14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

1. mál, fjárlög 1972

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram og flutt nokkrar brtt., sem fram koma á þskj. 184 og 193, og mun ég að sjálfsögðu gera grein fyrir þeim, en ég vil þó áður fara nokkrum orðum um fjárlagafrv. og efnahagsmálin almennt. Ég held, að það hafi verið svo undanfarna áratugi, að hver einasta ríkisstj., sem setið hefur að völdum hér á landi, hefur haft þá stefnu að reyna að berjast gegn verðbólgu og verðþenslu hér á landi, þó að vitað sé, að þetta hefur tekizt miður heldur en allir hafa óskað og misjafnlega hjá hinum ýmsu ríkisstj. Ég held, að sú ríkisstj., sem tók við hér á s.l. sumri, hafi þar alveg söðlað um og snúið því dæmi við, og hún hlýtur að stefna viljandi að geysilegri verðþenslu í landinu. Það fer ekki hjá því, að þeir aðilar, sem að efnahagsmálunum standa og ganga að þeirra ráðum nú, hljóti að gera sér fulla grein fyrir, hvert stefnir í þessum málum hjá okkur. Fjárlög hækka nú um 4–5 milljarða miðað við niðurstöðu fjárlaga árið 1971, eða um 40—50%. Þegar ég segi, að þau hækki um 4–5 milljarða frá 1971, þá er miðað við það, sem hér hefur verið gefið upp, að ekki sé komið fram enn þá, en það muni koma við 3. umr. fjárlaga. Þetta út af fyrir sig segir sína sögu, þegar ríkisstj. gengur á undan með slíkt fordæmi að hækka þannig fjárlögin um slíka upphæð, sem er miklu hærri upphæð en ég veit til, að fjárlög hafi hækkað um á einu ári, ef ekki hefur verið kannske um gerbreytingu í efnahagsmálum að ræða, þegar átt hafa sér stað stórar eða allstórar gengisbreytingar. Þegar lítið er enn fremur á það, að í stjórnarsáttmálanum, — það má víst varla orðið minnast á hann hér, en til gamans má geta þess, að maður heyrir það, að almenningur er þegar farinn að tala um stjórnarsáttmálann sem faðirvor hæstv. forsrh., sem hann án efa sem sanntrúaður maður muni lesa kvölds og morgna þó held ég að okkur þm. sé óhætt að minnast á hann, enda verður það án efa gert oft og mörgum sinnum, áður en yfir lýkur. En þegar það kemur fram í sjálfum stjórnarsáttmálanum, sem gefinn er út um leið og ríkisstj. sezt að völdum, að þar er þegar gert ráð fyrir verulegri, almennri kauphækkun í landinu, að kaupmáttur launa eigi að aukast um 20%, þá segir það auðvitað sína sögu einnig, að það er fyrir fram ákveðið, að almenn verðhækkun, sem hlýtur að leiða af almennri kauphækkun, skuli koma á og skella yfir okkur þegar á þessu og næsta ári. Þetta kom mjög greinilega fram hjá formanni Alþýðusambandsins, hv. 6. þm. Norðurl. e., Birni Jónssyni, en þegar samningar höfðu verið gerðir, þá kom hann fram í sjónvarpinu og taldi, að kauphækkunin alls mundi nema um 45% á samningstímabilinu.

