26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í D-deild Alþingistíðinda. (4679)

18. mál, vegamál í Vesturlandskjördæmi

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við þessa fsp. frá hv. 8. landsk. þm. Það var á árinu 1967, eins og fram kemur í fsp., sem samþ. var till. til þál. um að kanna, á hvern hátt yrði bezt fyrir komið samgöngum yfir Hvalfjörð. Þessi rannsókn hefur staðið alla tíð síðan, og það hefur verið veitt fé til hennar á fjárlögum, svo að þess vegna hefði átt að vera hægt að ljúka þessari rannsókn fyrr en raun ber vitni um. Á s.l. þingi var gerð fsp. um þetta sama mál, og samkv. upplýsingum, sem þá komu fram, var gert ráð fyrir, að á því þingi mundu liggja fyrir endanlegar niðurstöður um þessar athuganir. Samt sem áður sáu þær ekki dagsins ljós og sjá ekki enn þá, eftir því sem hæstv. samgrh. hefur hér upplýst.

Ég tel, að það sé mjög nauðsynlegt að flýta þessum rannsóknum og ljúka þeim sem allra fyrst, og það er m.a. vegna samgangnanna milli þéttbýlisins hér í Reykjavík, höfuðborgarsvæðisins, og Akraness. Þar er, eins og kunnugt er, um mjög mikla fólksflutninga að ræða, og eru nú 40–50 þús. farþegar, sem eiga þarna leið um á hverju ári.

En ég tók m.a. til máls til þess að upplýsa það, að það er skoðun mín, að sú till., sem hæstv. samgrh. lýsti sig fylgjandi og 8. landsk. þm. einnig, sé ekki lausn á vandamálum okkar Akurnesinga, því að enda þótt við kæmumst með fólkið í helikopter á milli þessara staða, þá er ýmislegt annað, sem útheimtir góðar samgöngur og ekki verður flutt í helikopter. Það hefur komið í ljós í vaxandi mæli á undanförnum árum, að fólkið vill geta haft aðstöðu til að flytja bílana á milli þessara staða, og ég hygg, að það eigi langt í land, að slíkur helikopter komi hér á milli, að menn geti almennt tekið bílana með sér. Ég hygg, að það sé nær því, að tvöfaldazt hafi á þessu ári eftirspurnin eftir bílaflutningum á milli Reykjavíkur og Akraness, og enda þótt um svona mikla aukningu sé að ræða á þessum flutningum, þá liggur við, að oft og tíðum hafi ekki verið hægt að sinna allri eftirspurninni, sem hér hefur verið um að ræða, vegna þess að Akraborgin hefur ekki möguleika til að taka nema mjög takmarkaðan bílafjölda til flutninga á þessari leið. Ég tel því, að það sé sýnt, að bezta leiðin til þess að leysa þessar samgöngur á viðunandi hátt hljóti að verða bílferja, hraðskreið bílferja, sem geri hvort tveggja: annist fólksflutningana og leysi einnig vandamál annarra flutninga. Ferja fyrir fólksbíla, sem tekur einnig stóra bíla, sem fara til Norður- og Vesturlandsins, yrði enn meira knýjandi eftir að t.d. brú kæmi hjá Borgarnesi, eins og gert er ráð fyrir og rannsóknir eiga sér stað um. Hér er vissulega um stórmál að ræða, sem niðurstöður þurfa að liggja fyrir um sem allra fyrst.

Í sambandi við síðasta liðinn í fsp., lið nr. 4, hvort undirbúningur sé hafinn að nauðsynlegum endurbótum, sem gera verður á þjóðveginum frá Borgarnesi til þéttbýliskjarnanna á norðanverðu Snæfellsnesi í sambandi við Heydalsveg, vil ég taka þetta fram: Það þarf vitanlega að gera miklu meiri rannsóknir og endurbyggingar á þjóðveginum til þéttbýliskjarnanna á norðanverðu Snæfellsnesi en bara vestur að Heydalsvegi, því að eins og kunnugt er kemur hann í samband í Kolbeinsstaðahreppi og liggur fram Hnappadalinn. En fyrir vestan þann hluta liggja vitanlega geysiþýðingarmiklir vegir, sem verður að endurbyggja. Við vitum, að í Staðarsveitinni og viðar á leiðinni vestur í sjávarþorpin á norðanverðu Snæfellsnesi er um vegarkafla að ræða, sem svo er ástatt um, að það þolir ekki nokkra bið, að þeir verði endurbyggðir.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í sambandi við þessar umr. Svo vikið sé að brúnni hjá Borgarnesi yfir Hvítárósa, þá virðist vera nokkuð í land enn þá með það, að þar liggi endanlegar niðurstöður fyrir varðandi rannsóknirnar, eftir því sem hæstv. samgrh. upplýsti hér áðan, en við verðum að vona, að þeim miði áfram, því að ég er viss um, að sú brú, sem tengir byggðirnar báðum megin við Hvítá um Hvítárósa, hlýtur að koma fyrr en varir.