11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í D-deild Alþingistíðinda. (4699)

51. mál, afurðalán iðnfyrirtækja

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég hef beint þessari fsp. til Seðlabankans og óskað eftir umsögn hans um það, hvernig þessum málum væri nú fyrir komið, en eins og kunnugt er, hefur Seðlabankinn með að gera ákvarðanir varðandi hin sérstöku afurðalán. Ég tel rétt að lesa hér upp svar bankans, eins og það var mér sent. En það er þannig:

„Um nokkurt skeið hefur verið í athugun hjá Seðlabanka Íslands, á hvern hátt almennu fyrirgreiðslukerfi vegna útflutnings iðnaðarvara annarra en fjárfestingarvara yrði haganlegast fyrir komið. Mikill eðlismunur er á útflutningsframleiðslu iðnaðarins annars vegar og sjávarútvegs og landbúnaðar hins vegar. Annars vegar er um tiltölulega samkynja framleiðslu að ræða, sem litið breytist ár frá ári, en hins vegar er um ósamkynja fjölbreytta framleiðslu að ræða, sem eins líklegt er að breytist ár frá ári, eins og t.d. tízkufatnaður, og er seld jafnt á innlendum sem erlendum markaði. Margs er því að gæta, og sjónarmið þarf að samræma, áður en hægt er að koma á þessu almenna fyrirgreiðslukerfi.

Á hinn bóginn hefur að undanförnu verið unnið að því að koma fyrirgreiðslu vegna útflutningsiðnaðarins í betra horf, og ber þar að minnast, að með stofnun útflutningslánasjóðs, sem hóf störf á þessu ári, var leyst úr þörfum iðnaðarins vegna útflutnings á fjárfestingarvörum, og einnig er gert ráð fyrir, að sjóðurinn geti lánað út á stærri sölusamninga annarra iðnaðarvara. Seðlabankinn hefur alltaf frá árinu 1966 reynt að stuðla að auknum útflutningi iðnaðarvara með lánveitingum, og hafa þær lánveitingar farið vaxandi ár frá ári. Vegna margbreytileika iðnaðarvara er hins vegar ekki hægt að koma við föstum útlánareglum, heldur verður um að ræða einstakar ákvarðanir með tilliti til þarfa hverju sinni. Samkv. þessu hefur fyrirgreiðsla verið í ýmsu formi, þar sem í sumum tilvikum hefur verið veitt aðstoð til hráefnakaupa, en í öðrum verið veitt lán, sem nemur ákveðnum hundraðshluta af staðfestri pöntun. Þar sem um samkynja vörur er að ræða, hefur verið komið á föstu afurðalánakerfi. Er stöðugt unnið að því að leita leiða til að bæta og auka fyrirgreiðslu í formi afurðalána til útflutningsiðnaðarins.“

Þannig er það svar, sem mér hefur borizt varðandi þessa fsp., frá Seðlabankanum. En með því fylgir svo nokkur tafla, sem gefur til kynna, hvernig afurðalán skiptast á milli hinna einstöku atvinnugreina á vissum tilteknum tímum, og ef ég nefni niðurstöðuna á þessari töflu, sem er miðuð við ágústmánuð, þá kemur í ljós, að afurðalán til sjávarútvegsins eru þá talin vera 1197 millj. kr. og allt vegna útflutnings. Afurðalán til landbúnaðar eru talin vera 689 millj. kr., þar af vegna útflutnings 60 millj., en 629 millj. vegna innanlandssölu. Til iðnaðarins eru talin afurðalán vegna útflutnings samtals 60 millj. kr., vegna samkeppni við innflutning á innanlandsmarkaði 27 millj. kr. og vegna innanlandssölu 69.6 millj. kr., eða samtals til iðnaðarins 157 millj. kr.

Þetta eru sem sagt þær upplýsingar, sem mér hafa borizt varðandi þessa fsp. Ég skal svo aðeins segja mína skoðun á þessu þýðingarmikla máli. Mál þetta hefur verið rætt hér á Alþ. oft áður. Ég hef þá látið uppi mína skoðun á því, hvernig ætti að standa að þessum málum, og mín skoðun í þeim efnum er algerlega óbreytt. Ég tel, að það sé sjálfsagt að reyna að byggja upp þannig lánafyrirgreiðslu í þessum efnum, að allar útflutningsgreinar búi við sem sambærilegust lánakjör. Þar verði ekki gerður greinarmunur á því, hvort um er að ræða sjávarafurðir ætlaðar til útflutnings, landbúnaðarafurðir ætlaðar til útflutnings eða iðnaðarvörur ætlaðar til útflutnings. Ég tel, að það sé rétt að hafa lánafyrirgreiðsluna sem jafnasta, en allt, að hér eigi fyrst og fremst að miða við útflutningsvöruframleiðslu. Það er mín skoðun, að varðandi framleiðslu, sem ætluð er til innanlandssölu, verði eðli málsins samkv. að gilda talsvert mikið aðrar reglur. Ég vil gjarnan vinna að því að reyna að koma þessu í betra horf en verið hefur. En eins og fram kemur í svari Seðlabankans, þá er það skoðun hans og þeirra, sem með þessi mál hafa haft að gera, að varðandi afurðalán til iðnaðarins sé í ýmsum tilvikum nokkuð vandasamt að skapa fastar reglur, vegna þess að hann geri hvort tveggja að framleiða vörur fyrir innanlandsmarkað og utanlandsmarkað, sem erfitt sé að greina á milli. Það er sjálfsagt að skoða nánar þessi atriði, en ég sé á þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, auk þeirra, sem hér hafa komið fram, að fyrirgreiðsla bankanna til iðnaðarins í sambandi við útflutning er mjög mismunandi, og satt að segja sýnist mér, að í sumum tilfellum sé fyrirgreiðsla við útflutningsiðnað fyllilega sambærileg við það, sem bezt gerist fyrir sjávarútveg, nema ég efast um það fyrir mitt leyti, að hægt sé að telja, að heildarvaxtakjör séu jafnhagstæð. En mér sýnist vera nokkuð misjafnt form á þessu.

Ég get ekki gefið hv. 2. landsk. þm. frekari svör við þessari fsp. á þessu stigi málsins. Ég vænti, að hann telji þessi svör frá minni hálfu fullnægjandi, en mín skoðun er, að ég ætla, nokkuð ákveðin í þessu máli, og ég er tilbúinn til þess að vinna að því að reyna að koma hér á fastari lánareglum, m.a. í samráði við samtök iðnaðarins, þegar þau samtök leita til mín með það, en það hafa þau ekki gert til þessa, sem kannske er ekki heldur von þann stutta tíma, sem ég hef haft með þessi mál að gera.