmdir, sem alls ekki var gert ráð fyrir í fjárlagaafgreiðslunni í fyrra, að til kæmu á þessu ári, en hv. þm. standa nú frammi fyrir þeim sem gerðum hlut og verða að fjármagna þær, ef sæmilega á að fara. Fyrir nokkru komu til mín menn austan af Stokkseyri vegna framkvæmda í hafnargerð, sem þar höfðu verið unnar í sumar. Mennirnir héldu því fram með réttu, að málið væri mikið nauðsynjamál, þeir gætu ekki stundað sína sjómennsku, svo sem þeir hafa gert og gerðu, nema fá þessa hafnarbót, og allt, sem þeir sögðu þar um, var réttmætt. En mín skoðun var sú, að Stokkseyri hefði verið til, skerjagarðurinn fyrir framan Stokkseyri hefði verið til og brimgarðurinn hefði verið til, þegar fjárlögin voru afgreidd í fyrra. En fjárlögin hefðu orðið hærri, ef hafnargerðin á Stokkseyri hefði fengið þá fjárveitingu, sem hún þurfti til framkvæmda í sumar. Hún fékk hana ekki þá og nú er verið að veita hana, og það er eitt af þessu, sem deilt er á núv. ríkisstj. fyrir, hækkun á fjárveitingu. Þannig mætti nefna mörg dæmi, en það er ekki hægt að segja í sama orðinu, að fjárlögin megi ekki hækka, en í hinu orðinu, að þau verði að hækka vegna nauðsynlegra framkvæmda. Þegar vitamálastjóri kom með sína skýrslu, þá afhenti hann 80 millj., takk, sem er skuld ríkissjóðs við hafnirnar umfram fjárveitingar, og fjárveitingarnar voru tæpar 100 millj. Hér var um bil upp á 80% hækkun að ræða, — og halda svo hv. þm., þegar staðið er frammi fyrir slíku, að hægt sé að afgreiða þetta án þess að það sjáist nokkurs staðar? Það er ekki hægt að pakka þessu inn. Byggðarlögin þola það ekki. Það er ekki nokkur leið. Þess vegna varð að fara út í það að hækka fjárveitingar til hafna meira nú en nokkurn tíma hefur verið gert á einu ári, hlutfallslega líka. Það má svo ráðast á núv. ríkisstj. og fjmrh. fyrir gáleysi, fyrir ábyrgðarleysi að taka þannig á þessu máli.

Sama er að segja um skólamálin. Það hafa verið gerðir samningar af hálfu menntmrn. um byggingu á mörgum skólum. Nokkrir skólar voru norður í landi. Samningarnir voru upp á það að greiða þetta á fjórum árum, en þegar þrjú ár voru liðin, þá var búið að greiða um 48–50%, en á fjórða árinu átti að greiða hinn hlutann, sem var á annað hundrað millj. kr. Þetta er á fjárlagalið, sem var þó um 280 millj. kr. Menn geta hælt sér af svona samningum og blásið sig út út af ábyrgðarleysi, þegar þeir, sem verða svo að standa frammi fyrir þessum vanda, reyna að leysa þetta. Auðvitað getur hv. Alþ. ekki leyst þessi mál nú sem skyldi. Það er óframkvæmanlegt. Ég hef áður sagt það hér á hv. Alþ., þá sem stjórnarandstöðumaður, að ég teldi, að lögin um að greiða skólakostnað á þremur árum væru óframkvæmanleg. Ég hef haldið því áður fram, að við hefðum átt að halda okkur við fimm ára regluna og reyna að standa á henni, og ég er enn þeirrar skoðunar, að við getum ekki leyst þessi stóru verkefni, eins og skólabyggingar eru orðnar nú, með því að ætla okkur að greiða þær upp á þremur eða fjórum árum. Ef við stöndum á fimm eins og menn, þá gerum við vel. Og það er skynsamlegra en að vera að reyna að búa til lög, sem enginn gerir svo neitt með. Það er líka hægt að setja fram dæmi eins og það að greiða þessa þátttöku í akstri á börnum til barnaskólanna, — en af hverju halda hv. alþm., að sú fjárveiting hækki nú úr 10 millj. kr. í 34? Það hækkar fjárlögin um 24 millj., — en af hverju er það? Það er af því, að 10 millj. kr. dugðu ekki árin, sem liðin eru, og nú verður að greiða bæði það, sem liðið er, það sem á vantar þar, og það, sem við á að taka. Hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, sýndi fram á það hér um daginn með Íþróttasjóðinn. Það er hægt að láta þetta dankast og láta félagssamtök í landinu um þetta, þar sem fólkið vinnur af áhuga, af því það langar til að sinna þessum málum, eins og íþróttamálum og öðru slíku, en það vita allir, að æskan í landinu getur ekki náð því, sem hún vill í íþróttum, nema hún hafi hús. Það vita allir líka, að þær 5 millj. kr., sem voru í Íþróttasjóði, gerðu ekki neitt. Það hækkar fjárlögin að fara með þetta upp í 13 millj., en það er svo langt frá því, að því takmarki sé náð, sem þarf til þess að sinna þessu æskufólki, og þannig er það með fleiri útgjaldaliði í fjárlagafrv. Það er svo um marga félagslega þætti. Það hækkar fjárlögin, að námslánasjóðurinn hækkar um 100 millj. kr., en þetta er bara verk, sem við verðum að vinna og verðum að reyna að leysa, og verst af öllu er það, þegar við horfumst ekki í augu við þessar staðreyndir og reynum að velta þessu yfir á framtíðina. Og það, sem við erum að reyna nú, núv. stjórnarflokkar, er að reyna að fá þetta inn á sviðið og sýna það eins og það er, og það verður ekki gert með því, að við höldum þessum blekkingaleik áfram. Ég veit það vel, að við náum ekki árangri eins og skyldi. Við getum ekki klárað skuldir hafnanna. Það verður sumt að færast yfir á 1973. Það gerum við með opnum augum, af því við treystum okkur ekki lengra, en að það sé ábyrgðarleysi að reyna að gera það, sem gert er, á ég afar erfitt með að skilja, eða tala um, að það sé vítavert, eins og hv. 5. þm. Reykn. gerir í sínu nál., það á ég nú enn þá verra með að skilja.

