14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

1. mál, fjárlög 1972

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Mér þótti ánægjulegt að heyra það hjá hæstv. fjmrh. hér áðan, að það er hans staðfastur ásetningur, að fjárlagafrv. skuli jafnan sýna sem réttasta mynd. Ég skil það svo, að hann óski þess, að það sé raunsætt. Skoðanir okkar að þessu leyti falla alveg saman, og ég vildi stuðla að því með honum, að sá háttur yrði á framvegis, þó það hafi ekki heppnazt að þessu sinni, því að þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1972 kemur hér til 2. umr., þá. er öllum ljóst, að það á langt í land til þess að vera fullbúið.

Gjaldahlið þess hefur nú þegar hækkað í meðförum fjvn. um 764 millj. kr., og hlýtur að hækka enn verulega, ef sæmilega á að sjá fyrir hinum ýmsu og sjálfsögðu þörfum. Ég gagnrýni þetta í sjálfu sér alls ekki og hef reyndar staðið að mörgum þeim hækkunartillögum, sem hér eru lagðar fram af fjvn., en ég vil ætlast til þess, að um leið og við ákveðum þessar hækkanir, þá verði séð fyrir tekjuöfluninni til þeirra. Það hefur á skort. Í sambandi við gjöldin, svo ég ræði um þau áfram, þá vil ég minna á, að væntanlega verður framlag til níðurgreiðslu á vöruverði að hækka verulega eða gera þarf aðrar fjárfrekar ráðstafanir til að varna því, að óðaverðbólga ríði hér yfir og lami atvinnuvegina og geri að engu þá kaupmáttaraukningu, sem orðið hefur á undanförnum árum. Þá hefur hæstv. ríkisstj. loks í gær lagt fram frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, sem leiðir til hærra framlags ríkissjóðs, og auk þess eru boðaðar í frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem einnig var lagt fram í gær, vissar skuldbindingar. Ég vil benda á það í sambandi við lög um tekjustofna sveitarfélaga, að í 41. gr. frv. er sagt, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1972, og á bls. 18 í aths. með frv. segir:

„Gert er ráð fyrir, að við gildistöku frv. verði eftirtaldar breytingar gerðar:

1. Framlag sveitarfélaga til lífeyristrygginga verði fellt niður.

2. Framlag sveitarfélaga til sjúkratrygginga verði lækkað um helming.

3. Kostnaði sveitarfélaga vegna löggæzlu verði af þeim létt.

4. Persónuiðgjöld til lífeyristrygginga almannatrygginga verði felld niður.

5. Iðgjöld hinna tryggðu til sjúkrasamlaga verði felld niður.“

Eftir þessu mættum við ætla, að þessar breytingar allar ættu að taka gildi 1. jan. 1972, og þegar á að fella þessi framlög niður ýmist af sveitarfélögunum eða þeim, sem trygginganna njóta og til þeirra hafa greitt persónuiðgjöld, þá sé ég engan aðila annan til að greiða þetta en ríkissjóð. Og þó að ég hafi ekki séð það enn, að til þess sé ætlazt í lögunum, þá verðum við að ætla, að svo sé. Hér er um stórfellda tilfærslu gjalda að ræða og verður ekki séð í fljótu bragði, hversu háar fjárhæðir er hér um að ræða. AS vísu hygg ég, að bending um þetta sé í riti Tryggingastofnunar ríkisins, sem út kom í okt. s.l., þar sem gerð er grein fyrir áætlun lífeyristrygginga og sjúkratrygginga fyrir árið 1972. En þar segir, að hinir tryggðu skuli gjalda til lífeyristrygginga á árinu 1972 654.9 millj. kr. Sveitarsjóðir skuli greiða til lífeyristrygginganna 373.3 millj. kr. Til sjúkratrygginga skuli hinir tryggðu greiða 499.8 millj. kr., en framlög sveitarsjóða skuli vera 424.9 millj. kr. eða þá sá hlutinn, sem á að létta af þeim, verði 212.4 millj. kr. Ef þessar upplýsingar eru réttar, mun þetta nema um 1 milljarði og 800 millj. kr., þessi gjöld, sem þarf að taka tillit til. Enn fremur er getið um það hér í þeim lista, sem fylgdi með tekjustofnafrv., að kostnað sveitarfélaganna vegna löggæzlu skyldi fella niður. Um þann kostnað hef ég ekki neinar upplýsingar, en hann hlýtur að vera þó nokkur og væri æskilegt, að það lægi fyrir, ef fjárlögin eiga að verða raunsönn, þegar við göngum frá þeim.

