26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í D-deild Alþingistíðinda. (4689)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er náttúrlega engin leið að gera þessu stóra máli skil hér á þessum vettvangi nú, í fsp.-tíma á Alþ., en mér fannst nú samt ástæða til að taka undir eitt og annað, sem hér hefur verið sagt í þessum umr. Og ég vil þá sérstaklega taka mér í munn það orð, sem fyrirspyrjandi notaði í ræðu sinni, þar sem hann talaði um neyðarástand í þessum efnum. Það er áreiðanlegt, að þetta er ekki ofsagt hvað varðar læknaþjónustu í landinu. Þar er um algert neyðarástand að ræða. Ég býst við, að þetta eigi við um alla landshluta, og þetta mun jafnvel gilda um Reykjavík líka.

Mér þykir ástæða til þess að minna á það, úr því að ég er kominn hér í ræðustól, að af þeim læknishéruðum, sem eru í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, þar sem ég þekki bezt til, þá má segja, að obbinn af þessum læknishéruðum séu óveitt langtímum saman og löngum. Þannig er t.d. um öll læknishéruðin í Norður-Þingeyjarsýslu. Það hefur verið svo um langa hríð, að Norður-Þingeyjarsýsla, öll sú sýsla, hefur verið læknislaus. Það hefur ekki fengizt maður til þess að gegna þeim þrem læknishéruðum, sem eru í þeirri sýslu. Að vísu er komin einhver bráðabirgðalausn núna þessar vikurnar fyrir þessi héruð, en hversu lengi það stendur, vitum við ekki. Einnig er þess að geta, að Breiðumýrarhérað, sem nær yfir hluta af Suður-Þingeyjarsýslu, er nú og hefur lengi verið óveitt, er að vísu gegnt frá Húsavík. Ástandið er þannig í einum stærsta kaupstað norðanlands, Ólafsfirði, að þar er nú læknislaust og það er reynt að bæta úr því, eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, með því að ráða héraðshjúkrunarkonu. Og þannig er ástandið á Dalvík, að þar verður læknislaust að réttu, vegna þess að læknirinn er kominn á hámarksaldur, núv. héraðslæknir er kominn á hámarksaldur embættismanna og hlýtur þess vegna að láta af störfum. En hins vegar leggur hann það mikla rækt við þennan stað, að hann hefur hugsað sér að vera þar eitthvað áfram við læknisstörf.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta er mjög flókið vandamál, og það er alveg útilokað, að ég geti farið út í það að ræða það mjög náið. Hins vegar vil ég leyfa mér að taka undir ýmislegt, sem hér hefur komið, og þá alveg sérstaklega áskorun til Háskólans og til læknastéttarinnar um það að vinna með Alþ. og með ríkisstj. að frambúðarlausn þessa máls. Ég held, að á þessa samvinnu hafi stórlega skort að undanförnu og þetta sé ein meginorsökin til þess, hversu mjög hefur sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum. Undir þetta vil ég alveg sérstaklega taka og efast reyndar ekki um eftir þeim undirtektum, sem nú hafa nýlega komið fram frá læknastéttinni, að þessi samvinna muni komast á, en þó held ég, að hlutur eins aðilans í þessu liggi eftir og það sé hlutur Háskólans, hlutur læknadeildarinnar, og ég vil alveg sérstaklega taka undir þá áskorun, sem hér hefur komið fram um, að læknadeildin taki sín mál til fullkominnar endurskoðunar og setji sér ný og miklu skýrari markmið en hún virðist starfa eftir nú í dag.