11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í D-deild Alþingistíðinda. (4700)

51. mál, afurðalán iðnfyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans við fsp. minni, þó að ég fengi nú kannske ekki eins jákvæð svör og ég hefði vonazt til. Það kemur í ljós, að hann er á nákvæmlega sömu skoðun og ég um það, að hér sé um hálfgert vandræðamál að ræða og að það þurfi að reyna að leita úrlausnar um fyrirkomulag á þessum afurðalánum iðnaðarins. En auðvitað eru allir sammála um, að það sé enginn eðlismunur á því, hvort verið er að flytja út iðnaðarvörur eða aðrar vörur frá öðrum atvinnuvegum. Allir ættu að fá sömu fyrirgreiðslu í formi afurðalána. En mér finnst það bara hafa einhvern veginn legið við, að iðnaðurinn væri svona eins og hálfgerður annars flokks atvinnuvegur.

Talað er um, að það sé svo óskaplega erfitt að finna reglur til þess að leysa hér vandamál, sem ég viðurkenni, að er fyrir hendi. Félag ísl. iðnrekenda hefur bent á aðferð til þess að leysa þetta vandamál, og ég skal sannarlega koma því áleiðis, að hæstv. viðskrh. er tilbúinn til þess að beita sér fyrir lausn á þessu máli með samtökum iðnaðarins, og ég efast ekki eitt augnablik um, að hæstv. iðnrh. er tilbúinn til að gera hið sama. Og ég ætla þá ekki að lengja umr., en vonast til, að við getum allir setzt niður og leyst vandamálið.