Það er því með öllu óljóst, hversu mörg milljónahundruð eða jafnvel hversu marga milljarða vantar í tekjuhlið frv. Við, sem skipum minni hl. fjvn., höfðum um það engar upplýsingar, þegar frv. var til afgreiðslu hjá n., á hvern hátt hæstv. ríkisstj. hygðist afla þess fjár, sem á skorti, til þess að frv. yrði afgreitt greiðsluhallalaust, en það teljum við með öllu óverjandi, að frv. verði afgreitt með greiðsluhalla í því góðæri, sem þjóðin býr nú við.

Hæstv. ríkisstj. hefur einnig í gær lagt fram frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki hefur unnizt tími til að kanna það frv. og meta þýðingu þeirra breytinga, sem fyrirhugaðar eru. En þær hljóta að fela í sér stórlega auknar álögur á skattborgarana. Það var því brýn nauðsyn að kynna fjvn. og Alþ. þessar breytingar fyrr og upplýsa, til hvaða niðurstöðu þær leiddu, áður en fjárlagafrv. var afgreitt í n. til 2. umr. Við þær aðstæður, sem ég hef lýst hér stuttlega, er ógerningur að vinna, svo að nokkurt vit sé í. Við höfum verið að leitast við að skipta tekjum ríkisins til hinna ýmsu þarfa, án þess að hafa hugmynd um, hversu mikið gæti komið til skipta. Og ég hef ekki orðið þess var, að þeir nm., sem skipa meiri hl. fjvn., séu miklu nær því að þekkja þessar stærðir heldur en við í minni hl. Mér er það ríkt í huga nú að þakka þeim ágætu þingbræðrum mínum og samstarfsmönnum í fjvn., sem skipa meiri hl. hennar, fyrir ánægjulegt og gott samstarf í n. En það vegarnesti, sem þeir hafa haft til þeirrar vinnu, sem inna þarf af hendi í fjvn., er slíkt, að ekki var hægt að búast við heilsteyptu verki í verklok, enda vantar mikið á, að svo sé. Þó þykist ég vita, að þeir hafi dyggilega farið að ráðum hæstv. forsrh. og lesið málefnasamning ríkisstj. kvölds og morgna og lesið hann til skilnings, a.m.k. þann póstinn, sem varðar fjármál og efnahagsmál. Það er sagt svo, að Bjarni bóndi á Leiti hafi verið fljótur að signa sig, og það þvælist heldur ekki lengi fyrir neinum að lesa efnahagspóstinn í málefnasamningnum, — hann er ekki svo stór. Málefnasamningurinn er, eftir því sem ég kemst næst, í 1. útgáfu 304 lesmálslínur, en efnahags- og fjármál taka aðeins yfir 34 lesmálslínur eða um 9% lesmálsins. Hér eru mikilvægu efni gerð lítil skil, þótt allir ættu að vita það, að heilbrigð stjórn efnahags- og fjármála er undirstaða framfara og á milli fjármagns og framkvæmda er órofa samband. Mér sýnist, að þær almennu hugleiðingar, sem er að finna um efnahagsmál í málefnasamningnum, séu ekki öruggur leiðarvísir fyrir þá, sem vinna að fjárlagagerð. Til þess er stefnumörkunin of óljós. Í málefnasamningnum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum. Í því skyni mun hún beita aðgerðum í peninga- og fjárfestingarmálum og ströngu verðlagseftirliti.“