Þá hlýtur að koma að því að skoða, hvernig aðstaða atvinnuveganna verður, þegar allt þetta er skollið á. Mér er kunnugt um það, að einstaka fiskiðnaðarfyrirtæki hafa látið reikna þetta út fyrir sig eða gert sér grein fyrir því, og þau tjá mér alveg hiklaust, að þau telji, að launahækkun hjá þeim verði að samningstímabilinu loknu eftir tvö ár komin í 62.5%. Þegar við það bætist, eins og vitað er, að fiskverðshækkun hlýtur að verða á árinu 1972 og einnig án efa í ársbyrjun 1973, þá fer dæmið fyrir aðalatvinnuveg þjóðarinnar að verða nokkuð ljóst. Þó að vel hafi gengið fram að þessu hjá fiskiðnaðinum og verð hafi farið hækkandi og hann hafi tekið það á sig og staðið að því að leggja nokkuð af sínum fjármunum í verðjöfnunarsjóð, þá liggur það alveg ljóst fyrir, að þetta eru meiri hækkanir en þessi atvinnuvegur þolir, nema um verulega verðsveiflu upp á við verði að ræða á sjávarafurðum erlendis. Því miður er farið að bera á því, að það sé komin stöðnun í þessa hluti og frekar sé von á því. Við skulum vona, að það verði ekki, en það er farið að bera á því, að hætta getur verið á því, að einstaka tegundir sjávarafurða verði ekki á sama verði og þær hafa verið hingað til, — að það verði um verðlækkun þar að ræða. Við skulum vona, að þetta verði ekki að raunveruleika, en allt hlýtur þetta að vera til athugunar, ef menn vilja í raun og veru gera sér grein fyrir, hvernig aðstaðan er í efnahagsmálunum. Hvað skeður, þegar þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er kominn í þá aðstöðu, að tekjur hrökkva ekki nálægt fyrir útgjöldum? Það er dæmi, sem hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér ljóst, þegar hún setur af stað þá geysilegu kollsteypu í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem hún hlýtur að hafa gert sér fullkomna grein fyrir, þegar hún tók við völdum og markaði sína stefnu í efnahagsmálunum, bæði í sambandi við almennar launahækkanir og í sambandi við þá geysilegu hækkun, sem orðið hefur á fjárlagafrv. miðað við s.l. ár.

Í sambandi við það, sem á kann að vanta til að fjárlög nái endum saman, — ekki hefur nú verið gefið upp enn þá, um hve stóra upphæð er að ræða, en við höfum heyrt talað um 1.5–2 milljarða, sem sé það, sem á vanti til þess að endar nái saman á fjárlögum, þegar allt verður komið til alls, — þá hefur verið lagt hér á borð þm. skattafrv. og nokkuð hefur hæstv. fjmrh. gert grein fyrir þessu máli, þó að ekki sé farið að ræða það formlega hér enn þá. Þá kom hann fram í sjónvarpinu og gerði landsmönnum grein fyrir, hvernig þetta nýja skattafrv. mundi verka. Svo einkennilega vill til, að þegar hæstv. ráðh. er að gera grein fyrir því í útvarpinu, þá leggur hann aðaláherzluna á það og færir fram ákveðin dæmi um það, að þarna sé um almenna lækkun að ræða í sambandi við tekjustofnafrv. og skattafrv. hjá öllum, ja, flestöllum almenningi. Þegar hins vegar er gerð grein fyrir þessum málum hér á Alþ., þá á það að standa undir þeim tekjum eða skapa þær tekjur, sem á vantar til að ná saman endum á fjárlögum. Þetta getur að sjálfsögðu aldrei farið saman, en það er náttúrlega þægilegt fyrir hæstv. ráðh., þegar hann kemur fram fyrir alþjóð í útvarpi og vill gera grein fyrir þessu, að reyna að telja fólki trú um, að þarna sé um lækkun á opinberum sköttum að ræða, þá er það eðlilegt, en ég hygg nú, að þetta eigi eftir að hitta hæstv. ráðh. kannske miklu verr heldur en hann þegar í dag gerir sér grein fyrir.

Ég er hér með afrit af viðtalinu við hæstv. ráðh., sem fram fór í útvarpinu í gær, og vil benda þar á nokkur atriði, sem mér þykir ástæða til að staldra aðeins víð. Hæstv. ráðh. bendir á tiltekin dæmi um, að gjöld hjóna með tvö börn, sem hafi 250 þús. kr. tekjur, þeirra sameiginlegu gjöld til sveitarsjóðs og ríkissjóðs muni lækka svo og svo mikið, telur það verða 14 þús. kr. Einnig tekur hann annað dæmi um hjón með tvö börn, sem hefðu 380 þús. kr., þau munu lækka um, að mér skilst, rúmlega 20 þús. kr. Þá kemur þriðja dæmið, sem fer að verða einkennilegt og sýnir nú, að ráðh. gerir sér nokkra grein fyrir því, hvað erfitt er að túlka málið á þann veg, sem hann gerði í útvarpinu. Þar tekur hann dæmi um hjón með 6 börn. Hann þarf að láta þau hafa 6 börn til að geta sannfært þjóðina um það, að þau lækki sameiginlega í sköttum til sveitarsjóðs og ríkissjóðs. Ég segi, því miður er það orðin hrein undantekning í þjóðfélaginu, ef hjón eiga eða hafa á sínu framfæri 6 börn, ég segi, því miður. Það færi betur, að það væru fleiri aðilar, sem það hefðu, heldur en nú er í dag, því að þjóðinni veitir ekki af meiri vinnukrafti og meiri mannafla en hún ræður yfir. En þetta sýnir það, að hæstv. ráðh. þarf beinlínis að taka afbrigðilegt dæmi til þess að sannfæra menn um það, að hjón með 6 börn, sem hafa 770 þús. kr. tekjur, einnig þau lækki í sköttum til ríkis og bæjar.