Ýmis félagsstarfsemi, eins og ég drap á áðan, er geysilega mikill þáttur í okkar lífi. Hugsum okkur starfsemi eins og leikfélögin í landinu. Hver vildi missa þessa starfsemi? Hvað er þetta mikils virði fyrir þjóðina? Þetta fólk, sem hefur kvöld eftir kvöld lagt það á sig að æfa sjónleiki til þess að skemmta samborgurum sínum, hefur náð undraverðum árangri. Ríkið hefur styrkt þessa aðila með litlu fé. Nú er reynt að auka þetta nokkuð verulega, t.d. er fjárveiting til Leikfélags Reykjavíkur hækkuð úr 1 500 þús., sem hún hefur verið öll árin, sem liðin eru, í 2.5 millj. Nú er okkur það ljóst, hv. alþm. öllum, að betur hefði þurft að gera. Hins vegar finnst okkur, að verulega sé að gert með þessu og það sé léttara að komast að sæmilegu marki með því að taka svona fjárveitingar upp. Mér er það t.d. ljóst með tvo málaflokka, sem eru í okkar stjórnarsamningi, að þeir eru afskaplega mikils virði. Annars vegar dagheimilin, þau eru afskaplega mikils virði. Því miður treystum við okkur ekki til að fara þar nema mjög skammt á veg, m.a. vegna þess að okkur vantar löggjöf þar um, og sama er að segja um dvalarheimili aldraðra. Í báðum þessum tilvikum er um málaflokka að ræða, sem fólkið í landinu hefur mikinn áhuga á, leggur mikið á sig til þess að koma í framkvæmd og ríkissjóður þarf að mæta, og auðvitað reynum við að stefna að því, þó skammt sé farið nú. En þannig er um megnið af þessu. Ég veit, að það er geysilegt átak að taka þetta á einu ári, en það er líka orðið þannig, að það er orðið afar erfitt fyrir byggðarlögin í landinu að standa m.a. undir þeim framkvæmdum, sem þau hafa staðið fyrir á síðustu árum, og hafa greiðslur ríkissjóðs svo aftarlega eins og raun ber vitni um.

