22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

71. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af þeim ummælum hv. 5. þm. Norðurl. e., að allt það fé, sem aflað verður með innlendu lánsútboði, sé tekið út úr bönkunum, þá vil ég bara benda á það, að þótt auðvitað sé eitthvað af sparifé tekið út og notað til þess að kaupa fyrir bréf, þá er það alveg jafnvíst, að á sama tíma hefði hluti af því fé verið tekið út úr bönkunum til annarra nota, til þess að kaupa fasteignir ellegar aðrar eignir, sem viðkomandi aðilar telja að rýrni minna en venjulegt sparifé í banka. Það er hægt að deila um þetta endalaust, eins og ég sagði áðan. Þetta er matsatriði. En ég árétta það enn, sem ég hef sagt áður, að það liggja engar tölulegar upplýsingar fyrir um, að það hafi flætt fé út úr viðskiptabönkunum á þeim tíma, þegar innlendu lánin hafa verið boðin út að undanförnu, og það segir vissulega sína sögu.