02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í D-deild Alþingistíðinda. (4692)

903. mál, þjóðvegir í kaupstöðum og kauptúnum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh., svo hljóðandi:

Hefur ríkisstj. uppi áform um að beita sér fyrir breytingu á vegalögum á þann veg, að ríkið taki að sér uppbyggingu þjóðvega, sem liggja um kaupstaði og kauptún?

Mér er fyllilega ljóst, að hér er um veigamikið mál að ræða og svo viðamikið hvað snertir hina fjárhagslegu hlið, að fsp. og stutt útskýring á henni eiga kannske hæpinn rétt á sér. En mér þótti þó ástæða til að ætla, að brýnt væri að hreyfa þessu máli og vekja á því eftirtekt með einhverjum hætti. Hér er á dagskrá eitt af veigamestu verkefnum margra eða flestra sveitarfélaga, og inn í þetta spinnst svo hlutur ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, sem reyndar kemur æ viðar til álita, hvernig háttað eigi að vera. Sveitarfélögin, meira að segja þau smærri, stefna í æ ríkara mæli að varanlegri gatnagerð, og víða er stórátak fram undan í þessum efnum. Hér fléttast inn í vandamálið hvað snertir umhverfi frystihúsanna hin þjóðhagslega nauðsyn þess, að þar verði bætt úr hið bráðasta. Það er hins vegar staðreynd, að sveitarfélögin flest hver berjast mjög í bökkum og hafa mörg hver a.m.k. síður en svo fjárhagslegt bolmagn til slíkra framkvæmda. Það er því alveg ljóst, að hér þarf til að koma mikil fyrirgreiðsla ríkisvalds og lánastofnana umfram þó ófullnægjandi fjárhagsaðstoð, sem svonefnt þéttbýlisvegafé gerir ráð fyrir. En hér kemur víða til atriði, sem þessi fsp. beinist sérstaklega að. Mjög viða hagar svo til, að þjóðvegur liggur eftir endilöngum kaupstað eða kauptúni eða þá að verulegum hluta. Verði í það ráðizt, sem full þörf er á, að gera þessa vegi hvarvetna úr varanlegu efni, er útilokað að sveitarfélögin taki það verkefni á sínar herðar einvörðungu með þéttbýlisfé eitt að veganesti frá því opinbera, enda miðast sú fjárveiting, sem þannig fæst, alls ekki við þetta sérstaklega, heldur hreinlega íbúatölu hvers staðar. Ég vil í þessu sambandi benda á eftirfarandi:

Slíkur vegur þjónar ekki nema að takmörkuðu leyti viðkomandi sveitarfélagi, en er fyrst og fremst hlekkur í hinu samfellda vegakerfi landsins, sem ríkið sér um og annast uppbyggingu og viðhald á. Þetta sjónarmið hefur fengið viðurkenningu í hinum svonefndu hraðbrautum. Það eru fordæmi fyrir því, að ríkið hafi tekið slíka vegi að sér, og mun þar hafa verið notuð heimild í 34. gr. vegalaga, sem kveður svo á, að 10% af þéttbýlisvegafénu skuli haldið eftir og varið til þýðingarmikilla og áríðandi verkefna. Ég hef grun um, að fé samkv. þessari heimild sé þegar fullnýtt alllangt fram í tímann, svo að hér hygg ég, að lítinn stuðning sé að hafa. Þótt svo væri, er þó hér um svo óverulega fjárhæð að ræða, að hún kæmi að litlu haldi, ef stórátak yrði viða gert í þessum efnum. Mér þykir því sem öll rök hnígi að því, að hér þurfi til að koma veruleg breyting á vegalögum, m.a. með breyttri skiptingu þéttbýlisfjárins og aukningu þess, enda fæ ég ekki séð annað en ríkinu beri að koma til liðs við sveitarfélögin á myndarlegan hátt. Ég geri mér hins vegar fullljóst, að hér er um mikla fjármuni að ræða og margt kallar að, ekki sízt á sviði samgöngumála. En aðalástæðan til þess, að ég leyfði mér að koma fram með fsp. þessa, er sú, að mjög viða á Austurlandi hagar svo til um þjóðvegi, þar sem umferð er mikil, að þeir liggja um kauptúnin endilöng, eins og Reyðarfjörður og Búðir í Fáskrúðsfirði eru gleggst dæmi um. Umferðin er að sumarlagi að mjög verulegu leyti almenn þjóðvegaumferð, en miklu síður umferð innanbæjar. Það er hún aðeins um háveturinn. Einmitt á Austurlandi er nú verið að skipuleggja miklar framkvæmdir í varanlegri gatnagerð, og þessir vegir koma þar e.t.v. fyrst til álita. Það væri því t.d. þessum sveitarfélögum og eflaust fleirum mikils virði, ef það gæti legið sem fyrst fyrir, á hvern hátt eigi að leysa þessi mál hvað snertir þjóðvegina eða hvort búast megi við óbreyttu fyrirkomulagi. Og ég hygg, að hér þurfi að koma til sérstakar ráðstafanir til að létta undir með sveitarfélögunum og gera þeim kleift að leysa þessi mál sem myndarlegast, í hvaða formi sem menn kynnu svo að vilja hafa þær ráðstafanir. Þetta á einkanlega við um þau fólksfæstu vegna núgildandi skipunar. Því er þessari fsp. nú beint til hæstv. ráðh., ef hann gæti upplýst um hugsanlega ákvörðun ríkisstj. varðandi það að taka þetta sérstaka atriði fyrir á einn eða annan veg og ráða þar á nokkra bót.