Þá kemur að þeim, sem hafa breiðu bökin, eins og kallað er. Þar þarf hæstv. ráðh. að taka í útvarpinu dæmi um hjón með tvö börn, sem hafa Í 230 þús. kr. í brúttótekjur. Mér er ekki kunnugt um það, en það getur vel verið, að það sé kannske að hans dómi stór hópur í þjóðfélaginu, sem hafi slíkar tekjur. Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki, hvort ég þekki nokkurn, en marga þekki ég a.m.k. ekki, og ég fullyrði, að í mínu byggðarlagi væri það hrein undantekning, ef nokkur fjölskylda eða nokkur hjón hefðu slíkar tekjur. En það er á þessum breiðu bökum þeirra aðila, sem eru með yfir 1250 þús. kr. tekjur, sem á að brúa bilið í fjárlögum upp á 1.5 eða 2 milljarða eða hvað það er nú, sem vantar á, til að endarnir nái saman. Ég tel það geysimikla bjartsýni, ef hæstv. ráðh. heldur, að fjárlögum verði þannig náð saman eða endum fjárlaga verði náð saman á þennan hátt, enda hygg ég nú, að hann víti betur. Ég er sannfærður um það, að þegar farið verður að skoða skattamálin sameiginlega í heild, eins og að sjálfsögðu verður gert í þinghléinu, því þá gefst tími til þess, þá komi út allt annað dæmi og allt önnur mynd af þessum sameiginlegu tveimur frv. heldur en hæstv. ráðh. vill vera láta, enda mundi það hreinlega ekki standast, að hægt væri að „dekka“ fjárlögin á þennan hátt, ef þetta væri eina rétta myndin af því, sem fram kom í viðtali við hæstv. ráðh. í sjónvarpinu í gærkvöld. En þegar er séð, að hæstv. ráðh. hlýtur að hafa vitað betur, því að þó að það sé rétt, að til standi að lækka ýmsa útgjaldaliði sveitarfélaganna og færa þá yfir til ríkisins, sem auðvitað þýðir aukin útgjöld fyrir ríkið, þá er það líka inni í myndinni, að það á að hækka aðra skatta til sveitarfélaganna heldur en útsvör. Fasteignagjöldin eru þar orðin geysilega stór og þýðingarmikill liður, sem áður var til þess að gera mjög lítill liður hjá flestum sveitarfélögum. Og allir vita, að sveitarfélögin láta ekki setja allan sinn rekstur aftur. Við það að sleppa við þessi útgjöld er freistingin kannske enn þá meiri að fara út í meiri verklegar framkvæmdir, því að alltaf er það svo, að almenningur í hverju sveitarfélagi ætlast til þess af sinni sveitarstjórn, að hún geri sem mest á hverjum tíma. Krafan er hörð um það, og það þarf styrk hjá mörgum sveitarstjórnarmönnum, ef þeir ætla að fara eftir þessari biblíu, að við það, að léttir af þeim einstaka útgjaldaliðum, skeri þeir bara niður hjá sér fjárhagsáætlunina og fylgi henni í samræmi við þær lækkanir, sem yfirfærast á ríkið.

Og eitt er það einnig, þegar verið er að tala um, að það verði þessi almenna skattalækkun, sem má benda á. Það er að því stefnt að leggja niður aðstöðugjöldin hjá fyrirtækjum, fella þau alveg niður eftir árið 1972, en að hálfu leyti á því ári. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni augnablik, meðan leitað er afbrigða fyrir brtt., sem var verið að útbýta.) [Frh.]