11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í D-deild Alþingistíðinda. (4704)

904. mál, veggjald á Reykjanesbraut

(Stefán Gunnlangsson):

Herra forseti. Tilefni þess, að ég ber hér fram á hinu háa Alþingi þá fsp., sem birtist á þskj. 53, til hæstv. samgrh. um veggjald á Reykjanesbraut, er áhugi íbúa Reykjaneskjördæmis sunnan Hafnarfjarðar fyrir því að fá vitneskju um, hvort núv. ríkisstj. hugsi sér að fylgja fram þeirri yfirlýsingu fyrrv. hæstv. samgrh., sem hann kom fram með rétt fyrir síðustu alþingiskosningar í sumar í Morgunblaðinu hinn 6. júní þess efnis, að umrætt veggjald yrði fellt niður. En fsp. mín hljóðar svo:

Hyggst ríkisstj. afnema veggjald á umferð um Reykjanesbraut, og sé svo, hvenær kæmi það til framkvæmda?

Annar aðaltilgangurinn með fsp. er sá að vekja athygli hv. alþm. á þessu máli og á þeirri staðreynd, að Reykjanesbraut er einasti þjóðvegurinn hér á landi, þar sem tekið er veggjald af umferð, svo óréttlátt sem það nú er, en svo hefur það verið allt frá árinu 1965. Í því blaðaviðtali við fyrrv. hæstv. samgrh., sem ég hef hér vitnað til, kemur fram, að hann telur höfuðástæðuna fyrir því, að rétt sé nú að afnema veggjaldið á Reykjanesbraut, vera þá, að ekki reynist fært að leggja veggjald á umferð um Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. M.ö.o., ekki er forsvaranlegt að halda áfram innheimtu veggjaldsins á Reykjanesbraut, af því að ekki má leggja slíkan skatt á veg með varanlegu slitlagi til Suðurlands og Vesturlands. Ég ætla að láta liggja á milli hluta að ræða slíka röksemdafærslu. Fyrir mér vakir með þessari fsp. að reyna að hafa áhrif á, að hið óréttláta veggjald á Reykjanesbraut verði fellt niður hið allra fyrsta.

Það er óhætt að fullyrða, að Suðurnesjamenn fögnuðu ákvörðun ráðh. um niðurfellingu veggjaldsins, þótt fremur hefðu þeir kosið, að yfirlýsingin kæmi það tímanlega fyrir síðustu kosningar, að hæstv. ráðh. gæfist tími til að fylgja því loforði fram með afnámi veggjaldsins, áður en hann fór frá og nýr maður tók við. En því miður var því nú ekki að heilsa. Svo virðist sem ekki gæfist tími til þess að láta afnema veggjaldið, og því er sem er, að enn greiða Suðurnesjamenn og aðrir, sem um Reykjanesbraut fara, hinn óréttláta vegaskatt. Úr því sem komið er, verða menn að leggja traust sitt á núv. hæstv. samgrh. í þessum efnum og vona, að hann standi við loforð fyrirrennara síns og afnemi veggjaldið á Reykjanesbraut hið allra fyrsta.