Þegar ég er búinn að fara þannig í gegnum fjárlagafrv., — taka launin, niðurgreiðslurnar, verklegu framkvæmdirnar, félagsmálin, — þá eru eftir af þessum liðum um 300 millj. kr., sem eru ýmsir smærri liðir. Margir af þeim eru svipaðs eðlis og þessir, og aðrir eru svo rekstrarliðir. Ég tel því, að þegar á þetta er litið, þá sjái menn, að það, sem hér er á ferðinni, er ekki útþensla í ríkiskerfinu, heldur er hér verið að vinna upp vangreiðslur eða a.m.k. of litlar fjárveitingar fyrri ára til nauðsynlegustu verkefna. Og það er líka verið að mæta samningum, sem búið var að gera, eins og launasamningnum, sem tekur hér bróðurpartinn af þessari fjárhæð. Þarna eru komnar um 3.2 millj. kr. Það, sem þá er eftir, eru markaðir tekjustofnar, þar sem tekjurnar og gjöldin haldast í hendur. Meðal þeirra er skatturinn til vegamálanna, sem nú er talinn einn af eyðsluþáttum núv. fjmrh., sem hækkar fjárlögin í 3 þús. millj. kr. dæminu. Nú vil ég segja það í sambandi við vegamálin, að þar er fjárveiting hækkuð um rúmar 50 millj. kr.

Engum væri það meira ánægjuefni en mér og núv. samgrh., ef við hefðum treyst okkur til að fara lengra í því efni. Því miður treystum við okkur ekki lengra og svo náttúrlega verð ég að segja það eins og er, að við gerðum þetta líka með tilliti til fyrrv. samgrh., að hækka ekki fjárveitinguna nema um rúm 100%. Það þótti okkur svo hraustlegt, að við vildum ekki ganga lengra í því, svoleiðis að hjartað var á réttum stað, þegar þetta var ákveðið.

Í nál. 1. minni hl. er talað um útþenslu og nefndir þar til gerviráðherrar, pólitíkusar, sem svo séu. Nú er það svo, að í tvö rn. hafa verið teknir aðstoðarmenn. Það vill þannig til í landbrn., að um næstu áramót hættir einn starfsmaðurinn, sem fyrir var, og verður ekki bætt í það skarð, svo það verða jafnmargir eftir sem áður þar. Nú hef ég talið, að það væri mat manna, að fjmrn. væri nóg starf fyrir einn mann, og fyrst það atvikaðist nú svo til, að landbrn. fylgdi með að þessu sinni, þá væri ekki óeðlilegt, að einhver aðstoð þyrfti þar að koma til, þar sem tveir röskir menn hefðu verið í þessum störfum áður. En í sambandi við þetta vil ég minna á það, að þetta fyrirkomulag um aðstoðarmenn er í lögum, sem fyrrv. ríkisstj. setti og margir hafa talið, að þetta væri ekki óhyggilegt. Ég hygg, að ég fari líka rétt með það, þegar ég segi, að það muni hafa verið forsrh. í þeirri ríkisstj., ekki sá síðasti, sem fyrstur manna tók til sín slíkan starfsmann, sem síðar varð svo ráðuneytisstjóri í hans rn. En í sambandi við þetta vil ég minna á, að með lögum um stjórnarráð, sem gengu í gildi í ársbyrjun 1970, ef ég man rétt, var rn. fjölgað verulega, og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið þar um, hafa a.m.k. 18 manns bætzt við í störf í sambandi við þessa skiptingu, og þar er líka um allverulega útþenslu að ræða, ekki síður, og komast okkar tveir aðstoðarmenn lítið til jafns við þetta. Þess vegna held ég, að enn þá sé ekki hægt að ásaka okkur í núv. ríkisstj. fyrir að hafa þanið ríkiskerfið út. Hitt er jafnvíst, að auðvitað höfum við orðið að skipa nefndir til þess að vinna mörg verk, og ég vil í sambandi við þennan aðstoðarmann í landbrn. einnig geta þess, að flest af stærstu lögum landbúnaðarmála eru nú í endurskoðun, og vegna þess, sem hv. 5. þm. Reykn. vék hér að áðan, minni ég á, að lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins eru í endurskoðun og auðvitað verður það Alþ., sem afgreiðir þau, en enginn annar, og ákvarðanir í sambandi við það verða auðvitað Alþingis, hvernig sem með það mál hefur verið farið í rn. Nú skal ég ekki fara að ræða þennan þátt, en út af því, sem hann sagði, þá er það kerfi, sem bent er á í stjórnarsamningnum, sama kerfi og norsku bændasamtökin hafa haft alllengi, og það er miðað við að kynna sér það kerfi og reynsluna af því, og það hefur verið gert í sambandi við þessi mál. Ég held, að reynslan sé sú, að þegar betur er að gáð, muni bæði mér og ykkur öðrum hv. þm. reynast erfitt að skera það niður, sem upp hefur verið sett, jafnvel þó dæmið sé stórt, m.a. vegna þess, að enginn mundi treysta sér til að halda lengur áfram á þeirri braut að halda ýmsum framkvæmdaflokkum í hálfgerðu svelti, eins og verið hefur. Ég sé ekki, að það sé ámælisvert fyrir nokkra ríkisstj., þó að hún reyni að gera raunhæfar áætlanir í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En það er það, sem þessi ríkisstj. er að reyna að gera.

