26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í D-deild Alþingistíðinda. (4688)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir hans skeleggu og greinargóðu ræðu, þar sem tekið var á þessum vandamálum og þau skýrð af víðsýni, og sannarlega var þetta allt rétt, sem hann sagði okkur um þetta mikla vandamál þjóðarinnar. Læknaskortur er almennur hér í landi, og hann er mikið vandamál. Og það má segja, að varðandi strjálbýlið sé þetta þjóðfélagslega mjög mikilvægt vandamál. Það fyrsta, sem okkur dettur þá í hug, er að leita eftir orsökunum. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið hjá hv. ræðumönnum, að almennur læknaskortur er í landinu, en þó ber að hafa það í huga, að við eigum lækna úti í útlöndum, sem gætu hæglega leyst öll þessi vandkvæði á svipstundu, lækna, sem eru búnir að vera árum saman erlendis, sem eru fulllærðir til heimkomu. En spursmálið er þá þetta, hvers vegna koma þeir ekki heim? Óneitanlega leitum við þeirrar ástæðu, að aðstaða sé ekki fyrir hendi, sú aðstaða, sem þeir vilja sætta sig við.

Ég hef nú sérstaklega kynnt mér þetta ástand úti á landinu, og það er ekki að neita því, að það er viða ekki nógu vel búið að læknum til þess, að hægt sé að ætlast til, að þeir setjist þar að. Að vísu hefur þetta batnað nokkuð á síðustu árum. Skortur á ýmsum tækjum og hjálpargögnum, samgönguerfiðleikar og margt fleira veldur því, að læknar geta illa hugsað sér að staðfestast á þessum stöðum. Og í raun og veru er það ástand, sem verið hefur nú á undanförnum árum, að læknar hafa verið í 20–30 héruðum á landinu aðeins 3–6 mánuði upp í eitt ár í einu, fólkinu algerlega ófullnægjandi.

Oft er talað um það, að læknar hafi há laun. En læknar hafa líka aðra vinnuaðstöðu en flestir aðrir þjóðfélagsþegnar. Á undanförnum árum hefur það verið þannig í fjöldamörgum héruðum, að læknar hafa orðið að sinna tveimur læknishéruðum, og samkv. læknaskipunarlögum er þeim beinlínis fyrirskipað að hafa gegningarskyldu allan sólarhringinn og alla daga ársins. Þetta getur ungum mönnum reynzt tiltölulega auðvelt fyrsta kastið og í stuttan tíma. En þegar frá liður, verður þessi vinnuaðstaða fullkomlega óhæfileg. Og þannig orðaði það ungur læknir, sem var búinn að vera tvö ár úti í héraði, á fundi nú fyrir skömmu, að hér væri um hreina vinnuþrælkun að ræða. Þar að auki bætist það við, að læknar hafa ekki getað fengið hjúkrunarkonur, meinatækna, jafnvel ekki ritara til þess að aðstoða sig við þessi miklu störf þeirra. Og það byggist á tvennu. Í fyrsta lagi hefur ríkisvaldið ekki verið örlátt á aðstoðarfólk handa læknum, og í öðru lagi er þetta fólk mjög oft ekki til á þessum stöðum. Ungir læknar, sem útskrifast úr læknadeildinni, standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að þeir geta valið úr 30–40 stöðum hér í Reykjavík og nágrenni. Þeir geta valið úr stöðum í þéttbýlinu úti á landi, þeir geta valið úr stöðum í nágrannalöndunum, og þeir eiga að sjálfsögðu þess kost að fara út í strjálbýlið. Og mér er fullkunnugt um það, að margir ungu læknanna hafa hug á því að fara út á land. Þeir viðurkenna það, að héraðslæknisstarfið er eitt frjósamasta læknisstarfið, og þeir viðurkenna líka, að það er að sjálfsögðu alltaf aðgengilegt fyrir ungan mann að starfa, þar sem þörfin er mest. En flestir eru fjölskyldumenn, og þeir verða að gera sér grein fyrir því á raunsæjan hátt, hvar þeir eigi að setja sig niður til frambúðar. Og þá kemur hér vandamál, sem ekki hefur verið mikið rætt um enn. Þetta mál verður held ég aldrei leyst til frambúðar, nema hætt verði félagsleg aðstaða öll á þessum stöðum, nema skólamál, samgöngumál og menntunaraðstaða öll verði stórbætt úti í strjálbýlinu. Þetta er líka ein ástæðan fyrir því, að læknarnir fást ekki þangað. Þar að auki hefur það sýnt sig, að ef læknir er kominn út í hérað, þá virðist gersamlega óhugsandi að fá annan lækni til þess að leysa hann af, til þess að hann geti fengið sér eðlilegt sumarfrí, svo að hann geti fengið sér frí til frekara náms, en það er þessum læknum í strjálbýlinu sérstaklega nauðsynlegt, vegna þess að þeir hafa að sjálfsögðu ekki eins mikla starfsþjálfun þar eins og viða annars staðar.

Ég er sammála flestu af því, sem hæstv. heilbrmrh. sagði um framtíðarlausn í þessum málum. Þó er mér það ljóst, að ekki verður allt bætt í þessum málum á Íslandi með læknamiðstöðvunum. Þær eru mjög þarfar og mjög nauðsynlegar, en staðhættir, samgöngumál, fjallvegir og ótal aðrar ástæður valda því, að við munum þurfa að hafa lækna í einmenningshéruðum, ef fólkið okkar á að búa við góða læknisþjónustu. Og ég held því, að eitt aðkallandi málið núna til þess að leysa þetta bæði til bráðabirgða og sem varanlega lausn sé að rannsaka fyllilega, hvort hagur og kjör lækna í litlu héruðunum eru með þeim hætti, að það sé aðgengilegt. Ég er sannfærður um, að svo er ekki. Þá verður að sjálfsögðu að miða við eðlilega vinnuaðstöðu.

Það er mikil sorgarsaga, hve illa við erum búnir að heilbrigðisstarfsfólki, og það er hörmulegt, að land, sem á sinn háskóla, sem getur útskrifað lækna, útskrifað lögfræðinga og presta o.s.frv., skuli ekki geta útskrifað ýmsa heilbrigðisþjónustuaðstoðarmenn, sem nauðsynlegir eru okkur hér í landi. Ég á þar einkum við sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, vinnuþjálfara og ýmsar aðrar stéttir, sem okkur er fullkomin nauðsyn að geta útbúið fyrir ævistarf hér í þessu landi.

Fyrir nokkrum árum var svo ástatt hér, að það var útilokað í raun og veru að sinna fullnægjandi rannsóknarstörfum á spítala vegna skorts á meinatæknum. Þá var tekið það ráð, að hér var Tækniskólanum falið að mennta meinatækna. Nú er ástandið allt annað í þessum efnum, og ef við fengjum annan hjúkrunarkvennaskóla, ef við fengjum aðstöðu til náms fyrir félagsráðgjafa, fyrir sjúkraþjálfara og fyrir ýmsar aðrar hjálparstéttir læknanna og heilbrigðisþjónustunnar, þá er ég sannfærður um, að það yrði auðveldara að leysa þetta mál til frambúðar.