26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í D-deild Alþingistíðinda. (4681)

18. mál, vegamál í Vesturlandskjördæmi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það hefur komið hér fram, að þm. Vesturl. þykir seint miða að ljúka þessum rannsóknum, en öllum má nú ljóst vera, að þetta er ærið fjölþætt verkefni og verður ekki hrist fram úr erminni með orðum einum. Það verður að undirbyggja þessar aðgerðir og velja um möguleika þarna að undangengnum ítarlegum rannsóknum. Ég vil líka taka það fram, að í svari, sem hæstv. samgrh. gaf Alþ. í fyrra, kom fram, að nokkuð hefði það tafið störf nefndarinnar, sem að þessu verkefni vinnur, að ekki hefðu verið fjárveitingar fyrir hendi, en þessar rannsóknir eru dýrar. Í svari ráðh. þá sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem engin fjárveiting fékkst til framhaldandi starfa nefndarinnar á árinu 1968, tilkynnti rn. nefndinni með bréfi 12. marz 1968, að fresta yrði frekari störfum nefndarinnar um sinn. Engin fjárveiting fékkst tekin á fjárlög fyrir árið 1969 til greiðslu kostnaðar við áframhaldandi störf Hvalfjarðarnefndar. Svo rættist úr því á árinu 1970, og nú er ekki kvartað um það, að ekki verði hægt að ljúka verkefnunum vegna þess, að ekki séu fjárveitingar fyrir hendi.“

Þetta taldi ég rétt að kæmi fram, þegar talað var um, að störfin drægjust mjög hjá nefndinni. Þarna urðu tafir á, vegna þess að ekki voru fjárveitingar fyrir hendi um alllangt tímabil.

Ég varpaði fram í lok máls míns áðan hugmynd um að leysa fólksflutningaspursmálið milli höfuðborgarinnar og Akraneskaupstaðar með helikopter. Ég slæ því ekki fram sem neinum sjálfsögðum möguleika, en ég tel rétt, að sú nefnd, sem fjallar um og á að komast að niðurstöðu um kostnaðinn við þá möguleika, sem hér hafa verið skoðaðir, athugi einnig möguleikana varðandi hina úrlausnina og þá kostnaðarhliðina á slíku tæki, sem þar væri um að ræða, og rekstrarkostnaðinn að sjálfsögðu líka, svo að hægt verði að bera alla möguleikana saman, helzt áður en þessi nefnd lýkur störfum. Á það ekki að þurfa að tefja neitt fyrir niðurstöðum hennar.

Hv. 2. þm. Vesturl., Jón Árnason, sagði, að það leysti ekki vandann. Ég hygg, að fólksflutningavandann leysi þetta vel, ef kostnaðarhliðin verður ekki ósambærileg við aðrar úrlausnir. Það er meira að segja hægt að hafa samband á klukkutímafresti eða svo milli Reykjavíkur og Akraness, sem þá væri búið að færast nær borginni verulega með þeirri úrlausn, sem aldrei yrði gert með ferjusambandi á nokkurn hátt nema nokkrum sinnum á dag. Bílasamband er nú á milli borgarinnar og Akraness, og vegurinn um Hvalfjörð verður ekki tekinn úr sambandi, og þá leiðina fara þá flestir, sem í bílum vilja ferðast, og vöruflutningarnir eru komnir fyrir Hvalfjörð. Það virðist þá aðallega vera samanburðurinn um það að halda uppi útgerð skips með 13 manna áhöfn milli Reykjavíkur og Akraness til þess að fullnægja fólksflutningaþörfinni eða taka til þess helikopter með flugmanni og einni flugþernu. Má þá helikopterinn vera margfalt dýrari í rekstri en skip, ef það á ekki að standast samanburð við það, sem við búum nú við. Nú vitum við það meira að segja úr hernaðarfréttum nútímans, að helikopterar eru til með tvær skrúfur, sem lyfta bílum alveg eins og ekkert. Hafa þá eins og ránfugl í klónum og flytja bila þannig á milli staða lengri vegalengdir en hér er um að ræða, svo að ef hv. þm. vildi hanga í bil sínum neðan í helikopter, þá er sá möguleiki til fyrir hann, ef honum lægi mikið á að komast á milli Akraness og Alþingis.