Og þrátt fyrir það, sem fram hefur komið hér í ræðum hv. frsm. minni hl. um viðskilnaðinn frá fyrrv. ríkisstj. og öll þau gæði, sem þar væri að finna, stendur það óhaggað enn, að hrollvekjan, sem próf. Ólafur Björnsson talaði um, er staðreynd. Hún er sú staðreynd, sem við blasti í þeim hækkunum fjárlaga, sem hér hafa verið kynntar. Hann vissi það ósköp vel þá, Ólafur Björnsson, hvað kjarasamningar ríkisins mundu kosta. Hann vissi það líka, að fram undan mundu verða kjarasamningar við lægst launuðu stéttirnar. Hann þekkti það af fyrri reynslu, að ef það leiddi til verkfalla og átaka þar um, væri hrollvekja til þess að hugsa, sem fram undan væri. Hann vissi einnig, að gengislækkunarleiðin hafði gengið sér til húðar. Þetta var það, sem hann kallaði hrollvekju. Það má um það deila, hvaða orð eru um slíkt höfð, en staðreyndin var til staðar. Enda er það svo, að mesta vandamálið hefur einmitt verið það, að þrátt fyrir gífurlega hækkun fjárlaga hefur verið svo lítið svigrúm til þess að beina fjárveitingunum inn á þær brautir, sem verða til uppbyggingar í þjóðfélaginu. Það, sem núv. ríkisstj. er að gera með afgreiðslu fjárlaga nú, er að halda inn á þá braut. Henni hefur tekizt með sanngirni og þeim framkvæmdum, sem hún gerði, eftir að hún tók við í sumar, að komast hjá stórátökum á vinnumarkaði og semja til tveggja ára, sem skapar þá möguleika til þess að byggja upp í þjóðfélaginu. Mér er það afskaplega vel ljóst, að það verður mikið blásið um hækkandi fjárlög og annað því um líkt, en það er ekki það, sem skiptir máli, heldur hitt, að við viðurkennum þær staðreyndir, sem fyrir liggja um greiðsluþörfina, og reynum að snúa inn á þá braut, að meira af tekjum ríkissjóðs gangi til uppbyggingar í landinu. Þetta er það, sem þetta fjárlagafrv. boðar, og meiri aðstoð við félagsstarfsemi landsmanna en verið hefur.

Í framhaldi af þessu vil ég svo víkja lítið eitt að því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykn. og hans nál., umfram það sem ég hef vikið að í ræðu minni hér að framan. Eitt af því er hækkunin á víni og tóbaki. Nú hefur orðið nokkur umr. um það í blöðum, og er vikið að því í nál. þessa hv. þm. með þeim hætti, að það sé eins og núv. ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um það að taka vín og tóbak inn í niðurgreiðslur. Ég hef staðið í þeirri meiningu, að þetta hafi verið tekið inn í lög um vísitölu á þinginu 1960. Ég hef ekki fyrir mér ómerkari mann í þessu efni, að þessi skilningur sé réttur, en hagstofustjóra. Það, sem menn eru svo að deila um, er það, að 1.2 vísitölustig, sem átti að fella niður hér í fyrra, það væri hækkunin vegna víns og tóbaks. Um það er ekki verið að deila, heldur hitt, að það var ekki í samræmi við lög um vísitölu, þó að það væru þessir liðir, fyrst það er í lögum, sem núv. ríkisstj. taldi sér skylt að gera, að halda kjarasamningana og þar með vísitölugreiðslurnar. Þess vegna tók hún þessa greiðslu eins og aðra. Það hefði engu breytt, þó að þetta hefði verið fellt niður, það hefði ekkert skeð annað en það, að þetta l.2 vísitölustig hefði týnzt, en áhrif af hækkun á víni og tóbaki, sem gerð var í haust og gerð kann að verða, kemur inn í vísitöluna eftir sem áður, nema lögunum sé breytt. Þess vegna er sá áróður, sem uppí hefur verið hafður þar um, alveg út í bláinn og er þá við þá að sakast, sem tóku þennan þátt inn í lögin um vísitölu, en ekki hina, sem verða að framkvæma ákvæði þessara laga.