Ég gat þess, að í þessum bæklingi væri ekki að finna markaða stefnu í efnahags- og fjármálum, og er það illa farið. Hitt er þó sýnu verra, að allt bendir til þess, að stjórnarathafnir hæstv. ríkisstj. þann skamma tíma, sem hún hefur verið við völd, leiði til allt annarrar niðurstöðu en heitið er að keppa að í þeim pósti, sem ég kynnti hér úr málefnasamningnum. Eða sýnist mönnum, að hæstv. ríkisstj. hafi tryggt það, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum? Mér sýnist allt annað blasa við. Og ef hafa á eitthvert vald á þeirri verðþenslu, sem þegar verður van og líklegt er, að magnist til stórra muna á næstu mánuðum, þá hefði sannarlega þurfi að gera sér grein fyrir því strax við gerð fjárlaga, með hverjum hætti það skyldi gert og hverjar fjárhæðir þyrfti til þeirra hluta, því að í öllu falli munu þær ráðstafanir, sem gera þarf, í hvaða formi, sem þær eru, hafa áhrif á gerð og niðurstöður fjárlaga.

Ég ætla ekki nú að ræða einstakar fjárveitingar, þótt freistandi væri að bera þær saman við þær kröfur, sem núv. stjórnarstuðningsmenn gerðu á fyrri þingum til ríkisvaldsins. En ég neita mér um það. En ég vil láta það koma fram hér og vil undirstrika það sérstaklega, að þótt niðurstöðutölur á gjaldahlið, ég endurtek, á gjaldahlið, — um tekjuhliðina er fátt vitað, — á gjaldahlið fjárlagafrv. hafi hækkað um 3.7 milljarða frá gildandi fjárlögum, þá hygg ég, að ekki sé meira en svo, að haldið sé í horfinu um framlög til framkvæmda, svo stórkostleg þensla er á vinnumarkaðinum nú þegar og horfur á hraðvaxandi þenslu við allar fjárfestingar. Af þeim sökum munu hækkandi fjárveitingar í krónutölu, eins og þær eru ákvarðaðar í frv., ekki leiða til meiri framkvæmda en staðið hefur verið að á þessu ári, en áköf útþensla í ríkiskerfinu hirðir hærri fjárhæðir en áður. Aðrir stórir fjárlagaþættir, sem hækka þar verulega, hafa enn orðið síðbúnir, eins og ég vék að áðan, svo að ekkert verður fullyrt um heildarniðurstöður. En einsýnt er, að nýjar álögur á almenning munu koma til í einhverju formi og stórauknum mæli eftir að 2. umr. um frv. lýkur.

Þennan seinagang og þessa vinnutilhögun vil ég átelja. Þessi vinnubrögð leiða til óábyrgrar fjárlagaafgreiðslu, sem er sem betur fer algert einsdæmi. Þessi meðferð mála sýnir um leið óþolandi virðingarleysi fyrir hinu háa Alþ. og þá ekki síður fyrir hinum almenna skattborgara, sem að síðustu kemur til með að bera allar byrðarnar á bakinu, hvort sem það bak er breitt eða mjótt.

Ég hef nú í mjög stuttu máli lýst þeirri aðstöðu til ábyrgra vinnubragða, sem fjvn. hefur búið við að þessu sinni. Þrátt fyrir fullan vilja meiri hl. fjvn. til þess að gefa minni hl. upplýsingar um ákvarðanir um skattheimtu ríkisins og þá þætti, sem máli skipta við fjárlagagerð, var þeim það ekki fært, þar sem þær voru ekki enn, þegar komið var fast að 2. umr., tilbúnar frá hæstv. ríkisstj. Með hliðsjón af þessari vinnuaðstöðu skal það engum vera undrunarefni, þótt fjárlagafrv. sé enn við 2. umr. opið í háða enda.