Ég verð svo að segja það, eins og ég vék lítillega að áðan, að ég skil ekki það, sem hv. 5. þm. Reykn. segir um vítaverða framkomu í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, og held, að það sé nú ekki meint á þann veg, sem orðin gefa tilefni til. ýmislegt í hans nál. ber þess merki, að hann er Þingeyingur, því að sumt er þar skáldlegt, þó að það sé svona með öðrum hætti en hjá sumum öðrum Þingeyingum, og hef ég ekki nema gott um það að segja, því að ég kann það að meta, þó að ég sé það ekki sjálfur.

Hitt er svo annað mál, að ég tek undir það með þessum hv. þm. og fleiri öðrum, að verðbólgan setur sinn svip á þetta frv. Það er svo fjarri því, að við séum lausir við verðbólgu. Og ég sagði það við 1. umr. fjárlaga í haust, að það verkefni ættum við eftir að vinna og það tæki langan tíma. Það, sem verður reynt við afgreiðslu þessa fjárlagafrv., verður að halda verðbólgunni í skefjum og gera hana ekki fyrirferðarmeiri en hún þegar er orðin, og það teljum við núv. ríkisstj. eitt af okkar höfuðverkefnum, en að hægt sé að komast fram hjá verðbólgunni nú við afgreiðslu fjárlaga, það er fjarri öllu lagi og slíkt væri blekking ein.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég víkja að tekjuáætluninni, sem menn ræddu hér um í upphafi, og ég hef nú sýnt fram á, að menn hafa svo sem áður hér á hv. Alþ., hv. þm. hafa orðið að afgreiða frv. til 2. umr. fjárlaga, þó að tekjuáætlun hafi vantað.

Það þarf ekki orðum að því að eyða, að það er stefna núv. ríkisstj. að breyta verulega um í tekjuöflun ríkisins. Því lýsti hún yfir í sínum stjórnarsamningi og frv., sem voru lögð fram hér í gær, miða við þetta, sem var fyrsta boðorð í framkvæmd á þeim sáttmála, en það er að leggja niður persónuskattana, þ.e. að þeir, sem ekki hafi tekjur til, þurfi ekki að greiða skatta samt, og eins og tryggingamálum er nú fyrir komið, þá eru þessir skattar orðnir verulega háar fjárhæðir, og það er í raun og veru óhugsandi að halda inn á þá braut trygginganna, sem núv. ríkisstj. hefur gert með frv. sínu, sem lagt var fram í gær, nema breyta þessu. Persónuskattar af hjónum eftir þessa breytingu mundu vera um 22–23 þús. kr. og af einstaklingum, karlmönnum, — þetta er almannatryggingagjald og sjúkrasamlagsgjald, — af karlmönnum um 16 þús. kr. og konum 13 þús. Hér er því um stórar fjárhæðir að ræða, og það var ekki hægt að koma þessu og svo því atriði í tryggingalögunum að tryggja þeim, sem verst eru settir, lágmarkslaun, nema breyta samhliða tekjuöflun ríkisins, sveitarfélaganna og tryggingakerfinu. Það var alveg óhugsandi að vinna einn þáttinn í þessu, því þessir þættir eru það tengdir hver öðrum, enda er stefnt að því með þessum frv. að taka tryggingamálin frá sveitarfélögunum sem útgjaldaliði, því það var alveg sama þar um að segja eins og í hinu tilfellinu, að þau voru orðin of fyrirferðarmikil til þess að hægt væri að koma þeim í framkvæmd með óbreyttu tekjuöflunarkerfi trygginganna.

Ég endurtek, að það hefði verið mér sem öðrum mesta ánægja að geta verið fyrr á ferðinni með þessi mál en raun ber vitni um, en ég hef ekki samvizkubit í sambandi við þetta nema gagnvart þeim mönnum, sem hafa unnið að t.d. tekju- og eignarskattsfrv. ríkisins, því þeir hafa verið miskunnarlaust knúðir áfram og orðið að vinna með miklu meiri hraða en hægt er í raun og veru að krefjast af nokkrum mönnum í sambandi við svona stór mál, enda er það ætlun ríkisstj. nú í sambandi við þessi mál, í fyrsta lagi, að láta þau verða hér til meðferðar í þinghléinu, svo hv. þm. geti áttað sig betur á afgreiðslu þeirra, þegar þeir koma aftur. í öðru lagi verður haldið áfram að vinna að þessum málum árið 1972. Þá er ætlunin að kanna frekar þessa þætti, bæði tekju- og eignarskattinn, enn fremur aðflutningsgjöldin og söluskattinn og skoða í því sambandi virðisaukaskattinn og þá þætti í tekjuöflun ríkissjóðs, sem þarf að endurskoða og það í heild. Ég held, að það sé að mörgu leyti nauðsynlegt fyrir þjóðina og Alþ. og ríkisstj. að fá reynslu á þetta kerfi, sem farið er inn á með þessum frv., fá eins árs reynslu til þess að geta verið betur undir það búinn að fá heildarlöggjöf, sem á að standa, en þannig er stefnt að því, að svo verði með þeim frv., sem kæmu næsta haust, einmitt þegar slík reynsla væri komin, og ég er sannfærður um það, að hv. þm. munu verða mér sammála um það, að nauðsynlegt er að vinna að þessu vandaverki þannig, að reynsla sé fengin áður en endanlega verður frá þessu gengið.

Ég veit það ósköp vel og endurtek það, að betra hefði verið að vera fyrr á ferðinni, en það er ekki af því, að tími sá, sem ríkisstj. hefur haft til ráðstöfunar, hafi ekki verið vel notaður og þeir menn, sem að þessu hafa unnið, hafi ekki unnið vel, heldur hefur hann ekki verið lengri, og ríkisstj. hafði aldrei hugsað sér að afgreiða fjárlög nú, nema í samhengi við þessa breyttu stefnu, enda hefði fjárlagaafgreiðsla öll orðið að vera með öðrum hætti, hefði átt að byggja á því tekjukerfi, sem fyrir var. Þetta veit ég, að hv. þm. skilja. Ég veit, að okkur greinir á um ýmsa þætti í þessu frv., og undarlegt væri, ef svo væri ekki. Ég held samt, að þegar farið verður að skoða málið, þá munum við nú sjá, að flest er þar til bóta, þó það sé ekki allt að allra dómi, enda væri það skrýtin löggjöf, og að það er mikil nauðsyn að fá einmitt nokkra reynslu áður en endanlega verður frá þessu máli gengið.

Ég vil svo segja það, að við hefðum þrátt fyrir þetta getað sett upp tekjuáætlun nú byggða á þessum frv. við 2. umr., ef ríkisstj. hefði ekki ákveðið að láta endurskoða tekjuáætlunina út frá nýgerðum kjarasamningum, — reyna að taka inn í fjárlagaafgreiðsluna nú áhrif þeirra, eins og þau verða metin. Ef það yrði ekki gert, þá byrjaði næsta fjárlagagerð eins og hún byrjaði í haust með því að taka pakkann, sem geymdur var við síðustu fjárlagaafgreiðslu. Það er ekki hugsun núv. ríkisstj. að fara þannig að. (Gripið fram í.) Þeir voru nú með þá með útgjöldum hinum megin, enda hefði það nú verið skrýtið, ef enginn eyrir hefði verið eftir, þegar fjárlög fara svona 12–1400 millj. kr. fram úr áætlun. Þegar betur er að gáð, er það merkilega lítið. Það er ekki hægt að leggja fram tekjuáætlun nú við 2. umr. fjárlagafrv., vegna þess að það er verið að vinna að henni, enda vita allir hv. þm., hvað langt er síðan gengið var frá kjarasamningum. Ég verð líka að segja það, að það er ekki nýtt fyrir mig sem gamlan fjvn.- mann, þó komið sé með tekjuáætlun á síðasta fund n. Þær breytingar hafa venjulega verið kynntar þar.

Skal ég nú láta máli mínu lokið, enda hef ég dvalið hér alllengi. Ég vil að lokum segja það, að ríkisstj. er að sjálfsögðu ákveðin í því að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, og mun gæta þess, að í tekjuáætlun þeirri, sem samin verður fyrir þessa ríkisstj., verði, eins og áður hefur verið sagt, gætt hófs, svo að hún geti haldið. Og þótt eitthvað hafi verið skiptar skoðanir hjá hv. alþm. í dag um þá hugmynd að tefja fjárlagaafgreiðsluna, þá er ég jafn sannfærður um það, að svo verður ekki, enda hefur það jafnan verið svo, að minni hl. hefur ekki gert það, og svo á að vera. Þess vegna treysti ég því, að fjárlög verði afgreidd nú, eins og verið hefur, þó tekjuöflunin hafi verið tekin til meðferðar skömmu eftir afgreiðslu þeirra, eins og oft hefur átt sér stað.